Ferill 210. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 210 . mál.


Nd.

344. Nefndarálit



um frv. til. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Ríkisstjórnin hefur á valdatíma sínum stórhækkað skatta. Það hefur þó ekki dugað til að mæta vaxandi útgjöldum ríkissjóðs. Á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að vanti allt að 5 milljarða króna til að tekjur samsvari gjöldum, enda hefur ríkisstjórnin sett Íslandsmet í útgjöldum ríkisins séu þau skoðuð sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.
    Það eru áform ríkisstjórnarinnar að afgreiða fjárlög næsta árs með verulegum halla, sem væntanlega verður meiri en viðurkennt er vegna vanáætlana. Þannig hefur ríkisstjórnin gefist upp við að hafa stjórn á ríkisfjármálunum. Hún hefur hvorki kjark né þor til að takast á við vaxandi rekstrarútgjöld ríkisins. Eina ráðið, sem ríkisstjórnin sér, er að hækka skattana enn á ný. Sú ráðstöfun dugar þó engan veginn til að jafnvægi náist í ríkisfjármálum. Þetta frumvarp er liður í þeim aðgerðum að auka skattheimtuna og þar með skattbyrði alls þorra almennings.
    Rúmum tveimur mánuðum áður en núverandi fjármálaráðherra tók við völdum sendi hann frá sér greinargerð um tök forvera síns á ríkisfjármálunum. Hálfu öðru ári seinna kann að vera fróðlegt að lesa greinargerðina í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af starfi ráðherrans. Greinargerðin er birt sem fylgiskjal með nefndarálitinu.

Stórfelldar skattahækkanir.
    Eins og sjálfstæðismenn í fjárhags- og viðskiptanefnd efri deildar hafa sýnt fram á má búast við því að ríkissjóður auki tekjur sínar um 1.600 milljónir króna með því að taka upp 24,5% virðisaukaskatt í stað 25% söluskatts. Samkvæmt útreikningum fjármálaráðuneytisins fær ríkið í sinn hlut 1.400 milljónir króna vegna hækkunar tekjuskattsins. Aðrir segja að tekjurnar verði meiri. Eignarskattar lækka af nokkrum hópi og nemur tekjutap ríkissjóðs 300 milljónum króna af þeim sökum.
    Ríkisstjórnin hefur haft uppi áform um að hækka skatta af bifreiðum og skattleggja orkuveitur. Því verður ekki trúað að þingmenn standi að slíkum skattaálögum til viðbótar 2–3 milljarða króna skattahækkunum vegna upptöku virðisaukaskatts og hækkunar tekjuskatts.

Deilur um forsendur og áhrif.
    Fjármálaráðherra hefur gert sem minnst úr fyrirhugaðri tekjuskattshækkun og telur að skattbyrði barnmargra láglaunamanna minnki. Deilur hafa risið milli fjármálaráðuneytisins og launþega og fjölmiðla um forsendur og áhrif fyrirhugaðrar tekjuskattsbreytingar. Rétt er að rekja þessar umræður hér nokkrum orðum.
    Nú um áramót hækkar skattprósenta úr 37,4% í 39,74%, en hefði ella lækkað. Jafnframt hækka persónuafsláttur og barnabætur um 7,4%. Áður höfðu persónuafsláttur og barnabætur hækkað samkvæmt lánskjaravísitölu á sex mánaða fresti. Lánskjaravísitala hækkaði um 10% frá júní til desember. Það gerist því hvort tveggja í senn að sjálf skattprósentan hækkar og afslátturinn hækkar minna en hann hefði átt að gera að öðru jöfnu. Þess vegna áttu margir erfitt með að kyngja þeirri frétt fjármálaráðuneytisins að skattar væru að léttast hjá stórum hópi fólks.
    Í minnisblaði ráðuneytisins frá 1. des. er ætlunin að leiðrétta „furðufrétt DV um skattbreytingarnar“. Leiðréttingin felst annars vegar í því að bera saman skatta af sama kaupi fyrir og eftir áramót. Hér er ekki horft á það að hækkun persónuafsláttar á að vega upp á móti hækkun launa og verðlags síðastliðið hálft ár. Hagfræðingur ASÍ (fréttatilkynning 6. des.) ber saman skattbyrði í júlí 1989 mánuðinn eftir að persónuafsláttur hækkaði síðast og janúar 1990. Hann miðar við laun sem hækka eftir kjarasamningum. Með þessu sýnir hann glögglega að það sem fjármálaráðuneytið taldi skattalækkun er í raun hækkun, jafnt hjá láglaunafólki, barnafólki og öðrum. Í minnisblaði fjármálaráðuneytis (1. des.) segir jafnframt: „Það er rangt í frétt DV að persónuafsláttur og barnabætur hafi fylgt hækkun lánskjaravísitölunnar undanfarin ár.“ Eitthvað hefur upplýsingafulltrúum ráðuneytisins orðið hált á sannleikanum því að í þau þrjú skipti, sem persónuafsláttur hefur hækkað eftir að staðgreiðslukerfi var tekið upp, hefur hækkunin verið sú sama og hækkun lánskjaravísitölu næstu sex mánuði á undan. Ekki er mikið um að opinberar stofnanir geri athugasemdir við blaðafréttir, en þegar svo ber við verður að gera þá kröfu að þær fari rétt með staðreyndir.
    Í minnisblaðinu segir að sú aðferð að miða hækkun persónuafsláttar við lánskjaravísitölu sé óraunhæf. Um þetta segir hagfræðingur ASÍ (6. des.): „Að sú aðferð að miða við lánskjaravísitölu sé ekki raunhæf er einkaskoðun þeirra sem ráða í fjármálaráðuneytinu. Miðað við að sífellt þurfi að sækja fleiri krónur í vasa skattborgaranna er eðlilegt að aðferðin teljist ekki raunhæf. En væri miðað við að skattbyrði þróist eðlilega miðað við aðrar stærðir í þjóðfélaginu hlýtur viðmiðun við lánskjaravísitölu að teljast fullkomlega eðlileg … Skattleysismörkin í upphafi næsta árs verða 52.466 kr. en hefðu orðið kring um 56.600 kr. ef núverandi lánskjaravísitala hefði verið notuð. Ef eldri lánskjaravísitalan hefði verið notuð mundu skattleysismörkin verða um 58.300 kr.“ Ástæða er til að benda á að þessi viðmiðun við lánskjaravísitölu var í upphafi sett í lögin til þess að skattbyrði léttist þegar kaupmáttur færi minnkandi en yrði svo aftur þyngri í góðæri. Um það var samkomulag milli fjármálaráðherra, Alþingis og launþegahreyfingarinnar þegar lögin voru sett á sínum tíma.
    Í annarri fréttatilkynningu sinni um málið frá 5. des. segir fjármálaráðuneytið m.a.: „Heildaráhrif þeirra breytinga, sem koma fram í þessu frumvarpi og virðisaukaskattsfrumvarpinu sem lagt var fram í gær, eru þríþættar: ... „ Sagt er frá áhrifum virðisaukaskatts og lækkun eignarskatta en síðan segir: „Í þriðja lagi breytingar á tekjusköttum sem hafa í för með sér léttari skattbyrði hjá barnafjölskyldum með lágar tekjur, einkum einstæðum foreldrum, en nokkra þyngingu hjá hátekjufólki.“ Var skatturinn að hækka eða lækka? Skatturinn lækkar hjá lágtekjufólki en hækkar nokkuð hjá hátekjufólki. Síðan eru tekin dæmi um skattbyrði ársins 1989 og 1990 hjá nokkrum tekjuhópum. Skattbyrði léttist hjá einstæðum foreldrum tveggja barna (annað yngra en 7 ára) sem hafa minna en 100.000 króna mánaðarlaun og hjá hjónum með tvö börn (annað yngra en 7 ára) sem hafa 120.000 krónur á mánuði og minna. Skattbyrði eykst hjá öllum einstaklingum og auk þess barnafólki sem hefur hærri tekjur en sagt var hér að framan.
    Í þessum dæmum fjármálaráðuneytis er miðað við forsendur þjóðhagsáætlunar, því að það gerir ráð fyrir að lánskjaravísitala hækki um 8% frá desember til júní nk. Þar sem hækkun persónuafsláttar og barnabóta í júlí er bundin hækkun lánskjaravísitölu fást með þessu móti hærri barnabætur og afsláttur á seinni hluta ársins en annars hefði verið. Sú niðurstaða ráðuneytisins að skattbyrði lágtekjufólks léttist á næsta ári stendur og fellur með þessum forsendum þótt hagfræðingur ráðuneytisins hafi ýjað að því í útvarpsviðtali að þær kæmu málinu ekki við.
    Persónuafsláttur og barnabætur eru bundnar í krónutölu og rýrna því í verðbólgunni. Hagfræðingar BSRB hafa kynnt áhrif tekjuskattsbreytinganna á hag félagsmanna sinna miðað við forsendur sem þeim þykja líklegri, þ.e. svipaða verðbólgu og nú er og sama kaupmátt á næsta ári og 1989 eða nokkra kaupmáttarrýrnun. Í umsögn, sem BSRB hefur sent nefndinni, segir m.a.: „Hjá meðaltalsmanni í BSRB hækkar skatthlutfall úr um 16,5% 1989 í nálægt 18,5–20%, allt eftir því hvernig talið er að kaupmáttur breytist.“ Hér er miðað við einstakling með tæpar 90.000 króna mánaðartekjur 1989. Í dæmi fjármálaráðuneytisins er hækkunin aðeins um eitt prósentustig hjá einstaklingi með þessar tekjur 1989. Í umsögn BSRB segir einnig: „... sú niðurstaða að skattbyrði lækki hjá einhverjum tekjuhópum á næsta ári er reist á mjög mikilli óskhyggju um verðbólgu og launaþróun á næsta ári. Við sjáum ekkert sem bendir til að sú ósk rætist, tekjuskatturinn hækkar hjá öllum tekjuhópum á næsta ári.“
     Þetta er eitt meginatriði málsins: Tekjuskatturinn er að hækka hjá öllum, einnig láglaunafólki og barnafólki.

Óvissa í þjóðhagsspám.
    Þjóðhagsstofnun reynir jafnan að spá varlega um verðbólgu og hagvöxt. Eflaust er ætlunin með því að draga úr verðbólguvæntingum. Þetta er ekkert nýtt. En þegar það kemur æ oftar í ljós að spár stofnunarinnar eru of lágar minnkar trú manna á þeim spám sem þaðan koma. Menn fara að bæta 5-10% við spárnar til þess að fá raunhæft mat. Þá fer að verða spurning hvort ekki sé rétt að stofnunin endurskoði aðferðir sínar og leggi fram raunhæfari spár. Ef til vill kæmi til greina að leggja fram eina óskaspá og síðan aðra sem kæmi til álita ef ekki gengi allt að óskum. Enginn er óskeikull á spádómum.
    Séu skoðaðar spár Þjóðhagsstofnunar um verðlags- og tekjuþróun á síðustu árum kemur eftirfarandi í ljós:

Meðalhækkun frá fyrra ári.



                  Áætlun     Niðurstaða
    Árið 1987     Verðlag    7–8%    18,5%
             Tekjur    8–10%    43,0%

    Árið 1988     Verðlag    Var ekki    25,5%
             Tekjur    gefið upp    24,0%

    Árið 1989     Verðlag    12%    21,0%
             Tekjur    5%    11,0%

    Árið 1990     Verðlag    16%
             Tekjur    11%

    Eins og sést á þessum tölum er verulegur munur á áætlun og raunveruleika. Þess ber að geta að Þjóðhagsstofnun hefur ávallt lagt áherslu á að halda samræmi milli helstu forsendna fremur en að spá breytingum verðlags og launa, enda er það ekki stjórnvalda einna að ákveða hver verðlags- og tekjuþróun verður.
    Vakið hefur sérstaka athygli hve hart fjármálaráðuneytið gengur fram í að verja málstað sinn þegar tekið er tillit til óvissuþáttanna. Í nýjustu fréttatilkynningu ráðuneytisins um málið er rætt um athugasemdir BSRB og ASÍ sem eru „væntanlega byggðar á faglegri skoðun“. Engir útreikningar BSRB, ASÍ eða DV hafa hins vegar verið hraktir. Á fundum nefndarinnar kom fram það sjónarmið af hálfu fulltrúa launþega að framganga ráðuneytisins gagnvart efasemdarmönnum úr hópi launþega sé varla til þess fallin að skapa traust á stjórnvöldum.

Vaxtabætur.
    Í frumvarpinu er gerð tillaga um breytingu á vaxtabótakerfinu sem taka á gildi um næstu áramót. Tekjuskerðing er aukin en eignarmörk eru hækkuð. Þar sem enn hefur ekki reynt á vaxtabótakerfið er óljóst hverju það skilar til þeirra sem skulda vegna íbúðakaupa. Ástæða er til að benda á umsögn vararíkisskattstjóra, en hún er birt sem fylgiskjal með nefndarálitinu. Í henni er lýst þeim miklu framkvæmdaörðugleikum sem fylgja vaxtafrádrætti og vaxtabótum, bæði fyrir framteljendur og skattyfirvöld.

Eignarskattur.
    Ríkisstjórnin beitti sér á síðasta þingi fyrir hækkun hins almenna eignarskatts úr 0,95% í 1,2% og einnig fyrir sérstöku viðbótarskattþrepi á skattlausa eign einstaklinga yfir 7 milljónir kr. og hjóna yfir 14 milljónir kr. Eignarskattur á lögaðila var hækkaður í 1,2%. Því var skattur á einstaklinga í hærra eignarskattsþrepinu hærri en skattur á fyrirtæki. Er það nýjung í skattamálum hérlendis og athyglisvert framlag af hálfu ríkisstjórnar sem kennir sig við jafnrétti og félagshyggju.
    Þessi illræmda skattahækkun kom til framkvæmda við álagningu skatta á síðasta sumri. Kom þá í ljós, svo sem spáð hafði verið, að hækkunin kom sérstaklega illa við ekkjur, ekkla, einstæða foreldra og aðra þá sem standa einir að heimilisrekstri. Í mörgum tilvikum margfaldaðist það óréttlæti sem þetta fólk mátti áður búa við. Skattahækkun þessi var í daglegu tali nefnd „ekknaskatturinn“, enda var í mörgum tilfellum um hreina árás á ekkjur og einstæðinga að ræða þótt stjórnarandstaðan hafi undir þinglok á síðasta vori náð fram tímabundinni leiðréttingu fyrir einstaklinga sem sitja í óskiptu dánarbúi.
    Með þeirri breytingartillögu, sem gerð er í frumvarpinu, er efra þrep skattsins lækkað og tekjutengt. Aðspurðir kváðust hvorki fulltrúar fjármálaráðuneytisins né skattyfirvalda þekkja til þess að eignarskattar væru tekjutengdir annars staðar í heiminum. Er því enn á ný bryddað upp á nýjung í eignarskattamálum þjóðarinnar.
    Undirritaðir leggja til að eignarskattinum verði á ný komið í fyrra horf. Á sérstöku fylgiskjali eru sýnd raunveruleg dæmi um áhrif þeirrar breytingar miðað við núgildandi lög og fyrirhugaðar breytingar samkvæmt stjórnarfrumvarpinu.

Breytingartillögur.
    Undirritaðir lýsa ánægju sinni með þær breytingartillögur sem nefndin flytur. Með þeim er komið nokkuð til móts við sjónarmið sjálfstæðismanna varðandi skatta á börnum sem misst hafa foreldri.
    Undirritaðir flytja breytingartillögur á sérstöku þingskjali. Þær tillögur eru byggðar á frumvarpsflutningi sjálfstæðismanna fyrr á þessu þingi. Auk tillögu til breytingar á eignarskattshlutfalli einstaklinga, sem fyrr er getið, eru þessar helstar:

1.     Söluhagnaður af hlutabréfum verði skattfrjáls eftir þriggja ára eignarhaldstíma.

2.     Tap af sölu hlutabréfa verði frádráttarbært frá söluhagnaði af hlutabréfum.

3.     Skattfrelsismörk arðs af hlutabréfum vegna tekjuskatts einstaklinga verði meira en tvöfölduð.

4.     Heimilt verði að miða skattfrjálsar arðgreiðslur við allt að 15% af stofni sem markast af nafnverði ásamt þeim jöfnunarhlutabréfum sem heimilt hefði verið að úthluta samkvæmt almennum verðbreytingum. Hjá fyrirtækjum verði úthlutaður arður frádráttarbær af sama stofni.

5.     Tekin verði upp almenn heimild til sveiflujöfnunar í atvinnulífinu og fyrirtækjum veitt heimild til þess að geyma allt að 30% af hreinum tekjum á bundnum reikningum.

6.     Sú lækkun, sem núverandi ríkisstjórn gerði á fyrningarhlutföllum hjá fyrirtækjum fyrir sl. áramót, verði tekin aftur og atvinnulífinu gefnir á ný eðlilegir möguleikar til þess að afskrifa eignir.

7.     Fyrirtækjum verði heimilt að gjaldfæra strax kostnaðarverð lausafjár með skemmri endingartíma en þrjú ár.

8.     Heimild til varasjóðsmyndunar í fyrirtækjum með framlagi í fjárfestingarsjóð verði hækkuð úr 15% í 30%.

9.     Tekjuskattshlutfall fyrirtækja verði lækkað úr 50% í 48%.

10.     Lagaákvæðum um tekjuskatt og eignarskatt verði breytt í því skyni að auðvelda viðskipti með hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands.

11.     Skattfrelsismörk hlutabréfa við eignarskattsálagningu einstaklinga verði meira en tvöfölduð og nemi allt að 4.000.000 kr. fyrir hjón.

12.     Eignarskattur fyrirtækja lækki og verði 0,95%.

    Þótt breytingartillögur nefndarinnar séu til bóta er ljóst að megintilgangur frumvarpsins er að hækka tekjuskatta. Afstaða undirritaðra ræðst af því að ekki sé tilefni til að hækka tekjuskatta og allra síst þegar það er haft í huga að tekjur ríkissjóðs aukast að öllum líkindum við að hverfa frá 25% söluskatti til 24,5% virðisaukaskatts.

Alþingi, 16. des. 1989.



Friðrik Sophusson,


Matthías Bjarnason.


frsm.





Fylgiskjal I.


(Texti er ekki til tölvutækur.)





Fylgiskjal II.


Ríkisskattstjóri:


UM VAXTAGJÖLD


(15. des. 1989.)



    Vaxtagjöld hafa verið leyfð til frádráttar tekjum við ákvörðun tekjuskattsstofns á einn eða annan hátt allt fram til gjaldársins 1987. Eftir það tóku við vaxtagjöld vegna ákvörðunar vaxtaafsláttar og nú á næsta álagningarári eru vaxtagjöld afgerandi þáttur um ákvörðun vaxtabóta. Aðeins vaxtagjöld af lánum, sem tekin hafa verið til kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota, voru til frádráttar meðan frádráttur var leyfður og nú til ákvörðunar vaxtaafsláttar og vaxtabóta.
    Með vaxtagjöldum í þessu sambandi hafa talist verðbætur á afborgun og vexti, en það eitt út af fyrir sig veldur engum vandræðum. Það, sem veldur vandræðum við framkvæmd og hefur gert undanfarin ár eftir að almenn verðtrygging var tekin upp, er að við yfirtöku lána við eigendaskipti á íbúðarhúsnæði eru ekki gefin út ný skuldabréf með uppfærðum höfuðstóli lánanna heldur halda upphafleg skuldabréf gildi sínu og lánaeigendur gefa kvittanir fyrir greiðslu afborgana og vaxta samkvæmt upphaflegu nafnverði lánanna sem þýðir að verðbótaþáttur afborgana og vaxta miðast við upphaflegt nafnverð lánanna.
    Yfirtökuaðili lánanna fær þá í hendur kvittun sem sýnir útreikning verðbóta sem eru miklu hærri en hann má færa sem vaxtagjöld á skattframtal.
    Þrátt fyrir ítarlegar skýringar skattyfirvalda á viðeigandi eyðublöðum má telja útilokað að allur almenningur, sem útfyllir skattframtöl, ráði við slíka útreikninga sem þetta atriði krefst, en færi í þess stað þær upphæðir sem fram koma á kvittunum sem vaxtagjöld á skattframtali og færi þar af leiðandi miklu hærri vaxtagjöld á skattframtalið en honum ber til verulegs tjóns fyrir ríkissjóð vegna hærri vaxtabóta og vaxtafrádráttar fram til þessa.
    Engu minni erfiðleikar eru fyrir hendi hjá skattstjórum við framkvæmd þessa atriðis. Það má teljast útilokað að skattstjórar hafi nokkurn möguleika að ráða við að fylgjast með því að rétt vaxtagjöld séu færð, enda er hér um að ræða þúsundir framteljenda. Það skal ítrekað að hér er ekki um nýtt atriði að ræða sem tengist vaxtabótum sérstaklega þar sem sama vandamál var uppi við vaxtafrádrátt og vaxtagjöld við ákvörðun vaxtaafsláttar, en með hverju ári fer vandinn vaxandi.
    Viðruð hefur verið sú hugmynd að reikna vaxtagjöld út frá uppfærðum höfuðstóli lána vegna íbúðarhúsnæðis. Þessi hugmynd hefur ekki verið útfærð, enda augljósir gallar á framkvæmd hennar þó að kostir séu líka miklir.

Æ.Í.





Fylgiskjal III.


(Texti er ekki til tölvutækur.)