Nýbygging á Alþingisreit

Smiðja er nafn nýrrar skrifstofubyggingar Alþingis

1.12.2023

Ný skrifstofubygging Alþingis hefur hlotið nafnið Smiðja. Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, tilkynnti niðurstöðu nafnasamkeppni rétt í þessu í nýja húsinu við Tjarnargötu 9 og veitti höfundi tillögunnar, Gísla Hrannari Sverrissyni, viðurkenningu.

Dómnefnd, sem skipuð var Birgi Ármannssyni, forseta Alþingis, Líneik Önnu Sævarsdóttur, 2. varaforseta, Andrési Inga Jónssyni, 5. varaforseta, og Rögnu Árnadóttur, skrifstofustjóra Alþingis, var einhuga um niðurstöðuna.

Við tilefnið gerði forseti Alþingis grein fyrir vali dómnefndar og sagði m.a.:

„Að mati dómnefndar er nafnið Smiðja bæði stutt og þjált og hefur tengingu við starfsemi fyrri alda á Alþingisreitnum, sem og fyrirhugaða starfsemi í húsinu. Þá kallast Smiðja vel á við Skála en bæði heitin hafa augljósa skírskotun í húsakost fyrri alda. Við fornleifarannsóknir á Alþingisreit á árunum 2008–2010 og 2012–2013 komu í ljós mannvistarleifar frá upphafi Íslandsbyggðar til nútíma. Meðal þess sem fannst voru ummerki járnvinnslu og smiðju samkvæmt upplýsingum frá Völu Garðarsdóttur fornleifafræðingi, sem stýrði rannsóknum. Einnig komu í ljós við fornleifauppgröft á horni Kirkjustrætis og Tjarnargötu leifar af smiðju Innréttinganna; fyrsta iðnfyrirtækis sem komst á legg hérlendis upp úr miðri 18. öld. Smiðja hefur því skýra tilvísun í sögu þessa svæðis á liðnum öldum. Dómnefnd tekur heilshugar undir rökstuðning vinningshafa þar sem segir um Smiðju að hún sé staður „þar sem þekkingin og efniviðurinn koma saman. Þekkingin hamrar á efniviðnum og mótar viðfangsefnið. Í smiðjunni eru öll tæki og tól til að skila góðu dagsverki.“ Nýbygging Alþingis mun m.a. hýsa fastanefndir þingsins þar sem þekking á málefnasviðum er til staðar. Sú þekking ásamt umsögnum og ábendingum almennings og hagaðila mótar efnivið lagafrumvarpa með tækjum og tólum sérfræðinga til að skila góðu dagsverki landi og lýð til heilla.“

Góð þátttaka var í samkeppni um nafn nýbyggingar en 750 einstaklingar sendu inn alls 826 tillögur, þar sem var að finna 502 mismunandi nöfn. Dómnefnd var því vandi á höndum, enda voru afar margar tillögur góðar og vel rökstuddar, og eiga allir tillöguhöfundar þakkir skildar fyrir framlag sitt til samkeppninnar.

Smidja-vinningshafi

Gísli Hrannar Sverrisson, höfundur verðlaunatillögunnar, í ráðstefnusal á fyrstu hæð Smiðju, þar sem tilkynnt var um nafnið.