Ferill 450. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 450 . mál.


776. Frumvarp til laga



um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)



1. HLUTI


GILDISSVIÐ LAGANNA


1. gr.


    Samkvæmt tvíhliða eða marghliða samningum, sem Ísland hefur gert við önnur ríki og með heimild í lögum þessum, má fullnægja hér á landi eftirtöldum viðurlagaákvörðunum:
    Ákvörðunum dómstóla um fésektir, frjálsræðissviptingar, réttindasviptingar eða upptöku eigna sem teknar eru í öðru ríki með dómi eða annarri úrlausn að lokinni málsmeðferð samkvæmt lögum um réttarfar í sakamálum.
    Ákvörðunum stjórnvalda um fésektir, réttindasviptingar eða upptöku eigna sem teknar eru í öðru ríki.
    Í samræmi við samninga skv. 1. mgr. ákveður dómsmálaráðuneytið hvort fullnusta á ákvörðunum íslenskra dómstóla um fésektir, frjálsræðissviptingar, réttindasviptingar eða upptöku eigna verði falin stjórnvöldum í öðrum ríkjum. Sama gildir um innheimtu sektar, framkvæmd réttindasviptingar eða upptöku eignar samkvæmt lögreglustjórasátt sem sakborningur hefur samþykkt.

2. gr.


    Þegar fullnusta fer fram samkvæmt samningi um alþjóðlegt gildi refsidóma frá 28. maí 1970 gilda ákvæði 5.–21., 28.–37. og 40.–42. gr. laga þessara.
    Þegar fullnusta fer fram samkvæmt samningi um flutning dæmdra manna, frá 21. mars 1983, gilda ákvæði 22.–25., 28.–34., 38. og 40.–42. gr. laga þessara.
    Heimilt er að gera tvíhliða eða marghliða samninga við ríki, sem fullgilt hafa samninga skv. 1. eða 2. mgr., um viðbætur við þá til þess að auðvelda framkvæmd meginreglna þeirra.
    Þegar fullnusta fer fram samkvæmt öðrum samningum en tilgreindir eru í 1. og 2. mgr. ákveður dómsmálaráðuneytið hvernig fari um könnun þess hvort fullnægja megi erlendum viðurlagaákvörðunum hér á landi eða íslenskum viðurlagaákvörðunum erlendis. Ákvæði 26.–34. og 39.–42. gr. gilda eftir því sem við getur átt.

3. gr.


    Þegar sérstakar ástæður mæla með því getur dómsmálaráðuneytið ákveðið, þótt ekki sé í gildi samningur skv. 1. gr., að fullnægja megi hér á landi samkvæmt lögum þessum viðurlagaákvörðun um sektir, frjálsræðissviptingu, réttindasviptingu eða upptöku eigna sem íslenskur ríkisborgari eða maður búsettur hér á landi hefur hlotið samkvæmt dómi eða annarri ákvörðun dómstóls í öðru ríki. Með sama hætti er heimilt, þegar sérstakar ástæður mæla með því, að ákveða að fullnusta á viðurlagaákvörðun íslensks dómstóls um sektir, frjálsræðissviptingu, réttindasviptingu eða upptöku eigna, sem maður með ríkisborgararétt eða fasta búsetu í öðru ríki hefur hlotið hér á landi, verði falin stjórnvöldum í því ríki.
    Þegar ákveðið er að flytja fullnustu samkvæmt þessari grein gilda ákvæði 4. mgr. 2. gr. eftir því sem við getur átt.

4. gr.


    Ákvæði laga þessara gilda ekki um fullnustu viðurlaga eða aðrar aðgerðir sem falla undir ákvæði laga um fullnustu refsidóma sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð o.fl.

5. gr.


    Með evrópskum refsidómi er í lögum þessum átt við dóm eða aðra ákvörðun sem fullnægja má samkvæmt samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma.
    Með útivistardómi er í lögum þessum átt við dóm eða aðra ákvörðun skv. 1. mgr. sem tekin er án þess að dómþoli eða sá sem sætir viðurlögum samkvæmt ákvörðuninni hafi komið sjálfur fyrir dóm við meðferð málsins.
    Þegar í lögum þessum er fjallað um viðurlög er, nema annað sé tekið fram, átt við fésektir, frjálsræðissviptingar, réttindasviptingar og upptöku eigna.

2. HLUTI


FULLNUSTA ERLENDRA VIÐURLAGAÁKVARÐANA HÉR Á LANDI


I. KAFLI


Fullnusta evrópskra refsidóma hér á landi.


A. Skilyrði fyrir fullnustu.


6. gr.


    Ekki er heimilt að fullnægja hér á landi evrópskum refsidómi, nema samkvæmt beiðni stjórnvalda í öðru ríki.
    Ekki er heimilt að fullnægja hér á landi evrópskum refsidómi ef:
    dómurinn er ekki endanlegur eða ef ekki er unnt að fullnægja honum að lögum þess ríkis sem biður um fullnustu,
    verknaðurinn, sem leiddi til viðurlaganna, er ekki refsiverður að íslenskum lögum eða dómþoli hefði ekki, af öðrum ástæðum en greinir í g-lið 1. mgr. 7. gr., bakað sér refsiábyrgð hér á landi ef verknaðurinn hefði verið framinn hér,
    dómþoli er ekki búsettur hér á landi nema fullnusta hér auki líkur á félagslegri endurhæfingu hans eða um frjálsræðissviptingarviðurlög sé að ræða sem unnt er að fullnægja í framhaldi af fullnustu annarra slíkra viðurlaga hér á landi eða dómþolinn sé frá Íslandi,
    fullnusta hér á landi væri andstæð grundvallarreglum íslenskra laga,
    fullnusta hér á landi væri andstæð þjóðréttarskuldbindingum íslenska ríkisins,
    dómur fyrir sama afbrot hefur þegar gengið hér á landi eða sakborningur þegar gengist undir lögreglustjórasátt fyrir það,
    dómþoli hefur með endanlegum dómi, sem kveðinn hefur verið upp í öðru ríki en því sem biður um fullnustu, verið sýknaður eða dæmdur til viðurlaga fyrir sama verknað sem þegar hefur verið fullnægt eða verið er að fullnægja eða viðurlög hafa fallið niður vegna fyrningar, náðunar eða sakaruppgjafar í því ríki. Sama gildir ef dómþoli hefur í slíkum dómi verið sakfelldur en honum ekki gerð sérstök refsing,
    fullnusta hér á landi væri að öðru leyti andstæð samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma.

7. gr.


    Heimilt er að hafna beiðni um fullnustu á evrópskum refsidómi ef:
    verknaðurinn, sem leiddi til viðurlaganna, telst stjórnmálaafbrot eða varðar við herlög,
    gild ástæða er til að ætla að dómur hafi gengið eða viðurlög orðið þyngri en ella vegna kynþáttar, þjóðernis, trúar eða stjórnmálaskoðana dómþola,
    rannsókn stendur yfir hér á landi vegna verknaðar sem leiddi til viðurlaganna, ákæra hefur verið gefin út, ákveðið hefur verið að bjóða sakborningi að ljúka máli með lögreglustjórasátt eða tekin hefur verið ákvörðun um að höfða ekki mál vegna verknaðarins,
    verknaðurinn, sem leiddi til viðurlaganna, var ekki framinn í því ríki sem biður um fullnustu,
    ekki er talið unnt að fullnægja viðurlögunum hér á landi,
    telja má að ríki, sem biður um fullnustu, geti fullnægt viðurlögunum,
    dómþoli var ekki orðinn 15 ára gamall þegar afbrotið var framið,
    viðurlög teldust fyrnd ef beitt væri ákvæðum 83. og 83. gr. a almennra hegningarlaga.
    Hafi í því ríki, sem biður um fullnustu, verið framkvæmd aðgerð sem rýfur fyrningu samkvæmt lögum þess ríkis skal sú aðgerð hafa sömu áhrif hér á landi þegar metið er hvort h-liður 1. mgr. eigi við.

8. gr.


    Ef viðurlög í erlendum dómi eru ákvörðuð fyrir tvö eða fleiri afbrot og eigi er heimilt að fullnægja þeim vegna þeirra allra skal fallist á beiðni varðandi þau afbrot sem heimilt er að fullnægja, enda sé í dómnum eða í beiðni um fullnustu tilgreint hvaða hluti viðurlaganna eigi við um það eða þau afbrot sem fullnægja skilyrðum um fullnustu viðurlaga hér á landi.

B. Könnun á beiðni um fullnustu.


9. gr.


    Beiðni um fullnustu erlendrar viðurlagaákvörðunar skal send dómsmálaráðuneytinu.
    Telji ráðuneytið augljóst að beiðnin varði ekki evrópskan refsidóm eða að ekki sé heimilt að fullnægja dómnum hér á landi vegna ákvæða 2. mgr. 6. gr. skal þegar hafna beiðninni. Ef um útivistardóm er að ræða skal þó ekki hafna beiðni af þeirri ástæðu einni að hann sé ekki endanlegur.
    Dómsmálaráðuneytið kannar hvort hafna beri beiðni vegna ástæðna er greinir í einstökum liðum 1. mgr. 7. gr.
    Sé beiðni ekki þegar hafnað skal hún send ríkissaksóknara til frekari meðferðar.

10. gr.


    Ríkissaksóknari leggur málið fyrir héraðsdóm Reykjavíkur nema annað leiði af 16. eða 19.–21. gr. Ef beiðnin lýtur að upptöku á eignum annars manns en dómþola skal höfðað sérstakt mál gegn þeim manni nema hann hafi komið fyrir dóm við meðferð málsins
í erlenda ríkinu.
    Dómþola skal gefinn kostur á að tjá sig um fullnustubeiðni og skal hann yfirheyrður fyrir dómi ef hann óskar þess. Ef dómþoli er sviptur frelsi í því landi sem biður um fullnustu skal dómurinn þó, að honum fjarstöddum, meta hvort hafna beri beiðni, sbr. 1. mgr. 11. gr., þótt hann hafi óskað eftir því að koma fyrir dóm.

11. gr.


    Í málum, sem lögð eru fyrir héraðsdóm skv. 10. gr., ákveður hann hvort hafna beri beiðni vegna ákvæða 2. mgr. 6. gr. eða b- eða h-liða 1. mgr. 7. gr.
    Dómstóllinn metur ekki að nýju hvort dómþoli uppfylli skilyrði refsiábyrgðar vegna verknaðarins.

12. gr.


    Telji dómurinn að heimilt sé að fullnægja viðurlögunum hér á landi ákveður hann, í samræmi við ákvæði 13.–15. gr. laga þessara, ný viðurlög fyrir verknaðinn sem samkvæmt íslenskum lögum yrðu dæmd fyrir sambærilegt afbrot.
    Hafi dómurinn metið hvort skilyrði séu til þess að fallast á beiðni að dómþola fjarstöddum, vegna þess að hann var sviptur frelsi í því landi sem biður um fullnustu, skal þó ekki ákvarða ný viðurlög fyrr en honum hefur verið gefinn kostur á að koma fyrir dóm.

13. gr.


    Hafi frjálsræðissvipting verið dæmd í erlenda dómnum má ekki ákvarða þyngri viðurlög hér á landi en í þeim dómi. Þetta á við þótt frjálsræðissviptingin sé styttri en stysta frjálsræðissvipting sem heimilt er að dæma fyrir sambærilegt afbrot samkvæmt íslenskum lögum.
    Séu viðurlögin sektir ákveður dómstóllinn, með hliðsjón af því kaupgengi er gildir þegar ákvörðun er tekin, sektarfjárhæð sem í íslenskum krónum samsvarar þeirri sekt sem dæmd var. Fjárhæðin skal þó ekki fara fram úr þeirri hámarkssektarfjárhæð sem liggur við sambærilegu afbroti samkvæmt íslenskum lögum.
    Í stað fésekta samkvæmt erlendri viðurlagaákvörðun má ekki ákvarða þyngri viðurlög hér á landi en fésektir.

14. gr.


    Þegar viðurlög eru ákvörðuð skv. 13. gr. skal, að því leyti sem unnt er, taka tillit til þess hluta viðurlaganna sem þegar hefur verið fullnægt, þar með talið þess tíma sem dómþoli hefur verið í haldi eða gæsluvarðhaldi vegna afbrotsins í erlenda ríkinu eða hér á landi. Að teknu tilliti til þessa tíma er heimilt að ákveða vægari viðurlög en ella yrðu ákveðin fyrir afbrotið eða að viðurlög verði að öllu leyti felld niður.

15. gr.


    Hafi tiltekin fjárhæð eða verðmæti verið gerð upptæk í erlenda dómnum ákveður dómurinn, með hliðsjón af því kaupgengi er gildir þegar ákvörðun er tekin, samsvarandi fjárhæð í íslenskum krónum. Ef upptæka fjárhæðin er hærri en sú fjárhæð sem gerð yrði upptæk samkvæmt íslenskum lögum ef málið væri rekið hér á landi skal dómurinn lækka fjárhæðina til samræmis við réttarframkvæmd hér á landi.
    Hafi munur verið gerður upptækur í erlenda dómnum skal hann því aðeins gerður upptækur hér að íslensk lög heimili slíka eignaupptöku vegna sambærilegs afbrots.
    Ef upptaka bitnar á öðrum manni en dómþola skal dómurinn því aðeins taka ákvörðun um upptöku að hún væri heimil samkvæmt íslenskum lögum ef málið hefði verið rekið fyrir dómstólum hér á landi.

16. gr.


    Varði beiðni eingöngu innheimtu sekta eða upptöku eigna er ríkissaksóknara heimilt, í stað þess að leggja málið fyrir dóm skv. 10. gr., að kanna sjálfur skilyrði þess að fullnægja megi ákvörðun hér á landi og gefa dómþola kost á að ljúka málinu að hætti 2. mgr. 115. gr. laga um meðferð opinberra mála.
    Fallist dómþoli ekki á þessa málsmeðferð leggur ríkissaksóknari málið fyrir dóm skv. 1. mgr. 10. gr.

C. Þvingunaraðgerðir.


17. gr.


    Hafi ríki, sem fullgilt hefur samninginn um alþjóðlegt gildi refsidóma, beðið um fullnustu viðurlaga getur ríkissaksóknari ákveðið að dómþoli skuli handtekinn og lagt fyrir dóm beiðni um að hann verði úrskurðaður í gæsluvarðhald. Sama gildir ef ríki hefur tilkynnt dómsmálaráðuneytinu að það ætli að biðja um fullnustu viðurlaga og óskað eftir að dómþoli verði handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald.
    Skilyrði þess að heimilt sé að handtaka dómþola og úrskurða hann í gæsluvarðhald eru:
    að verknaðurinn sem hann er dæmdur fyrir geti að íslenskum lögum varðað þyngri refsingu en 1 árs fangelsi og
    að ástæða sé til að ætla að hann hyggist koma sér undan fullnustu viðurlaganna eða, ef um útivistardóm er að ræða, að óttast megi að hann spilli sakargögnum.
    Í stað gæsluvarðhalds getur ríkissaksóknari lagt fyrir dóm beiðni um að úrræðum 110. gr. laga um meðferð opinberra mála verði beitt. Heimilt er að beita þeim úrræðum þótt viðurlög við broti að íslenskum lögum séu vægari en um getur í a-lið 2. mgr.
    Heimilt er óháð eðli brots og viðurlögum að handtaka og úrskurða dómþola í gæsluvarðhald eða beita hann úrræðum skv. 110. gr. laga um meðferð opinberra mála ef hann hefur ekki fasta búsetu hér á landi og ástæða er til að ætla að hann muni yfirgefa landið til að komast undan fullnustu viðurlaganna.
    Gæsluvarðhaldi skal ljúka í síðasta lagi þegar samanlagður gæsluvarðhaldstími hér á landi og sá tími, sem dómþoli hefur verið í haldi erlendis, er orðinn jafnlangur og sá tími sem hann var dæmdur til frjálsræðissviptingar samkvæmt erlenda dómnum. Þegar dómþoli er úrskurðaður í gæsluvarðhald áður en beiðni um fullnustu berst skal hann látinn laus þegar hann hefur verið í haldi í 18 daga og beiðni um fullnustu hefur ekki borist innan þess tíma.

18. gr.


    Hafi verið beðið um fullnustu á evrópskum refsidómi er heimilt að leggja hald á eign sem gerð er upptæk samkvæmt honum ef heimilt væri að leggja hald á eignina samkvæmt íslenskum lögum væri málið rekið hér á landi. Ríkissaksóknari tekur ákvörðun um haldlagningu. Ákvæði X. kafla laga um meðferð opinberra mála um tryggingarráðstafanir eiga við um fullnustu evrópskra refsidóma.

D. Sérákvæði um útivistardóma.


19. gr.


    Þegar ríkissaksóknara er send til meðferðar beiðni um fullnustu á útivistardómi skal hann annast um að dómþola verði tilkynnt um dóminn og fullnustubeiðni og að honum verði bent á að hann geti innan 30 daga frá móttöku tilkynningarinnar gert kröfu til ríkissaksóknara um endurupptöku málsins. Setji dómþoli ekki fram slíka kröfu skal með málið farið samkvæmt ákvæðum 10.–16. gr.
    Krefjist dómþoli innan tilskilins frests að málið verði endurupptekið af viðkomandi dómstóli í erlenda ríkinu endursendir ríkissaksóknari dómsmálaráðuneytinu gögn málsins sem endursendir gögnin til stjórnvalda í erlenda ríkinu og tilkynnir þeim um kröfuna.
    Krefjist dómþoli þess að með málið verði farið fyrir íslenskum dómstóli eða krefjist hann endurupptöku máls án þess að tilgreina hvar hann óski að með málið verði farið leggur ríkissaksóknari málið fyrir héraðsdóm Reykjavíkur sem metur hvort taka eigi málið upp að nýju.

20. gr.


    Þegar krafa skv. 3. mgr. 19. gr. berst héraðsdómi gefur dómurinn út fyrirkall til dómþola um að mæta við þinghald í málinu. Án samþykkis dómþola má þinghald ekki fara fram fyrr en liðnir eru 21 dagur frá því að honum var birt fyrirkallið.
    Mæti dómþoli ekki enda þótt honum hafi verið birt fyrirkall eða telji dómurinn af öðrum ástæðum ekki rök til endurupptöku málsins skal kröfu dómþola hafnað. Þegar slík ákvörðun er orðin endanleg skal farið með málið í samræmi við 10.–16. gr.
    Ef dómurinn verður við kröfu um endurupptöku er honum heimilt að meta skilyrði refsiábyrgðar vegna verknaðar, svo og beiðni um fullnustu útivistardóms, þótt ekki væri unnt að höfða mál vegna hans hér á landi vegna ákvæða almennra hegningarlaga um refsilögsögu eða aðeins mætti höfða það samkvæmt sérstökum fyrirmælum dómsmálaráðherra eða annarra aðila og án þess að tekið sé tillit til ákvæða almennra hegningarlaga um fyrningu sakar og brottfall viðurlaga. Skilyrði refsiábyrgðar skulu metin samkvæmt íslenskum lögum með sama hætti og ef sambærilegt afbrot væri framið hér á landi. Rannsókn og aðrar aðgerðir, vegna málsmeðferðar erlendis samkvæmt lögum þess ríkis, skulu viðurkenndar þannig að þær hafi sama gildi og þær hefðu farið fram hér á landi. Slíkum aðgerðum skal þó ekki veitt víðtækara gildi en þær höfðu samkvæmt lögum í erlenda ríkinu.

21. gr.


    Endurupptaki dómstóll í erlenda ríkinu mál skv. 19. gr., að kröfu dómþola, fellur beiðni um fullnustu viðurlaganna niður. Hafni erlendi dómstóllinn því að taka málið til efnislegrar meðferðar á ný og sé slík ákvörðun endanleg skal með málið farið skv. 10.–16. gr.

II. KAFLI


Fullnusta samkvæmt samningnum um flutning dæmdra manna.


22. gr.


    Heimilt er að fullnægja hér á landi viðurlögum sem fela í sér frjálsræðissviptingu og hafa verið dæmd eða ákvörðuð á annan hátt af dómstóli vegna refsiverðs verknaðar í ríki sem fullgilt hefur samninginn um flutning dæmdra manna, að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
    að dómþoli sé íslenskur ríkisborgari eða búsettur hér á landi,
    að dómþoli hafi samþykkt að viðurlögum verði fullnægt hér á landi,
    að verknaðurinn, sem viðurlögin voru dæmd fyrir, sé refsiverður samkvæmt íslenskum lögum,
    að eftir sé að fullnægja a.m.k. 6 mánuðum af viðurlagatíma, þegar beðið er um fullnustu hér á landi eða sérstakar ástæður mæli með að fullnusta verði flutt hingað til lands,
    að dómurinn sé endanlegur.
    Að uppfylltum öðrum skilyrðum en d-liðar 1. mgr. er heimilt að fullnægja hér á landi ótímabundnum viðurlögum.
    Beiðni erlendra stjórnvalda um fullnustu hér á landi skal send dómsmálaráðuneytinu sem kannar hvort skilyrði séu til þess að verða við henni.
    Dómsmálaráðuneytið getur einnig óskað eftir því við erlent ríki að fullnusta fari fram hér á landi.

23. gr.


    Þegar fullnægja á hér á landi viðurlögum skv. 1. mgr. 22. gr. skal annaðhvort:
    halda áfram að fullnægja erlendu viðurlögunum eða
    breyta viðurlögunum þannig að í stað viðurlagaákvörðunar erlenda dómsins verði ákvörðuð ný viðurlög fyrir verknaðinn sem samkvæmt íslenskum lögum yrðu dæmd fyrir sambærilegt afbrot.
    Dómsmálaráðuneytið ákveður í hverju tilviki hvort viðurlögum verði fullnægt hér samkvæmt a- eða b-lið 1. mgr.

24. gr.


    Þegar fullnusta fer fram hér á landi skv. a-lið 1. mgr. 23. gr. skal fullnægja viðurlögunum án tillits til þess hvort þau eru þyngri en þau hefðu orðið samkvæmt íslenskum lögum fyrir sambærilegt afbrot.
    Dómsmálaráðuneytið skal breyta viðurlögunum í sem sambærilegasta viðurlagategund að íslenskum lögum. Ekki skal breyta tímalengd viðurlaganna nema hún fari fram úr því hámarki sem samkvæmt íslenskum lögum er heimilt að ákvarða fyrir sambærilegt afbrot. Þá skal laga tímalengdina að því hámarki.

25. gr.


    Þegar fullnusta fer fram hér á landi skv. b-lið 1. mgr. 23. gr. felur dómsmálaráðuneytið ríkissaksóknara að leggja málið fyrir héraðsdóm Reykjavíkur til ákvörðunar á nýjum viðurlögum í stað hinna erlendu.
    Þegar ný viðurlög eru ákvörðuð skal:
    ekki meta að nýju hvort dómþoli uppfylli skilyrði refsiábyrgðar vegna verknaðarins,
    ekki breyta viðurlögum, sem fela í sér frjálsræðissviptingu, í fjárhagsleg viðurlög,
    miða við þau viðurlög sem yrðu dæmd fyrir sambærilegt afbrot samkvæmt íslenskum lögum,
    ekki ákvarða þyngri viðurlög en í erlendu viðurlagaákvörðuninni þótt þau séu vægari en vægustu viðurlög sem heimilt er að dæma fyrir sambærilegt afbrot að íslenskum lögum,
    láta að fullu koma til frádráttar þann hluta viðurlaganna sem þegar hefur verið fullnægt.
    Sé dómþoli fluttur hingað til lands áður en viðurlög eru ákvörðuð samkvæmt þessari grein er heimilt og skal að jafnaði úrskurða hann í gæsluvarðhald þar til endanlegur dómur liggur fyrir. Í stað gæsluvarðhalds má beita úrræðum 110. gr. laga um meðferð opinberra mála ef slík úrræði teljast fullnægjandi til að tryggja nærveru hans.

III. KAFLI


Fullnusta annarra erlendra viðurlagaákvarðana hér á landi.


26. gr.


    Þegar fullnægja á hér á landi viðurlagaákvörðunum samkvæmt heimild í 4. mgr. 2. gr. getur dómsmálaráðuneytið, á grundvelli samkomulags við annað ríki, ákveðið hvernig ákvæðum I. og IV. kafla eða II. og IV. kafla 2. hluta laga þessara skuli beitt í samskiptum Íslands og hlutaðeigandi ríkis enda þótt í slíkri ákvörðun felist frávik frá ákvæðum þessara kafla laganna.

27. gr.


    Þegar fullnægja á hér á landi viðurlagaákvörðun skv. 3. gr. ákveður dómsmálaráðuneytið hvort ný viðurlög skuli ákvörðuð hér á landi. Þegar það er gert ákveður ráðuneytið jafnframt hvort mál skuli lagt fyrir dóm skv. I. eða II. kafla 2. hluta laganna. Í slíkum tilvikum gilda almenn ákvæði þessara kafla um það hvernig ákvarða skuli ný viðurlög.
    Þegar ekki eru ákvörðuð ný viðurlög skal dómsmálaráðuneytið breyta viðurlögunum í sem sambærilegasta viðurlagategund að íslenskum lögum. Viðurlögunum skal fullnægt án tillits til þess hvort þau eru þyngri en þau hefðu orðið samkvæmt íslenskum lögum fyrir sambærilegt afbrot. Þegar um frjálsræðissviptingu er að ræða skal ekki breyta tímalengd hennar nema hún fari fram úr því hámarki sem samkvæmt íslenskum lögum er heimilt að ákvarða fyrir sambærilegt afbrot. Þá skal laga tímalengdina að því hámarki.
    Innheimta má sektir þótt sektarfjárhæð sé hærri en hæstu sektir sem dæmdar yrðu hér á landi fyrir sambærilegt afbrot. Það sama gildir um upptöku eigna.
    Ekki er heimilt að fullnægja viðurlögum samkvæmt þessari grein á þann hátt að þau verði talin þyngri en viðurlögin sem voru dæmd eða ákvörðuð í erlenda ríkinu. Við ákvörðun á viðurlögum skal, að því leyti sem unnt er og í samræmi við samkomulag við hlutaðeigandi erlent ríki, taka tillit til þess hluta viðurlaganna sem þegar hefur verið fullnægt í erlenda ríkinu. Þegar um frjálsræðissviptingu er að ræða skal taka tillit til þess hluta hennar sem þegar hefur verið fullnægt og þess tíma sem dómþoli var í haldi eða gæsluvarðhaldi í erlenda ríkinu eða hér á landi vegna afbrotsins.

IV. KAFLI


Sameiginleg ákvæði.


28. gr.


    Lög um meðferð opinberra mála gilda um meðferð mála og beitingu þvingunarúrræða eftir því sem við getur átt nema annað sé tekið fram í lögum þessum.
    Fullnusta viðurlaga, sem fer fram hér á landi samkvæmt lögum þess, skal framkvæmd í samræmi við almennar reglur íslenskra laga um fullnustu sambærilegra viðurlaga hér á landi nema annað sé ákveðið í lögum þessum eða samningum við erlend ríki.

29. gr.


    Þegar ríkissaksóknari leggur mál fyrir héraðsdóm Reykjavíkur til þess að meta hvort fullnægja megi erlendri viðurlagaákvörðun hér á landi eða til þess að ákvarða ný viðurlög skal það gert án þess að gefin sé út ákæra í málinu.
    Héraðsdómur tekur ákvörðun í málinu með dómi.

30. gr.


    Nú er dómþoli sviptur frelsi í erlenda ríkinu á þeim tíma er hann er fluttur til Íslands til þess að fullnægja megi viðurlögum sem dæmd eða ákvörðuð hafa verið í erlenda ríkinu og er þá ekki heimilt að ákæra hann eða dæma, handtaka hann eða setja í gæsluvarðhald eða svipta hann frelsi vegna fullnustu viðurlaga né skerða frelsi hans á annan hátt vegna annars afbrots en þess sem beiðnin um fullnustu lýtur að og framið var áður en hann var fluttur hingað til lands nema stjórnvöld í erlenda ríkinu hafi samþykkt það eða dómþoli hafi samfellt í 45 daga átt þess kost að yfirgefa Ísland en ekki gert það eða komið hingað til lands á ný eftir að hafa yfirgefið landið.
    Ákvæði 1. mgr. skulu þó eigi hindra að hann verði sendur úr landi, honum vísað brott eða að gerðar verði ráðstafanir til að rjúfa fyrningu sakar.

31. gr.


    Fullnusta skal stöðvuð ef erlenda ríkið tilkynnir að það hafi fallist á beiðni dómþola um náðun, veitt honum sakaruppgjöf eða endurupptekið erlenda dóminn eða það tilkynnir að í því ríki hafi verið tekin önnur ákvörðun sem samkvæmt lögum þess ríkis leiðir til þess að eigi sé lengur heimilt að fullnægja viðurlögunum.

32. gr.


    Sé um sektarrefsingu að ræða er eigi heimilt að innheimta hér á landi þann hluta sektar sem dómþoli hefur greitt stjórnvöldum í erlenda ríkinu. Ákvarðanir um afborganir eða fresti á greiðslu sektar, sem teknar hafa verið af stjórnvöldum í erlenda ríkinu áður en beðið var um fullnustu hér á landi, halda gildi sínu.
    Heimilt er að ákveða vararefsingu vegna sekta sem fullnægja á hér á landi samkvæmt lögum þessum ef slíkt er heimilt samkvæmt lögum þess ríkis sem bað um fullnustu. Þetta á ekki við ef það ríki hefur tekið fram að eigi skuli ákvarða slíka vararefsingu.
    Sektir, sem innheimtar eru samkvæmt lögum þessum, svo og peningar og munir sem gerðir eru upptækir samkvæmt ákvæðum laganna, eru eign ríkissjóðs. Hafi munur verið gerður upptækur hér á landi getur dómsmálaráðuneytið, samkvæmt beiðni þess ríkis sem bað um fullnustu, samþykkt að hann verði afhentur því ríki.

33. gr.


    Sakarkostnaður, sem fellur til hér á landi vegna málsmeðferðar í framhaldi af beiðni um að fullnægt verði hér á landi erlendum viðurlögum, skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin réttargæsluþóknun, saksóknar- og málsvarnarlaun.
    Þegar útivistardómur er endurupptekinn, að kröfu dómþola, er heimilt í samræmi við almennar reglur laga að dæma hann til greiðslu sakarkostnaðar.
    Heimilt er að endurkrefja dómþola um kostnað vegna flutnings hans hingað til lands.

34. gr.


    Dómsmálaráðuneytið getur, samkvæmt beiðni stjórnvalda í erlendu ríki, samþykkt að útlendingur, sem flytja á milli ríkja samkvæmt ákvæðum í samningi skv. 1. gr. vegna fullnustu eða málsmeðferðar, verði fluttur um íslenskt yfirráðasvæði enda sé hann fluttur vegna viðurlagaákvörðunar sem unnt væri að fullnægja samkvæmt íslenskum lögum. Við slíkan gegnumflutning skal frjálsræðissvipting halda sér nema erlenda ríkið biðji um að dómþoli verði látinn laus. Sé hann hafður í haldi skal með hann farið hér á landi svo sem almennt gildir um handtekna menn eða gæsluvarðhaldsfanga.

3. HLUTI


FULLNUSTA ÍSLENSKRA VIÐURLAGAÁKVARÐANA ERLENDIS


I. KAFLI


Fullnusta samkvæmt samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma.


35. gr.


    Dómsmálaráðuneytið ákveður hvort fara eigi þess á leit við erlend stjórnvöld að þau fullnægi viðurlögum samkvæmt samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma.
    Ekki er heimilt að biðja erlent ríki um að fullnægja íslenskum viðurlagaákvörðunum ef talið er að þær ástæður séu fyrir hendi sem lýst er í ákvæðum 2. mgr. 6. gr. og ætla má að þær komi í veg fyrir að fallist verði á beiðni um fullnustu í erlenda ríkinu.

36. gr.


    Ef erlent ríki er beðið um að fullnægja viðurlögum samkvæmt útivistardómi og dómþoli setur þar fram kröfu um að íslenskur dómstóll taki málið upp að nýju leggur ríkissaksóknari, eftir að honum hafa borist gögn málsins, það fyrir þann héraðsdóm sem kvað upp útivistardóminn. Í slíkum tilvikum gilda ákvæði 1. mgr. 20. gr.
    Sé kröfu um endurupptöku synjað og sé sú ákvörðun endanleg skal ríkissaksóknari þegar tilkynna það dómsmálaráðuneytinu sem tilkynnir stjórnvöldum í erlenda ríkinu um þá ákvörðun.
    Sé fallist á kröfu um endurupptöku skal beiðni um fullnustu erlendis þegar afturkölluð.

37. gr.


    Þegar dómþoli er kvaddur til að mæta fyrir dóm hér á landi vegna kröfu hans um endurupptöku máls og hann yfirgefur erlenda ríkið af þeirri ástæðu er ekki heimilt að ákæra hann eða dæma, handtaka hann eða setja í gæsluvarðhald eða svipta hann frelsi til að fullnægja viðurlögum eða að öðru leyti skerða frelsi hans vegna annars afbrots, sem framið var áður en hann yfirgaf erlenda ríkið nema þess hafi verið getið í fyrirkalli að slíkum aðgerðum kynni að verða beitt, hann hafi samþykkt það skriflega eða honum hafi samfellt í 15 daga, eftir að íslenskur dómstóll tók endanlega ákvörðun vegna kröfu hans um endurupptöku, verið unnt að yfirgefa landið en hann ekki gert það eða komið hingað á ný eftir að hafa yfirgefið landið án þess að hann hafi verið kvaddur fyrir dóm vegna kröfu sinnar um endurupptöku málsins.
    Fallist dómþoli skriflega á þær aðgerðir sem tilgreindar eru í 1. mgr. skulu þau stjórnvöld, sem taka ákvörðun um þær aðgerðir, senda dómsmálaráðuneytinu afrit eða ljósrit af samþykki dómþola og skal ráðuneytið þegar tilkynna stjórnvöldum í erlenda ríkinu um þetta.

II. KAFLI


Fullnusta samkvæmt samningnum um flutning dæmdra manna.


38. gr.


    Dómsmálaráðuneytið ákveður hvort fara eigi þess á leit við erlend stjórnvöld að þau fullnægi viðurlögum samkvæmt samningnum um flutning dæmdra manna.
    Ekki er heimilt að biðja erlent ríki um að fullnægja íslenskum viðurlagaákvörðunum ef talið er að þær ástæður séu fyrir hendi sem lýst er í a–e-liðum 1. mgr. 22. gr. og ætla má að þær komi í veg fyrir að fallist verði á beiðni um fullnustu í erlenda ríkinu.
    Dómsmálaráðuneytið ákveður hvort verða skuli við beiðni erlends stjórnvalds um að íslenskum viðurlögum verði fullnægt í því ríki að uppfylltum skilyrðum skv. 2. mgr.

III. KAFLI


Fullnusta samkvæmt öðrum samningum eða einstökum ákvörðunum.


39. gr.


    Dómsmálaráðuneytið ákveður hvort fara eigi þess á leit við erlend stjórnvöld að þau fullnægi viðurlögum á grundvelli samninga skv. 4. mgr. 2. gr. eða með heimild í 1. mgr. 3. gr.
    Ekki er heimilt að biðja erlent ríki um að fullnægja íslenskum viðurlagaákvörðunum ef talið er að skilyrði fyrir flutningi í viðkomandi samningi kæmu í veg fyrir að fallist verði á beiðni um fullnustu í erlenda ríkinu.
    Dómsmálaráðuneytið ákveður hvort verða skuli við beiðni erlends stjórnvalds um að íslenskum viðurlagaákvörðunum verði fullnægt í því ríki að uppfylltum skilyrðum skv. 2. mgr.

IV. KAFLI


Sameiginleg ákvæði.


40. gr.


    Þegar þess hefur verið farið á leit við erlent ríki að það fullnægi viðurlögum er ekki heimilt að hefja fullnustu sömu viðurlaga hér á landi nema dómþoli sé hér í gæsluvarðhaldi eða um sé að ræða viðurlög sem fela í sér frjálsræðissviptingu.
    Fullnægja skal þó viðurlögunum hér á landi ef beiðni um fullnustu erlendis er afturkölluð áður en erlenda ríkið tilkynnir að það ætli að taka beiðnina til efnislegrar meðferðar eða þegar erlenda ríkið tilkynnir að það hafni beiðni um fullnustu. Sama gildir ef erlenda ríkið hættir við að fullnægja viðurlögunum eða eigi er unnt að fullnægja þeim þar.

41. gr.


    Þegar beðið er um fullnustu erlendis á íslenskri viðurlagaákvörðun er felur í sér frjálsræðissviptingu og dómþoli er sviptur frelsi hér á landi eða er hér staddur skal flytja hann til erlenda ríkisins eins fljótt og unnt er eftir að það ríki hefur tilkynnt að það fallist á beiðni um fullnustu og hefur heitið að virða meginreglur 30. gr. um þann sem sviptur er frelsi í erlendu ríki og fluttur hingað til lands nema íslensk stjórnvöld hafi veitt samþykki skv. 42. gr.

42. gr.


    Þegar fullnægja á íslenskri viðurlagaákvörðun erlendis, sbr. 41. gr., getur dómsmálaráðuneytið samkvæmt beiðni stjórnvalda í erlenda ríkinu samþykkt, án tillits til takmarkana skv. 30. gr. og án tillits til þess hvort erlenda ríkið hafi gefið slíkt heiti sem um er getið í 41. gr., að dómþoli verði ákærður, dæmdur eða sviptur frelsi í því ríki til þess að fullnægja megi viðurlögum eða beittur þvingunarúrræðum eða frelsi hans takmarkað á annan hátt vegna annars afbrots sem framið var áður en hann var fluttur til erlenda ríkisins og ekki var dæmt í þeim dómi sem beðið var um fullnustu á í erlenda ríkinu. Slíkt samþykki er einungis heimilt að veita ef unnt hefði verið að framselja dómþola til viðkomandi ríkis vegna afbrotsins og gildir það jafnvel þótt framsal kæmi ekki til greina vegna ákvæða um lágmarkstíma dæmdra viðurlaga.
    Sé það augljóst af því sem fram kemur í beiðninni að eigi sé heimilt að veita umbeðið samþykki skal dómsmálaráðuneytið þegar hafna henni. Í öðrum tilvikum skal ríkissaksóknari tilkynna dómþola um beiðnina og samkvæmt beiðni hans leggja málið fyrir héraðsdóm Reykjavíkur til þess að meta hvort lagaskilyrði séu til staðar svo að verða megi við henni. Telji dómurinn að lagaskilyrði séu ekki fyrir hendi skal beiðninni hafnað.

4. HLUTI


GILDISTAKA O.FL.


43. gr.


    Heimilt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

44. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

45. gr.


    Ekki er heimilt að fullnægja hér á landi viðurlagaákvörðun samkvæmt samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma nema hún hafi verið ákvörðuð eftir að samningurinn öðlaðist gildi milli Íslands og viðkomandi ríkis. Dómsmálaráðuneytið getur þó ákveðið samkvæmt samkomulagi við viðkomandi ríki að ákvæði samningsins gildi einnig um ákvarðanir sem teknar voru áður en samningurinn öðlaðist gildi milli Íslands og viðkomandi ríkis.
    Samkvæmt samningnum um flutning dæmdra manna er heimilt að fullnægja hér á landi viðurlagaákvörðun sem tekin var áður en samningurinn öðlaðist gildi milli Íslands og viðkomandi ríkis.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Almennt.


    Á vegum Evrópuráðsins hafa verið gerðir tveir samningar um fullnustu refsidóma. Sá eldri um alþjóðlegt gildi refsidóma var gerður í Haag 28. maí 1970 og sá yngri um flutning dæmdra manna í Strassborg 21. mars 1983. Báðir samningarnir voru undirritaðir af Íslands hálfu 19. september 1989.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að lögfest verði ákvæði sem nauðsynleg eru til að unnt sé að fullgilda framangreinda samninga. Í frumvarpinu er auk þess gert ráð fyrir að unnt sé að fullnægja hér á landi öðrum erlendum viðurlagaákvörðunum en falla undir framangreinda samninga, bæði samkvæmt öðrum tvíhliða eða marghliða samningum við erlend ríki og einnig samkvæmt einstökum dómum eða ákvörðunum sem íslenskir ríkisborgarar eða erlendir ríkisborgarar búsettir hér á landi hafa hlotið í öðru ríki sem ekki hefur gert samning við Ísland um gagnkvæma fullnustu refsidóma. Jafnframt eru hliðstæð ákvæði um heimild til að fullnægja íslenskum viðurlagaákvörðunum erlendis.
    Megintilgangur Evrópuráðssamninganna er að gera fullnustu viðurlagaákvörðunar mögulega í öðru ríki en þar sem ákvörðunin var tekin. Fullnusturíki er þá oftast heimaríki dómþola. Að baki samningunum búa mannúðarsjónarmið og refsigæslusjónarmið. Það eru annars vegar hagsmunir dómþola af að fá að afplána refsingu í heimalandi sínu og jafnframt það sjónarmið að með þeim hætti sé auðveldara að vinna að félagslegri endurhæfingu hans og búa hann undir komu út í þjóðfélagið á ný. Hins vegar er það sjónarmið að samningarnir stuðli að því að unnt sé að láta mann, sem flúið hefur land eða sætt útivistardómi, taka út refsingu sem hann hefur hlotið í öðru ríki. Á þessu sviði sem og mörgum öðrum hefur þörf á alþjóðlegri samvinnu aukist undanfarin ár í kjölfar aukinna samskipta og ferðalaga milli ríkja sem m.a. leiðir til þess að afbrot eru oftar en áður framin af mönnum sem ekki eru búsettir í því ríki sem afbrotið er framið í.
    Efni samninganna er nátengt og er því lagt til að sett verði í ein lög ákvæði sem gera það mögulegt að fullgilda þá báða. Raunar má segja að yngri samningurinn hafi verið gerður til fyllingar hinum eldri sem uppfyllti ekki að öllu leyti þær væntingar sem til hans voru gerðar. Ástæðan er einkum sú að hann hefur að geyma flóknar og nákvæmar reglur um málsmeðferð og af þeim ástæðum hefur aðild að honum ekki orðið eins víðtæk og vonast var til í upphafi.
    Við gerð samningsins um flutning dæmdra manna var farin sú leið að hafa einfaldari reglur en í eldri samningnum til að tryggja einfaldari og skjótvirkari málsmeðferð. Ákvæði yngri samningsins eru flest rammaákvæði sem veita svigrúm til mats. Í honum eru ekki ákvæði sem fela í sér skyldu fyrir samningsríki til að verða við beiðni um flutning á fullnustu. Það er hins vegar meginreglan samkvæmt samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma en í honum eru einnig nákvæmar reglur um skilyrði fyrir flutningi á fullnustu og á hvaða grundvelli sé unnt að synja beiðni. Samkvæmt honum getur eingöngu það ríki þar sem ákvörðun er tekin (dómsríkið) óskað eftir flutningi á fullnustu en samkvæmt hinum samningnum getur dómþoli og ríki sem hann er ríkisborgari í (fullnusturíkið) einnig sett fram beiðni um fullnustu í því ríki.
    Efni samninganna skarast að nokkru leyti en þrátt fyrir það eru gild rök til að fullgilda þá báða. Eldri samningurinn hefur mun víðtækara gildissvið en sá yngri. Þannig á hann við um fullnustu fleiri viðurlagategunda, þ.e. refsivistar, öryggisráðstafana, fésekta, eignaupptöku og réttindasviptinga, en yngri samningurinn tekur aðeins til refsivistar og öryggisráðstafana. Í þessu sambandi er enn fremur rétt að benda á að þróun alþjóðasamvinnu um fullnustu viðurlaga er í þá átt að auka möguleika á fullnustu annarra viðurlaga en eingöngu viðurlaga sem fela í sér óskilorðsbundna refsivist. Það takmarkar einnig gildissvið yngri samningsins að það er skilyrði fyrir beitingu hans að dómþoli samþykki flutning. Aftur á móti eru það rök fyrir fullgildingu hans að mun fleiri ríki hafa fullgilt hann en eldri samninginn.
    Samkvæmt íslenskum lögum er ekki heimilt að fullnægja erlendum refsidómum nema dómum sem falla undir ákvæði laga um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð o.fl., nr. 69/1963. Þau lög byggja á þeirri meginreglu að færa skuli þá refsingu, sem dæmd hefur verið í þessum löndum og fullnægja má hér á landi, til samsvarandi refsitegundar samkvæmt íslenskum lögum og um jafnlangan tíma. Frumvarpið mun ekki hafa áhrif á gildi þessara laga. Lögin um fullnustu norrænna refsidóma gilda ekki um öryggisráðstafanir, sbr. VII. kafla almennra hegningarlaga, og því munu samningarnir gilda í innbyrðis samskiptum milli Norðurlandanna hvað þær snertir.
    Það er meginregla samkvæmt samningunum að hvert ríki skuli bera þann kostnað sem á fellur vegna samninganna í því ríki, sbr. 14. gr. samningsins um alþjóðlegt gildi refsidóma og 5. mgr. 17. gr. samningsins um flutning dæmdra manna. Fullnusturíkið ber því allan kostnað vegna fullnustu og getur ekki endurkrafið dómsríkið um hann. Samningarnir fela því í sér kostnaðarskuldbindingar en ólíklegt er að kostnaður verði mikill í raun hér á landi þar sem málafjöldi verður ef að líkum lætur ekki mikill og einnig má hugsa sér að einhver kostnaður sparist vegna flutnings fullnustu úr landi.

II. Samningurinn um alþjóðlegt gildi refsidóma.


    Hinn 28. maí 1970 var í Haag gerður samningur á vegum Evrópuráðsins um alþjóðlegt gildi refsidóma.
    Eftirtalin 7 ríki hafa fullgilt samninginn: Austuríki, Danmörk, Holland, Kípur, Noregur, Svíþjóð og Tyrkland.
    Eftirtalin 8 ríki hafa undirritað samninginn: Belgía, Þýskaland, Grikkland, Ísland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal og Spánn.
    Samningurinn skiptist í fjóra hluta. Í I. hluta, sem er aðeins ein grein, eru skilgreiningar á ýmsum hugtökum sem notuð eru í samningnum. Efnisákvæði samningsins eru í II. og III. hluta hans. Þetta frumvarp snertir fyrst og fremst ákvæði II. hluta samningsins, sbr. 2.–52. gr. Í honum eru ákvæði um fullnustu evrópskra refsidóma, svo sem um skilyrði fyrir fullnustu og áhrif þess að hún er flutt milli ríkja, hvernig haga eigi beiðnum um flutning og reglur um útivistardóma og stjórnvaldsákvarðanir um viðurlög „ordonnance pénale“. Í III. hluta samningsins, 53.–57. gr., er fjallað um alþjóðleg áhrif refsidóma. Hann skiptist í tvo kafla. Sá fyrri fjallar um neikvæð áhrif refsidóma, „ne bis in idem“, þ.e. að hvaða leyti refsidómur, sem kveðinn er upp í samningsríki, skuli koma í veg fyrir að dæmt verði í sama málinu í öðru samningsríki. Í þeim seinni eru ákvæði um að hvaða leyti tekið skuli tillit til erlendra refsidóma, t.d. þegar dómþoli hefur sætt dómi í öðru samningsríki vegna annars afbrots. Vegna ákvæða í þessum hluta samningsins er samhliða þessu frumvarpi flutt frumvarp um nauðsynlegar breytingar á almennum hegningarlögum. Í IV. hluta samningsins, 58.–68. gr., eru hefðbundin lokaákvæði um undirritun, fullgildingu o.s. frv.
    II. hluti samningsins felur almennt í sér að samningsríki er skylt að fullnægja refsidómi sem gengið hefur í öðru samningsríki samkvæmt beiðni síðarnefnda ríkisins. Getur bæði staðið svo á að hinn dæmdi sé enn þá í dómsríkinu, en talið sé heppilegt vegna hagsmuna hans og félagslegrar endurhæfingar að hann afpláni refsingu sína í öðru ríki sem oftast væri heimaland hans, eða hann dveljist í því ríki sem óskað er eftir að fullnusta fari fram í, t.d. vegna þess að hann hefur flúið þangað eða um útivistardóm er að ræða. Eins og áður sagði getur samningurinn átt við um frelsissviptingarviðurlög, þar á meðal öryggisgæslu, sektir, eignaupptöku og réttindasviptingu, sbr. 2. gr. Það er forsenda fyrir flutningi að fram komi beiðni frá því ríki þar sem viðurlög voru ákvörðuð (dómsríki), sbr. 3. gr. Það er enn fremur skilyrði að afbrotið sé bæði refsivert samkvæmt lögum dómsríkis og fullnusturíkis, sbr. 4. gr. Dómsríki er aldrei skylt að leggja fram beiðni um flutning fullnustu. Hins vegar er það meginreglan að fullnusturíki skuli verða við beiðni nema einhver af þeim synjunarástæðum, sem tilgreindar eru í samningnum, eigi við, sbr. 4.–7. gr. hans. Í 5. gr. eru tilgreindar aðstæður sem verða að vera fyrir hendi til þess að dómsríki geti lagt fram beiðni um flutning fullnustu. Að minnsta kosti einu af þeim skilyrðum, sem þar eru tilgreind, verður að vera fullnægt. Algengasta ástæðan fyrir beiðni er búseta hins dæmda í fullnusturíki.
    9. gr. felur í sér takmarkanir á heimild fullnusturíkis til að lögsækja mann vegna eldra afbrots eða fullnægja viðurlögum vegna slíks afbrots.
    Framkvæmd fullnustu, þar á meðal veiting reynslulausnar, skal fara að lögum fullnusturíkis, sbr. 10. gr. Bæði ríkin geta veitt sakaruppgjöf og náðun en aðeins dómsríkið getur tekið ákvörðun um endurupptöku máls.
    Fullnusturíki skal bera kostnað vegna fullnustu, sbr. 14. gr.
    Í 15.–20. gr. eru ákvæði um hvernig haga skuli beiðnum um fullnustu. Meginreglan er sú að samskipti ríkja skuli fara fram milli dómsmálaráðuneyta ríkjanna, sbr. 15. gr.
    Í 31.–36. gr. eru ákvæði um bráðabirgðaráðstafanir, svo sem um heimildir til handtöku og beitingu gæsluvarðhalds.
    Í 37.–52. gr. eru nánari ákvæði um ákvörðun um fullnustu. Ef stjórnvöld í fullnusturíki telja skilyrði til að verða við beiðni skal málið lagt fyrir dómstól í því ríki til ákvörðunar viðurlaga. Ef um er að ræða fullnustu á sekt eða eignaupptöku er ákvörðun stjórnvalds fullnægjandi svo framarlega sem hægt er að skjóta henni til dómstóla, sbr. 37. gr. Hinn dæmdi skal eiga rétt á að koma fyrir dóm áður en ákvörðun er tekin, sbr. 39. gr. Dómstólar í fullnusturíki skulu kanna hvort fullnægt sé skilyrðum samningsins fyrir fullnustuflutningi, sbr. 40. gr. Þeir skulu leggja sönnunarfærslu í hinum erlenda dómi til grundvallar án nánari skoðunar, sbr. 42. gr., en hins vegar eiga þeir að færa viðurlög til samræmis við eigin lög og venjubundna framkvæmd. Þetta á ekki við um útivistardóma og stjórnvaldsákvarðanir, „ordonnance pénale“. Sá sem sætt hefur slíkum ákvörðunum á rétt á því að málið verði endurupptekið annaðhvort fyrir dómstóli í fullnusturíki eða í því ríki þar sem ákvörðun var tekin, sbr. 24. gr., og rétt á lögfræðiaðstoð við rekstur slíks máls samkvæmt lögum hlutaðeigandi ríkis, sbr. 27. gr. Um útivistardóma og „ordonnance pénale“ gildir enn fremur sú sérregla að ákvarðanirnar geta verið grundvöllur fyrir beiðni um fullnustuflutning strax eftir að þær hafa verið teknar, sbr. 22. gr. Sú meginregla gildir um ákvörðun viðurlaga í fullnusturíki að viðurlög mega ekki verða þyngri þegar allt er metið en þau viðurlög sem voru ákvörðuð í dómsríkinu. Hins vegar hafa dómstólar heimild til að milda dæmd viðurlög til samræmis við venjubundna framkvæmd í því ríki, sbr. 44. gr.
    Samningurinn gildir aðeins um fullnustu viðurlaga sem voru ákvörðuð eftir að hann tók gildi milli hlutaðeigandi ríkja, sbr. 68. gr. hans.

III. Samningurinn um flutning dæmdra manna.


    Hinn 21. mars 1983 var í Strassborg gerður samningur á vegum Evrópuráðsins um flutning dæmdra manna.
    Eftirtalin 22 ríki hafa fullgilt hann: Austurríki, Bahama, Bandaríkin, Belgía, Bretland, Danmörk, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Kanada, Kípur, Lúxemborg, Malta, Noregur, Spánn, Svíþjóð, Sviss, Tékkóslóvakía, Tyrkland og Þýskaland.
    Eftirtalin 5 ríki hafa undirritað hann: Ungverjaland, Ísland, Írland, Liechtenstein og Portúgal.
    Samningurinn er 25 greinar.
    Í 1. og 2. gr. eru skilgreiningar og almennar grundvallarreglur. Í 2. mgr. 2. gr. kemur fram að dæmdur maður getur látið í ljós ósk um að verða fluttur til annars samningsríkis til að afplána viðurlög sem hann hefur verið dæmdur til og í 3. mgr. 2. gr. kemur fram að bæði dómsríki og fullnusturíki geta einnig lagt fram ósk þar að lútandi.
    Í 3. gr. eru tilgreind skilyrði fyrir flutningi. Mikilvægasta skilyrðið er að dómþoli sé ríkisborgari fullnusturíkisins. Í 4. mgr. 3. gr. kemur fram að samningsríki getur með yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins skilgreint hvernig það sem fullnusturíki telji að túlka beri hugtakið ríkisborgari. Verður það gert hvað Ísland varðar þannig að menn, sem hér eru búsettir, geti fallið undir hugtakið.
    Það er skilyrði að dómur sé endanlegur og að hinn dæmdi eigi eftir að afplána a.m.k. sex mánuði þegar beiðni er lögð fram. Það sem liggur að baki þessari reglu er að endurhæfingarsjónarmið þau, sem samningurinn byggir á, geti tæpast verið fyrir hendi ef skammur tími er eftir af afplánun. Samningsríki geta þó í sérstökum tilvikum samþykkt flutning enda þótt dómþoli eigi eftir að afplána skemmri tíma en sex mánuði, sbr. 2. mgr. 3. gr.
    Það er ófrávíkjanlegt skilyrði að hinn dæmdi eða ef við á löglegur fyrirsvarsmaður hans samþykki flutning. Það er enn fremur skilyrði að athöfn sú eða athafnaleysi, sem dæmt var fyrir, sé refsivert samkvæmt lögum fullnusturíkis og að bæði dómsríki og fullnusturíki samþykki flutning.
    Í 4. gr. eru ákvæði um upplýsingar sem samningsríki skulu veita hinum dæmda og hvort öðru í sambandi við beiðni um flutning. Samningsríki skal veita dæmdum manni, sem samningurinn getur átt við um, upplýsingar um efni hans. Jafnframt skal skýra honum frá öllum aðgerðum og ákvörðunum vegna beiðni um flutning.
    Í 5. og 6. gr. eru ákvæði um hvernig haga skuli beiðni um flutning og hvaða gögn samningsríki skulu senda hvort öðru vegna beiðni. Meginreglan er sú að samskipti milli ríkja skuli fara fram milli dómsmálaráðuneyta ríkjanna.
    Í 7. gr. er áréttað að samþykki hins dæmda skuli gefið af fúsum og frjálsum vilja og hvernig staðfesta eigi að svo sé.
    Í 8. og 9. gr. eru ákvæði um réttaráhrif flutnings. Mælt er fyrir um að fullnusturíki skuli annaðhvort færa dæmd viðurlög með ákvörðun dómstóls eða stjórnvalds til samræmis við eigin lög eða halda áfram fullnustu þeirra viðurlaga sem ákvörðuð voru í dómsríkinu.
    Í 10. og 11. gr. er gerð nánari grein fyrir þessum tveimur leiðum, þ.e. annars vegar áframhaldandi fullnustu, sbr. 10. gr., og hins vegar breytingu á viðurlögum, sbr. 11. gr. Fullnusturíki skal samkvæmt beiðni skýra dómsríki fyrir fram frá hvorri aðferðinni það hyggst beita, sbr. 2. mgr. 9. gr. Samningsríki geta líka farið þá leið að binda sig alfarið við aðra hvora aðferðina með sérstakri yfirlýsingu þar að lútandi til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, sbr. 3. mgr. 3. gr. Slík yfirlýsing leiðir til þess að samningurinn getur ekki átt við í samskiptum ríkja sem hafa bundið sig hvort við sína aðferð og getur því þrengt gildissvið hans.
    Í 12. og 13. gr. eru ákvæði um hvenær dómsríkið og fullnusturíkið geti veitt náðun, sakaruppgjöf, mildað refsingu og endurskoðað dóma.
    Í 14. og 15. gr. eru ákvæði um lok fullnustu og í 16. gr. um skyldur samningsríkja til að heimila að menn séu fluttir um landsvæði þeirra vegna flutnings á fullnustu.
    Í 17.–25. gr. eru m.a. ákvæði um hvaða tungumál eigi að nota í samskiptum ríkja vegna samningsins og um kostnað í sambandi við flutning. Einnig hefðbundinn lokaákvæði um undirritun og fullgildingu samningsins o.fl. Samningurinn getur skv. 21. gr. hans átt við um fullnustu viðurlaga hvort sem þau hafa verið ákvörðuð fyrir eða eftir gildistöku samningsins milli hlutaðeigandi ríkja.

IV. Um ákvæði frumvarpsins.


    Frumvarpið skiptist í fjóra hluta.
    Í fyrsta hluta, 1.–5. gr., eru ákvæði um gildissvið. Þar eru ákvæði m.a. um það hvaða erlendu viðurlagaákvörðunum er heimilt að fullnægja hér á landi.
    Annar hluti samningsins, 6.–34. gr., fjallar um fullnustu erlendra refsidóma hér á landi. Hann skiptist í fjóra kafla.
    Í I. kafla, 6.–21. gr., eru ákvæði um fullnustu viðurlagaákvarðana sem falla undir samninginn um alþjóðlegt gildi refsidóma. Kaflanum er skipt upp í fjóra undirkafla.
    Í undirkafla A, 6.–8. gr., er fjallað um skilyrði þess að heimilt sé að fullnægja evrópskum refsidómi hér á landi. Í undirkafla B, 9.–16. gr., eru ákvæði um það hvernig beiðni um fullnustu skuli könnuð og um meðferð mála í því sambandi. Í undirkafla C, 17.–18. gr., eru ákvæði um í hvaða tilvikum og að uppfylltum hvaða skilyrðum sé heimilt að beita dómþola þvingunaraðgerðum, svo sem handtöku eða gæsluvarðhaldi, vegna beiðni um flutning á fullnustu. Í undirkafla D, 19.–21. gr., eru sérákvæði um málsmeðferð þegar beðið er um fullnustu á útivistardómi, þ.e. dómi þar sem dómþoli hefur ekki verið viðstaddur réttarhöld í málinu.
    Í II. kafla annars hluta, 22.–25. gr., eru ákvæði um það þegar fullnægt er hér á landi viðurlagaákvörðunum á grundvelli samningsins um flutning dæmdra manna og í III. kafla, 26.–27. gr., eru ákvæði um það þegar fullnusta fer fram samkvæmt öðrum samningum en um alþjóðlegt gildi refsidóma og um flutning dæmdra manna og þegar fullnægt er hér á landi erlendum viðurlagaákvörðunum án þess að til staðar sé tvíhliða eða marghliða samningur við viðkomandi ríki um fullnustu refsidóma.
    Í IV. kafla, 28.–34. gr., eru ýmis sameiginleg ákvæði um málsmeðferð þegar erlendum viðurlagaákvörðunum er fullnægt hér á landi.
    Þriðji hluti frumvarpsins, 35.–42. gr., fjallar um fullnustu íslenskra viðurlagaákvarðana erlendis. Hann skiptist í fjóra kafla.
    Í I. kaflanum, 35.–37. gr., eru ákvæði um fullnustu samkvæmt samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma. Í II. kafla, 38. gr., um fullnustu samkvæmt samningnum um flutning dæmdra manna og í III. kafla, 39. gr., um fullnustu samkvæmt öðrum samningum eða einstökum ákvörðunum þegar ekki er í gildi samningur við viðkomandi ríki. Í IV. kafla, 40.–42. gr., eru sameiginleg ákvæði um málsmeðferð við fullnustu íslenskra viðurlagaákvarðana erlendis.
    Í fjórða hluta frumvarpsins, 43.–45. gr., eru ákvæði um gildistöku, heimild til setningar reglugerðar o.fl.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. er það almennt skilyrði þess að fullnægja megi erlendum viðurlagaákvörðunum hér á landi samkvæmt ákvæðum frumvarpsins að í gildi sé tvíhliða eða marghliða samningur um fullnustu refsidóma milli Íslands og hlutaðeigandi ríkis.
    Í a- og b-liðum eru síðan talin upp þau viðurlög sem heimilt er að fullnægja hér á landi á grundvelli framangreindra samninga. Samkvæmt a-lið er heimilt að fullnægja viðurlögum um fésektir, frjálsræðissviptingar, réttindasviptingar eða upptöku eigna þegar slík viðurlög eru ákveðin af dómstólum að lokinni meðferð í samræmi við réttarfar í sakamálum í viðkomandi ríki. Skiptir í þessu sambandi ekki máli hvort slík viðurlagaákvörðun dómstóls er tekin með dómi eða annars konar úrlausn, enda sé slík úrlausn í samræmi við réttarfarslög í viðkomandi ríki. Samkvæmt b-lið er einnig heimilt að fullnægja hér á landi ákvörðunum stjórnvalda um viðurlög sem fela í sér greiðslu sekta, upptöku eigna eða réttindasviptingar, t.d. sviptingu ökuréttinda, enda séu ákvæði í viðkomandi samningi, sem Ísland hefur fullgilt, um að ákvæði hans taki einnig til slíkra stjórnvaldsákvarðana.
    Samkvæmt b-lið 1. gr. samningsins um alþjóðlegt gildi refsidóma skulu verknaðir, sem ekki eru taldir afbrot, en sem fjallað er um í lagaákvæðum þeim sem tilgreind eru í viðauka II við samninginn, taldir til afbrota samkvæmt samningnum að því tilskildu að þar sem ákvæði þessi fela stjórnvaldi ákvörðunarvald geti maður sá, sem í hlut á, borið málið undir dómstól. Þetta þýðir m.a. að ef stjórnvöld í erlendu ríki ákvarða viðurlög fyrir verknað sem telst afbrot hér á landi, en ekki er samkvæmt lögum þess ríkis hægt að bera þá ákvörðun undir dómstóla, þá verður slíkri viðurlagaákvörðun ekki fullnægt hér á landi samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.
    Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. samningsins skal fullnusta á viðurlögum, sem ákvörðuð eru með „ordonnance pénale“, vera háð sömu reglum og fullnusta annarra dóma nema annað sé tekið fram í samningnum. Samkvæmt g-lið 1. gr. samningsins merkir „ordonnance pénale“ sérhverja ákvörðun sem tekin er í öðru samningsríki og er tilgreind sem slík í viðauka III við samninginn. Lögreglustjórasáttir skv. 2. mgr. 115. gr. laga um meðferð opinberra mála falla undir þetta hugtak. Reglurnar um fullnustu á „ordonnance pénale“ taka samkvæmt samningnum til sömu viðurlaga og heimilt er að fullnægja samkvæmt dómum. Í framkvæmd kemur þó varla til að viðurlög, sem fela í sér frjálsræðissviptingu, séu ákvörðuð með þessum hætti og tekur b-liður 1. mgr. mið af því.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um að dómsmálaráðuneytið ákveði í samræmi við áðurgreinda samninga hvort íslenskum viðurlögum um fésektir, frjálsræðissviptingar, réttindasviptingar eða upptöku eigna, sem ákvörðuð eru af dómstólum, hvort heldur er með dómi eða viðurlagaákvörðun skv. 1. mgr. 124. gr. laga um meðferð opinberra mála, verði fullnægt í öðru ríki. Ef í samningi eru ákvæði um fullnustu á viðurlögum samkvæmt stjórnvaldsákvörðunum er einnig heimilt að fela viðkomandi ríki að fullnægja lögreglustjórasáttum skv. 2. mgr. 115. gr. laga um meðferð opinberra mála, enda hafi sakborningur fallist á slík viðurlög. Í þessu sambandi skal tekið fram að samkvæmt samningunum um alþjóðlegt gildi refsidóma og um flutning dæmdra manna er aldrei skylt að fara þess á leit við annað ríki að það fullnægi viðurlögum. Ekki er hægt að útiloka að íslensk stjórnvöld taki í öðrum samningum á sig skyldu til að flytja fullnustu á viðurlögum til annars ríkis við sérstakar aðstæður. Er því orðalag í upphafi 2. mgr. með þeim hætti að dómsmálaráðuneytið ákveði í samræmi við samninga skv. 1. mgr. hvort fullnusta verði falin stjórnvöldum í öðru ríki.

Um 2. gr.


    Meginefni þessarar greinar er að tilgreina hvaða ákvæði frumvarpsins gildi þegar fullnusta á viðurlögum er flutt milli ríkja á grundvelli samninga skv. 1. gr.
    Í 1. mgr. eru ákvæði um það hvaða ákvæði frumvarpsins gildi þegar viðurlagaákvörðun er fullnægt hér á landi eða beðið er um fullnustu í öðru ríki á grundvelli samningsins um alþjóðlegt gildi refsidóma. Þegar fullnusta á viðurlögum er flutt milli ríkja samkvæmt ákvæðum samningsins þarf bæði Ísland og hlutaðeigandi ríki að hafa fullgilt samninginn eða gerst aðili að honum með öðrum hætti í samræmi við ákvæði 58. og 59. gr. samningsins.
    Í 2. mgr. er kveðið á um hvaða ákvæði frumvarpsins gildi þegar viðurlagaákvörðun er fullnægt hér á landi eða beðið er um fullnustu í öðru ríki á grundvelli samningsins um flutning dæmdra manna.
    Í 3. mgr. er ákvæði um að heimilt sé að gera tvíhliða eða marghliða samninga við ríki, sem fullgilt hafa framangreinda tvo samninga, um viðbætur við þá til að auðvelda framkvæmd meginreglna þeirra. Þetta ákvæði er í samræmi við 2. mgr. 64. gr. samningsins um alþjóðlegt gildi refsidóma og 2. mgr. 22. gr. samningsins um flutning dæmdra manna.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að dómsmálaráðuneytið ákveði, þegar erlendum viðurlögum er fullnægt hér á landi samkvæmt öðrum samningum en tilgreindir eru í 1. eða 2. mgr., hvernig könnuð verði skilyrði þess að fullnægja megi hér á landi erlendum viðurlögum sem falla undir ákvæði viðkomandi samnings eða íslenskum viðurlögum erlendis samkvæmt sömu samningum. Í slíkum samningum eru ávallt ákvæði um hvaða skilyrðum þarf að vera fullnægt til að unnt sé að biðja annað ríki um að fullnægja viðurlögum. Er hér átt við hvernig þau skilyrði verði könnuð en ekki er gert ráð fyrir að sett verði sérstök lög þótt aðrir samningar en tilgreindir eru í 1. og 2. mgr. greinarinnar verði fullgiltir. Í þessari málsgrein eru jafnframt ákvæði um að almenn ákvæði frumvarpsins um fullnustu erlendra viðurlaga hér á landi og íslenskra viðurlaga erlendis gildi, eftir því sem við getur átt, þegar viðurlögum er fullnægt á grundvelli slíkra samninga. Æskilegt er að ákvæði í slíkum samningum verði sem sambærilegust við ákvæði um könnun skilyrða samkvæmt þeim samningum er tilgreindir eru í 1. og 2. mgr.

Um 3. gr.


    Eins og fram kemur í umfjöllun um 1. gr. er það almennt skilyrði þess að fullnægja megi erlendri viðurlagaákvörðun hér á landi að í gildi sé samningur milli Íslands og viðkomandi ríkis um fullnustu refsidóma. Í þessari grein er lagt til að dómsmálaráðuneytinu geti verið heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að ákveða að erlendri viðurlagaákvörðun verði fullnægt hér á landi enda þótt samningur sé ekki í gildi. Samkvæmt greininni þarf þeim skilyrðum að vera fullnægt að ráðuneytið telji að sérstakar ástæður séu fyrir hendi, að dómþoli sé íslenskur ríkisborgari eða búsettur hér á landi og að viðurlagaákvörðunin sé tekin af dómstóli.
    Megintilgangur þessarar greinar er að heimila fullnustu á viðurlögum, sem Íslendingar hljóta í erlendu ríki, hér á landi þótt milli Íslands og þess ríkis, þar sem viðurlög voru ákvörðuð, sé ekki í gildi samningur um flutning á fullnustu. Slíkur flutningur á fullnustu viðurlaga getur þó ekki farið fram nema bæði ríkin samþykki það. Þótt ekki sé getið um það í greininni er ekkert því til fyrirstöðu að íslensk stjórnvöld hafi frumkvæði að flutningi dæmds manns samkvæmt henni. Þá er í greininni einnig gert ráð fyrir að dómsmálaráðuneytinu sé heimilt að ákveða að íslenskum viðurlögum verði fullnægt í öðru ríki að uppfylltum sömu skilyrðum og þegar erlendum viðurlögum er fullnægt hér á landi samkvæmt greininni. Þetta ákvæði er sett m.a. vegna þess að líklegt er að viðkomandi ríki óski eftir gagnkvæmri tilhögun.
    Þegar flutningur á fullnustu fer fram samkvæmt þessari grein gilda almenn ákvæði frumvarpsins um fullnustu erlendra viðurlaga hér á landi og íslenskra viðurlaga erlendis eftir því sem við getur átt.
    Ákvæði þessarar greinar geta einnig átt við þegar gerður hefur verið almennur samningur við annað ríki um flutning á fullnustu með ákvæði um að hann gildi einungis um viðurlög sem ákvörðuð eru eftir gildistöku hans. Þá væri unnt í einstökum tilvikum, ef sérstakar ástæður mæla með því, að taka ákvörðun um flutning á fullnustu viðurlaga sem ákvörðuð voru fyrir gildistöku samningsins. Samkvæmt ákvæðinu er einnig heimilt að flytja fullnustu á viðurlögum sem ákvörðuð eru áður en ákvæði frumvarpsins verða að lögum. Ef á reyndi væri það forsenda að viðkomandi dómþoli samþykki flutninginn.

Um 4. gr.


    Í 4. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að lög um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð o.fl., nr. 69/1963, gangi framar ákvæðum frumvarpsins.
    Samkvæmt þeim lögum er heimilt að fullnægja hér á landi sektarrefsingu sem aðila hefur verið gerð í þessum ríkjum og gagnkvæmt. Sama gildir um ákvarðanir, sem varða upptöku eigna, sakarkostnað í opinberum refsimálum og einkarefsimálum og hald á eignum grunaðra manna til tryggingar sektargreiðslum, eignaupptöku, skaðabótum, miskabótum eða sakarkostnaði í refsimálum.
    Sama gildir um fullnustu refsivistar samkvæmt dómum sem kveðnir hafa verið upp annars staðar á Norðurlöndum og gagnkvæmt.
    Lögin um fullnustu á norrænum refsidómum taka ekki til fullnustu á öryggisráðstöfunum skv. VII. kafla almennra hegingarlaga, en unnt væri að fullnægja slíkum viðurlögum, sem ákvörðuð eru í öðru norrænu ríki, á grundvelli ákvæða frumvarpsins.

Um 5. gr.


    Í 1. mgr. er skilgreining á hugtakinu „evrópskur refsidómur“ eins og það er notað í ákvæðum frumvarpsins. Það er skilgreint þannig að átt sé við dóm eða aðra ákvörðun sem fullnægja má samkvæmt samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma. Með annarri ákvörðun er bæði átt við ákvarðanir dómstóla um viðurlög án þess að um dóm sé að ræða, sbr. hér á landi ákvarðanir um viðurlög skv. 1. mgr. 124. gr. laga um meðferð opinberra mála og stjórnvaldsákvarðanir um viðurlög, sbr. það sem áður sagði um „ordonnance pénale“. Skilgreining hugtaksins á einungis við um viðurlög sem ákvörðuð eru í ríki sem er aðili að samningnum. Vakin er athygli á því að í frumvarpinu er hugtakið notað í víðtækari merkingu en í samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma, sbr. skilgreiningu hugtaksins í a-lið 1. gr. samningsins, að því leyti að það er einnig látið ná yfir „ordonnance pénale“. Í viðauka III með samningnum er listi yfir þau viðurlög sem falla undir hugtakið „ordonnance pénale“ í einstökum samningsríkjum. Samkvæmt 62. gr. samningsins eru samningríki skuldbundin til að tilkynna jafnóðum um allar lagabreytingar sem varða þessar ákvarðanir.
    Í 2. mgr. er hugtakið útivistardómur skilgreint. Átt er við viðurlagaákvörðun samkvæmt samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma sem tekin er með dómi eða annarri ákvörðun dóms eða stjórnvalds án þess að dómþoli eða sá sem sætir viðurlögunum hafi sjálfur komið fyrir dóm. Meðferð málsins þarf að hafa farið fram í samræmi við lög um réttarfar í sakamálum í viðkomandi ríki.
    Í 3. mgr. er skilgreint hvernig hugtakið viðurlög er notað í ákvæðum frumvarpsins. Ef ekki er annað tekið fram á það við um fésektir, frjálsræðissviptingar, réttindasviptingar og upptöku eigna, en það eru þau viðurlög sem heimilt er að flytja fullnustu á milli ríkja samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.

Um 6. gr.


    Í 1. mgr. kemur fram að evrópskum refsidómi verði ekki fullnægt hér á landi nema samkvæmt beiðni stjórnvalda í öðru ríki og er sú krafa í samræmi við 2. mgr. 3. gr. samningsins. Með öðru ríki er átt við ríki þar sem ákvörðun um viðurlög var tekin. Í þessu sambandi skal tekið fram að ríki er aldrei skylt að óska eftir því við annað ríki að það fullnægi viðurlögum samkvæmt ákvæðum samningsins jafnvel þótt það geti ekki sjálft fullnægt þeim.
    Í a–h-liðum eru síðan tilgreind þau skilyrði sem verða að vera til staðar svo að fullnægja megi erlendri viðurlagaákvörðun hér á landi.
    Samkvæmt a-lið verður evrópskum refsidómi ekki fullnægt hér á landi nema hann sé endanlegur og er það ákvæði í samræmi við a-lið 1. gr. samningsins þar sem evrópskur refsidómur er skilgreindur sem endanleg ákvörðun sakadóms samningsríkis að lokinni málsmeðferð samkvæmt sakamálaréttarfari. Þegar sagt er að dómur sé endanlegur er átt við dóm sem ekki verður áfrýjað og heimilt er að fullnægja í dómsríkinu eða dóm æðra eða æðsta dómstigs viðkomandi ríkis og er það í samræmi við 1. mgr. 3. gr. samningsins. Í 16. gr. samningsins er ákvæði um að stjórnvöld í ríki, sem biður um fullnustu, skuli staðfesta að heimilt sé að fullnægja viðurlögunum.
    Í samningnum er gerð undantekning varðandi þetta skilyrði þegar um er að ræða fullnustu á útivistardómi eða „ordonnance pénale“. Samkvæmt 22. gr. samningsins má þegar eftir uppkvaðningu slíkra viðurlaga senda þau til annars ríkis í þeim tilgangi að þeim verði fullnægt þar og til að dómþola verði tilkynnt um þessi viðurlög. Ríki, sem beiðni er beint til, er ekki heimilt að hafna slíkri beiðni á þeirri forsendu einni að viðurlögin séu ekki endanleg, sbr. 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt b-lið þarf verknaðurinn sem leiddi til viðurlaganna í erlenda ríkinu einnig að vera refsiverður samkvæmt íslenskum lögum og áskilið er að dómþoli hefði bakað sér refsiábyrgð samkvæmt íslenskum lögum hefði verknaðurinn verið framinn hér á landi. Þó er sú undantekning gerð að það kemur ekki ófrávíkjanlega í veg fyrir flutning að sakborningur hefði ekki bakað sér refsiábyrgð vegna þess að hann hefur ekki náð sakhæfisaldri, sbr. tengsl þessa ákvæðis við g-lið 7. gr. Ákvæðið er í samræmi við 1. mgr. 4. gr. samningsins.
    Samkvæmt c-lið er það meginregla að erlendum viðurlögum verði ekki fullnægt hér á landi ef dómþoli er ekki búsettur hér á landi. Í þessum lið eru gerðar þrjár undantekningar frá þessari reglu. Í fyrsta lagi ef fullnusta hér á landi eykur líkur á félagslegri endurhæfingu dómþola, í öðru lagi ef um er að ræða viðurlög sem fela í sér frjálsræðissviptingu og unnt er að fullnægja þeim hér á landi í tengslum við fullnustu annarra slíkra viðurlaga hér og í þriðja lagi ef dómþolinn er frá Íslandi. Ákvæðin í c-lið eru í samræmi við a–d-liði 5. gr. samningsins. Erfitt er að gefa nákvæma skilgreiningu á því hvað átt sé við með orðasambandinu, „að dómþolinn sé frá Íslandi“, en um er að ræða þýðingu á „state of origin“, sbr. d-lið 5. gr. samningsins. Samkvæmt athugsemdum við hann er ekki eingöngu átt við að maður hafi ríkisborgararétt í hlutaðeigandi landi heldur einnig að hann hafi búið í landinu um lengri tíma. Ólíklegt er að nokkurn tíma reyni á þetta ákvæði en gera yrði strangar kröfur um tengsl dómþola við Ísland, a.m.k. ef hann teldi sjálfur að hann væri ekki frá Íslandi. Með því að fullnusta auki líkur á félagslegri endurhæfingu dómþola er átt við þau tilvik þegar líklegt er að hann setjist að hér á landi eftir að viðurlögum hefur verið fullnægt.
    Samkvæmt d-lið er ekki heimilt að fullnægja erlendum viðurlögum hér á landi ef fullnusta hér væri andstæð grundvallarreglum íslenskra laga. Þetta ákvæði er í samræmi við a-lið 6. gr. samningsins.
    Samkvæmt e-lið er ekki heimilt að fullnægja erlendum viðurlögum hér á landi ef fullnusta væri andstæð þjóðréttarskuldbindingum íslenska ríkisins. Þetta ákvæði er í samræmi við d-lið 6. gr. samningsins.
    Í f- og g-liðum eru ákvæði um að ekki sé heimilt að fullnægja viðurlögum hér á landi ef fullnusta hér væri andstæð reglum samningsins um „ne bis in idem“ sem um er fjallað í 53.–55. gr. samningsins. Þessi ákvæði eru í samræmi við 7. gr. samningsins.
    Kröfur samningsins um viðurkenningu á „ne bis in idem“ hafa í för með sér að ríki, sem fær beiðni um fullnustu viðurlaga, má ekki verða við henni ef dómþoli hefur með dómi í því ríki sem beðið er um fullnustu eða öðru samningsríki verið sýknaður eða dæmdur til viðurlaga fyrir sama verknað og þeim viðurlögum hefur þegar verið fullnægt eða verið er að fullnægja þeim. Sama gildir ef viðurlögin hafa fallið niður vegna fyrningar, náðunar eða sakaruppgjafar í því ríki eða dómþoli verið sakfelldur en honum ekki gerð sérstök refsing. Vegna reglna samningsins um „ne bis in idem“ er talið rétt að setja ákvæði um að þessi tilvik útiloki fullnustu erlendrar viðurlagaákvörðunar hér á landi. Þessi ákvæði geta einnig haft í för með sér að dómur vegna sama verknaðar, sem kveðinn er upp í ríki sem ekki er aðili að samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma, getur verið grundvöllur fyrir synjun um fullnustu viðurlaga. Í greininni er ákvæðinu um „ne bis in idem“ skipt upp í tvo stafliði. Í f-lið eru ákvæði um gildi íslenskra dóma og lögreglustjórasátta og í g-lið eru ákvæði um gildi dóma sem kveðnir eru upp í öðru ríki en því sem biður um fullnustu.
    Í h-lið er ákvæði um að ekki sé heimilt að fullnægja erlendum viðurlögum hér á landi ef það væri talið að öðru leyti andstætt samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma. Þetta ákvæði getur t.d. átt við þegar viðurlög eru ákvörðuð af stjórnvaldi og ekki er hægt að kæra þá ákvörðun til dómstóls. Hugsanlegt er að fleiri tilvik en talin eru upp í a–g-liðum geti samkvæmt samningnum komið í veg fyrir að heimilt sé að fullnægja erlendri viðurlagaákvörðun hér á landi og er þetta ákvæði því sett.

Um 7. gr.


    Auk þeirra atriða, sem skv. 6. gr. koma í veg fyrir að unnt sé að fullnægja evrópskum refsidómi hér á landi, eru í a–h-liðum þessarar greinar tilgreind atriði sem geta verið grundvöllur þess að synjað sé um fullnustu á evrópskum refsidómi en ekki er skylt að hafna beiðni þótt þau séu til staðar.
    Samkvæmt a-lið er heimilt að hafna beiðni ef verknaðurinn, sem leiddi til viðurlaganna, telst stjórnmálaafbrot eða varðar við herlög. Þetta ákvæði er í samræmi við b-lið 6. gr. samningsins.
    Samkvæmt b-lið er heimilt að hafna beiðni ef gild ástæða er til að ætla að dómur hafi gengið eða viðurlög orðið þyngri en ella vegna kynþáttar, þjóðernis, trúar eða stjórnmálaskoðana dómþola. Er þetta ákvæði í samræmi við c-lið 6. gr. samningsins. Vakin er athygli á því að í upphafi þessa stafliðar er talað um gilda ástæðu. Er þar um að ræða þýðingu á enska texta samningsins þar sem talað er um „substantial grounds“.
    Samkvæmt c-lið er heimilt að hafna beiðni ef rannsókn stendur yfir hér á landi vegna verknaðar sem leiddi til viðurlaganna, ákæra hefur verið gefin út, ákveðið hefur verið að bjóða sakborningi að ljúka máli með lögreglustjórasátt eða tekin hefur verið ákvörðun um að höfða ekki mál vegna verknaðarins. Þetta ákvæði er í samræmi við e- og f-liði 6. gr. samningsins. Í athugasemdum við þessa liði samningsins kemur fram að heimilt er að synja um fullnustu vegna þessara atriða þótt rannsókn hafi ekki hafist í ríki, sem beðið er um fullnustu, fyrr en beiðni um fullnustu viðurlaganna barst og beiðnin hafi verið ástæða þess að rannsókn hófst.
    Samkvæmt d-lið er heimilt að hafna beiðni ef verknaðurinn, sem leiddi til viðurlaganna, var ekki framinn í því ríki sem biður um fullnustu. Þetta ákvæði er í samræmi við g-lið 6. gr. samningsins.
    Samkvæmt e-lið er heimilt að hafna beiðni ef ekki er talið unnt að fullnægja viðurlögunum hér á landi. Þetta ákvæði er í samræmi við h-lið 6. gr. samningsins. Hér er t.d. átt við þau tilvik að dómþoli finnist ekki hér á landi.
    Samkvæmt f-lið er heimilt að hafna beiðni ef telja má að ríki, sem biður um fullnustu, geti sjálft fullnægt viðurlögunum. Þetta ákvæði er í samræmi við j-lið 6. gr. samningsins. Þetta ákvæði er sett til að hvetja samningsríki til samstarfs um mat á því hvar haganlegast sé að fullnægja viðurlögunum með tilliti til hagsmuna dómþóla. Ákvæðið á helst við þegar aðstæður hafa breyst eftir að beðið hefur verið um flutning á fullnustu.
    Samkvæmt g-lið er heimilt að hafna beiðni ef dómþoli var ekki orðinn 15 ára gamall þegar afbrotið var framið. Þetta ákvæði er í samræmi við k-lið 6. gr. samningsins. Samkvæmt 14. gr. almennra hegningarlaga er ekki heimilt að dæma mann til refsingar hér á landi ef hann var ekki orðinn 15 ára þegar afbrot var framið. Þetta er ein af grundvallarreglum II. kafla hegningarlaga um almenn refsiskilyrði. Sakhæfisaldur er almennt mismunandi í Evrópu og það eru því gild rök til að heimilt sé að meta hvort flytja eigi hingað til lands fullnustu viðurlaga sem Íslendingur hefur hlotið í erlendu ríki áður en hann varð 15 ára, sbr. að þessi tilvik eru undanþegin í b-lið 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Þegar viðurlög eru ákvörðuð hér á landi á ný vegna verknaðarins er heimilt í þessum tilvikum að taka eðlilegt tillit til ungs aldurs dómþola.
    Samkvæmt h-lið er heimilt að hafna beiðni ef viðurlög teldust fyrnd samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um fyrningu viðurlaga. Þetta ákvæði er í samræmi við l-lið 6. gr. samningsins. Taka ber fram í þessu sambandi að þótt sök væri fyrnd samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga leiðir það ekki til þess að heimilt væri að synja um fullnustu samkvæmt þessu ákvæði.
    Samkvæmt 2. mgr. skulu aðgerðir, sem gerðar voru í ríkinu sem bað um fullnustu til þess að rjúfa fyrningu samkvæmt lögum þess ríkis, hafa sömu áhrif hér á landi þegar metið er hvort viðurlög eru fyrnd skv. h-lið 1. mgr. Þetta ákvæði er í samræmi við 8. gr. samningsins.

Um 8. gr.


    Þegar í erlendum dómi er dæmt fyrir fleiri en einn verknað er meginreglan sú að þeir þurfa allir að vera refsiverðir samkvæmt íslenskum lögum og dómþoli að hafa bakað sér refsiábyrgð vegna þeirra allra að íslenskum lögum hefðu verknaðirnir verið framdir hér á landi. Þótt þessi skilyrði séu ekki uppfyllt varðandi alla verknaðina er samt heimilt að fullnægja þeim hluta viðurlaganna sem eru fyrir verknaði sem uppfylla framangreind skilyrði ef í viðurlagaákvörðuninni er tilgreint hvaða hluti viðurlaganna er vegna þeirra verknaða sem uppfylla skilyrðin eða slík tilgreining er í beiðni erlendu stjórnvaldanna. Þetta ákvæði er í samræmi við 2. mgr. 4. gr. samningsins.

Um 9. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. skal beiðni um fullnustu erlendrar viðurlagaákvörðunar send dómsmálaráðuneytinu og er það í samræmi við 1. mgr. 15. gr. samningsins.
    Samkvæmt 2. mgr. skal ráðuneytið þegar hafna beiðni ef beðið er um fullnustu á dómi sem ekki fellur undir ákvæði samningsins og jafnframt gera nokkurs konar forkönnun á því hvort hafna beri beiðni samkvæmt a–h-liðum 2. mgr. 6. gr. Ef talið er að ekki sé heimilt að fullnægja viðurlagaákvörðuninni hér á landi, af þeim ástæðum sem þar eru tilgreindar, skal beiðni þegar hafnað. Í málsgreininni er jafnframt kveðið á um að ekki sé heimilt að hafna beiðni um að fullnægja útivistardómi af þeirri ástæðu einni að hann sé ekki endanlegur. Þetta ákvæði er í samræmi við 22. gr. samningsins.
    Samkvæmt 3. mgr. kannar dómsmálaráðuneytið hvort hafna beri beiðni af ástæðum er tilgreindar eru í einstökum liðum 1. mgr. 7. gr. Ráðuneytið hefur endanlegt ákvörðunarvald um hvort beiðni verði hafnað samkvæmt ákvæðum 7. gr., með þeirri undantekningu þó að héraðsdómur skal kanna hvort heimilt sé að fullnægja viðurlögum vegna ákvæða í b- og h-liðum 7. gr.
    Sé beiðni ekki hafnað eftir könnun dómsmálaráðuneytisins skv. 2. eða 3. mgr. skal ráðuneytið senda ríkissaksóknara beiðnina til frekari meðferðar.

Um 10. gr.


    Samkvæmt upphafi 1. mgr. leggur ríkissaksóknari málið fyrir héraðsdóm Reykjavíkur, nema annað leiði af ákvæðum 16. eða 19.–21. gr. frumvarpsins, en héraðsdómur skal kanna hvort skilyrði laganna fyrir því að fullnægja megi viðurlögunum hér á landi séu uppfyllt og ákvarða ný viðurlög í stað þeirra erlendu í samræmi við íslenska lagaframkvæmd, sbr. 11. og 12. gr. frumvarpsins. Þetta ákvæði er í samræmi við 37. gr. samningsins. Rétt er að benda á að skv. 28. gr. frumvarpsins gilda lög um meðferð opinberra mála við meðferð þessara mála nema annað sé tekið fram í ákvæðum frumvarpsins.
    Í 1. mgr. er einnig ákvæði um að ef beiðni um fullnustu lýtur að eignum annars manns en dómþola skuli höfða sérstak mál gegn þeim manni nema hann hafi komið fyrir dóm við meðferð málsins í erlenda ríkinu.
    Samkvæmt 2. mgr. skal dómþola gefinn kostur á að tjá sig um fullnustubeiðni og hann yfirheyrður fyrir dómi ef hann óskar þess. Þetta ákvæði er í samræmi við 1. mgr. 39. gr. samningsins. Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 39. gr. samningsins er í þessari málsgrein gerð sú undantekning frá meginreglunni um að dómþola skuli gefinn kostur á að koma fyrir dóm að ef hann er sviptur frelsi í því ríki sem biður um fullnustu skal dómstóll meta að honum fjarstöddum hvort skilyrði séu til að fullnægja viðurlögunum hér á landi, en fresta skal ákvörðun nýrra viðurlaga, sbr. 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins. Rökin fyrir þessari undantekningarreglu eru þau að ekki skuli flytja dómþola hingað til lands fyrr en dómstóll hefur metið hvort skilyrði séu til að fullnægja viðurlögunum hér á landi. Væri hann fluttur hingað til lands fyrr væri sú áhætta tekin að flytja yrði hann til baka ef dómstóll teldi að hafna bæri beiðni.

Um 11. gr.


    Í 1. mgr. eru ákvæði um það hvaða skilyrði skuli metin af dómstólnum og er lagt til að hann meti hvort ákvæði 2. mgr. 6. gr. og b- og h-liða 7. gr. standi því í vegi að fullnægja megi erlendu viðurlögunum hér á landi. Er þetta ákvæði í samræmi við 40. gr. samningsins.
    Samkvæmt 2. mgr. metur dómstóllinn ekki að nýju hvort dómþoli uppfylli skilyrði refsiábyrgðar vegna verknaðarins. Þetta ákvæði er í samræmi við 42. gr. samningsins þar sem segir að ríki, sem beðið er um fullnustu, skuli hlíta niðurstöðum um málavöxtu eins og þær koma fram í ákvörðuninni eða á er byggt í henni. Þetta er ein af þeim meginreglum sem gilda þegar fullnusta á viðurlögum er flutt milli ríkja, þ.e. að ekki er heimilt að meta á ný í því ríki sem beðið er um að fullnægja viðurlögunum hvort dómþoli er sekur um þann verknað sem hann er dæmdur fyrir. Þegar héraðsdómur metur hvort fullnægja megi erlendum viðurlögum hér á landi er hann bundinn af sakarmati erlenda dómstólsins eða stjórnvaldanna. Sérreglur eru um útivistardóma hvað þetta snertir, sbr. 3. mgr. 20. gr. frumvarpsins.
    Héraðsdómur skal taka ákvörðun með dómi, sbr. 2. mgr. 29. gr. frumvarpsins.

Um 12. gr.


    Í 1. mgr. kemur fram sú meginregla samningsins að þegar dómstóll telur heimilt að fullnægja erlendum viðurlögum hér á landi skuli hann ákvarða ný viðurlög í stað þeirra erlendu. Nýju viðurlögin skulu vera eins og þau viðurlög sem yrðu dæmd samkvæmt íslenskum lögum fyrir sambærilegt afbrot. Í 13.–15. gr. frumvarpsins eru nánari ákvæði um það þegar ný viðurlög eru ákvörðuð. Þetta ákvæði er í samræmi við það sem kemur beint fram í 1. mgr. 44. gr. samningsins og óbeint í 1. mgr. 45. og 1. mgr. 46. gr. samningsins. Af reglu 1. mgr. leiðir að þegar ný viðurlög eru ákvörðuð geta þau verið annars eðlis en þau sem ákvörðuð voru í erlenda ríkinu og þegar um frjálsræðissviptingu er að ræða getur tímalengd hennar verið önnur en í erlenda ríkinu.
    Þegar dómstóll hefur metið að dómþola fjarstöddum hvort skilyrði séu til að fallast á beiðni um að erlendum viðurlögum verði fullnægt hér á landi skal skv. 2. mgr. ekki ákvarða ný viðurlög fyrr en honum hefur verið gefinn kostur á að koma fyrir dóm. Í athugasemdum við 10. gr. er nánar gerð grein fyrir forsendum þessarar reglu.

Um 13. gr.


    Í þessari grein er fjallað nánar um það þegar erlendum frjálsræðissviptingar- og sektarviðurlögum er breytt.
    Samkvæmt 1. mgr. skal gæta þess þegar erlendri viðurlagaákvörðun, sem felur í sér frjálsræðissviptingu, er breytt að íslensku viðurlögin séu ekki þyngri en þau erlendu. Þegar erlendu viðurlögin eru vægari en vægustu viðurlög sem liggja við afbrotinu samkvæmt íslenskum lögum er heimilt að ákvarða vægari viðurlög en samkvæmt íslenskum lögum. Þetta ákvæði er undantekning frá meginreglu 1. mgr. 12. gr. frumvarpsins um að ákvarða skuli hér á landi viðurlög sem samkvæmt íslenskum lögum yrðu dæmd fyrir sambærilegt afbrot. Ákvæðið er í samræmi við 1. mgr. 44. gr. samningsins.
    Samkvæmt 2. mgr. skal breyta erlendum sektarviðurlögum í íslenskar krónur með þeim hætti að íslenska fjárhæðin samsvari þeirri erlendu miðað við kaupgengi viðkomandi gjaldmiðils þegar ákvörðun um viðurlög er tekin hér á landi. Þó má slík sekt ekki fara fram úr þeirri hámarkssekt sem liggur við sambærilegu afbroti samkvæmt íslenskum lögum. Ákvæðið er í samræmi við 45. gr. samningsins.
    Í 3. mgr. er áréttuð sú meginregla samningsins að í stað fésekta megi ekki ákvarða þyngri viðurlög hér á landi en fésektir.

Um 14. gr.


    Samkvæmt þessari grein skal, þegar ný viðurlög eru ákvörðuð hér á landi, taka tillit til þess hluta viðurlaganna sem þegar hefur verið fullnægt í erlenda ríkinu og þess tíma sem dómþoli hefur verið í haldi eða gæsluvarðhaldi vegna sama afbrots hvort heldur er hér á landi eða erlendis. Þessi regla er í samræmi við 3. mgr. 44. gr. samningsins. Ákvæði þessarar greinar eru að því leyti frábrugðin reglum íslenskra laga um frádrátt gæsluvarðhaldsvistar, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga, að hér er gert ráð fyrir því að taka skuli tillit til framangreindra atriða í samræmi við íslenskar reglur þegar viðurlögin eru ákvörðuð í stað þess að þessi tími komi til frádráttar eftir að viðurlög hafa verið dæmd. Í greininni er einnig lagt til að þegar tekið hafi verið tillit til þessa tíma megi ákvarða vægari viðurlög en liggja við sambærilegu afbroti hér á landi, þ.e. að ef lágmarksrefsing liggur við afbrotinu samkvæmt íslenskum lögum megi fara niður úr því lágmarki.

Um 15. gr.


    Í 1. mgr. eru ákvæði um hvernig með eigi að fara þegar tiltekin fjárhæð eða verðmæti eru gerð upptæk. Gildir þá sama regla og þegar breyta á erlendum sektarviðurlögum í íslenskar krónur, sbr. 2. mgr. 13. gr., þ.e. að ákvarða skal íslensku fjárhæðina þannig að hún samsvari þeirri erlendu miðað við kaupgengi viðkomandi gjaldmiðils þegar ákvörðun um viðurlög er tekin hér á landi. Þar sem ekki er í íslenskum lögum tilgreind hámarksfjárhæð sem gera má upptæka er í þessari málsgrein jafnframt sett sú takmörkun að ef upptæka fjárhæðin er hærri en sú fjárhæð sem gerð yrði upptæk samkvæmt íslenskum lögum, ef málið væri rekið hér á landi, skuli dómurinn lækka fjárhæðina til samræmis við réttarframkvæmd hér. Þetta ákvæði er í samræmi við 1. mgr. 45. gr. samningsins. Samkvæmt íslenskum lögum verður eignaupptaka ekki ákvörðuð í stað refsingar. Er því ekki ástæða til að taka upp í þessa grein frumvarpsins ákvæði 2. mgr. 45. gr. samningsins um að leggja eignaupptöku að jöfnu við önnur viðurlög.
    Samkvæmt 2. mgr. skal munur sem gerður er upptækur í erlenda dómnum því aðeins gerður upptækur hér að íslensk lög heimili slíka eignaupptöku vegna sambærilegs afbrots. Þetta ákvæði er í samræmi við 1. mgr. 46. gr. samningsins. Af sömu ástæðu og tilgreind er í síðustu málsgrein um 2. mgr. 45. gr. samningsins eru ákvæði 2. mgr. 46. gr. hans ekki tekin upp í frumvarp þetta.
    3. mgr. þarfnast ekki skýringa.

Um 16. gr.


    Í 1. mgr. eru ákvæði um að ef beiðni um fullnustu erlendra viðurlaga hér á landi varði eingöngu innheimtu sekta eða upptöku eigna sé ríkissaksóknara sjálfum heimilt að kanna skilyrði fyrir fullnustu viðurlaganna hér á landi og breyta þeim í íslensk viðurlög í stað þess að leggja málið fyrir dóm. Skilyrði þess, að honum sé heimilt að fara þessa leið, er að heimilt sé samkvæmt íslenskum lögum að ljúka málinu skv. 2. mgr. 115. gr. laga um meðferð opinberra mála. Með tilvísun til þessarar greinar er bæði átt við að afbrot sé þess eðlis að heimilt sé að ljúka málinu með þessum hætti og að viðurlög fari ekki fram úr þeim viðurlögum sem heimilt er að beita þegar þetta ákvæði er notað.
    Samkvæmt 2. mgr. skal ríkissaksóknari leggja málið fyrir dómstól, í samræmi við ákvæði frumvarpsins, fallist dómþoli ekki á þessa málsmeðferð.
    Samkvæmt 37. gr. samningsins er sú málsmeðferð, sem hér er tilgreind, heimiluð um sektir og upptöku eigna ef unnt er að bera slíka ákvörðun undir dómstól. Í þessari grein frumvarpsins er þessi heimild löguð að íslenskri réttarframkvæmd að öðru leyti en því að samkvæmt greininni er það ríkissaksóknari sem tekur ákvörðun um hvort þessi heimild verði notuð og breytir viðurlögunum, en skv. 2. mgr. 115. gr. laga um meðferð opinberra mála eru það lögreglustjórar sem bjóða sakborningi að ljúka máli að hætti þeirrar greinar. Ef sakborningur fellst ekki á þessa málsmeðferð fer málið fyrir dómstóla og er talið að áskilnaði samningsins um málskot til dómstóla sé þar með fullnægt.

Um 17. gr.


    Í þessari grein er fjallað um beitingu þvingunaraðgerða í tengslum við fullnustu á evrópskum refsidómi hér á landi. Ákvæði þessarar greinar frumvarpsins eru samin með hliðsjón af 31.–33. gr. samningsins.
    Samkvæmt 1. mgr. getur ríkissaksóknari ákveðið að dómþoli skuli handtekinn og lagt fyrir dóm kröfu um að hann verði úrskurðaður í gæsluvarðhald. Skilyrði þess er að ríki hafi beðið um fullnustu viðurlaga hér á landi eða það hafi tilkynnt dómsmálaráðuneytinu að það hyggist biðja um fullnustu viðurlaga hér á landi og óskað eftir því að dómþoli verði handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald.
    Í a- og b-liðum 2. mgr. eru tilgreind þau skilyrði sem þurfa að vera til staðar svo heimilt sé að handtaka dómþola og úrskurða hann í gæsluvarðhald. Til þess að þessum úrræðum verði beitt þarf skilyrði a-liðar ávallt að vera fullnægt og a.m.k. öðru þeirra skilyrða sem tilgreind eru í b-lið.
    Samkvæmt a-lið þarf verknaður að íslenskum lögum að varða þyngri refsingu en eins árs fangelsi. Er þar um að ræða strangari skilyrði en skv. 65. gr. stjórnarskrárinnar og 103. gr. laga um meðferð opinberra mála, en þar er miðað við að verknaður geti varðað fangelsisrefsingu. Þessi tímamörk eru valin með hliðsjón af þeim tímamörkum sem gilda um verknaði sem geta leitt til framsals sakamanna skv. 3. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 32. gr. samningsins er miðað við að gæsluvarðhald sé heimilt samkvæmt lögum þess ríkis sem beðið er um fullnustu.
    Auk þess skilyrðis, sem greinir í a-lið, þarf skv. b-lið einnig að vera ástæða til að ætla að dómþoli hyggist koma sér undan fullnustu viðurlaganna eða, ef um útivistardóm er að ræða, hætta á að hann spilli sakargögnum. Þessi ákvæði eru í samræmi við b-lið 1. mgr. 32. gr. samningsins.
    Samkvæmt 3. mgr. getur ríkissaksóknari í stað gæsluvarðhalds krafist þess að úrræðum 110. gr. laga um meðferð opinberra mála verði beitt, þ.e. að lagt verði fyrir dómþola að halda sig á ákveðnu svæði, honum bönnuð brottför af landinu o.s.frv. Þótt slíkt ákvæði sé ekki í samningnum þykir rétt að slík heimild sé til staðar þegar t.d. bann við brottför úr landi telst nægileg trygging fyrir nærveru dómþola. Hér er einnig lagt til að þessum úrræðum megi beita þótt brot varði minna en eins árs fangelsisrefsingu, sbr. a-lið 2. mgr.
    Í 4. mgr. er lagt til að heimilt verði að beita dómþola þvingunaraðgerðum án þess að skilyrði a-liðar 2. mgr. sé uppfyllt þegar hann hefur ekki fasta búsetu hér á landi og ástæða er til að óttast að hann muni yfirgefa landið til að komast undan fullnustu. Dómþoli verður þó ekki úrskurðaður í gæsluvarðhald samkvæmt þessu ákvæði nema brot hans varði fangelsisrefsingu, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.
    Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. frumvarpsins gilda ákvæði laga um meðferð opinberra mála m.a. um það hvenær gæsluvarðhaldi skuli ljúka eða dómþoli látinn laus. Í 5. mgr. er sérákvæði um lok gæsluvarðhalds sem úrskurðað er samkvæmt heimild í þessari grein. Samkvæmt ákvæðinu skal hann látinn laus þegar samanlagður gæsluvarðhaldstími hans hér á landi og sá tími, sem hann hefur verið sviptur frelsi í erlenda ríkinu, er orðinn jafnlangur og sá tími sem hann var dæmdur til frjálsræðissviptingar í erlenda dómnum. Þetta ákvæði er í samræmi við a-lið 2. mgr. 33. gr. samningsins.
    Í 6. mgr. er einnig sérákvæði um lok gæsluvarðhalds í þeim tilvikum þegar dómþoli er úrskurðaður í gæsluvarðhald áður en formleg beiðni um fullnustu hefur borist en þá skal hann látinn laus er hann hefur verið í haldi í 18 daga og beiðni um fullnustu hefur ekki borist innan þess tíma. Þessi tímamörk reiknast frá því að dómþoli var handtekinn vegna kröfu um gæsluvarðhald samkvæmt ákvæðum greinarinnar. Þetta ákvæði er í samræmi við b-lið 2. mgr. 33. gr. samningsins.

Um 18. gr.


    Í þessari grein er lagt til að ríkissaksóknara sé heimilt að taka ákvörðun um að leggja hald á eign ef hún er gerð upptæk í dómi sem beðið er um að fullnægja. Samkvæmt greininni er skilyrði haldlagningar að heimilt væri að leggja hald á eignina samkvæmt íslenskum lögum væri málið rekið hér á landi. Í greininni eru einnig ákvæði um að heimilt sé að beita ákvæðum X. kafla laga um meðferð opinberra mála um tryggingarráðstafanir ef slíkar ráðstafanir eru taldar nauðsynlegar. Ákvæði þessarar greinar eru í samræmi við ákvæði 36. gr. samningsins.

Um 19. gr.


    Í þessari grein frumvarpsins eru sérákvæði um það þegar beiðni lýtur að fullnustu á útivistardómi. Útivistardómur er skv. 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins dómur eða ákvörðun sem tekin er án þess að dómþoli eða sá sem sætir viðurlögum hafi komið fyrir dóm við meðferð málsins. Í slíkum tilvikum getur útivistardómur einnig tekið til viðurlaga samkvæmt „ordonnance pénale“. Samkvæmt 3. mgr. 21. gr. samningsins teljast þó ekki til útivistardóma í skilningi samningsins útivistardómar, sem staðfestir hafa verið eða kveðnir upp eftir að dómþoli hefur krafist endurupptöku í dómsríkinu, eða útivistardómur sem kveðinn er upp af áfrýjunardómstól eftir að dómþoli hefur áfrýjað dómi hins lægra dómstigs.
    Í 1. mgr. eru ákvæði um upphafsaðgerðir ríkissaksóknara þegar beiðni lýtur að fullnustu á útivistardómi. Í stað þess að leggja málið fyrir dóm til ákvörðunar um hvort fullnægja megi viðurlögunum hér á landi skal hann senda dómþola tilkynningu um dóminn og fullnustubeiðnina. Í slíkri tilkynningu skal ríkissaksóknari gefa dómþola kost á innan 30 daga frá móttöku tilkynningarinnar að krefjast endurupptöku á málinu og tilgreina að slík krafa skuli send ríkissaksóknara. Berist slík krafa ekki skal með málið farið skv. 10.–16. gr. frumvarpsins. Ákvæði þessarar málsgreinar eru í samræmi við ákvæði 23. og 29. gr. samningsins. Í 23. gr. eru nákvæmari ákvæði um innihald tilkynningar til dómþola. Í stað þess að öll þau atriði, sem þar koma fram, séu talin upp í ákvæðum laganna þykir eðlilegra að ákvæði þar að lútandi séu sett í reglugerð skv. 43. gr. frumvarpsins. Í 29. gr. segir að krefjist dómþoli ekki endurupptöku á útivistardómi skuli litið svo á að máli hafi verið lokið eftir að ákærði hafi komið fyrir dóm og eru lokaákvæði 1. mgr. í samræmi við það.
    Í 2. og 3. mgr. eru ákvæði um hvernig bregðast eigi við þegar dómþoli krefst endurupptöku á útivistardómi. Ákvæðin eru í samræmi við 1. mgr. 24. gr. samningsins. Í málsgreininni er einnig ákvæði um að þegar mál vegna endurupptöku erlends útivistardóms er rekið hér á landi skuli málsmeðferð fara fram fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.

Um 20. gr.


    Í þessari grein frumvarpsins eru sérákvæði um málsmeðferð fyrir héraðsdómi þegar hann fær til meðferðar kröfu um endurupptöku á erlendum útivistardómi. Að öðru leyti gilda ákvæði laga um meðferð opinberra mála, sbr. 1. mgr. 28. gr. frumvarpsins.
    Í 1. mgr. eru ákvæði um að þegar héraðsdómur fái til meðferðar kröfu um endurupptöku erlends útivistardóms skuli hann gefa út fyrirkall til dómþola um að mæta í því þinghaldi þegar krafa hans er tekin til meðferðar og að slíkt þinghald megi ekki án samþykkis dómþola fara fram fyrr en 21 dagur er liðinn frá því að honum var birt fyrirkallið. Ákvæðið er í samræmi við 1. mgr. 26. gr. samningsins.
    Samkvæmt 2. mgr. skal kröfu dómþola um endurupptöku hafnað ef hann mætir ekki til þinghalds þótt hann hafi móttekið fyrirkall eða þegar dómstóllinn telur ekki ástæðu til að endurupptaka málið. Þegar slík ákvörðun er endanleg skal fjalla um beiðni um fullnustu samkvæmt almennum reglum frumvarpsins. Þessi ákvæði eru í samræmi við 2. mgr. 26. gr. samningsins.
    Þegar héraðsdómur ákveður að fallast á kröfu dómþola um að endurupptaka málið skal hann skv. 3. mgr. meta skilyrði refsiábyrgðar samkvæmt íslenskum lögum með sama hætti og sambærilegt afbrot hefði verið framið hér á landi. Slíkt mat skal fara fram án tillits til þess hvort unnt hefði verið að höfða mál hér á landi vegna ákvæða almennra hegningarlaga um refsilögsögu eða aðeins samkvæmt sérstökum fyrirmælum dómsmálaráðherra eða annarra aðila. Ákvæði almennra hegningarlaga um fyrningu sakar og brottfall viðurlaga skulu ekki eiga við. Þegar héraðsdómur hefur ákveðið að endurupptaka erlenda útivistardóminn er litið svo á að hann sé ógildur, sbr. 3. mgr. 26. gr. samningsins.
    Ein af meginreglum samningsins er að sá verknaður, sem leiddi til viðurlaganna í erlenda ríkinu, sé jafnframt afbrot samkvæmt íslenskum lögum ef verknaðurinn hefði verið framinn hér á landi. Ef það kæmi í ljós að sá verknaður, sem leiddi til útivistardómsins, væri ekki refsiverður samkvæmt íslenskum lögum ber að sýkna þann sem framdi verknaðinn.
    Þegar héraðsdómur telur að sakborningur, sem hlaut útivistardóminn, sé sekur og ákveður að dæma hann til refsiábyrgðar skulu viðurlög ákveðin í samræmi við íslenska dómvenju og í samningnum er ekkert sem hindrar að hann hljóti hér á landi þyngri viðurlög en samkvæmt útivistardómnum.
    Ákvæði 3. og 4. málsl. 3. mgr. eru í samræmi við 4. mgr. 26. gr. samningsins.

Um 21. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði um það þegar krafa um endurupptöku á útivistardómi er tekin fyrir hjá erlendum dómstóli. Ef sá dómstóll endurupptekur málið fellur beiðni um fullnustu útivistardómsins hér á landi niður og er það í samræmi við 3. mgr. 25. gr. samningsins. Ef erlendi dómstóllinn hafnar að endurupptaka málið, og slík ákvörðun er endanleg, skal hér á landi litið á dóminn sem endanlegan og beiðni um fullnustu dómsins meðhöndluð í samræmi við það og er þetta í samræmi við 2. mgr. 25. gr. samningsins.

Um 22. gr.


    Í þessari grein og 23.–25. gr. frumvarpsins er fjallað um fullnustu á erlendum viðurlögum hér á landi samkvæmt samningnum um flutning dæmdra manna.
    Sá samningur fjallar eingöngu um flutning á fullnustu viðurlaga sem fela í sér frjálsræðissviptingu. Samkvæmt samningnum er það skilyrði fyrir flutningi á fullnustu slíkra viðurlaga að viðurlögin hafi verið dæmd eða ákvörðuð með öðrum hætti af dómstólum vegna refsiverðra verknaða.
    Samkvæmt 1. mgr. er heimilt að fullnægja hér á landi viðurlögum sem fela í sér frjálsræðissviptingu og ákvörðuð hafa verið með þeim hætti sem hér að framan greinir í ríki sem fullgilt hefur samninginn um flutning dæmdra manna. Í þessu sambandi er rétt að benda á að hugtakið viðurlög er í þessari grein og 23.–25. gr. frumvarpsins notað í þrengri merkingu en samkvæmt skilgreiningu þess í 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins.
    Í a–e-liðum 1. mgr. eru tilgreind þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt svo heimilt sé að fullnægja hér á landi erlendum viðurlögum samkvæmt greininni og er ekki heimilt að fullnægja viðurlögunum hér nema þeim sé öllum fullnægt. Þessi ákvæði eru í samræmi við 3. gr. samningsins. Þessi skilyrði eru, með þeirri undantekningu er greinir í síðari hluta d-liðar, hlutlæg og þarfnast ekki sérstakrar skýringar. Að baki frávikinu í d-lið liggja fyrst og fremst mannúðarsjónarmið.
    Eins og fram kemur í 2. mgr. er heimilt að fullnægja ótímabundnum viðurlögum. Í þeim tilvikum er erfitt að meta hvað dómþoli eigi eftir að vera lengi sviptur frjálsræði og þótti því ákvæði 2. mgr. nauðsynlegt til skýringa.
    Í 3. mgr. eru ákvæði um að beiðnir um fullnustu viðurlaga hér á landi samkvæmt þessari grein skuli sendar dómsmálaráðuneytinu og að ráðuneytið kanni hvort skilyrði séu til að fullnægja viðurlögunum hér á landi samkvæmt samningnum. Eins og áður kom fram er slík könnum fólgin í því að staðreyna hvort ákveðin hlutræn skilyrði séu uppfyllt. Þar sem samningurinn felur ekki í sér skyldu til að verða við beiðni er hugsanlegt að dómsmálaráðuneytið taki ákvörðun um að synja beiðni, enda þótt skilyrðum 1. mgr. sé fullnægt. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. samningsins er það meginregla að beiðnir um fullnustu viðurlaga skuli sendar beint milli dómsmálaráðuneyta viðkomandi ríkja. Í samningnum eru engin ákvæði um hvernig skilyrði þess að fullnægja megi erlendum viðurlögum skuli könnuð í því ríki sem beðið er um fullnustu. Það þýðir í reynd að hverju ríki er í sjálfsvald sett að ákvarða hvernig slík könnun fer fram.
    Samkvæmt 4. mgr. ákveður dómsmálaráðuneytið hvort fara eigi þess á leit við erlend stjórnvöld að erlendum viðurlögum, sem Íslendingur eða maður búsettur hér á landi hefur hlotið, verði fullnægt hér á landi. Þetta er í samræmi við 3. mgr. 2. gr. samningsins en samkvæmt því ákvæði geta bæði dómsríki og fullnusturíki óskað eftir flutningi á fullnustu.

Um 23. gr.


    Samkvæmt 9. gr. samningsins skal fullnægja erlendum viðurlögum í fullnusturíkinu annaðhvort með þeim hætti að fullnustu erlendu viðurlaganna er haldið áfram eða þeim er breytt til samræmis við þau viðurlög sem ákvörðuð yrðu í því ríki fyrir sambærilegt afbrot.
    Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. samningsins getur ríki, þegar það fullgildir samninginn, tilkynnt aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins að það hyggist gagnvart öðrum aðilum einungis beita annarri hvorri framangreindra aðferða við fullnustu viðurlaga.
    Almennt verður að telja æskilegra frá íslenskum sjónarmiðum að erlendum viðurlögum verði breytt til samræmis við þau viðurlög sem ákvörðuð yrðu hér á landi fyrir sambærilegt afbrot. Að útiloka þann möguleika að unnt sé að halda áfram fullnustu erlendra viðurlaga, án þess að þeim sé breytt til samræmis við íslenska dómvenju, hefur þann ágalla að koma í veg fyrir að Ísland geti flutt fullnustu til þeirra ríkja, eða tekið við íslenskum dómþolum frá þeim ríkjum sem einungis heimila áframhaldandi fullnustu. Slíkur fyrirvari takmarkar gildi samningsins. Ástæða þess að samningurinn gerir ráð fyrir að heimilt sé að beita einungis annarri hvorri aðferðinni við flutning á fullnustu er sú að í sumum ríkjum eru stjórnarskrárákvæði sem takmarka rétt viðkomandi ríkja til að fallast á báðar aðferðirnar. Slík takmörkun er ekki í íslensku stjórnarskránni. Það að haldið sé áfram fullnustu erlendra viðurlaga, án þess að þeim sé breytt, getur leitt til þess að dómþoli afpláni hér mun þyngri viðurlög en hann hefði hlotið ef dæmt hefði verið í málinu hér á landi. Í þessu sambandi er þó rétt að hafa í huga að enginn verður fluttur milli ríkja vegna fullnustu nema hann hafi samþykkt það sjálfur.
    Með framangreind sjónarmið í huga er í þessari grein lagt til að unnt sé að velja milli þessara tveggja leiða í hverju tilviki fyrir sig og að það verði dómsmálaráðuneytið sem ákveði hvor aðferðin verði notuð.

Um 24. gr.


    Í þessari grein eru nánari ákvæði um það þegar fullnustu á erlendum viðurlögum er haldið áfram hér á landi án þess að þeim sé breytt. Ákvæðið er í samræmi við 10. gr. samningsins.
    Í 1. mgr. er ákvæði um að heimilt sé að fullnægja viðurlögunum hér á landi án tillits til þess hvort þau séu þyngri en þau hefðu orðið samkvæmt íslenskum lögum fyrir sambærilegt afbrot.
    Í 1. málsl. 2. mgr. er lagt til að dómsmálaráðuneytið breyti viðurlögunum í sem sambærilegasta viðurlagategund að íslenskum lögum. Hér er átt við að erlendu viðurlögunum verði breytt í íslenska refsivistartegund, þ.e. annaðhvort varðhald eða fangelsi eða öryggisgæslu eða aðra gæslu skv. VII. kafla almennra hegningarlaga ef um það er að ræða. Ákvæðið er sambærilegt við upphafsákvæði 4. gr. laga um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð o.fl., nr. 69/1963. Ýmis álitaefni geta komið upp þegar túlka á hvers eðlis erlendu viðurlögin eru. Má þar til nefna að íslensk lög hafa ekki unglingafangelsi sem sérstaka viðurlagategund.
    Í 2. og 3. málsl. 2. mgr. eru ákvæði um að tímalengd erlendu viðurlaganna skuli vera óbreytt þegar þeim er fullnægt hér á landi nema hún fari fram úr því hámarki sem samkvæmt íslenskum lögum er heimilt að dæma fyrir viðkomandi afbrot. Í þeim tilvikum skal laga tímalengdina að því hámarki.

Um 25. gr.


    Í þessari grein eru nánari ákvæði um það þegar erlendu viðurlögunum er breytt og ný viðurlög ákvörðuð fyrir verknaðinn sem samkvæmt íslenskum lögum yrðu dæmd fyrir sambærilegt afbrot. Ákvæði greinarinnar eru í samræmi við 11. gr. samningsins.
    Samkvæmt 1. mgr. felur dómsmálaráðuneytið ríkissaksóknara að leggja málið fyrir héraðsdóm Reykjavíkur til ákvörðunar á nýjum viðurlögum í stað hinna erlendu. Dómurinn á ekki, eins og þegar fullnusta er flutt samkvæmt samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma, að meta hvort skilyrði séu til að fullnægja viðurlögunum hér á landi heldur eingöngu að ákvarða ný viðurlög í stað þeirra erlendu. Í a–e-liðum í 2. mgr. eru tilgreind atriði sem dómstóllinn verður að taka tillit til þegar ný viðurlög eru ákvörðuð. Þau þarfnast ekki sérstakra skýringa.
    Í 3. mgr. er heimild til að úrskurða dómþola í gæsluvarðhald hér á landi þegar hann er fluttur hingað til lands áður en ný viðurlög eru ákvörðuð og ákvæði um að slíkt skuli að jafnaði gert þar til aðfararhæfur dómur liggur fyrir hér á landi. Ákvæðið er í samræmi við 2. mgr. 11. gr. samningsins. Takmarkanir á heimild til beitingar gæsluvarðhalds samkvæmt þessari grein eru ekki aðrar en þær sem fram koma í 65. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. að viðkomandi afbrot varði fangelsisrefsingu.

Um 26. gr.


    Í 4. mgr. 2. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að heimilt sé að fullnægja erlendum viðurlögum hér á landi í samræmi við aðra tvíhliða eða marghliða samninga, sem Ísland kann að gera við önnur ríki, um gagnkvæma fullnustu viðurlaga.
    Í þessari grein frumvarpsins er lagt til að dómsmálaráðuneytið ákveði í samræmi við slíka samninga hvernig ákvæðum I. og IV. kafla eða II. og IV. kafla 2. hluta frumvarpsins skuli beitt í samskiptum við hlutaðeigandi ríki jafnvel þótt í slíkri ákvörðun kunni að felast frávik frá ákvæðum þessara kafla frumvarpsins. Í þessu felst heimild til að beita hluta af ákvæðum frumvarpsins þegar viðurlögum er fullnægt hér á landi í samræmi við slíka samninga. Ef og þegar slíkir samningar eru gerðir við önnur ríki er gert ráð fyrir að ákvarðað verði með reglugerð, sbr. 43. gr. frumvarpsins, hvernig ákvæðum frumvarpsins verði beitt í slíkum tilvikum.

Um 27. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði um fullnustu erlendra viðurlaga hér á landi samkvæmt heimild í 3. gr. frumvarpsins, þ.e. án þess að í gildi sé samningur milli Íslands og þess ríkis þar sem viðurlögin voru ákvörðuð. Flutningur á fullnustu viðurlaga skv. 3. gr. frumvarpsins getur aldrei átt sér stað, nema með samþykki þess ríkis þar sem þau voru ákvörðuð. Í slíku samþykki geta falist skilyrði um hvernig fullnustunni verði háttað hér á landi. Einnig er hugsanlegt að viðkomandi ríki og Ísland geri með sér samkomulag um hvernig haga skuli fullnustunni hér á landi.
    Með hliðsjón af framansögðu er í 1. mgr. lagt til að dómsmálaráðuneytið ákveði, og þá oftast í samræmi við samkomulag við viðkomandi ríki, hvort erlendu viðurlögunum verði fullnægt hér á landi samkvæmt efni sínu eða þeim breytt til samræmis við þau viðurlög sem ákvörðuð yrðu hér á landi fyrir sambærilegt afbrot væri það framið hér. Í þessari málsgrein er jafnframt lagt til að ráðuneytið ákveði hvort mál skuli lagt fyrir dóm í samræmi við I. eða II. kafla 2. hluta frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er fjallað um fullnustu erlendra viðurlaga hér á landi samkvæmt efni sínu. Ákvæðið er sambærilegt við ákvæði 24. gr. frumvarpsins og er vísað til athugasemda við þá grein. Þó skal tekið fram að skv. 3. gr. er gert ráð fyrir að heimilt verði að fullnægja hér á landi ákvörðunum um fésektir, upptöku eigna eða réttindasviptingar, en um slík viðurlög er ekki að ræða skv. 24. gr.
    Í 3. mgr. eru ákvæði um að heimilt sé að innheimta hér á landi erlendar sektir þótt þær séu hærri en hæstu sektir sem dæmdar yrðu hér á landi fyrir sambærilegt afbrot og að það sama gildi þegar um er að ræða upptöku á eignum.
    Í 4. mgr. kemur fram sú meginregla að ekki megi fullnægja erlendum viðurlögum hér á landi með þeim hætti að þau teldust þyngri en í erlenda ríkinu og að taka skuli tillit til þess hluta viðurlaganna sem þegar hefur verið fullnægt í erlenda ríkinu.

Um 28. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að ákvæði laga um meðferð opinberra mála gildi um meðferð mála og beitingu þvingunarúrræða eftir því sem við getur átt og ef annað er ekki tekið fram í ákvæðum frumvarpins þegar fjallað er um fullnustu erlendra viðurlaga hér á landi eða þegar erlendum viðurlögum, sem fullnægja á hér, er breytt af dómstólum til samræmis við íslenska dómvenju. Í fjölmörgum greinum frumvarpsins eru lögð til frávik frá reglum þessara laga en að því leyti, sem slík frávik eru ekki nefnd, gilda almenn ákvæði laga um meðferð opinberra mála. Á þetta t.d. við um réttarstöðu sakbornings, rétt hans til réttargæslumanns eða verjanda, kæruheimildir, áfrýjun ákvarðana o.s.frv. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að ákvæði XXII. kafla laga um meðferð opinberra mála um endurupptöku dæmdra mála eiga ekki við. Ekki þykir ástæða til að setja sérstakt ákvæði þar um heldur leiðir það af þeim ákvæðum frumvarpsins sem segja að íslenskir dómstólar meti ekki að nýju hvort skilyrðum refsiábyrgðar vegna verknaðarins sé fullnægt.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um að fullnusta erlendra viðurlaga hér á landi fari fram í samræmi við almennar reglur íslenskra laga um fullnustu sambærilegra viðurlaga hér á landi nema annað sé ákveðið í ákvæðum frumvarpsins eða samningum við erlend ríki. Á þetta m.a. við um réttarstöðu afplánunarfanga þegar fullnægt er hér á landi erlendum viðurlögum sem fela í sér frjálsræðissviptingu, veitingu reynslulausnar o.s.frv. Þetta ákvæði er í samræmi við ákvæði 10. gr. samningsins um alþjóðlegt gildi refsidóma og 3. mgr. 9. gr. samningsins um flutning dæmdra manna.

Um 29. gr.


    Í 1. mgr. er tekið fram að ríkissaksóknari skuli ekki gefa út ákæru. Ástæða þess er m.a. sú að þegar gefin er út ákæra felst í meðferð þess máls fyrir dómstólum að dómurinn metur hvort ákærði uppfylli skilyrði refsiábyrgðar vegna verknaðar en meginreglan er sú að slíkt mat fer ekki fram í málum sem lögð eru fyrir dóm samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps.
    Í 2. mgr. er ákvæði um að héraðsdómur taki ákvörðun með dómi. Nauðsynlegt þykir að ótvírætt sé hvers eðlis ákvörðun dóms í málum samkvæmt frumvarpinu sé og er eðlilegast að slík ákvörðun sé í formi dóms. Er þá ótvírætt hvaða gildi slík ákvörðun hefur þegar fullnægja á henni og um heimildir og málsmeðferð ef henni er áfrýjað til Hæstaréttar. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að þegar krafist er gæsluvarðhalds, eða beitingar annarra þvingunarúrræða, á grundvelli ákvæða frumvarpsins gilda almenn ákvæði laga um meðferð opinberra mála um form slíkra úrlausna.

Um 30. gr.


    Í 1. mgr. eru ákvæði um að svokölluð „sérregla“ gildi þegar menn eru fluttir til Íslands til að fullnægja erlendum viðurlögum hér á landi. Í reglunni felst að ekki er heimilt að ákæra mann eða dæma eða takmarka á nokkurn hátt frelsi hans hvort heldur er vegna rannsóknar máls eða fullnustu viðurlaga vegna annars afbrots en fullnægja á viðurlögum fyrir hér á landi samkvæmt erlenda dómnum, enda hafi slíkt afbrot verið framið áður en maðurinn var fluttur hingað til lands. Þessi takmörkun á heimild til málsmeðferðar eða fullnustu viðurlaga fellur niður ef erlenda ríkið samþykkir að falla frá þessum skilyrðum eða þegar dómþoli hefur í samfellt 45 daga átt þess kost að yfirgefa Ísland eftir að fullnustu viðurlaga lauk eða hann hefur yfirgefið landið en komið hingað á ný.
    Þetta er meginregla sem gildir almennt þegar menn, sem sviptir eru frjálsræði, eru fluttir milli landa.
    Ákvæðið byggist á 9. gr. samningsins um alþjóðlegt gildi refsidóma en það ákvæði á sér fyrirmynd í 14. gr. Evrópusamnings um framsal sakamanna frá 1957. Varðandi framsal hefur þessi regla verið lögfest hér á landi í 10. gr. almennra hegningarlaga, 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984, og 7. gr. laga um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, nr. 7/1962. Samkvæmt 6. gr. laga um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð o.fl., nr. 69/1963, gildir reglan þegar íslenskum viðurlögum er fullnægt í þessum ríkjum.
    Í 2. mgr. eru undantekningarákvæði frá meginreglu 1. mgr. Ákvæðið á sér fyrirmynd í 2. mgr. 9. gr. samningsins um alþjóðlegt gildi refsidóma.

Um 31. gr.


    Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. frumvarpsins skal viðurlögum fullnægt hér á landi í samræmi við almennar reglur íslenskra laga.
    Í þessari grein frumvarpsins felst það frávik frá framangreindri meginreglu að stöðva skuli fullnustu erlendra viðurlaga hér á landi ef erlenda ríkið tilkynnir að það hafi fallist á beiðni dómþola um náðun, veitt honum sakaruppgjöf eða endurupptekið erlenda dóminn, eða ef í því ríki hafa verið teknar ákvarðanir sem samkvæmt lögum þess ríkis leiða til þess að eigi sé lengur heimilt að fullnægja viðurlögunum.
    Hér er um að ræða reglu sem almennt gildir þegar fullnusta viðurlaga er flutt milli ríkja, sbr. 12. gr. samningsins um alþjóðlegt gildi refsidóma og 14. gr. samningsins um flutning dæmdra manna.

Um 32. gr.


    Í 1. mgr. eru sérákvæði um það þegar fullnusta á erlendum sektarrefsingum er flutt hingað til lands. Samkvæmt ákvæðinu á ekki að innheimta hér á landi þann hluta sektar sem greiddur hefur verið stjórnvöldum í erlenda ríkinu. Ef þar hafa verið teknar ákvarðanir um afborganir eða fresti á greiðslu áður en fullnusta viðurlaganna var flutt hafa slíkar ákvarðanir sama gildi hér á landi. Ákvæðið er í samræmi við 3. mgr. 45. gr. samningsins um alþjóðlegt gildi refsidóma.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um að heimilt sé að beita vararefsingu þegar erlendum sektum er fullnægt hér á landi. Skilyrði þess eru að vararefsing sé heimil samkvæmt lögum erlenda ríkisins og að það ríki hafi ekki tekið fram að eigi skuli ákvarða vararefsingu hér á landi. Ákvæðið á sér fyrirmynd í 48. gr. samningsins um alþjóðlegt gildi refsidóma.
    Samkvæmt 3. mgr. renna innheimtar sektir, svo og peningar og munir sem gerðir eru upptækir hér á landi vegna fullnustu á erlendum viðurlögum hér, til ríkissjóðs. Í ákvæðinu er jafnframt lagt til að dómsmálaráðuneytið geti samkvæmt beiðni erlends ríkis afhent því muni sem gerðir hafa verið upptækir hér á landi samkvæmt erlendri viðurlagaákvörðun og er hér sérstaklega haft í huga að viðkomandi munur hafi sérstakt gildi í erlenda ríkinu. Ákvæðið á sér fyrirmynd í 47. gr. samningsins um alþjóðlegt gildi refsidóma.

Um 33. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að sakarkostnaður, sem til fellur hér á landi vegna málsmeðferðar í framhaldi af beiðni um að fullnægt verði hér á landi erlendum viðurlögum, skuli greiddur úr ríkissjóði. Þykir þetta ákvæði vera í samræmi við þá meginreglu að staða dómþola skuli ekki vera verri en í dómsríkinu þótt viðurlögum sé fullnægt hér á landi.
    Í 2. mgr. er undantekningarregla frá ákvæðum 1. mgr. um erlenda útivistardóma sem enduruppteknir eru hér á landi að kröfu dómþola. Í slíkum tilvikum skulu almennar reglur um greiðslu sakarkostnaðar gilda.
    Í 3. mgr. er heimildarákvæði um að endurkrefja megi dómþola um kostnað vegna flutnings hans hingað til lands. Ákvæðið á sér stoð í greinargerð með 17. gr. samningsins um flutning dæmdra manna.

Um 34. gr.


    Í þessari grein er fjallað um svokallaðan „gegnumflutning“, þ.e. þegar flytja á mann, sem sviptur er frelsi í einu ríki, til annars ríkis til að fullnægja þar viðurlögum. Í þessari grein er lagt til að heimilt verði að flytja slíkan mann um íslenskt yfirráðasvæði. Skilyrði fyrir samþykki er að unnt væri að fullnægja viðurlögunum hér á landi. Þá er í greininni heimild til að hafa viðkomandi mann í haldi hér á landi og kveðið á um að með hann skuli fara eftir því sem gildir um handtekna menn eða gæsluvarðhaldsfanga. Ákvæði greinarinnar eru í samræmi við 13. gr. samningsins um alþjóðlegt gildi refsidóma og 16. gr. samningsins um flutning dæmdra manna.

Um 35. gr.


    Í þessari grein er lagt til að dómsmálaráðuneytið ákveði hvort erlent ríki verði beðið um að fullnægja íslenskum viðurlögum samkvæmt samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma og að slík beiðni skuli ekki sett fram ef talið er að erlenda ríkið telji sér óheimilt að fullnægja viðurlögunum vegna þeirra atriða er greinir í 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Samkvæmt samningnum er samningsríki aldrei skylt að leggja fram beiðni.

Um 36. gr.


    Í þessari grein eru sérákvæði um málsmeðferð hér á landi þegar erlent ríki er beðið um að fullnægja dómi sem kveðinn hefur verið upp hér á landi skv. 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð opinberra mála og það ríki hefur verið beðið um að fullnægja viðurlögunum áður en dómurinn hefur verið birtur og dómþoli krefst þess að málið verið endurupptekið hér á landi. Greinin þarfnast ekki sérstakrar skýringar.

Um 37. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði um að svokölluð „sérregla“ gildi þegar dómþoli er kvaddur hingað til lands vegna kröfu hans um endurupptöku máls skv. 36. gr. Um þessa reglu er fjallað í athugasemdum um 30. gr.
    Ákvæðið er sambærilegt við ákvæði 30. gr. að öðru leyti en því að hér er ekki gert ráð fyrir samþykki erlenda ríkisins heldur þarf að geta þess í fyrirkalli til dómþola að ráðgert sé að beita hann þvingunaraðgerðum eða fullnægja viðurlögum vegna annarra afbrota en dæmd voru í þeim dómi sem hann hefur krafist endurupptöku á. Þá er einnig heimilt að grípa til aðgerða ef hann hefur ekki yfirgefið landið innan 15 daga frá því að dómur tók endanlega afstöðu til kröfu hans um endurupptöku. Í greininni er einnig gert ráð fyrir að hann geti fallist skriflega á þær aðgerðir sem um er fjallað í greininni og ef það er gert skuli dómsmálaráðuneytinu þegar tilkynnt um það og skal ráðuneytið skýra erlendum stjórnvöldum frá slíku samþykki.

Um 38. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði um það þegar erlent ríki er beðið um að fullnægja íslenskum viðurlögum samkvæmt samningnum um flutning dæmdra manna. Ákvæðið er hliðstætt ákvæði 35. gr., sbr. athugasemdir við þá grein, að öðru leyti en því að skv. 3. mgr. ákveður dómsmálaráðuneytið hvort fallist verði á beiðni erlendra stjórnvalda um að íslenskum viðurlögum verði fullnægt í því ríki. Þetta ákvæði er sett til samræmis við ákvæði 3. mgr. 2. gr. samningsins.

Um 39. gr.


    Ákvæðið er hliðstætt 35. og 38. gr. frumvarpsins og fjallar um fullnustu á íslenskum viðurlögum erlendis samkvæmt öðrum samningum en um alþjóðlegt gildi refsidóma og um flutning dæmdra manna og þegar ekki er í gildi samningur við viðkomandi ríki um fullnustu viðurlaga.

Um 40. gr.


    Í 1. mgr. eru ákvæði um að ekki megi fullnægja hér á landi sömu viðurlögum og erlent ríki hefur verið beðið um að fullnægja. Í málsgreininni eru þó undantekningar frá þessari reglu þegar dómþoli er hér í gæsluvarðhaldi eða um er að ræða viðurlög sem fela í sér frjálsræðissviptingu. Ákvæðið á sér fyrirmynd í 11. gr. samningsins um alþjóðlegt gildi refsidóma og 8. gr. samningsins um flutning dæmdra manna.
    Í 2. mgr. er ákvæði um að fullnægja skuli viðurlögunum hér ef beiðni um fullnustu þeirra er afturkölluð áður en erlenda ríkið tilkynnir að það ætli að taka beiðnina til efnislegrar athugunar. Þetta ákvæði getur átt við ef í ljós kemur að dómþoli, sem talinn var dvelja erlendis, er staddur hér á landi. Sama gildir þegar erlenda ríkið tilkynnir að það hafni beiðni um fullnustu íslenskra viðurlaga, það hættir við að fullnægja viðurlögunum eða getur eigi fullnægt þeim, t.d. af því að dómþoli strýkur úr afplánun og yfirgefur það ríki. Í þessum tilvikum er heimilt að fullnægja viðurlögunum hér á landi.

Um 41. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði um það þegar maður, sem sviptur er frjálsræði hér á landi, er fluttur til annars ríkis til afplánunar í því ríki. Í greininni eru ákvæði um að slíkur flutningur skuli fara fram eins fjótt og unnt er eftir að erlenda ríkið hefur fallist á að fullnægja viðurlögunum og lýst því yfir að það muni virða sérregluna sem fjallað er um í 30. gr., nema íslensk stjórnvöld hafi veitt samþykki skv. 42. gr.

Um 42. gr.


    Í 1. mgr. eru ákvæði um að dómsmálaráðuneytið geti veitt undanþágu frá „sérreglunni“ þegar maður sem dæmdur er hér á landi er fluttur til annars ríkis til fullnustu þar á viðurlögum sem fela í sér frjálsræðissviptingu. Skilyrði þess að veita megi slíkt samþykki eru samkvæmt greininni þau að unnt væri að framselja hann til viðkomandi ríkis vegna afbrotsins. Frá þeim reglum má þó víkja þegar fullnægja á dæmdum viðurlögum og þau viðurlög fela í sér frjálsræðissviptingu í skemmri tíma en fjóra mánuði sem er almenna reglan varðandi framsal til fullnustu refsivistar.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um að dómsmálaráðuneytið hafni beiðni ef augljóst er að eigi sé unnt að verða við henni. Í öðrum tilvikum skal ríkissaksóknari tilkynna dómþola um beiðnina og ef hann óskar skal ríkissaksóknari leggja málið fyrir héraðsdóm Reykjavíkur sem metur hvort skilyrði séu til að verða við henni. Þetta ákvæði er í samræmi við þær reglur sem gilda um meðferð framsalsmála.

Um 43. gr.


    Í þessari grein er lagt til að heimilt verði að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd ákvæða frumvarpsins.

Um 44. gr.


    Greinin þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 45. gr.


    Samkvæmt 68. gr. samningsins um alþjóðlegt gildi refsidóma er ekki heimilt að fullnægja viðurlögum nema þau hafi verið ákvörðuð eftir að samningurinn öðlast gildi gagnvart viðkomandi ríki. Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. er í samræmi við þessa reglu. Í 2. málsl. 1. mgr. er dómsmálaráðherra þó veitt heimild, í samræmi við samkomulag við viðkomandi ríki, til að ákveða að samningurinn geti gilt varðandi ákvarðanir sem teknar voru fyrir gildistöku samningsins.
    2. mgr. er í samræmi við 21. gr. samningsins um flutning dæmdra manna og þarfnast ekki sérstakra skýringa.



Fylgiskjal I.


SAMNINGUR


um alþjóðlegt gildi refsidóma.



INNGANGUR


    Aðildarríki Evrópuráðsins, sem undirritað hafa samning þennan, sem telja að baráttan gegn afbrotum, sem í auknum mæli eru að verða alþjóðlegt vandamál, krefjist þess að beitt sé nútímalegum og virkum aðferðum á alþjóðlegum grundvelli, sem telja nauðsynlegt að beita sameiginlegri stefnu í afbrotamálum, er miðist að vernd samfélagsins, sem hafa í huga þánauðsyn að mannréttindi séu virt og stuðlað að endurhæfingu afbrotamanna, sem hafa í huga að markmið Evrópuráðsins er að auka samheldni aðila þess, hafa orðið ásatt um eftirfarandi:

I. HLUTI


Skilgreiningar.


1. gr.


    Í samningi þessum:
    a) merkir „evrópskur refsidómur“ sérhverja endanlega ákvörðun sakadóms samningsríkis að lokinni málsmeðferð samkvæmt sakamálaréttarfari,
    b) er „afbrot“, auk verknaða sem eru talin afbrot í refsirétti, þeir verknaðir sem fjallað er um í lagaákvæðum þeim sem tilgreind eru í viðauka II við samning þennan, að því tilskildu að þar sem ákvæði þessi fela stjórnvaldi ákvörðunarvald geti maður sá sem í hlut á borið málið undir dómstól,
    c) merkir „refsiákvörðun“ ákvörðun viðurlaga,
    d) merkja „viðurlög“ sérhverja refsingu eða aðra ráðstöfun sem vegna afbrots er beinlínis ákvörðuð manni í evrópskum refsidómi eða „ordonnance pénale“,
    e) merkir „réttindasvipting“ sérhvern missi réttinda, tímabundið eða til frambúðar, og sérhverja takmörkun eða missi löghæfis,
    f) merkir „útivistardómur“ sérhverja ákvörðun sem svo er talin vera skv. 2. mgr. 21. gr,
    g) merkir „ordonnance pénale“ sérhverja ákvörðun sem tekin er í öðru samningsríki og er tilgreind sem slík í viðauka III við samning þennan.

II. HLUTI


Fullnusta evrópskra refsidóma.


1. KAFLI


Almenn ákvæði.


a) Almenn skilyrði fyrir fullnustu.


2. gr.


    Þessi hluti á við um:
    a) viðurlög sem hafa í för með sér frjálsræðissviptingu,
    b) sektir og eignaupptöku,
    c) réttindasviptingar.

3. gr.


    1. Í þeim málum og með þeim skilyrðum sem greinir í samningi þessum er samningsríki bært til að fullnægja viðurlögum sem ákvörðuð hafa verið í öðru samningsríki og fullnægja má þar.
    2. Þessari heimild má aðeins beita að beiðni síðarnefnda ríkisins.

4. gr.


    1. Annað samningsríki skal ekki fullnægja viðurlögunum nema sá verknaður, sem viðurlögin voru lögð við, teldist afbrot samkvæmt lögum þess ef það hefði verið framið á landsvæði þess og maður sá sem viðurlögunum skal sæta væri refsiábyrgur ef hann hefði framið verknaðinn þar.
    2. Ef refsiákvörðun er vegna tveggja eða fleiri afbrota og þau fullnægja ekki öll skilyrðum 1. mgr. skal dómsríkið tilgreina þann hluta viðurlaganna sem eiga við um þau afbrot sem fullnægja þeim skilyrðum.

5. gr.


    Dómsríkið má aðeins biðja annað samningsríki að fullnægja viðurlögunum að uppfylltu einu eða fleirum eftirtalinna skilyrða:
    a) að dómþoli hafi fasta búsetu í hinu ríkinu,
    b) að telja megi að fullnusta viðurlaganna í hinu ríkinu auki líkur á félagslegri endurhæfingu hins dæmda,
    c) að unnt sé að fullnægja viðurlögum, sem hafa í för með sér frjálsræðissviptingu, í framhaldi af fullnustu annarra frjálsræðissviptingarviðurlaga er dómþoli sætir eða skal sæta í hinu ríkinu,
    d) að hitt ríkið sé ríki sem dómþoli er frá og það hafi lýst því yfir að það vilji taka ábyrgð á fullnustu viðurlaganna,
    e) að dómsríkið telji sig ekki geta sjálft fullnægt viðurlögunum, jafnvel þótt leitað yrði framsals, en hitt ríkið getur það.

6. gr.


    Beiðni um fullnustu samkvæmt fyrrgreindu ákvæðunum má ekki synja, hvorki að öllu leyti né nokkru, nema:
    a) fullnusta væri andstæð grundvallarreglum laga þess ríkis sem beðið er um fullnustu,
    b) ríkið, sem beðið er um fullnustu, telji afbrot það sem refsing var ákvörðuð fyrir vera stjórnmálalegs eðlis eða eingöngu brot á herlögum,
    c) ríkið, sem beðið er um fullnustu, telji gilda ástæðu til að ætla að refsing hafi verið ákvörðuð eða viðurlög orðið þyngri en ella vegna kynþáttar, trúar, þjóðernis eða stjórnmálaskoðana,
    d) fullnusta myndi ekki samræmast þjóðréttarskuldbindingum þess ríkis sem beðið er um fullnustu,
    e) málsmeðferð vegna verknaðarins standi þegar yfir í ríkinu, sem beðið er um fullnustu, eða það ríki ákveði málsmeðferð vegna verknaðarins,
    f) lögbær stjórnvöld þess ríkis, sem beðið er um fullnustu, hafi ákveðið að höfða ekki mál eða að fella niður málsmeðferð, sem þegar hefur verið byrjuð, vegna sama verknaðar,
    g) verknaðurinn hafi verið framinn utan landsvæðis þess ríkis sem biður um fullnustu,
    h) ríkið, sem beðið er um fullnustu, geti ekki fullnægt viðurlögunum,
    i) beiðnin sé byggð á e-lið 5. gr. og engu öðru skilyrði þeirrar greinar sé fullnægt,
    j) ríkið, sem beðið er um fullnustu, telji ríkið, sem biður um fullnustu, geta sjálft fullnægt viðurlögunum,
    k) ekki hefði mátt lögsækja hinn dæmda í því ríki, sem beðið er um fullnustu, vegna aldurs hans er hann framdi afbrotið,
    l) ekki megi lengur fullnægja viðurlögunum vegna fyrningar samkvæmt lögum þess ríkis sem beðið er um fullnustu,
    m) réttindasvipting hafi verið dæmd og að því leyti sem svo er.

7. gr.


    Beiðni um fullnustu skal ekki sinna ef fullnusta færi í bága við þær meginreglur sem viðurkenndar eru í 1. kafla III. hluta samnings þessa.

b) áhrif flutnings á fullnustu.


8. gr.


    Við beitingu l-liðar 6. gr., svo og fyrirvara sem nefndur er í c-lið viðauka I við samning þennan, skal talið að hver sú gild aðgerð yfirvalda dómsríkisins er frestar eða rýfur fyrningu hafi sömu áhrif við ákvörðun fyrningar í því ríki, sem beðið er um fullnustu, samkvæmt lögum þess ríkis.

9. gr.


    1. Nú er dæmdur maður, sem hefur verið hafður í haldi í því ríki, sem biður um fullnustu, afhentur því ríki, sem beðið er um fullnustu, og skal hann þáekki ákærður, dæmdur eða hafður í haldi í því skyni að koma fram refsiákvörðun eða ákvörðun um öryggisráðstöfun, eða persónulegt frelsi hans á annan hátt skert vegna nokkurs annars afbrots sem framið var fyrir afhendinguna en þess sem refsing sú sem fullnægja skal var ákvörðuð vegna, nema í eftirtöldum tilvikum:
    a) þegar ríkið sem afhenti hann samþykkir það. Bera skal fram beiðni um samþykki, og skulu henni fylgja öll nauðsynleg skjöl og staðfest endurrit af sérhverri yfirlýsingu hins dæmda varðandi viðkomandi afbrot. Veita skal slíkt samþykki þegar afbrotið sem beiðnin lýtur að myndi sjálft varða framsali samkvæmt lögum þess ríkis sem biður um fullnustu eða þegar einungis þyngd refsingar kæmi í veg fyrir framsal,
    b) þegar dómþoli hefur haft tækifæri til að yfirgefa landsvæði þess ríkis sem hann var afhentur til, en hefur ekki gert það innan 45 daga frá því er hann var endanlega látinn laus eða hefur snúið aftur til þess landsvæðis eftir að hafa yfirgefið það.
    2. Ríkið, sem beðið er um fullnustu, getur þógert allar nauðsynlegar ráðstafanir til að fjarlægja viðkomandi frá landsvæði sínu eða allar nauðsynlegar ráðstafanir samkvæmt eigin lögum til að rjúfa fyrningu, þar á meðal með málsmeðferð að sakborningi fjarstöddum.

10. gr.


    1. Fullnusta skal fara fram samkvæmt lögum þess ríkis, sem beðið er um fullnustu, og aðeins það ríki skal bært til að taka allar viðeigandi ákvarðanir, svo sem um reynslulausn.
    2. Aðeins ríkið, sem biður um fullnustu, hefur rétt til að taka ákvörðun um beiðni um endurupptöku máls.
    3. Bæði ríkin mega veita sakaruppgjöf og náðun.

11. gr.


    1. Þegar dómsríkið hefur beðið um fullnustu má það ekki sjálft hefja fullnustu þeirra viðurlaga sem beiðni þess fjallar um. Þómá dómsríkið hefja fullnustu viðurlaga, sem hafa í för með sér frjálsræðissviptingu, ef dómþoli er þegar í haldi á landsvæði þess er beiðnin er borin fram.
    2. Réttur til fullnustu hverfur aftur til ríkis sem biður um fullnustu:
    a) ef það afturkallar beiðni sína áður en ríkið, sem er beðið um fullnustu, tilkynnir því að það ætli að gera ráðstafanir samkvæmt beiðninni,
    b) ef ríkið, sem beðið er um fullnustu, tilkynnir að það neiti að gera ráðstafanir samkvæmt beiðninni,
    c) ef ríkið, sem beðið er um fullnustu, afsalar sér gagngert rétti sínum til fullnustu. Slíkt afsal er aðeins mögulegt ef bæði ríkin sem í hlut eiga samþykkja það eða ef fullnusta er ekki lengur framkvæmanleg í því ríki sem beðið er um fullnustu. Í síðarnefndu tilviki er skylt að afsala rétti til fullnustu ef ríkið sem biður um fullnustu óskar þess.

12. gr.


    1. Þar til bær yfirvöld þess ríkis, sem beðið er um fullnustu, skulu þegar stöðva fullnustu er þau fá vitneskju um náðun, sakaruppgjöf, beiðni um endurupptöku máls eða nokkra aðra ákvörðun sem hefur í för með sér að viðurlögunum verði ekki lengur fullnægt að lögum. Hið sama gildir um fullnustu sektar þegar dómþoli hefur greitt hana til þar til bærs yfirvalds þess ríkis sem biður um fullnustu.
    2. Ríkið, sem biður um fullnustu, skal án tafar tilkynna því ríki, sem beðið er um fullnustu, um hverja þá ákvörðun eða málsmeðferð á landsvæði þess sem veldur brottfalli réttar til fullnustu samkvæmt fyrri málsgrein.

c) Ýmis ákvæði.


13. gr.


    1. Samningsríki skal veita heimild til gegnumflutnings manns, sem hafður er í haldi, um landsvæði sitt, er flytja skal hann til þriðja samningsríkis vegna framkvæmdar samnings þessa og ríkið þar sem maðurinn er í haldi, óskar þess. Gegnumflutningsríkið getur óskað að því verði látið í té sérhvert skjal, sem málið varðar, áður en ákvörðun er tekin um beiðnina. Sá sem fluttur er skal vera áfram í gæslu á landsvæði gegnumflutningsríksins nema ríki það, sem hann er fluttur frá, óski þess að hann verði látinn laus.
    2. Með þeirri undantekningu að beðið sé um gegnumflutning skv. 34. gr. getur samningsríki hafnað gegnumflutningi:
    a) af einhverri þeirra ástæðna er greinir í b- eða c-lið 6. gr.,
    b) vegna þess að sá maður, sem í hlut á, er ríkisborgari þess.
    3. Ef flogið er gilda eftirfarandi ákvæði:
    a) þegar ekki er áætlað að lenda getur ríkið, sem maðurinn er fluttur frá, tilkynnt ríkinu, sem landsvæði það tilheyrir er fljúga á yfir, að viðkomandi maður sé fluttur vegna framkvæmdar samnings þessa. Þurfi óvænt að lenda skal slík tilkynning hafa sama gildi og beiðni um handtöku og gæslu svo sem gert er ráð fyrir í 2. mgr. 32. gr. og skal formleg beiðni um gegnumflutning borin fram,
    b) þegar lending er ráðgerð skal formleg beiðni um gegnumflutning borin fram.

14. gr.


    Samningsríki skulu ekki krefja hvert annað um endurgreiðslu neins kostnaðar vegna framkvæmdar samnings þessa.

2. KAFLI


Beiðni um fullnustu.


15. gr.


    1. Allar beiðnir, sem tilgreindar eru í samningi þessum, skulu vera skiflegar. Þær, svo og öll nauðsynleg erindi vegna framkvæmdar samnings þessa, skal dómsmálaráðuneyti þess ríkis, sem biður um fullnustu, senda til dómsmálaráðuneytis þess ríkis sem beðið er um fullnustu, eða, ef samningsríki verða ásátt um það, beint frá yfirvöldum þess ríkis, sem biður um fullnustu, til yfirvalda þess ríkis, sem beðið er um fullnustu, og skal þeim svarað sömu boðleið.
    2. Ef um áríðandi mál er að ræða má senda beiðnir og erindi fyrir milligöngu Alþjóðalögreglunnar (INTERPOL).
    3. Samningsríki getur í yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins tilkynnt að það ætli að beita öðrum reglum um erindi þau sem fjallað er um í 1. mgr. þessarar greinar.

16. gr.


    Beiðni um fullnustu skal fylgja frumrit eða staðfest afrit þeirrar ákvörðunar, sem óskað er fullnustu á, og öll önnur nauðsynleg skjöl. Frumrit eða staðfest afrit af öllum gögnum refsimálsins, eða hluta þeirra, skulu send því ríki, sem beðið er um fullnustu, ef það óskar þess. Þar til bært yfirvald þess ríkis, sem biður um fullnustu, skal staðfesta að viðurlögin séu fullnustuhæf.

17. gr.


    Ef ríkið, sem beðið er um fullnustu, telur upplýsingar þær sem ríkið, er biður um fullnustu, hefur veitt, ekki nægja til að það geti farið að ákvæðum samnings þessa skal það óska eftir þeim viðbótarupplýsingum sem nauðsynlegar eru. Það getur tilgreint dagsetningu til viðtöku slíkra upplýsinga.

18. gr.


    1. Yfirvöld þess ríkis, sem beðið er um fullnustu, skulu þegar tilkynna yfirvöldum þess ríkis, sem biður um fullnustu, um ráðstafanir sem gerðar eru vegna beiðninnar.
    2. Yfirvöld þess ríkis, sem beðið er um fullnustu, skulu, þegar við á, senda yfirvöldum þess ríkis, sem biður um fullnustu, skjal er staðfestir að viðurlögunum hafi verið fullnægt.

19. gr.


    1. Ekki skal krafist þýðingar á beiðni og fylgiskjölum, sbr. þó2. mgr. þessarar greinar.
    2. Samningsríki getur við undirritun, eða þegar það afhendir skjal sitt um fullgildingu, viðurkenningu- eða aðild, með yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, áskilið sér rétt til að fara fram á að beiðnum og fylgiskjölum þeirra fylgi þýðing á tungumál sitt, eitthvert hinna opinberu tungumála Evrópuráðsins eða á eitt þessara tungumála sem það tilgreinir. Önnur samningsríki geta krafist gagnkvæmni.
    3. Grein þessi skal ekki hafa áhrif á nein ákvæði varðandi þýðingar á beiðnum og fylgiskjölum þeirra sem kveðið kann að vera á um í samningi eða samkomulagi, sem nú er í gildi eða gert kann að verða, milli tveggja eða fleiri samningsríkja.

20. gr.


    Sönnunargögn og skjöl, sem send eru vegna framkvæmdar samnings þessa, þarf ekki að staðfesta.

3. KAFLI


Útivistardómar og „ordonnances pénales“.


21. gr.


    1. Þegar ekki er öðru vísi kveðið á um í samningi þessum skal fullnusta útivistardóma og „ordonnances pénales“ vera háð sömu reglum og fullnusta annarra dóma.
    2. Útivistardómur merkir í samningi þessum, með þeirri undantekningu sem greinir í 3. mgr., hvern þann dóm sem kveðinn er upp í samningsríki að aflokinni meðferð samkvæmt sakamálaréttarfari þar sem dómþoli hefur ekki sjálfur mætt fyrir dómi.
    3. Án þess að það hafi áhrif á ákvæði í 2. mgr. 25. gr., 2. mgr. 26. gr. og 29. gr. skal telja til dóma sem upp eru kveðnir eftir að sakborningur hefur mætt fyrir dómi:
    a) sérhvern útivistardóm og „ordonnance pénale“ sem staðfest hafa verið eða kveðin upp í dómsríkinu eftir að dómþoli hefur krafist endurupptöku,
    b) sérhvern útivistardóm kveðinn upp af áfrýjunardómstól enda hafi dómþoli áfrýjað dómi hins lægra dómstigs.

22. gr.


    Útivistardómar og „ordonnance pénale“, sem ekki hefur enn verið áfrýjað eða krafist endurupptöku á, má þegar eftir uppkvaðningu senda til tilkynningar og hugsanlegrar fullnustu til ríkis sem beiðni er beint til.

23. gr.


    1. Ef ríkið, sem beðið er um fullnustu, telur unnt að gera ráðstafanir samkvæmt beiðni um fullnustu útivistardóms eða „ordonnance pénale“ skal það hlutast til um að dómþola verði sjálfum tilkynnt um úrlausn málsins í því ríki sem biður um fullnustu.
    2. Í tilkynningunni til hins dæmda skal einnig veita upplýsingar um:
    a) að beiðni um fullnustu hafi verið lögð fram samkvæmt samningi þessum,
    b) að eina úrræði hins dæmda sé að krefjast endurupptöku skv.. 24. gr. samnings þessa,
    c) að kröfu um endurupptöku skuli bera fram við þau yfirvöld sem tilgreind eru, að það sé háð 24. gr. samnings þessa hvort krafa um endurupptöku sé tekin til meðferðar og að dómþoli geti æskt þess að yfirvöld dómsríkisins fari með málið,
    d) að verði ekki krafist endurupptöku innan tilgreinds frests muni, að öllu leyti hvað samning þennan varðar, verða litið svo á sem dómurinn hafi verið kveðinn upp eftir að dómþoli hafi mætt fyrir dómi.
    3. Afrit tilkynningarinnar skal þegar sent yfirvaldi því sem bað um fullnustu.

24. gr.


    1. Er tilkynning um úrlausn máls hefur verið birt í samræmi við 23. gr. á dómþoli einungis kost á að krefjast endurupptöku. Slík krafa skal eftir vali hins dæmda annaðhvort tekin til meðferðar hjá þar til bærum dómstól í ríkinu, sem biður um fullnustu, eða ríkinu sem beðið er um fullnustu. Ef dómþoli velur ekki skal þar til bær dómstóll í ríkinu, sem beðið er um fullnustu, taka kröfuna til meðferðar.
    2. Er svo stendur á sem í fyrri málsgrein segir er krafa um endurupptöku tæk til meðferðar ef hún er borin fram við þar til bær yfirvöld þess ríkis, sem beðið er um fullnustu, innan 30 daga frá birtingardegi tilkynningarinnar. Frestur þessi skal reiknaður í samræmi við viðeigandi lagareglur þess ríkis sem beðið er um fullnustu. Þar til bært yfirvald þess ríkis skal þegar tilkynna þetta yfirvaldi því sem bað um fullnustu.

25. gr.


    1. Ef krafan um endurupptöku er tekin til meðferðar í ríkinu, sem biður um fullnustu, skal dómþoli kvaddur til að mæta þar við hina nýju dómsmeðferð málsins. Tilkynningu um að mæta skal birta honum sjálfum eigi síðar en 21 degi fyrir hina nýju dómsmeðferð. Frest þennan má stytta með samþykki hins dæmda. Hin nýja meðferð málsins skal fara fram fyrir þar til bærum dómstól í ríkinu, sem biður um fullnustu, og í samræmi við réttarfarsreglur þess ríkis.
    2. Nú mætir dómþoli ekki sjálfur né fyrirsvarsmaður hans samkvæmt lögum þess ríkis, sem biður um fullnustu, og skal dómstóllinn þáhafna að taka kröfuna um endurupptöku til meðferðar og skal tilkynna þáákvörðun þar til bæru yfirvaldi þess ríkis sem beðið er um fullnustu. Hið sama gildir ef dómstóllinn lýsir því yfir að málið verði ekki endurupptekið. Í báðum tilvikum skal að öllu leyti litið svo á, hvað samning þennan varðar, að útivistardómi eða „ordonnance pénale“ hafi verið lokið eftir að hinn ákærði hafi komið fyrir dóm.
    3. Ef dómþoli mætir sjálfur eða fyrirsvarsmaður hans samkvæmt lögum þess ríkis, sem biður um fullnustu, og málið er endurupptekið skal beiðnin um fullnustu talin ógild.

26. gr.


    1. Ef krafan um endurupptöku er tekin til meðferðar í ríkinu, sem beðið er um fullnustu, skal dómþoli kvaddur til að mæta þar við hina nýju dómsmeðferð málsins. Tilkynningu um að mæta skal birta honum sjálfum eigi síðar en 21 degi fyrir hina nýju dómsmeðferð. Frest þennan má stytta með samþykki hins dæmda. Hin nýja meðferð málsins skal fara fram fyrir þar til bærum dómstóli í ríkinu, sem beðið er um fullnustu, og í samræmi við réttarfarsreglur þess ríkis.
    2. Nú mætir dómþoli ekki sjálfur né fyrirsvarsmaður hans samkvæmt lögum þess ríkis, sem beðið er um fullnustu, og skal dómstóllinn þáhafna að taka kröfuna um endurupptöku til meðferðar. Fari svo, og ef dómstóllinn lýsir því yfir að málið verði ekki endurupptekið, skal að öllu leyti litið svo á, hvað samning þennan varðar, að útivistardómi eða „ordonnance pénale“ hafi verið lokið eftir að hinn ákærði hafi komið fyrir dóm.
    3. Ef dómþoli mætir sjálfur eða fyrirsvarsmaður hans samkvæmt lögum þess ríkis, sem beðið er um fullnustu, og málið er endurupptekið skal farið með málið eins og verknaðurinn hefði verið framinn í því ríki. Það að mál sé fyrnt skal þóaldrei tekið til meðferðar. Skal litið svo á sem dómur sá, sem kveðinn var upp í því ríki sem biður um fullnustu, sé ógildur.
    4. Allar ráðstafanir dómsríkisins vegna málsmeðferðar eða rannsóknar, samkvæmt lögum þess og reglum, skulu hafa sama gildi í ríkinu, sem beðið er um fullnustu, eins og yfirvöld þess ríkis hefðu framkvæmt þær, að því tilskildu að slíkar ráðstafanir hafi ekki frekari sönnunargildi þar en í því ríki sem biður um fullnustu.

27. gr.


    Sá sem sætt hefur útivistardómi eða „ordonnance pénale“ skal eiga rétt á lögfræðiaðstoð til að bera fram beiðni um endurupptöku og vegna eftirfarandi málsmeðferðar í þeim málum og með þeim skilyrðum sem lög kveða á um í ríkinu, sem beðið er um fullnustu, eða ríkinu sem biður um fullnustu, ef við á.

28. gr.


    Um dómsákvarðanir skv. 3. mgr. 26. gr. og fullnustu þeirra skal eingöngu fara samkvæmt lögum þess ríkis sem beðið er um fullnustu.

29. gr.


    Nú ber sá, sem sætt hefur útivistardómi eða „ordonnance pénale“, ekki fram beiðni um endurupptöku og skal þáað öllu leyti, hvað varðar samning þennan, litið svo á sem máli hafi verið lokið eftir að hinn ákærði hafi komið fyrir dóm.

30. gr.


    Lög hvers ríkis skulu gilda um áhrif þess að dómþoli vegna aðstæðna, sem hann fékk ekki við ráðið, virðir ekki þátímafresti sem fram koma í 24., 25. eða 26. gr. eða mætir ekki sjálfur fyrir dómi við hina nýju málsmeðferð sem ákveðin er.

4. KAFLI


Bráðabirgðaráðstafanir.


31. gr.


    Ef dómþoli er staddur í ríkinu, sem biður um fullnustu, eftir að því hefur borist tilkynning um að beiðni þess um fullnustu refsiákvörðunar, sem hefur í för sem sér frjálsræðissviptingu, hafi verið samþykkt má það ríki handtaka hann vegna væntanlegs flutnings skv. 43. gr. ef það telur það nauðsynlegt til að tryggja fullnustu.

32. gr.


    1. Þegar ríki hefur beðið um fullnustu má það ríki, sem beðið er um fullnustu, handtaka hinn dæmda:
    a) ef afbrotið réttlætir gæsluvarðhald samkvæmt lögum þess ríkis sem beðið er um fullnustu, og
    b) ef hætta er á stroki, eða spjöllum sakargagna þegar um útivistardóm er að ræða.
    2. Þegar ríki tilkynnir að það hyggist biðja um fullnustu má það ríki, sem beiðni mun verða beint til, að beiðni þess ríkis, sem hyggst biðja um fullnustu, handtaka hinn dæmda ef skilyrðum a- og b-liða fyrri málsgreinar er fullnægt. Í handtökubeiðni skal greina afbrot það sem dæmt var fyrir, hvenær og hvar það var framið og eins nákvæma lýsingu á dómþola og unnt er. Þar skal einnig lýsa stuttlega þeim málsatvikum sem dómur byggist á.

33. gr.


    1. Dómþoli skal hafður í haldi samkvæmt lögum þess ríkis, sem beðið er um fullnustu, og lög þess ríkis gilda einnig um skilyrði þess að leysa megi hann úr haldi.
    2. Í öllum tilvikum skal leysa þann sem hafður er í haldi:
    a) þegar jafnlangur tími er liðinn og dómur um frjálsræðissviptingu kvað á um,
    b) hafi hann verið handtekinn skv. 2. mgr. 32. gr. og ríkinu, sem átti að biðja um fullnustu, hefur ekki borist beiðni ásamt skjölum þeim sem tilgreind eru í 16. gr. innan 18 daga frá handtökudegi.

34. gr.


    1. Maður sem hafður er í haldi skv. 32. gr. í ríkinu, sem beðið er um fullnustu, og er skv. 25. gr. kvaddur til að mæta fyrir þar til bærum dómstóli í ríkinu, sem biður um fullnustu, vegna beiðni um endurupptöku, sem hann hefur borið fram, skal í því skyni fluttur til landsvæðis þess ríkis sem biður um fullnustu.
    2. Að afloknum flutningi skal viðkomandi maður ekki hafður í haldi í ríkinu, sem biður um fullnustu, ef fullnægt er skilyrði a-liðar 2. mgr. 33. gr. eða ef ríkið, sem biður um fullnustu, óskar ekki fullnustu annarrar refisákvörðunar. Hafi hann ekki verið leystur úr haldi skal hann þegar fluttur aftur til þess ríkis sem beðið er um fullnustu.

35. gr.


    1. Ekki skal höfða mál gegn manni sem vegna beiðni um endurupptöku, er hann hefur borið fram, er kvaddur til að mæta fyrir þar til bærum dómstól í ríkinu sem biður um fullnustu, né dæma hann eða hafa hann í haldi til að koma fram refsiákvörðun eða úrskurði um öryggisgæslu eða skerða frelsi hans af nokkrum öðrum ástæðum vegna verknaðar eða afbrots sem framið var áður en hann yfirgaf landsvæði þess ríkis, sem beðið er um fullnustu, og ekki var tilgreint í kvaðningunni, nema hann samþykki það skriflega með ótvíræðum hætti. Ef svo stendur á sem í 1. mgr. 34. gr. segir skal senda því ríki, sem hann var fluttur frá, afrit af samþykkisyfirlýsingunni.
    2. Réttaráhrif þau, sem fjallað er um í fyrri málsgein, skulu falla niður ef sá sem kvaddur hefur verið til að mæta hefur ekki yfirgefið landsvæði þess ríkis, sem biður um fullnustu, innan 15 daga eftir að ákvörðun er tekin í máli að aflokinni málsmeðferð fyrir dómi er honum var stefnt til að mæta við eða ef hann hverfur aftur til þess landsvæðis eftir að hafa yfirgefið það án þess að hann hafi verið kvaddur til að mæta að nýju.

36. gr.


    1. Ef ríkið, sem biður um fullnustu, hefur óskað þess að eignaupptaka fari fram má ríkið, sem beðið er um fullnustu, leggja hald á umrædda eign ef lög þess heimila haldlagningu í sambærilegum tilvikum.
    2. Haldlagning skal fara fram samkvæmt lögum þess ríkis, sem beðið er um fullnustu, og skulu þau lög einnig gilda um skilyrði þess að haldlagningu sé aflétt.

5. KAFLI


Fullnusta viðurlaga.


a) Almenn ákvæði.


37. gr.


    Viðurlögum, sem ákvörðuð eru í ríkinu sem biður um fullnustu, skal ekki fullnægja í ríkinu, sem beðið er um fullnustu, nema samkvæmt ákvörðun dómstóls þess ríkis. Samningsríki getur þófalið öðrum yfirvöldum að taka slíkar ákvarðanir ef viðurlög þau sem fullnægja skal eru aðeins sekt eða upptaka eigna og ef heimilt er að bera þessar ákvarðanir undir dómstól.

38. gr.


    Mál skal leggja fyrir dómstól eða þar til bært yfirvald skv. 37. gr. ef ríkið, sem beðið er um fullnustu, telur unnt að gera ráðstafanir vegna beiðni um fullnustu.

39. gr.


    1. Áður en dómstóll tekur ákvörðun um beiðni um fullnustu skal dómþola veitt tækifæri til að láta í ljós álit sitt. Samkvæmt beiðni skal hann yfirheyrður fyrir dómstólnum annaðhvort með hjálp réttarbeiðna eða persónulega. Fari hann gagngert fram á það ber að yfirheyra hann persónulega.
    2. Þrátt fyrir að dómþoli hafi farið fram á að vera yfirheyrður persónulega getur dómstóllinn ákveðið að fallist verði á beiðni um fullnustu, að dómþola fjarstöddum, ef hann er hafður í haldi í því ríki sem biður um fullnustu. Er svo stendur á skal fresta ákvörðun um breytingu viðurlaga skv. 44. gr. þar til dómþoli hefur verið fluttur til þess ríkis, sem beðið er um fullnustu, og gefinn kostur á að koma fyrir dómstólinn.

40. gr.


    1. Dómstóllinn sem hefur málið til meðferðar eða þar til bært yfirvald skv. 37. gr., í málum sem tilgreind eru í þeirri grein, skal ganga úr skugga um:
    a) að viðurlögin, sem óskað er fullnustu á, hafi verið ákvörðuð í evrópskum refsidómi,
    b) að skilyrðum 4. gr. sé fullnægt,
    c) að ekki standi svo á sem í a-lið 6. gr. segir eða að slíkt skuli ekki koma í veg fyrir fullnustu,
    d) að 7. gr. komi ekki í veg fyrir fullnustu,
    e) að skilyrðum 3. kafla þessa hluta sé fullnægt ef um er að ræða útivistardóm eða „ordonnance pénale“.
    2. Samningsríki getur falið dómstólnum eða þar til bæru yfirvaldi skv. 37. gr. að kanna önnur skilyrði fullnustu samkvæmt samningi þessum.

41. gr.


    Ákvarðanir sem dómstóll hefur tekið samkvæmt þessum kafla varðandi fullnustu sem beðið hefur verið um, og ákvarðanir sem teknar hafa verið eftir málskot ákvörðunar yfirvalds þess, sem um getur í 37. gr., skulu vera áfrýjanlegar.

42. gr.


    Ríkið, sem beðið er um fullnustu, skal hlíta niðurstöðum um málavöxtu eins og þær koma fram í ákvörðuninni eða á er byggt í henni.

b) ákvæði sem sérstaklega varða fullnustu


viðurlaga sem fela í sér frjálsræðissviptingu.


43. gr.


    Sé dómþoli hafður í haldi í ríkinu, sem biður um fullnustu, skal hann, nema lög þess mæli fyrir um annað, fluttur til þess ríkis, sem beðið er um fullnustu, jafnskjótt og ríkinu, sem biður um fullnustu, hefur verið tilkynnt um að beiðni um fullnustu hafi verið samþykkt.

44. gr.


    1. Nú er beiðnin um fullnustu samþykkt og skal dómstóllinn þá, í stað viðurlaga sem fela í sér frjálsræðissviptingu og dæmd voru í því ríki sem biður um fullnustu, ákvarða þau viðurlög sem sama afbrot varðar samkvæmt hans eigin lögum. Þessi viðurlög mega, með þeim takmörkunum sem greinir í 2. mgr., vera að eðli og tímalengd önnur en þau sem ákvörðuð voru í ríkinu sem biður um fullnustu. Ef síðarnefndu viðurlögin eru vægari en þau lágmarksviðurlög sem ákvarða má í því ríki, sem beðið er um fullnustu, skal dómstóllinn ekki vera bundinn af því lágmarki heldur ákvarða viðurlög sem hliðstæð eru þeim viðurlögum sem ákvörðuð voru í því ríki sem biður um fullnustu.
    2. Er viðurlög eru ákvörðuð skal dómstóllinn ekki gera stöðu hins dæmda verri en leiðir af ákvörðun sem tekin var í ríkinu sem biður um fullnustu.
    3. Sá hluti viðurlaganna, sem ákvörðuð voru í ríkinu sem biður um fullnustu, sem dómþoli hefur sætt eftir að refsing var ákvörðuð, svo og allur sá tími sem dómþoli hefur verið hafður í haldi til bráðabirgða eftir þann tíma, skal að fullu koma til frádráttar. Hið sama skal gilda um allan þann tíma er dómþoli var í gæsluvarðhaldi í ríkinu, sem biður um fullnustu, áður en refsing hans var ákvörðuð, að svo miklu leyti sem lög þess ríkis mæla fyrir um það.
    4. Samningsríki getur hvenær sem er afhent aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins yfirlýsingu sem veitir því samkvæmt samningi þessum rétt til að fullnægja viðurlögum, sem fela í sér frjálsræðissviptingu, sem eru sama eðlis og ákvörðuð hafa verið í ríkinu sem biður um fullnustu, enda þótt tímalengd þessara viðurlaga fari fram úr því hámarki sem landslög þess kveða á um varðandi sams konar viðurlög. Ákvæði þessu má þóaðeins beita í tilvikum þegar landslög þess ríkis heimila viðurlög vegna sama afbrots sem eru hið minnsta jöfn að tímalengd þeim viðurlögum sem voru ákvörðuð í ríkinu, sem biður um fullnustu, en eru í eðli sínu þyngri. Ef tímalengd og tilgangur viðurlaga þeirra, sem voru ákvörðuð samkvæmt þessari málsgrein, krefjast má fullnægja þeim í refsivistarstofnun sem ætluð er til fullnustu annars konar viðurlaga.

c) ákvæði sem sérstaklega lúta að


fullnustu sekta og upptöku eigna.


45. gr.


    1. Nú er beiðni um fullnustu sektar eða upptöku fjárhæðar samþykkt og skal þádómstóllinn eða þar til bært yfirvald skv. 37. gr. breyta fjárhæðinni í gjaldmiðil þess ríkis, sem beðið er um fullnustu, miðað við gengi á þeim degi er ákvörðun er tekin. Skal þannig ákvarða fjárhæð sektarinnar eða upptökunnar sem þó skal ekki fara fram úr þeirri hámarksfjárhæð sem liggur við sama afbroti samkvæmt lögum þess ríkis, eða, sé slíkt hámark ekki tilgreint, fara fram úr þeirri hámarksfjárhæð sem venjulega er ákvörðuð vegna slíks afbrots í því ríki sem beðið er um fullnustu.
    2. Þó getur dómstóllinn eða þar til bært yfirvald skv. 37. gr. viðhaldið sektarrefsingu eða eignaupptöku allt að þeirri fjárhæð sem ákvörðuð var í ríkinu, sem biður um fullnustu, þegar lög þess ríkis, sem beðið er um fullnustu, mæla ekki fyrir um slík viðurlög vegna sama afbrots, en þau lög heimila ákvörðun þyngri viðurlaga. Hið sama gildir ef viðurlögin, sem ákvörðuð voru í ríkinu sem biður um fullnustu, fara fram úr hámarki því sem ákveðið er vegna sama afbrots í lögum þess ríkis sem beðið er um fullnustu, en þau lög heimila ákvörðun þyngri viðurlaga.
    3. Ríkið, sem beðið er um fullnustu, skal virða allt hagræði sem ríkið, sem biður um fullnustu, hefur veitt varðandi greiðslutíma eða greiðslu með afborgunum.

46. gr.


    1. Þegar beiðnin um fullnustu varðar upptöku tilgreinds hlutar má dómstóllinn eða þar til bært yfirvald skv. 37. gr. aðeins mæla fyrir um upptöku hlutarins að því leyti sem lög þess ríkis, sem beðið er um fullnustu, heimila slíka eignaupptöku vegna sama afbrots.
    2. Dómstóllinn eða þar til bært yfirvald skv. 37. gr. getur þóviðhaldið eignaupptöku, sem mælt var fyrir um í ríkinu sem biður um fullnustu, þótt ekki sé mælt fyrir um slík viðurlög vegna sama afbrots í lögum þess ríkis sem beðið er um fullnustu, en þau lög heimila ákvörðun þyngri viðurlaga.

47. gr.


    1. Afrakstur sekta og eignaupptöku skal greiddur í ríkissjóð þess ríkis, sem beðið er um fullnustu, að geymdum betri rétti þriðja aðila.
    2. Eignir sem gerðar hafa verið upptækar og sérstakt gildi hafa má afhenda ríkinu, sem biður um fullnustu, ef það óskar þess.

48. gr.


    Nú fæst sekt ekki greidd og getur þádómstóll í ríkinu, sem beðið er um fullnustu, ákvarðað vararefsingu sem felur í sér frjálsræðissviptingu, ef lög beggja ríkja heimila það í slíkum tilvikum, nema ríkið, sem biður um fullnustu, hafi beinlínis takmarkað beiðni sína við innheimtu sektarinnar. Ef dómstóllinn ákveður vararefsingu, sem felur í sér frjálsræðissviptingu, gilda eftirfarandi reglur:
    a) sé þegar kveðið á um vararefsingu í stað sektar, annaðhvort í dómnum sem upp var kveðinn í ríkinu, sem biður um fullnustu, eða beinlínis í lögum þess ríkis skal dómstóllinn í ríkinu, sem beðið er um fullnustu, ákvarða eðli og tímalengd slíkrar vararefsingar í samræmi við þær reglur sem lög þess kveða á um. Sé vararefsingin sem þegar er kveðið á um í ríkinu, sem biður um fullnustu, vægari en lágmark það sem ákvarða má samkvæmt lögum þess ríkis, sem beðið er um fullnustu, skal dómstóllinn ekki bundinn af því lágmarki, heldur skal ákvarða viðurlög sem samsvara þeim viðurlögum sem ákvörðuð voru í ríkinu sem biður um fullnustu. Er viðurlögin eru ákvörðuð skal dómstóllinn ekki gera stöðu hins dæmda verri en leiðir af ákvörðuninni sem tekin var í ríkinu sem biður um fullnustu,
    b) í öllum öðrum tilvikum skal dómstóllinn í ríkinu, sem beðið er um fullnustu, breyta sektinni til samræmis við lög sín að teknu tilliti til þeirra takmarkana sem lög þess ríkis, sem biður um fullnustu, kveða á um.

d) ákvæði sem varða sérstaklega framkvæmd réttindasviptingar.


49. gr.


    1. Þegar beðið er um að réttindasvipting verði framkvæmd má aðeins láta slíka réttindasviptingu, sem ákvörðuð hefur verið í ríkinu sem biður um fullnustu, ná fram að ganga í ríkinu, sem beðið er um fullnustu, ef lög síðarnefnda ríkisins heimila réttindasviptingu vegna afbrots þess sem um er að ræða.
    2. Dómstóllinn, sem hefur málið til meðferðar, skal meta mikilvægi þess að réttindasvipting komi til framkvæmda á landsvæði síns ríkis.

50. gr.


    1. Nú ákveður dómstóllinn að réttindasvipting skuli koma til framkvæmda og ákveður hann þátímalengd hennar innan þeirra marka sem lög hans kveða á um en skal þó ekki fara fram úr þeim tímamörkum sem ákveðin voru í dómi þeim sem upp var kveðinn í ríkinu sem biður um fullnustu.
    2. Dómstóllinn getur ákveðið að réttindasvipting skuli aðeins koma til framkvæmda hvað varðar sum þeirra réttinda sem ákveðið hefur verið að felld skuli niður, endanlega eða tímabundið.

51. gr.


    11. gr. gildir ekki um réttindasviptingu.

52. gr.


    Ríkinu, sem beðið er um fullnustu, er heimilt að veita dómþola að nýju réttindi þau sem hann hefur verið sviptur samkvæmt ákvörðun sem tekin er í samræmi við ákvæði þessa kafla.

III. HLUTI


Alþjóðleg áhrif evrópskra refsidóma.


1. KAFLI


Ne bis in idem.


53. gr.


    1. Mann, sem sætt hefur evrópskum refsidómi, má vegna sama verknaðar hvorki ákæra, dæma né láta sæta fullnustu viðurlaga í öðru samningsríki:
    a) ef hann hefur verið sýknaður,
    b) ef hann:
    i. hefur þegar sætt fullnustu hinna dæmdu viðurlaga, eða ef fullnusta þeirra stendur yfir,
    ii. hefur verið náðaður eða honum gefnar upp sakir að fullu eða að því leyti sem hinum dæmdu viðurlögum hefur ekki verið fullnægt,
    iii. verður ekki lengur látinn sæta fullnustu hinna dæmdu viðurlaga vegna fyrningar,
    c) ef sökunautur var fundinn sekur án þess að viðurlög væru ákvörðuð.
    2. Þó þarf samningsríki ekki nema það hafi sjálft beðið um málsmeðferðina að hlíta áhrifum ne bis in idem reglunnar ef verknaðurinn, sem dómur var kveðinn upp um, beindist að opinberum starfsmanni, opinberri stofnun eða nokkru öðru á vegum hins opinbera í því ríki, eða ef dómþoli hafði sjálfur opinbera stöðu þar.
    3. Enn fremur þarf samningsríki sem verknaður var framinn í, eða talinn framinn í samkvæmt lögum þess ríkis, ekki að hlíta áhrifum ne bis in idem reglunnar nema það hafi sjálft óskað málsmeðferðarinnar.

54. gr.


    Ef höfðað er mál að nýju gegn manni, sem hefur verið dæmdur í öðru samningsríki fyrir sama verknað, skal draga allan þann tíma, sem dómþoli hefur sætt frjálsræðissviptingu vegna fullnustu þess dóms, frá þeim viðurlögum sem dæmd kunna að verða.

55. gr.


    Ákvæði þessa kafla skulu ekki standa því í vegi að beita megi ákvæðum í landslögum sem eru víðtækari varðandi ne bis in idem áhrif erlendra refsidóma.

2. KAFLI


Áhrif fyrri refsidóma.


56. gr.


    Sérhvert samningsríki skal setja þau lög, sem það telur við eiga, til að gera dómstólum þess kleift að taka við dómsuppkvaðningu tillit til sérhvers eldri evrópsks refsidóms vegna annars afbrots sem hefur verið kveðinn upp eftir að ákærði kom fyrir dóm, þannig að slíkur dómur hafi að nokkru eða öllu leyti sömu áhrif og lög þess kveða á um að dómar sem upp eru kveðnir á landsvæði þess hafi. Skal það ákveða skilyrði þess að taka beri tillit til slíkra dóma.

57. gr.


    Sérhvert samningsríki skal setja þau lög, sem það telur við eiga, til að gera kleift að taka tillit til sérhvers evrópsks refsidóms sem hefur verið kveðinn upp eftir að ákærði kom fyrir dóm, þannig að unnt sé að nokkru eða öllu leyti að beita réttindasviptingu sem lög þess tengja við dóma sem upp eru kveðnir á landsvæði þess. Skal það ákveða skilyrði þess að taka beri tillit til slíkra dóma.

IV. HLUTI


Lokaákvæði.


58. gr.


    1. Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu þeirra aðildarríkja sem fulltrúa eiga í ráðherranefnd Evrópuráðsins. Hann er háður fullgildingu eða viðurkenningu. Skjöl um fullgildingu eða viðurkenningu skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins.
    2. Samningurinn skal öðlast gildi þremur mánuðum eftir þann dag er hið þriðja fullgildingar- eða viðurkenningarskjal hefur verið afhent.
    3. Gagnvart ríki sem undirritað hefur samninginn, en fullgildir eða viðurkennir hann síðar, skal hann öðlast gildi þremur mánuðum eftir að fullgildingar- eða viðurkenningarskjal þess hefur verið afhent.

59. gr.


    1. Er samningur þessi hefur öðlast gildi getur ráðherranefnd Evrópuráðsins boðið ríki, sem ekki á aðild að ráðinu, aðild að honum ef ályktun um slíkt boð er samhljóða samþykkt af þeim aðilum ráðsins sem fullgilt hafa samninginn.
    2. Slík aðild skal fara fram með afhendingu aðildarskjals til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins og öðlast gildi þremur mánuðum eftir afhendingu þess.
    1. Sérhvert samningsríki getur við undirritun eða þegar það afhendir skjal sitt um fullgildingu, viðurkenningu eða aðild tilgreint það eða þau landssvæði sem samningurinn skal gilda um.
    2. Sérhvert samningsríki getur, með yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, þegar það afhendir skjal sitt um fullgildingu, viðurkenningu eða aðild eða síðar, fært gildi samnings þessa út til annars landsvæðis eða landssvæða sem tilgreind eru í yfirlýsingunni og það ríki annast alþjóðasamskipti fyrir eða hefur umboð til að skuldbinda.
    3. Sérhverja yfirlýsingu skv. 2. mgr. má afturkalla, hvað varðar sérhvert landssvæði sem þar er nefnt, eftir þeim reglum sem greinir í 66. gr. samnings þessa.

61. gr.


    1. Sérhvert samningsríki getur, þegar það afhendir skjal sitt um fullgildingu, viðurkenningu eða aðild, lýst því yfir að það geri einn eða fleiri þeirra fyrirvara sem fjallað er um í viðauka I við samning þennan.
    2. Sérhvert samningsríki getur, með yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, afturkallað að hluta eða að öllu leyti fyrirvara sem það hefur gert skv. 1. mgr. og skal yfirlýsingin öðlast gildi á móttökudegi.
    3. Samningsríki, sem gert hefur fyrirvara við ákvæði samnings þessa, getur ekki krafist þess að annað samningsríki beiti því ákvæði en ef fyrirvari þess er gerður að hluta eða bundinn skilyrði getur það þókrafist þess að ákvæðinu verði beitt að svo miklu leyti sem það hefur samþykkt það sjálft.

62. gr.


    1. Sérhvert samningsríki getur hvenær sem er, með yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, tilgreint lagaákvæði sem tekin skulu upp í viðauka II eða III við samning þennan.
    2. Tilkynna skal aðalframkvæmdastjóra Evrópráðsins um allar breytingar á ákvæðum landslaga, sem tilgreind eru í viðauka II eða III, ef slíkar breytingar valda því að upplýsingar í þessum viðaukum verða rangar.
    3. Allar breytingar, sem gerðar eru á viðauka II eða III skv. 1. og 2. mgr., skulu öðlast gildi í hverju samningsríki einum mánuði eftir þann dag er aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins hefur tilkynnt um þær.

63. gr.


    1. Sérhvert samningsríki skal, þegar það afhendir skjal sitt um fullgildingu, viðurkenningu eða aðild, veita aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins nauðsynlegar upplýsingar, vegna beitingar samnings þessa, um viðurlög sem beitt er í því ríki og um fullnustu þeirra.
    2. Aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins skal einnig tilkynnt um allar síðari breytingar sem valda því að upplýsingar, sem veittar eru skv. 1. mgr., verða rangar.

64. gr.


    1. Samningur þessi hefur hvorki áhrif á réttindi eða skuldbindingar, samkvæmt framsalssamningum eða marghliða alþjóðasamningum um sérstök málefni, né á ákvæði í öðrum gildum samningum milli samningsríkjanna sem varða málefni sem samningur þessi fjallar um.
    2. Samningsríkin mega ekki gera tvíhliða eða marghliða samkomulag sín á milli, um málefni sem samningur þessi fjallar um, nema til að bæta við ákvæði hans eða auðvelda framkvæmd meginreglna hans.
    3. Hafi tvö eða fleiri samningsríki þóþegar komið festu á samskipti sín á þessu sviði á grundvelli samræmdrar löggjafar, eða komið á sérstakri skipan sín á milli, eða geri þau það síðar er þeim þrátt fyrir ákvæði samnings þessa heimilt að haga þessum samskiptum í samræmi við það.
    4. Samningsríki, sem hætta beitingu ákvæða samning þessa í gagnkvæmum samskiptum sínum á þessu sviði, skulu tilkynna það aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins.

65. gr.


    Nefnd Evrópuráðsins um afbrotamál skal látin fylgjast með framkvæmd samnings þessa og skal nefndin gera allt það sem þurfa þykir til að greiða fyrir vinsamlegri lausn hvers kyns vanda, sem upp kann að koma, vegna framkvæmdar hans.

66. gr.


    1. Samningur þessi gildir ótímabundið.
    2. Sérhvert samningsríki má fyrir sitt leyti segja upp samningi þessum með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins.
    3. Slík uppsögn skal öðlast gildi sex mánuðum eftir að aðalframkvæmdastjórinn hefur móttekið slíka tilkynningu.

67. gr.


    Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal tilkynna þeim aðildarríkjum, sem eiga fulltrúa í ráðherranefnd ráðsins, og sérhverju ríki, sem gerst hefur aðili að samningi þessum, um:
    a) sérhverja undirritun,
    b) sérhverja afhendingu skjals um fullgildingu, viðurkenningu og aðild,
    c) sérhvern gildistökudag samnings þessa skv. 58. gr. hans,
    d) sérhverja yfirlýsingu sem berst skv. 2. mgr. 19. gr.,
    e) sérhverja yfirlýsingu sem berst skv. 4. mgr. 44. gr.,
    f) sérhverja yfirlýsingu sem berst skv. 60. gr.,
    g) sérhvern fyrirvara sem gerður er samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 61. gr. og afturköllun slíks fyrirvara,
    h) sérhverja yfirlýsingu sem berst skv. 1. mgr. 62. gr. og sérhverja síðari tilkynningu sem berst skv. 2. mgr. þeirrar greinar,
    i) allar upplýsingar sem berast skv. 1. mgr. 63. gr. og allar síðari tilkynningar sem berast skv. 2. mgr. þeirrar greinar,
    j) sérhverja tilkynningu varðandi tvíhliða eða marghliða samkomulag sem gert er skv. 2. mgr. 64. gr. eða varðandi setningu samræmdrar löggjafar skv. 3. mgr. 64. gr.,
    k) sérhverja tilkynningu sem berst skv. 66. gr. og um dag þann er uppsögn öðlast gildi.

68. gr.


    Samningur þessi, svo og yfirlýsingar og tilkynningar samkvæmt honum, skulu aðeins gilda um fullnustu ákvarðana sem teknar eru eftir að samningur þessi öðlast gildi milli þeirra samningsríkja sem eiga í hlut.
    Þessu til staðfestu hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.
    Gjört í Haag 28. maí 1970 á ensku og frönsku, í einu eintaki sem varðveitt skal í skjalasafni Evrópuráðsins, og eru báðir textar jafngildir. Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal senda staðfest endurrit til hvers þeirra ríkja sem undirrita samninginn eða gerast aðilar að honum.

VIÐAUKI I


    Sérhvert samningsríki getur lýst því yfir að það áskilji sér rétt til að:
    a) neita um fullnustu telji það refsiákvörðun til komna vegna afbrots er varðar skatta eða afbrots sem er trúarlegs eðlis,
    b) neita um fullnustu viðurlaga fyrir verknað sem einungis hefði borið undir stjórnvald samkvæmt lögum þess ríkis sem beðið er um fullnustu,
    c) neita um fullnustu evrópsks refsidóms sem yfirvöld þess ríkis, sem biður um fullnustu, kváðu upp á tímamarki er málsmeðferð vegna verknaðarins, sem refsað var fyrir í dómnum, hefði ekki getað farið fram samkvæmt landslögum þess vegna fyrningar,
    d) neita um fullnustu útivistardóma eða „ordonnance pénales“, eða aðeins annarrar tegundar þessara ákvarðana,
    e) beita ekki ákvæðum 8. gr. í tilvikum þar sem það ríki hefur upphaflega lögsögu í máli, og að telja þáaðeins þær ráðstafanir er fresta eða slíta fyrningu jafngildar sem þegar hafa verið gerðar í því ríki sem biður um fullnustu,
    f) að viðurkenna aðeins beitingu annars hvors hinna tveggja kafla III. hluta.

VIÐAUKI II


Skrá um afbrot sem ekki er fjallað um í refsilögum.


    Eftirtalin afbrot skulu lögð að jöfnu við afbrot samkvæmt refsilögum:
-    Í Frakklandi: Öll ólögmæt háttsemi sem refsað er með „contravention de grande voirie“.
-    Í Sambandslýðveldinu Þýskalandi: Öll ólögmæt háttsemi, sem með er farið að reglum laga um reglugerðabrot (Gesetz über Ordnungswidrigkeiten) frá 24. maí 1968 (BGBL 1968, I 481).
-    Á Ítalíu: Öll ólögmæt háttsemi sem lög nr. 317 frá 3. mars 1967 gilda um.


VIÐAUKI III


Skrá um „ordonnances pénales“.



Austurríki
        Strafverfügung (460.–62. gr. laga um réttarfar í sakamálum).

Danmörk
        Bødeforelæg eða Udenretlig bødevedtagelse ( 931. gr. réttarfarslaga).

Frakkland
    Amende de Composition (524. - 528. gr. laga um réttarfar í sakamálum, sbr. gr. R 42 - R 50).
    Ordonnance pénale sem aðeins er framkvæmd í héruðunum Bas-Rhin, Haut-Rhin og Moselle.

Sambandslýðveldið Þýskaland
    Strafbefehl (407. - 412. gr. laga um réttarfar í sakamálum).
    Strafverfügung (413. gr. laga um réttarfar í sakamálum).
    Bussgeldbescheid (65.–66. gr. laga frá 24. maí 1968 -BGBL 1968 I, 481).

Ítalía
    Decreto penale (506.–510. gr. laga um réttarfar í sakamálum).
    Decreto penale í skattamálum (lög nr. 4. frá 7. janúar 1929).
    Decreto penale í siglingamálum (1242.–1243. gr. siglingalaga).
    Ákvörðun samkvæmt lögum nr. 317 frá 3. mars 1967.

Lúxemborg
    Ordonnance pénale (lög frá 31. júlí 1924 um tilhögun „ordonnances pénales“).
    Ordonnance pénale (16. gr. laga frá 14. febrúar 1955 um umferð á þjóðvegum).

Noregur
1. Forelegg (287.–290. gr. laga um réttarfar í sakamálum).
2. Forenklet forelegg (31. gr. B umferðarlaga frá 18. júní 1965).

Svíþjóð
1. Strafföreläggande (48. kafli réttarfarslaga).
2. Föreläggande av ordningsbot (48. kafli réttarfarslaga).

Sviss
    Strafbefehl (Aargau, Basel(hérað), Basel(borg), Schaffhausen, Schwyz, Uri, Zug, Zurich). Ordonnance pénale (Fribourg, Valais).
    Strafantrag (Neðri-Unterwalden).
    Strafbescheid (St. Gallen).
    Strafmandat (Bern, Graubünden, Solothurn, Efri-Unterwalden).
    Strafverfügung (Appenzell Ytri-Rhoden, Glarus, Schaffhausen, Thurgau).
    Abwandlungserkenntnis (Lucerne).
    Bussenentscheid (Appenzell Innri-Rhoden).
    Ordonnance de condamnation (Vaud).
    Mandat de répression (Nauchâtel).
    Avis de contravention (Genf, Vaud).
    Prononcé préfectoral (Vaud).
    Prononcé de contravention (Valais).
    Decreto di accusa (Ticino).

Tyrkland
    Ceza Kararnamesi (386–91. gr. laga um réttarfar í sakamálum), og allar aðrar ákvarðanir þar sem stjórnvöld ákvarða viðurlög.



Fylgiskjal II.


SAMNINGUR


um flutning dæmdra manna.


    Aðildarríki Evrópuráðsins og önnur ríki, sem undirritað hafa samning þennan, sem hafa í huga að markmið Evrópuráðsins er að auka samheldni aðila þess, sem vilja koma á frekari alþjóðlegri samvinnu á sviði refsiréttar, sem telja að með slíkri samvinnu skyldi stuðlað að réttlæti og að félagslegri endurhæfingu dæmdra manna, sem telja að sá tilgangur krefjist þess að útlendingum, sem sviptir eru frelsi vegna afbrots er þeir hafa framið, sé veittur kostur á að afplána refsingu sína innan eigin samfélags, og sem telja að þessu markmiði verði best náð með því að flytja þá til síns eigin lands, hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

1. gr.


Skilgreiningar.


    Í samningi þessum merkir:
    a) „refsing“ hverja þáhegningu eða aðra ráðstöfun, er hefur frjálsræðissviptingu í för með sér, sem dómstóll ákvarðar tímabundið eða ótímabundið vegna afbrots,
    b) „dómur“ ákvörðun eða fyrirmæli dómstóls um refsingu,
    c) „dómsríki“ ríkið þar sem maður sá, er fluttur hefur verið eða flytja má, var dæmdur til refsingar, og
    d) „fullnusturíki“ ríkið sem flytja má dæmdan mann til, eða ríkið sem maður hefur verið fluttur til, til fullnustu refsingar.

2. gr.


Almennar reglur.


    1. Aðilar skuldbinda sig til að viðhafa sem nánasta samvinnu þegar dæmdir menn eru fluttir samkvæmt ákvæðum samnings þessa.
    2. Mann, sem dæmdur hefur verið í landi eins aðila, má flytja til landsvæðis annars aðila samkvæmt ákvæðum samnings þessa til fullnustu þeirrar refsingar sem hann var dæmdur til. Hann má í þessu skyni tjá dómsríkinu eða fullnusturíkinu ósk sína um að verða fluttur samkvæmt samningi þessum.
    3. Bæði dómsríkið og fullnusturíkið geta óskað flutnings.

3. gr.


Skilyrði fyrir flutningi.


    1. Dæmdan mann má aðeins flytja samkvæmt samningi þessum:
    a) ef hann er ríkisborgari fullnusturíkisins,
    b) ef dómurinn er endanlegur,
    c) ef að minnsta kosti sex mánuðum af refsingu hans er ófullnægt á þeim tíma er beiðni um flutning er móttekin, eða ef refsingin er ótímabundin,
    d) ef hann samþykkir flutninginn, eða löglegur fyrirsvarsmaður hans ef annað hvort ríkið telur það nauðsynlegt með hliðsjón af aldri hans eða líkamlegu eða andlegu ástandi hans,
    e) ef athafnir þær eða athafnaleysi, sem hann var dæmdur til refsingar fyrir, teljast afbrot samkvæmt lögum fullnusturíkisins, eða teldust afbrot ef þær væru framdar á landssvæði þess, og
    f) ef dómsríkið og fullnusturíkið samþykkja flutninginn.
    2. Ef sérstaklega stendur á geta aðilar samþykkt flutning enda þótt sá tími sem dómþoli á eftir að afplána sé styttri en um getur í c-lið 1. mgr.
    3. Ríki getur við undirritun eða þegar það afhendir skjal sitt um fullgildingu, viðurkenningu, staðfestingu eða aðild, með yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, tilkynnt að það hyggist gagnvart öðrum aðilum einungis beita annarri hvorri þeirra aðferða sem um getur í a- og b-liðum 1. mgr. 9. gr.
    4. Ríki getur hvenær sem er, með yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, tilkynnt hvernig það fyrir sitt leyti skilgreinir hugtakið „ríkisborgari“ að því er samning þennan varðar.

4. gr.


Upplýsingaskylda.


    1. Dómsríkið skal skýra hverjum þeim dæmda manni, sem samningur þessi getur tekið til, frá efni hans.
    2. Hafi hinn dæmdi tjáð dómsríkinu ósk sína um að verða fluttur samkvæmt samningi þessum skal það tilkynna það fullnusturíkinu eins fljótt og unnt er eftir að dómurinn verður endanlegur.
    3. Í tilkynningunni skal greina:
    a) nafn dómþola, fæðingardag hans og fæðingarstað,
    b) heimilisfang hans í fullnusturíkinu ef við á,
    c) málsatvik þau sem refsingin byggðist á,
    d) eðli refsingar og tímalengd og hvenær fullnusta hófst.
    4. Hafi dómþoli tjáð fullnusturíkinu ósk sína skal dómsríkið samkvæmt beiðni veita því ríki þær upplýsingar sem um getur í 3. mgr.
    5. Tilkynna skal dómþola skriflega um allar aðgerðir dómsríkisins og fullnusturíkisins, samkvæmt þessari grein, og um hverja þá ákvörðun, sem annað hvort ríkið tekur, varðandi beiðni um flutning.

5. gr.


Beiðnir og svör.


    1. Flutningsbeiðni og svar við henni skulu vera skrifleg.
    2. Beiðni skal send af dómsmálaráðuneyti þess ríkis, sem flutnings óskar, til dómsmálaráðuneytis þess ríkis sem beiðni er beint til. Svar skal senda sömu boðleið.
    3. Aðili getur, með yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, tilkynnt að hann muni nota aðrar boðleiðir.
    4. Ríki það, sem beiðni er beint til, skal þegar tilkynna því ríki, sem flutnings óskar, hvort fallist er á umbeðinn flutning eða ekki.

6. gr.


Fylgiskjöl.


    1. Ef dómsríkið fer fram á það skal fullnusturíkið senda því:
    a) skjal eða yfirlýsingu þess efnis að dómþoli sé ríkisborgari þess,
    b) texta þeirra greina í lögum fullnusturíkisins sem mæla fyrir um að athafnir þær eða athafnaleysi, sem dæmt var til refsingar fyrir í dómsríkinu, teljist afbrot samkvæmt lögum fullnusturíkisins, eða teldust afbrot ef þær væru framdar á landsvæði þess,
    c) yfirlýsingu um þau atriði sem um getur í 2. mgr. 9. gr.
    2. Sé flutnings óskað skal dómsríkið senda fullnusturíkinu eftirfarandi skjöl nema annað hvort ríkið hafi þegar gefið til kynna að það muni ekki fallast á flutning:
    a) staðfest afrit dómsins og greinar þeirra laga er hann byggist á,
    b) yfirlýsingu um hversu miklum hluta refsitímans hefur þegar verið fullnægt, ásamt upplýsingum um gæsluvarðhald, eftirgjöf refsingar og önnur atriði sem skipta máli varðandi fullnustu refsingarinnar,
    c) yfirlýsingu um samþykki til flutningsins skv. d-lið 1. mgr. 3. gr., og
    d) þegar við á skýrslur um heilsufar og félagslega hagi dómþola, upplýsingar um meðferð, sem hann hefur gengist undir í dómsríkinu, og tillögur um framhald meðferðar í fullnusturíkinu.
    3. Hvort ríkið um sig getur óskað þess að fá í hendur sérhver þau skjöl eða yfirlýsingar, sem um getur í 1. eða 2. mgr., áður en flutnings er óskað eða ákvörðun tekin um hvort fallist verði á flutning eða ekki.

7. gr.


Samþykki og staðfesting þess.


    1. Dómsríkið skal tryggja að maður sá, sem samþykkja á flutning skv. d-lið 1. mgr. 3. gr., geri það af frjálsum vilja og með fullri vitneskju um réttaráhrif þess. Samþykki skal veitt á þann hátt sem lög dómsríkisins mæla fyrir um.
    2. Dómsríkið skal fyrir milligöngu ræðismanns eða annars embættismanns, eftir því sem bæði ríkin verða ásatt um, veita fullnusturíkinu kost á að ganga úr skugga um að samþykki sé gefið í samræmi við þau skilyrði sem tilgreind eru í 1. mgr.

8. gr.


Áhrif flutnings í dómsríkinu.


    1. Þegar yfirvöld í fullnusturíkinu taka við dómþola hefur það þau áhrif að fullnusta refsingar frestast í dómsríkinu.
    2. Dómsríkið má ekki fullnægja refsingu frekar ef fullnusturíkið telur að henni hafi verið fullnægt.

9. gr.


Áhrif flutnings í fullnusturíkinu.


    1. Þar til bær yfirvöld fullnusturíkisins skulu:
    a) halda áfram fullnustu refsingar þegar í stað, eða samkvæmt fyrirmælum dómstóls eða stjórnvalds, samkvæmt þeim skilyrðum sem tilgreind eru í 10. gr., eða
    b) breyta refsingu í ákvörðun þess ríkis með dóms- eða stjórnvaldsúrskurði og ákvarða þannig, í stað þeirra viðurlaga sem dæmd voru í dómsríkinu, viðurlög sem mælt er fyrir um í lögum fullnusturíkisins fyrir sama afbrot með þeim skilyrðum sem tilgreind eru í 11. gr.
    2. Fullnusturíkið skal, samkvæmt beiðni, upplýsa dómsríkið um hvorri þessara aðferða það hyggst beita áður en flutningur dómþola fer fram.
    3. Refsingu skal fullnægt samkvæmt lögum fullnusturíkisins og aðeins það ríki skal bært til að taka allar viðeigandi ákvarðanir.
    4. Ríki sem, vegna ákvæða í landslögum, getur ekki beitt annarri hvorri þeirra aðferða, sem í 1. mgr. getur, til að koma fram ráðstöfunum, sem ákveðnar voru á landsvæði annars aðila gagnvart manni sem var úrskurðaður ósakhæfur vegna andlegs ástands, en er reiðubúið að taka við slíkum mönnum til frekari meðferðar getur, með yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, tilkynnt hvaða málsmeðferð það hyggst beita í slíkum tilvikum.

10. gr.


Framhald fullnustu.


    1. Við framhald á fullnustu skal fullnusturíkið bundið af ákvörðun dómsríkisins hvað varðar lagalegt eðli refsingar og tímalengd hennar.
    2. Ef refsingin er, að eðli eða tímalengd, ósamrýmanleg lögum fullnusturíkisins, eða ef lög þess krefjast, getur það ríki, með ákvörðun dómstóls eða stjórnvalds, aðlagað viðurlögin að þeirri refsingu eða ráðstöfun sem þess eigin lög mæla fyrir um vegna sambærilegs afbrots. Refsingin eða ráðstöfunin skal svo sem unnt er vera sama eðlis og refsingin eða ráðstöfunin sem fullnægja skal. Hún má ekki að eðli eða tímalengd vera þyngri en þau viðurlög sem ákvörðuð voru í dómsríkinu né fara fram úr því hámarki sem lög fullnusturíkisins kveða á um.

11. gr.


Breyting refsingar.


    1. Þegar refsingu er breytt skal fara þannig að sem lög fullnusturíkisins mæla fyrir um. Þegar þar til bær yfirvöld fullnusturíkisins breyta refsingu:
    a) skulu þau bundin af þeim niðurstöðum um málavöxtu sem beint eða óbeint koma fram í dómi þeim sem kveðinn var upp í dómsríkinu,
    b) mega þau ekki breyta viðurlögum, er hafa frjálsræðissviptingu í för með sér, í fjárhagsleg viðurlög,
    c) skulu þau að fullu láta koma til frádráttar þann tíma, sem þegar er fullnægt með frjálsræðissviptingu dómþola, og
    d) skulu þau ekki gera stöðu dómþola verri né vera bundin af ákvæðum um lágmarksviðurlög sem lög fullnusturíkisins kunna að kveða á um vegna afbrots þess eða afbrota sem framin voru.
    2. Ef málsmeðferð vegna breytingar á refsingu á sér stað eftir að dómþoli hefur verið fluttur skal fullnusturíkið hafa hann í haldi eða á annan hátt tryggja nærveru hans í fullnusturíkinu meðan beðið er eftir niðurstöðu af meðferð málsins.

12. gr.


Náðun, sakaruppgjöf, mildun refsingar.


    Hvor aðili um sig getur náðað hinn dæmda, veitt honum uppgjöf sakar eða mildað refsingu hans samkvæmt stjórnarskrá sinni eða öðrum lögum.

13. gr.


Endurskoðun dóms.


    Dómsríkið eitt hefur rétt til að taka ákvörðun um beiðni um endurskoðun dóms.

14. gr.


Stöðvun fullnustu.


    Fullnusturíkið skal þegar stöðva fullnustu refsingar er dómsríkið tilkynnir því um ákvörðun eða ráðstöfun sem hefur í för með sér að refsingu verði ekki lengur fullnægt að lögum.

15. gr.


Upplýsingar um fullnustu.


    Fullnusturíkið skal veita dómsríkinu upplýsingar um fullnustu refsingar:
    a) þegar það telur fullnustu refsingar lokið,
    b) ef dómþoli strýkur úr haldi áður en fullnustu refsingar er lokið, og
    c) ef dómsríkið óskar sérstakrar skýrslu.

16. gr.


Gegnumflutningur.


    1. Aðili skal, í samræmi við lög sín, verða við beiðni um að dæmdur maður verði fluttur um landsvæði hans ef þess er óskað af öðrum aðila og það ríki hefur gert samkomulag við annan aðila eða þriðja ríki um flutning dómþola til eða frá landsvæði sínu.
    2. Aðili getur synjað um gegnumflutning:
    a) ef dómþoli er ríkisborgari hans, eða
    b) ef afbrot það, sem hann var dæmdur fyrir, telst ekki afbrot samkvæmt lögum hans.
    3. Beiðnir um gegnumflutning og svör skulu send eftir þeim boðleiðum sem tilgreindar eru í ákvæðum 2. og 3. mgr. 5. gr.
    4. Aðili getur orðið við beiðni þriðja ríkis um flutning dæmds manns um landsvæði sitt ef það ríki hefur samið við annan aðila um flutning til eða frá landsvæði sínu.
    5. Aðili, sem beðinn er um að heimila gegnumflutning, má aðeins hafa dómþola í haldi þann tíma sem þörf er á vegna flutningsins um landsvæði hans.
    6. Fara má þess á leit við aðila, sem beðinn er um að heimila gegnumflutning, að hann veiti tryggingu fyrir því að dómþoli verði hvorki saksóttur eða hann hafður í haldi, umfram það sem í 5. mgr. segir, né frelsi hans á annan hátt skert á landssvæði ríkisins, sem hann er fluttur um, vegna afbrots sem framið hefur verið áður en hann yfirgaf landsvæði dómsríkisins, eða vegna refsingar sem dæmd hefur verið fyrir þann tíma.
    7. Beiðni um gegnumflutning er óþörf ef flutningur er loftleiðis yfir landsvæði aðila og ekki er áætluð lending þar. Þó getur ríki við undirritun eða þegar það afhendir skjal sitt um fullgildingu, viðurkenningu, staðfestingu eða aðild, með yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, farið fram á að skýra beri því frá slíkum gegnumflutningi yfir landsvæði þess.

17. gr.


Tungumál og kostnaður.


    1. Upplýsingar skv. 2.–4. mgr. 4. gr. skulu veittar á tungumáli þess aðila, sem þeim er beint til, eða á einu hinna opinberu tungumála Evrópuráðsins.
    2. Með þeirri undantekningu, sem um getur í 3. mgr., er þýðing á beiðni um flutning og fylgiskjölum hennar óþörf.
    3. Ríki getur við undirritun eða þegar það afhendir skjal sitt um fullgildingu, viðurkenningu, staðfestingu eða aðild, með yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, farið fram á að beiðni um flutning og fylgiskjölum hennar skuli fylgja þýðing á tungumál þess, á eitthvert hinna opinberu tungumála Evrópuráðsins, eða á eitt þessara tungumála sem það tilgreinir. Við það tækifæri getur það lýst samþykki sínu við því að tekið sé við þýðingum á eitthvert annað tungumál, auk opinbers tungumáls eða tungumála Evrópuráðsins.
    4. Skjöl, sem send eru vegna framkvæmdar samnings þessa, þarf ekki að staðfesta, umfram það sem tilgeint er í a-lið 2. mgr. 6. gr.
    5. Allur kostnaður, sem á fellur vegna framkvæmdar samnings þessa, skal greiddur af fullnusturíkinu nema sá kostnaður sem á fellur einvörðungu á landsvæði dómsríkisins.

18. gr.


Undirritun og gildistaka.


    1. Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu aðildarríkja Evrópuráðsins, og af hálfu þeirra ríkja sem ekki eiga aðild en hafa tekið þátt í undurbúningi hans. Hann er háður fullgildingu, viðurkenningu eða staðfestingu. Skjöl um fullgildingu, viðurkenningu eða staðfestingu skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins.
    2. Samningur þessi öðlast gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er þrjú aðildarríki Evróðuráðsins hafa lýst yfir samþykki sínu til að verða bundin samningnum í samræmi við ákvæði 1. mgr.
    3. Gagnvart ríki sem undirritar samning þennan, en lýsir síðar yfir samþykki sínu til að verða bundið ákvæðum hans, öðlast hann gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er skjal um fullgildingu, viðurkenningu eða staðfestingu er afhent.

19. gr.


Aðild ríkja sem ekki eiga aðild að Evrópuráðinu.


    1. Er samningur þessi hefur öðlast gildi getur ráðherranefnd Evrópuráðsins, að höfðu samráði við samningsríkin, boðið ríki, sem ekki á aðild að ráðinu og ekki er tilgreint í 1. mgr. 18. gr., aðild að samningnum. Skal það gert með meirihlutaákvörðun skv. d-lið 20. gr. stofnskrár Evrópuráðsins og með samhljóða samþykki fulltrúa þeirra samningsríkja sem rétt eiga til setu í nefndinni.
    2. Gagnvart ríki, sem þannig öðlast aðild að samningnum, öðlast hann gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðildarskjal er afhent aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins.

20. gr.


Landssvæði er samningurinn tekur til.


    1. Við undirritun samnings þessa, eða þegar skjal um fullgildingu, viðurkenningu, staðfestingu eða aðild er afhent, getur ríki tilgreint það landsvæði eða þau sem samningurinn skal taka til.
    2. Ríki getur hvenær sem er síðar, með yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, fært gildi samningsins út til annars landsvæðis sem er nánar skilgreint í yfirlýsingunni. Samningurinn öðlast gildi gagnvart slíku landsvæði fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjórinn tekur við slíkri yfirlýsingu.
    3. Yfirlýsingar, sem gefnar eru skv. 1. og 2. mgr., má, með tilkynningu til aðalframkvæmdastjórans, afturkalla með tilliti til hvaða landsvæðis sem er sem tilgreint hefur verið í slíkri yfirlýsingu. Afturköllunin öðlast gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjórinn tekur við slíkri tilkynningu.

21. gr.


Gildistími.


    Samningi þessum skal beitt um fullnustu refsinga hvort sem þær hafa verið dæmdar fyrir eða eftir gildistöku hans.

22. gr.


Tengsl við aðra samninga og samþykktir.


    1. Samningur þessi skal engin áhrif hafa á réttindi og skuldbindingar sem leiðir af framsalssamningum eða öðrum samningum um alþjóðlega samvinnu í sakamálum sem kveða á um flutning manna, sem eru í haldi, til yfirheyrslu eða samprófunar.
    2. Hafi tveir eða fleiri aðilar þegar komist að samkomulagi eða gert með sér samning um flutning dæmdra manna eða á annan hátt ákveðið fyrirkomulag á samskiptum sín á milli að þessu leyti, eða geri þau það síðar, skulu þau eiga rétt á að beita því samkomulagi, þeim samningi eða því fyrirkomulagi í stað samnings þessa.
    3. Samningur þessi hefur ekki áhrif á rétt ríkja, sem aðilar eru að Evrópusamningi um alþjóðlegt gildi refsidóma, til að gera með sér tvíhliða eða marghliða samninga um þau efni sem í þeim samningi greinir í því skyni að auka við ákvæði hans eða auðvelda framkvæmd meginreglna hans.
    4. Ef bæði samningur þessi og Evrópusamningur um alþjóðlegt gildi refsidóma, eða annað samkomulag eða samningur um flutning dæmdra manna, taka til beiðni um flutning skal ríki það sem um flutning biður, þegar beiðni er lögð fram, tilgreina samninginn sem hún er byggð á.

23. gr.


Vinsamleg lausn ágreiningsefna.


    Nefnd Evrópuráðsins um afbrotamál skal látin fylgjast með framkvæmd samnings þessa og skal nefndin gera allt það sem þurfa þykir til að greiða fyrir vinsamlegri lausn hvers kyns vanda er upp kann að koma við framkvæmd hans.

24. gr.


Uppsögn.


    1. Aðili getur hvenær sem er, með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, sagt upp samningi þessum.
    2. Slík uppsögn skal öðlast gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuður frá þeim degi er aðalframkvæmdastjórinn tekur við slíkri tilkynningu.
    3. Samningur þessi skal þó áfram gilda um fullnustu refsinga þeirra manna sem fluttir hafa verið samkvæmt ákvæðum hans fyrir gildistökudag uppsagnar.

25. gr.


Tilkynningar.


    Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal tilkynna aðildarríkjum þess, ríkjum sem ekki eru aðilar að Evrópuráðinu en hafa tekið þátt í undirbúningi samnings þessa, og hverju ríki sem gerst hefur aðili að honum, um:
    a) hverja undirritun,
    b) afhendingu hvers fullgildingar-, viðurkenningar-, staðfestingar- eða aðildarskjals,
    c) hvern gildistökudag samnings þessa skv. 2. og 3. mgr. 18. gr., 2. mgr. 19. gr., og 2. og 3. mgr. 20. gr.,
    d) sérhverja aðra aðgerð, yfirlýsingu, tilkynningu eða orðsendingu sem varðar samning þennan.

    Þessu til staðfestu hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

    Gjört í Strassborg 21. mars 1983, á ensku og frönsku, í einu eintaki sem varðveitt skal í skjalasafni Evrópuráðsins, og eru báðir textar jafngildir. Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal senda staðfest endurrit hans til hvers aðildarríkis Evrópuráðsins, til þeirra ríkja sem ekki eru aðilar að ráðinu en hafa takið þátt í undirbúningi samnings þessa, og til hvers ríkis sem boðin er aðild að honum.