Ferill 6. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 6 . mál.


Sþ.

6. Tillaga til þingsályktunar



um umhverfisfræðslu.

Flm.: Kristín Halldórsdóttir, Danfríður Skarphéðinsdóttir,


Guðrún Agnarsdóttir, Guðrún J. Halldórsdóttir, Kristín Einarsdóttir,


Málmfríður Sigurðardóttir.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að efla og samræma fræðslu um umhverfismál í grunnskólum og framhaldsskólum landsins og á meðal almennings.

Greinargerð.


    Að margra áliti er maðurinn, sem svo lengi hefur litið á sig sem herra jarðarinnar, langt á veg kominn með að tortíma umhverfi sínu og þar með sjálfum sér. Verði ekki snarlega snúið af þeirri braut erum við að bregðast afkomendum okkar með því að fá þeim í hendur verra umhverfi en okkur var trúað fyrir og við getum ekki afsakað okkur með því að við höfum ekki vitað betur.
    Staðreyndirnar blasa við allt í kringum okkur. Margháttaðar rannsóknir og mælingar upplýsa okkur um jarðvegs- og gróðureyðingu, ofnýtingu auðlinda og mengun í lofti, vatni og sjó, sem stefnir öllu lífi í voða, jafnvel þótt unnt yrði að koma í veg fyrir mestu ógn lífs á jörðu, kjarnorkustyrjöld. Einstaklingar, samtök, ríkisstjórnir og alþjóðastofnanir, svo sem Sameinuðu þjóðirnar, hafa safnað upplýsingum og sett fram stefnumörkun um hvað gera má til úrbóta svo að maðurinn gangi ekki stöðugt á umhverfi sitt og tortími með því sjálfum sér að lokum. Mönnum er löngu orðið ljóst að ekki er nóg að taka frá og friða skika hér og þar þótt það sé líka nauðsynlegt. Við verðum að horfa á jörðina sem heild og skilja þær takmarkanir sem náttúran setur okkur um leið og við notum og njótum þeirra auðlinda sem hún gefur.
    Móðir jörð setur ákveðin lögmál. Maðurinn gengur þvert á mörg þeirra á leið sinni til hámarksskammtímagróða og tekur hvorki tillit til hagsmuna heildarinnar, jarðar né framtíðar. Þetta dekur við skammtímasjónarmið er orðið mannkyninu dýrkeypt og mál til komið að við taki sú langtímahagfræði sem felst í umhverfisvernd. En umhverfisvernd er að ganga um hverja auðlind með virðingu
og nærgætni, taka aðeins vextina en láta höfuðstólinn ósnertan til þess að afkomendur okkar fái notið sömu náttúrugæða og núlifandi kynslóðir.
    Íslendingum er tamt að telja umhverfismál í góðu lagi hér á landi, dyggilega studdir af erlendum ferðamönnum sem teyga að sér hreina loftið, dásama tært vatnið og falla í stafi yfir óbyggðum landsins. En þótt við búum enn við minni mengun en helstu iðnríki heims þá fer því fjarri að við höfum efni á því að hreykja okkur. Staðreyndin er sú að við höfum farið illa með þá náttúru sem okkur hefur verið trúað fyrir. Má þar minna á ofnýtingu fiskistofna, gegndarlausa gróðureyðingu og linku við endurheimt og varðveislu landgæða, hirðuleysi í umgengni um viðkvæm landsvæði, óskipulagðar veiðar villtra dýra, mengun frá verksmiðjum, hömluleysi í notkun einnota umbúða, óviðunandi ástand í frárennslismálum, kæruleysi um varnir gegn olíumengun, slæman frágang á úrgangi og sinnuleysi um endurnýtingu og endurvinnslu. Hér verður að snúa við blaðinu og ganga í lið með náttúrunni.
    Það eina sem getur forðað manninum frá því að þurrausa auðlindir jarðar og eyðileggja það umhverfi sem hann lifir á er stóraukin þekking og skilningur á náttúrunni. Að því þarf að vinna án tafar með skipulegum hætti og á öllum stigum þar sem því verður við komið.
    Þrátt fyrir ákvæði um umhverfisfræðslu í grunnskólalögum og í lögum um náttúruvernd er mála sannast að slík fræðsla er ákaflega tilviljanakennd og af skornum skammti og má ýmsu um kenna. Fyrst og fremst er þó sökin stjórnvalda. Það er nefnilega ekki nóg að setja ákvæði í lög; það verður einnig að skapa skilyrði til að framfylgja þeim.
    Það er til lítils að leggja Náttúruverndarráði þá kvöð á herðar að það „... hafi forgöngu um fræðslu fyrir almenning um náttúru landsins og leitist við að efla áhuga á náttúruvernd, m.a. með útgáfustarfsemi, kynningu í skólum og fjölmiðlunartækjum“, eins og segir í lögum um náttúruvernd frá 1971, ef því er ekki gert kleift að ráða starfsfólk til þess að sinna þessari lagaskyldu. Þrátt fyrir manneklu og lítil auraráð hefur þó Náttúruverndarráð sinnt umhverfisfræðslu eftir föngum. Einnig ber að geta um gagnmerka starfsemi Landverndar og fleiri samtök áhugamanna hafa lagt sitt af mörkum.
    Í grunnskólalögum er ákvæði sem lýtur að umhverfisfræðslu. Því þarf að fylgja eftir með útgáfu námsefnis og þjálfun kennara. Annars kemur það fyrir lítið. Vissulega hafa margir færir og áhugasamir kennarar unnið frábært starf á þessum vettvangi og ekki er alltaf nauðsyn flókinna kennslutækja. En eigi að vera unnt að ná markmiðum umhverfisfræðslu er nauðsynlegt að skipuleggja hana og samræma og tryggja að allir fái notið hennar.
    Samkvæmt upplýsingum Þorvalds Arnar Árnasonar, námsstjóra í náttúrufræðum, er umhverfisfræðslu sinnt í heldur vaxandi mæli í grunnskólum, en mjög undir einstökum skólum og kennurum komið hvernig til tekst. Allir kennaranemar fá stutt námskeið í umhverfisfræðslu og auk þess geta þeir valið stutt námskeið í náttúruvernd. Lítil eftirspurn hefur verið eftir námskeiðum í umhverfisfræðslu fyrir starfandi kennara. Í framhaldsskólum er lítið um markvissa umhverfisfræðslu nema að því marki sem vistfræði er innifalin í líffræði. Ljóst er því að grunninn þarf að styrkja og byggja myndarlega ofan á.
    Á ráðstefnu, sem haldin var á vegum UNESCO í Tbílísí árið 1977, voru markmið umhverfisfræðslu skilgreind á eftirfarandi hátt:
„1.    Vekja athygli einstaklinga og hópa á umhverfi sínu og þeim vandamálum sem þar bíða úrlausnar.
2.    Auka þekkingu og skilning fólks á náttúrunni og umhverfi sínu í heild svo það geri sér betur grein fyrir áhrifum gjörða mannsins.
3.    Efla viðhorf ábyrgðar gagnvart umhverfi og vilja til að vinna að náttúruvernd og fegrun umhverfis.
4.    Þjálfa nemendur í að skilgreina og leysa umhverfisvandamál.
5.    Auka hæfni til að vega og meta ákvarðanir og athafnir út frá margvíslegum forsendum, svo sem vistfræðilegum, fjármálalegum, félagslegum, fagurfræðilegum, hagfræðilegum, uppeldislegum o.s.frv.
6.    Stuðla að þátttöku í fyrirbyggjandi aðgerðum.“
    Á sömu ráðstefnu var enn fremur samþykkt að í umhverfisfræðslu bæri að leggja áherslu á eftirfarandi atriði:
„1.    Umhverfisfræðsla þarf að fjalla um umhverfið í heild, bæði náttúruna og það sem menn hafa gert (bæði náttúrufræði og samfélagsfræði).
2.    Umhverfisfræðsla þarf að vara ævilangt og fara fram á öllum skólastigum auk hvers kyns fræðslu utan skóla.
3.    Umhverfisfræðsla á að vera ófagbundin og hluti af kennslu í öllum námsgreinum á öllum skólastigum. Í námsskrá og kennsluleiðbeiningum ber að taka sérstakt tillit til umhverfisfræðslu.
4.    Fræða þarf um nánasta umhverfi og síðan málefni héraðsins, landsins og heimsins alls.
5.    Áherslu þarf að leggja á þau vandamál sem efst eru á baugi á hverjum stað, en taka jafnframt mið af sögunni og spá um nánustu framtíð.
6.    Fræðslan verður að stuðla að því að einstaklingar, fjölskyldur, félög og þjóðir taki ábyrgð á umhverfinu.
7.    Umhverfisfræðsla þarf að stuðla að því að tekið sé fullt tillit til verndunarsjónarmiða og hugsanlegra skaðlegra afleiðinga þegar verk eru skipulögð.“
    Um allan heim er nú smám saman að glæðast skilningur manna á og vitund um nauðsyn þess að ganga um náttúruna með virðingu og nærgætni, bæta fyrir náttúruspjöll og sjá til þess að afkomendur okkar fái notið a.m.k. sömu náttúrugæða og núlifandi kynslóðir. Sú hugarfarsbreyting gengur þó allt of, allt of hægt. Mannkynið gæti fallið á tíma.
    Íslendingar gætu orðið fyrirmynd annarra í þessum efnum ef vilji væri fyrir hendi. Til þess þarf markvissa, öfluga umhverfisfræðslu í skólum og á meðal almennings. Aukinn skilningur er lykilorðið. Sá er tilgangurinn með flutningi þessarar tillögu sem var í fyrsta sinn til umræðu á 110. löggjafarþingi, en varð þá ekki afgreidd.