Hvað er Alþingi? Á slóðum drekans í þinghúsinu

Heimsóknin er sniðin að efsta stigi leikskóla og yngsta stigi grunnskóla.

Dreki_thinghus

Markmið

  • Að kynna börnum starfsemi Alþingis á lifandi og skemmtilegan máta
  • Að börnin upplifi Alþingi sem áhugaverða stofnun sem gaman er að heimsækja
  • Að börnin kynnist grunngildum lýðræðis    

Um heimsóknina

Tekið er á móti hópnum fyrir framan Alþingishúsið þar sem sagt er stuttlega frá því sem fyrir augu ber. Því næst er gengið inn í Skála þar sem börnin taka af sér yfirhafnir í fatahengi, þau boðin velkomin, spjallað við þau um starfsemi þingsins og hugtakið lýðræði kynnt. Gengið er um Alþingishúsið í fótspor dreka sem leikur þar lausum hala. Í seinni hluta heimsóknar fara börnin í hlutverkaleik. Þar fá þau að kynnast lýðræðislegum kosningum og æfa sig í að greiða atkvæði um mál sem snerta daglegt líf þeirra. Þannig fá nemendur að stíga fyrstu skrefin við að nota ýmis lýðræðishugtök og kynnast starfsháttum sem rætt er um í heimsókninni og dýpka skilning sinn á efninu.

Heimsóknin er miðuð út frá aðalnámskrá leikskóla þar sem meðal annars er lögð áhersla á þjálfun gilda og starfshátta sem renna stoðum undir lýðræðislegt samfélag. Börn eru þannig hvött til virkrar þátttöku með því að þjálfa lýðræðisleg vinnubrögð.

Í lok heimsóknar fá börnin að gjöf eintak af bókinni Drekinn í þinghúsinu eftir Hildi Björk Svavarsdóttur með myndskreytingum Sóleyjar Bjarkar Einarsdóttur. Bókin er hluti af lokaverkefni Hildar Bjarkar til M.Ed.-prófs í kennslu- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands og er heimsóknin byggð á verkefni hennar.

Heimsóknin tekur um 1 klst. (45–60 mínútur). 

Nánari upplýsingar og bókanir 


Myndband: Leiklestur bókarinnar Drekinn í þinghúsinu