Ferill 152. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 152 . mál.


Sþ.

157. Tillaga til þingsályktunar



um tæknifrjóvganir.

Flm.: Sigríður Lillý Baldursdóttir, Lára V. Júlíusdóttir,


Birgir Ísl. Gunnarsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Guðni Ágústsson,


Ingi Björn Albertsson, Guðrún Helgadóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að áður en glasafrjóvganir verða hafnar hér á landi verði lagt fyrir Alþingi lagafrumvarp um réttarstöðu og tryggingamál þeirra sem hlut eiga að máli, þegar tæknifrjóvgunum er beitt.

Greinargerð.


    Á síðustu árum hefur íslenskum konum, sem fara í tæknifrjóvganir, farið fjölgandi með hverju ári. Konurnar fá þessa meðferð ýmist hér á landi eða erlendis.
    Tækninni hefur fleygt hratt fram bæði hvað varðar nýjungar og þróun aðferða við tæknifrjóvgun. Fyrst var einungis um að ræða frjóvgun í legi (tæknisæðingu) en nú um nokkurt skeið hafa frjóvganir einnig verið framkvæmdar utan legs (glasafrjóvganir).
    Tæknisæðingar eru yfirleitt gerðar með aðfengnu sæði ókunns manns og eggi þeirrar konu sem gengur með barnið. Þegar frjóvgun fer fram í legi verður afkvæmið þannig ætíð erfðafræðilegt afkvæmi móður, þ.e. þeirrar sem gengur með barnið, en þannig þarf það ekki að verða ef eggið er frjóvgað utan legs. Þá eru í flestum tilfellum, þegar framkvæmdar eru glasafrjóvganir, frjóvguð fleiri egg en notuð eru hverju sinni. Við það verða til aukafósturvísar sem hægt er að geyma í frysti til notkunar síðar.
    Á 108. löggjafarþingi var samþykkt þingsályktunartillaga um réttaráhrif tæknifrjóvgunar. Þar var kveðið á um skipun nefndar til að kanna réttaráhrif tæknifrjóvgunar og gera tillögu um hvernig réttarstaða aðila yrði ákveðin. Nefndinni var ætlað að ljúka störfum fyrir upphaf 109. löggjafarþings. Nú, þremur árum síðar, hefur nefndin enn ekki skilað af sér en innan hennar hefur farið fram mikið starf sem ætti að nýtast við lagasetningu þá sem hér er ályktað um.
    Tæknisæðingar hafa verið gerðar hér á landi síðan 1979 og hafa þær verið greiddar af sjúkrasamlagi á sama hátt og aðrar læknisaðgerðir. Nú eru uppi ráðagerðir um að hefja glasafrjóvganir á Landspítalanum. Í því sambandi hefur verið gert ráð fyrir 3,75 nýjum stöðugildum við Landspítalann á fjárlagafrumvarpi næsta árs. Fram til þessa hafa íslenskar konur farið utan í glasafrjóvganir. Um það hefur verið gerður samningur milli Tryggingastofnunar ríkisins og Bourn Hall Clinic í Englandi sem staðfestur hefur verið af ríkisstjórninni. Sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins hefur greitt kostnað við þessa meðferð samkvæmt reglugerð sem sett var af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu 15. maí 1987 (fskj. I) og vinnureglum Tryggingastofnunar, samþykktum í tryggingaráði 29. janúar 1988 (fskj. II).
    Þeim börnum í landinu fer æ fjölgandi sem hafa orðið til við tæknifrjóvgun og þau ásamt foreldrum þeirra eiga fullan rétt á að lagaleg staða þeirra sé skýr. Þá þarf að setja reglur um það hverjir eigi rétt á tæknifrjóvgunum hér og hvaða skilyrði konur þurfi að uppfylla til að fá greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins vegna meðferðarinnar. Eins og áður var getið fylgja glasafrjóvgunum umfram-fósturvísar. Í lögum þarf að kveða skýrt á um umráð yfir þeim og takmörk á tilraunum með fósturvísa.
    Nokkuð mismunandi reglur eru um þessi mál í nálægum löndum. Í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hafa verið sett lög um tæknifrjóvgun, en í Danmörku hefur ekki verið talin þörf á löggjöf um efnið. Í Danmörku er starfandi siðaráð sem tryggja á að þinginu, opinberum aðilum og almenningi séu ávallt veittar upplýsingar varðandi siðfræðileg vandamál eða ágreiningsefni sem upp kunna að koma vegna þróunar í læknisfræði og heilbrigðismálum. Þar eru þó bannaðar með lögum ákveðnar tilraunir í tengslum við tæknifrjóvgun. Í Noregi tóku gildi lög árið 1987 um framkvæmd tæknifrjóvgunar. Sú löggjöf kom af stað miklum deilum þar í landi, ekki síst það ákvæði að einungis giftar konur skuli eiga rétt á tæknifrjóvgun. Í Noregi er bannað að gera rannsóknir á frjóvguðum eggjum og ekki má geyma þau lengur en í eitt ár.
    Tæknisæðing hér á landi hefur hingað til verið bundin við hjón eða sambúð sem jafna má við hjúskap. Sama gildir um glasafrjóvgunarmeðferðina því að Tryggingastofnunin greiðir ekki kostnað við glasafrjóvganir einhleypra kvenna eða sambýliskvenna. Rétt er að benda á að samkvæmt íslenskum lögum er konum ekki skylt að feðra börn sín. Því kann takmörkun sem þessi að orka tvímælis.
    Í Bretlandi fæddist fyrsta barnið eftir glasafrjóvgun árið 1978 og þar eru nú starfandi fjölmargar stofnanir þar sem tæknifrjóvganir eru framkvæmdar. Í Bretlandi var skipuð nefnd árið 1982 til þess að vinna að stefnumótandi áliti um æxlunartæknina frá félagslegum, siðfræðilegum og lagalegum sjónarhól. Nefndin skilaði skýrslu 1984 og í kjölfar hennar hafa verið sett ýmis lög um þessi mál. Samkvæmt tillögum nefndarinnar voru heimilaðar rannsóknir á fósturvísum fyrstu fjórtán dagana eftir frjóvgun, en sú samþykkt hefur verið mjög umdeild. Frysting frjóvgaðra eggja er heimil og koma má áður frosnum fósturvísi fyrir í líkama konu. Gefa má bæði frjóvguð og ófrjóvguð egg, hvort sem er vegna ófrjósemi eða vegna arfgengra sjúkdóma hinna væntanlegu foreldra. Í Bretlandi má geyma frosinn fósturvísi í allt að tíu ár og hafa íslenskar konur, sem fara þar í glasafrjóvgun, skrifað undir samning um að viðkomandi stofnun eigi frosna fósturvísa þeirra að tveimur árum liðnum hyggist þær ekki nota þá, annars verði þeim fargað.
    Tæknifrjóvgun hefur orðið til þess að mörgum auðnast nú sú mikla hamingja að eignast afkvæmi sem ekki hefðu orðið hennar aðnjótandi ella. Með lagasetningu þurfum við að tryggja það að hamingja þeirra verði ekki síðri en þeirra sem eignast börn sín með náttúrlegum hætti.
    Tæknifrjóvganir varða upphaf lífs og hljóta því að snerta siðferðiskennd okkar allra, enda hafa allt frá upphafi verið miklar umræður um þær bæði hérlendis og erlendis.
    Öll tækni og vísindi fela í sér möguleikann á misnotkun en það hlýtur að vera samfélagsins að hafa eftirlit með vísindunum og setja þeim reglur. Enn einu sinni stillir tæknin okkur upp við vegg og krefst þess að við setjum siðferðismörkin og undan því megum við ekki víkjast.



Fylgiskjal I.


Reglugerð nr. 218/1987


um greiðslu læknishjálpar við glasafrjóvgun erlendis.



1. gr.

    Sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins er heimilt að greiða samkvæmt samningi kostnað vegna glasafrjóvgunar íslenskra kvenna erlendis með sama hætti og segir í 4. mgr. 42. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar.

2. gr.

    Glasafrjóvgun samkvæmt reglugerð þessari varðar þau tilvik, þar sem egg konu er unnt að tæknifrjóvga með sæði manns hennar, en læknisfræðilegar ástæður hamla frjóvgun með venjulegum hætti.

3. gr.

    Heimilt er sjúkratryggingadeild að greiða eftir þessum reglum kostnað sem til hefur verið stofnað eftir 1. júní 1986 vegna slíkrar læknisþjónustu erlendis.

4. gr.

    Tryggingastofnun ríkisins skal gera samning við erlenda stofnun sem að mati siglinganefndar skv. 42. gr. er fær um að veita þessa læknisþjónustu þar til fullnægjandi aðstaða verður sköpuð til þess hér á landi.

5. gr.

    Reglugerð þessi er sett með stoð í 42. og 43. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 15. maí 1987.



Ragnhildur Helgadóttir.


Jón Ingimarsson.QR



Fylgiskjal II.


Tryggingastofnun ríkisins:

REGLUR UM VAL Á FÓLKI TIL GLASAFRJÓVGUNAR


(IVF) OG/EÐA GIFT-MEÐFERÐARFERL IS



1.     Parið skal hafa verið samvistum, gift eða í sambúð í a.m.k. tvö ár.
2.     Barnlaus hjón ganga að öðru jöfnu fyrir.
3.     Parið skal gangast undir læknisskoðun þar sem sýnt verði fram á að mjög litlar líkur séu á að það geti eignast barn með öðrum hætti og einnig að sæmilegar líkur séu á að aðgerðin beri árangur. Hafa skal hliðsjón að þessu leyti af helstu ábendingum (indicationes):
    a.    seq. salpingitis,
    b.    endometriosis,
    c.    oligospermia,
    d. ófrjósemi þar sem orsök hefur ekki fundist þrátt fyrir hefðbundnar rannsóknir.
4.     Konan má ekki vera eldri en þrjátíu og átta ára nema sérstakar ástæður beri til.
5.     Parið skal gangast undir þær rannsóknir sem Bourn Hall Clinic krefst, þar með talið eyðnipróf, Australian antigen, rubellapróf o.s.frv.
6.     „Siglinganefnd“ úrskurðar á grundvelli vottorðs frá sérfræðingi um greiðsluskyldu sjúkratryggingadeildar fyrir par sem gengst undir IVF-meðferð eða GIFT-meðferð. Nefndin getur leitað faglegs álits annarra sérfræðinga.
7.     Aðgerðin fer fram á Bourn Hall Clinic í Englandi. Ef fólk vill leita til annarra stofnana til slíkrar meðferðar getur það að henni lokinni fengið endurgreitt frá Tryggingastofnun ríkisins, þó aldrei hærri fjárhæð en nemur kostnaði samkvæmt samningi við Bourn Hall Clinic. Það er þó skilyrði að fram verði lögð fullnægjandi læknisfræðileg gögn, sbr. lið 6.
8.     Sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins greiðir meðferð á Bourn Hall Clinic eða á sambærilegri stofnun, sbr. lið 7, en á hinn bóginn greiðir parið sjálft ferðakostnað sinn og uppihaldskostnað utan sjúkrahúss að fullu. Parið greiðir og sjálft nauðsynlega aðstoð túlks.
9.     Aðeins þrjár meðferðartilraunir verða greiddar fyrir hvert par.
10.     Heimilt er konu að velja hvort hún gengst undir hormónaörvun hér á landi eða á meðferðarstofnun erlendis (Bourn Hall Clinic).



Prentað upp.