Ferill 477. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 477 . mál.


732. Frumvarp til

laga

um Vísinda- og tækniráð Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)



I. KAFLI


Hlutverk og skipan Vísinda- og tækniráðs Íslands.


1. gr.


    Vísinda- og tækniráð Íslands er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir menntamálaráðuneytið. Hlutverk þess er að treysta stoðir íslenskrar menningar og atvinnulífs með því að stuðla að markvissu vísindastarfi, tækniþróun og nýsköpun.
    

2. gr.


    Vísinda- og tækniráð Íslands skal:
    Vera ríkisstjórn, Alþingi og öðrum opinberum aðilum til ráðuneytis um stefnumörkun á sviði vísinda og tækni.
    Gera árlega tillögur um framlög úr ríkissjóði til vísinda- og tæknimála til þriggja ára.
    Hafa náið samráð við ráðuneyti er vinna að stefnumótun og fjárlagagerð á sviði vísinda og tækni.
    Móta úthlutunarstefnu og veita styrki úr þeim sjóðum sem eru í vörslu ráðsins. Þá má fela ráðinu úthlutun styrkja úr öðrum sjóðum og af öðru fé sem ætlað er til rannsókna og skyldra málefna.
    Annast kynningu á rannsóknastarfsemi.
    Annast söfnun og úrvinnslu upplýsinga um rannsóknir og þróunarstarf í landinu, svo sem um mannafla, fjármagn, viðfangsefni og árangur. Ráðið skal hafa náið samstarf við æðri menntastofnanir, rannsóknastofnanir og fyrirtæki og stuðla að samræmingu og samstarfi milli þeirra sem vinna að rannsóknum og nýsköpun.
    Gangast fyrir mati á árangri rannsóknastarfs með reglulegum hætti og gera tillögur til úrbóta ef það telur starfsemina ófullnægjandi, skipulag eða skilyrði ófullkomin eða markverð rannsókna-, þróunar- og nýsköpunarsvið vanrækt. Rannsóknir eru ekki gerðar af Vísinda- og tækniráði Íslands.
    Eiga samstarf við hliðstæðar stofnanir erlendis og alþjóðastofnanir og fylgjast með þátttöku Íslendinga í fjölþjóðlegu vísindasamstarfi. Ráðið fylgist með og greiðir fyrir rannsóknum erlendra vísindamanna hér á landi og stuðlar að samvinnu íslenskra og erlendra vísindamanna.
    Beita sér fyrir því í samráði við rannsóknastofnanir og atvinnulíf að gerðar séu áætlanir um rannsóknir og þróunarstarf.
    Hafa yfirumsjón með óráðstöfuðu landsvæði og sameiginlegum byggingum og tækjum fyrir rannsóknastofnanir atvinnuveganna skv. 59. gr. laga nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna.
    Skila árlega skýrslu til menntamálaráðherra um stöðu og horfur í vísinda- og tæknimálum í landinu. Skýrslan skal lögð fyrir Alþingi, ásamt greinargerð menntamálaráðherra, til kynningar og umfjöllunar.
    Sinna öðrum verkefnum er menntamálaráðherra felur ráðinu.
    

3. gr.


    Menntamálaráðherra skipar níu einstaklinga í Vísinda- og tækniráð Íslands til þriggja ára:
    Þrjá samkvæmt tillögum skóla á háskólastigi þar sem rannsóknir eru stundaðar og stofnana á sviði þjóðlegra fræða og Vísindafélags Íslendinga.
    Þrjá samkvæmt tillögum rannsóknastofnana atvinnuveganna og annarra rannsóknastofnana utan verksviðs menntamálaráðuneytis.
    Þrjá sem tilnefndir eru af ríkisstjórn samkvæmt tillögu menntamálaráðherra.
    Aðilar er tilnefna menn til setu í Vísinda- og tækniráði Íslands samkvæmt liðum a og b hér að ofan skulu hver tilnefna tiltekinn fjölda einstaklinga samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Menntamálaráðherra skipar þrjá úr hvorum hópi og þrjá sem tilnefndir eru af ríkisstjórn eða alls níu einstaklinga. Þá skipar menntamálaráðherra jafnmarga varamenn úr hópi þeirra sem tilnefndir eru með sama hætti.
    Menntamálaráðherra skipar formann og varaformann úr hópi hinna skipuðu, en ráðið skiptir að öðru leyti með sér verkum. Ráðherra ákveður þóknun til þeirra sem sitja í Vísinda- og tækniráði.
    

II. KAFLI


Starfsemi Vísinda- og tækniráðs Íslands.


4. gr.


    Vísinda- og tækniráð Íslands skipar fagráð til tveggja ára í senn á helstu sviðum vísinda og tækni og á öðrum athafnasviðum þjóðlífsins til þess að veita faglega ráðgjöf. Fagráð gera stefnumótandi tillögur til Vísinda- og tækniráðs Íslands um mál sem varða verksvið þeirra og meta vísindalegt og hagnýtt gildi umsókna um styrki úr sjóðum í vörslu ráðsins. Vísinda- og tækniráð ákveður þóknun til þeirra sem sitja í fagráðum.
    

5. gr.


    Vísinda- og tækniráð Íslands ræður framkvæmdastjóra til fimm ára í senn. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur skrifstofu ráðsins, fjárreiður og reikningsskil fyrir ráðið og sjóði í vörslu þess. Framkvæmdastjóri skal hafa lokið háskólaprófi og hafa staðgóða þekkingu á rannsóknum, stjórnun og nýsköpun í atvinnulífi.
    Framkvæmdastjóri framfylgir ákvörðunum Vísinda- og tækniráðs. Skrifstofa ráðsins veitir fagráðum og úthlutunarnefndum sjóða nauðsynlega skrifstofuþjónustu.
    

6. gr.


    Rekstrarkostnaður Vísinda- og tækniráðs Íslands greiðist af fjárveitingu í fjárlögum.
    

7. gr.


    Reikningar Vísinda- og tækniráðs Íslands skulu endurskoðaðir árlega af Ríkisendurskoðun.

III. KAFLI


Sjóðir í vörslu Vísinda- og tækniráðs.


1. Vísindasjóður.


8. gr.


    Hlutverk Vísindasjóðs er að efla íslenskar vísindarannsóknir. Í þeim tilgangi styrkir sjóðurinn stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga til skilgreindra rannsóknaverkefna.
    Ráðið getur veitt styrki úr Vísindasjóði til allt að þriggja ára í senn og skulu slík verkefni lúta sérstöku eftirliti ráðsins.
    

9. gr.


    Tekjur Vísindasjóðs eru:
  i.      Fjárveiting í fjárlögum ár hvert.
 ii.      Fjárframlag skv. 37. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands.
iii.      Gjafir frá einstaklingum eða fyrirtækjum.
 iv.    Önnur framlög.

10. gr.


    Vísinda- og tækniráð Íslands skipar árlega úthlutunarnefnd fimm sérfróðra einstaklinga til þess að meta umsóknir að fengnum umsögnum fagráða. Þeir skulu hafa víðtæka reynslu af vísindastarfi og hvorki eiga sæti í Vísinda- og tækniráði Íslands né fagráðum þess.
    Úthlutunarnefnd leitar ráðgjafar umfram það sem fagráð Vísinda- og tækniráðs getur veitt ef þurfa þykir. Úthlutunarnefnd gerir tillögur til Vísinda- og tækniráðs um styrkveitingar. Vísinda- og tækniráð ákveður þóknun til þeirra sem sitja í úthlutunarnefnd fyrir Vísindasjóð.
    

2. Tæknisjóður.


11. gr.


    Hlutverk Tæknisjóðs er að styrkja nýsköpun í íslensku atvinnulífi með því að efla tækniþekkingu, rannsóknir og þróunarstarf. Í þeim tilgangi styrkir sjóðurinn vísindastofnanir, fyrirtæki og einstaklinga til skilgreindra verkefna á sviðum sem Vísinda- og tækniráð Íslands leggur áherslu á.
    Ráðið getur veitt styrki úr Tæknisjóði til allt að þriggja ára í senn og skulu slík verkefni lúta sérstöku eftirliti ráðsins.
    

12. gr.


    Tekjur Tæknisjóðs eru:
  i.      Fjárveiting í fjárlögum ár hvert.
 ii.      Tekjur af einkaleyfum eða endurgreiðslur af styrkjum til verkefna sem notið hafa stuðnings sjóðsins og leitt til arðbærrar framleiðslu.
iii.     Gjafir frá einstaklingum eða fyrirtækjum.
iv.     Önnur framlög.
    

13. gr.


    Vísinda- og tækniráð Íslands skipar árlega úthlutunarnefnd fimm sérfróðra einstaklinga til þess að meta umsóknir að fengnum umsögnum fagráða. Þeir skulu hafa víðtæka reynslu af rannsóknum og þróunarstarfi og þekkingu á nýsköpun í atvinnulífi. Þeir skulu hvorki eiga sæti í Vísinda- og tækniráði Íslands né fagráðum þess. Úthlutunarnefnd leitar faglegrar ráðgjafar umfram það sem fagráð Vísinda- og tækniráðs getur veitt ef þurfa þykir. Úthlutunarnefnd gerir tillögur til Vísinda- og tækniráðs um styrkveitingar. Vísinda- og tækniráð ákveður þóknun til þeirra sem sitja í úthlutunarnefnd.

3. Bygginga- og tækjasjóður.


14. gr.


    Bygginga- og tækjasjóður tekur við hlutverki Byggingarsjóðs rannsóknastarfsemi í þágu atvinnuveganna, sbr. 61. gr. laga nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, og 19. gr. laga nr. 48/1987, um Vísindaráð og Vísindasjóð, Rannsóknaráð ríkisins og Rannsóknasjóð. Bygginga- og tækjasjóður er í vörslu Vísinda- og tækniráðs Íslands. Hlutverk sjóðsins er að veita styrki til kaupa á dýrum tækjum og búnaði, svo og til þess að byggja eða kaupa húsnæði vegna rannsókna- og þróunarstarfsemi. Styrkveitingar úr sjóðnum skulu háðar samþykki menntamálaráðherra.
    

15. gr.


    Tekjur Bygginga- og tækjasjóðs eru:
  i.          Fjárveitingar í fjárlögum ár hvert.
 ii.          Einkaleyfisgjald af rekstri peningahappdrætta eða aðrar samsvarandi tekjur.
iii.          Önnur framlög.
    

4. Aðrir sjóðir.


16. gr.


    Vísinda- og tækniráð annast verkefni fyrir stjórn Rannsóknanámssjóðs, sbr. 23. gr.
    Fela má Vísinda- og tækniráði Íslands vörslu annarra sjóða sem hafa hlutverki að gegna á starfssviði ráðsins.
    

Sameiginleg ákvæði um sjóði í vörslu Vísinda- og tækniráðs.


17. gr.


    Kostnaður við vísindalegt mat á umsóknum og við störf úthlutunarnefnda skal greiddur af árlegu ráðstöfunarfé sjóðanna. Ráðinu er heimilt að kosta úttektir og mat á árangri og frammistöðu í vísinda- og tæknistarfi af ráðstöfunarfé Vísindasjóðs og Tæknisjóðs. Ráðinu er einnig heimilt að veita viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í vísinda- og tæknistarfi af ráðstöfunarfé sjóðanna.
    

18. gr.


    Niðurstöður rannsókna sem kostaðar eru með styrkjum úr Vísindasjóði og Tæknisjóði skulu birtar opinberlega og vera öllum opnar nema um annað sé samið. Heimilt er að fjalla um skilmála fyrir styrkveitingum í reglugerð.
    

19. gr.


    Reikningar Vísindasjóðs, Tæknisjóðs, Bygginga- og tækjasjóðs og Rannsóknanámssjóðs, svo og annarra sjóða í vörslu Vísinda- og tækniráðs, skulu endurskoðaðir árlega af Ríkisendurskoðun.
    

20. gr.


    Menntamálaráðherra setur reglur um úthlutanir úr sjóðum í vörslu ráðsins að fengnum tillögum Vísinda- og tækniráðs Íslands. Þar skal m.a. fjallað um meðhöndlun umsókna, styrkveitingar o.fl.
    

IV. KAFLI


Ýmis ákvæði.


21. gr.


    Eignir og skuldbindingar Vísindasjóðs, er starfað hefur samkvæmt lögum nr. 48/1987, um Vísindaráð og Vísindasjóð, Rannsóknaráð ríkisins og Rannsóknasjóð, falla til Vísindasjóðs sem mælt er fyrir um í þessum lögum. Eignir og skuldbindingar Rannsóknasjóðs, er starfað hefur samkvæmt sömu lögum, falla til Tæknisjóðs. Stofndeild Vísindasjóðs verður lögð niður og eignir stofndeildar skal setja í sjóð sem varið verður til kaupa á húsnæði fyrir Vísinda- og tækniráð Íslands og til reksturs fasteigna Vísindasjóðs.
    

22. gr.


    Menntamálaráðherra er heimilt í samráði við mennta- og rannsóknastofnanir að setja á stofn tímabundnar stöður prófessora sem sinni rannsóknum á sviðum sem eru talin sérstaklega mikilvæg. Ráðherra skal setja sérstaka reglugerð um þessar stöður.
    

23. gr.


    Rannsóknanámssjóður hefur það hlutverk að veita styrki til rannsóknatengds framhaldsnáms. Tekjur hans eru framlag á fjárlögum ár hvert. Menntamálaráðherra setur reglur um starfsemi sjóðsins.
    

24. gr.


    Menntamálaráðherra setur reglugerð um framkvæmd þessara laga.
    

25. gr.


    Lög þessi skal endurskoða innan fimm ára frá gildistöku þeirra.
    

26. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1994. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 48/1987, um Vísindaráð og Vísindasjóð, Rannsóknaráð ríkisins og Rannsóknasjóð, svo og 2. mgr. 9. gr., 58. gr., 2. mgr. 59. gr. og 61. gr. laga nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Aðdragandi frumvarpsins.


    Að frumkvæði menntamálaráðherra fór fram á árunum 1991–92 athugun á vísinda-, tækni- og nýsköpunarstefnu hér á landi. Athugunin var unnin af sérfræðinganefnd á vegum Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar, OECD. Í kjölfar skýrslu sérfræðinganefndar OECD skipaði menntamálaráðherra, Ólafur G. Einarsson, nefnd til að gera tillögur til ríkisstjórnarinnar um vísinda- og tæknistefnu. Í nefndinni áttu sæti Ólafur Davíðsson, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneyti, og Þórólfur Þórlindsson, prófessor við Háskóla Íslands. Skýrsla nefndarinnar var reifuð í ríkisstjórn í apríl 1993 og kynnt Alþingi í maí sama ár. Úr skýrslunni var unnin greinargerð og margt aðlagað sjónarmiðum og ábendingum sem bárust í umsögnum ráðuneyta og fjölmargra annarra aðila sem leitað var til.
    Greinargerðin lá til grundvallar yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um stefnu í vísindamálum sem samþykkt var af ríkisstjórninni þann 21. september 1993. Í stefnu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að efla vísinda- og tæknistarfsemi í landinu, m.a. með því að auka fjárframlög til rannsóknasjóða, bæta vinnubrögð og auka kröfur um árangur. Áhersla er lögð á að íslensk vísinda- og fræðistörf standist alþjóðlegan samanburð og reglulega verði lagt mat á þessa starfsemi. Jafnframt verði gerðar ýmsar skipulagsbreytingar á stjórn þessara mála sem miði að því að treysta samstarf stjórnvalda, vísindamanna og atvinnulífs. Í skýrslunni segir m.a.:
    „Um leið og auknum fjármunum verður veitt til starfseminnar verða meiri kröfur gerðar um vinnubrögð og árangur. Áhersla verður lögð á rannsókna- og þróunarstarf sem líklegast þykir að Íslendingar geti sinnt sérstaklega vel. Í þessum tilgangi þurfa atvinnulíf, stjórnvöld og stofnanir að taka höndum saman við mótun stefnu, fjármögnun og framkvæmd í vísinda- og tæknistarfinu. Brýnt er að vel sé að verki staðið svo að íslensk vísinda- og fræðistörf standist alþjóðlegan samanburð. Mikilvægt er að niðurstöður rannsókna verði nýttar atvinnulífi til hagsbóta og til aukins skilnings á íslenskri menningu og þjóðfélagi í heimi hraðfara breytinga.“
    Á grundvelli stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar var vísindastefnunefnd menntamálaráðherra kölluð saman að nýju í nóvember 1993 til þess að semja frumvarp til laga um yfirstjórn vísinda- og tæknimála sem kæmu í stað laga nr. 48/1987, um Vísindaráð og Vísindasjóð, Rannsóknaráð ríkisins og Rannsóknasjóð. Til þess að fá álit þeirra sem starfa að vísinda- og tæknimálum í landinu boðaði menntamálaráðherra til málþings um vísindastefnu ríkisstjórnarinnar þann 21. nóvember 1993. Málþingið sóttu um 100 manns og flutt voru 10 erindi sem vörðuðu lykilatriði hinnar nýju stefnu og þær áherslubreytingar sem ríkisstjórnin boðaði. Meginniðurstaða málþingsins var stuðningur við aðalatriði stefnunnar. Hjá málshefjendum kom m.a. fram almennur stuðningur við eitt vísinda- og tækniráð í stað tveggja, eflingu rannsóknasjóða, að komið yrði á fót sérstökum stöðum rannsóknaprófessora og að átak yrði gert í útgáfu fræðirita. Einnig var almennur stuðningur við þá stefnu að efla forustu og samráð innan vísindasamfélagsins um málefni er varða vísindi og tækni. Í framhaldi af málþinginu voru haldnir fundir með ýmsum sérfræðingum um einstök atriði stefnunnar og nánari útfærslu á henni.
    Á málþinginu í nóvember og á fundum síðar komu fram ýmsar ábendingar og sjónarmið sem unnið hefur verið úr. Á fundum þessum kom glöggt í ljós að stefna ríkisstjórnarinnar, eins og hún birtist í því frumvarpi sem hér er lagt fram, er vel kynnt þeim sem málið varðar mest og nýtur víðtæks stuðnings þeirra sem vinna að vísinda- og tæknimálum í landinu. Helstu álitaefnin vörðuðu úthlutun styrkja og hlutverk fagráða. Sumir vildu viðhalda fyrirkomulagi Vísindaráðs þannig að fagráðin í hinu nýja skipulagi sæju alfarið um úthlutun styrkja en aðrir lögðu áherslu á að skilja á milli mats á umsóknum og ákvarðana um styrkveitingar. Í samræmi við nýleg stjórnsýslulög og starfsaðferðir sem þróast hafa í alþjóðlegu samfélagi vísindamanna er farin sú leið í þessu frumvarpi að skilja á milli mats á verkefnum og ákvarðanatöku um styrki. Þá voru látnar í ljós áhyggjur af því að hlutur hug- og félagsvísinda yrði ekki réttur sem skyldi gagnvart öðrum vísindum í hinu nýja fyrirkomulagi en ýmsir telja að þessar greinar eigi undir högg að sækja í núverandi skipulagi. Hvað þetta varðar má segja að sameining ráðanna sé stórt skref í þá átt að tryggja að allar greinar vísinda sitji við sama borð.
    

Heildstæð stefnumörkun.


    Vísindaráð og Rannsóknaráð ríkisins verða sameinuð í eitt ráð, Vísinda- og tækniráð Íslands. Ráðinu er ætlað aukið hlutverk í því að fylgjast með framvindu í vísinda- og tæknistarfi, meta árangur rannsóknastarfs, leita leiða til þess að efla rannsóknastarfsemi í landinu og efla alþjóðlegt samstarf. Þá er ráðinu ætlað að vera ríkisstjórn, Alþingi og öðrum opinberum aðilum til ráðuneytis um stefnumörkun á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar. Með einu ráði er viðurkennd nauðsyn þess að vísinda- og tæknisamfélagið, atvinnulífið og stjórnvöld verði samstiga í þessum efnum og undirstrikuð eru tengsl grunnvísinda, hagnýtra rannsókna og nýsköpunar. Vísindasjóður og Tæknisjóður verða í vörslu nýja ráðsins og styrkja hvor á sínu sviði grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir.
    Við undirbúning laganna frá 1987 var töluvert rætt um það hvort ráðin skyldu verða eitt eða tvö. Ekki náðist samkomulag um eitt ráð og ákveðið var að koma á fót Vísindaráði annars vegar til þess að fjalla um grunnrannsóknir og Rannsóknaráði ríkisins hins vegar til þess að fjalla um hagnýtar rannsóknir. Með lögunum var einnig sett á laggirnar sérstök samstarfsnefnd ráðanna. Starfsemi ráðanna hefur að ýmsu leyti tekist vel. Sérfræðinganefnd OECD benti hins vegar á ýmislegt sem betur mætti fara í yfirstjórn vísinda- og tæknimála hér á landi og var höfð hliðsjón af ábendingum sérfræðinganefndarinnar við gerð þessa frumvarps. Í áliti OECD segir að í raun sé engin samræmd stefna, hvorki í bráð né lengd, sem stýri því hvernig mannafli og fjármagn nýtist í rannsókna- og þróunarstarfi hér á landi. Nokkur ráðuneyti bera stjórnsýslulega ábyrgð á rannsóknastarfsemi. Undir menntamálaráðuneytið heyrir það starf sem fer fram við menntastofnanir og yfirstjórn þessara mála, þ.e. Vísindaráð og Rannsóknaráð ríkisins og sjóðir sem undir ráðin heyra. Starfsemi rannsóknastofnana atvinnuveganna heyrir undir atvinnuvegaráðuneytin, umhverfisrannsóknir eru á ábyrgð umhverfisráðuneytis og á vettvangi heilbrigðisráðuneytis fara fram rannsóknir í læknis- og heilbrigðisfræðum í stofnunum sem tengjast Háskóla Íslands.
    Grunnhugmyndin að baki skipulags rannsókna- og þróunarstarfsemi hérlendis er sú að hagnýtar rannsóknir séu stundaðar á vegum stofnana sem heyra undir atvinnuvegaráðuneyti, en rannsóknir sem ekki tengjast beint efnahagslegum markmiðum séu stundaðar á vegum aðila sem heyra undir menntamálaráðuneytið. Í greinargerð með samþykkt ríkisstjórnarinnar frá í september 1993 er hins vegar sýnt fram á að skýrum mörkum milli grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna verður ekki auðveldlega fylgt, hvorki í áherslum rannsóknastofnana né í verkefnum sem ganga þvert á verksvið ráðuneyta og stofnana. Skilin á milli grunnvísinda og hagnýtra rannsókna eru oft óljós. Grunnvísindi eru undirstaða hagnýtra rannsókna og tækniþróunar en tækninýjungar leiða oft til nýrra uppgötvana í grunnvísindum. Hér á landi vinna margir vísindamenn jöfnum höndum að grunnvísindum og hagnýtingu rannsókna. Slíkum verkefnum fer fjölgandi. Nefna má umhverfisrannsóknir sem dæmi um rannsóknir sem sækja sérfræðiþekkingu jöfnum höndum til grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna, raunvísinda, tæknivísinda og félagsvísinda. Eitt ráð hefur betri yfirsýn en tvö ráð yfir þessar þverfaglegu rannsóknir og getur þar af leiðandi gætt þess að tillit sé tekið til þeirra í stefnumótun. Undir þessi sjónarmið er tekið í nýrri skýrslu umhverfisráðuneytis um eflingu umhverfisrannsókna á Norður-Atlantshafi. Í tillögum í skýrslunni kemur fram að skipulagið sem lagt er til í þessu frumvarpi er vel fallið til þess að efla umhverfisrannsóknir í landinu.
    Um mörg viðfangsefni hagar þannig til að ekki er fjallað um þau af einum aðila í stjórnkerfinu. Þetta getur leitt til þess að togstreita myndist um einstaka málaflokka vísinda og tækni, en einnig er hætt við að tiltekin svið verði vanrækt vegna þess að ekki er fjallað um þau sérstaklega. Um matvælarannsóknir, fiskeldisrannsóknir eða umhverfisrannsóknir, svo dæmi séu tekin, fjallar enginn einn aðili í stjórnkerfinu, hvorki um stefnumörkun né fjárveitingar. Hætta er á að rannsókna- og þróunarsvið sem erfitt er að finna stað í starfandi stofnunum verði vanrækt og að mannafli, aðstaða og búnaður nýtist ekki sem skyldi. Samræma þarf vinnubrögð við rannsóknir og huga að verkaskiptingu milli stofnana.
    Samhliða því að efla stefnumörkun innan vísinda- og tæknisamfélagsins er brýnt að tengja slíka stefnumörkun stefnu stjórnvalda í menningarmálum og efnahagsmálum. Með því móti er m.a. stuðlað að því að höfð sé hliðsjón af vísinda- og tækniþekkingu í stefnumörkum í efnahagsmálum. Komið verði á samstarfi ráðuneyta undir forustu menntamálaráðuneytisins til þess að vera stjórnvöldum til ráðgjafar við fjárlagagerð á sviði vísinda og tækni í samráði við Vísinda- og tækniráð. Samstarfshópurinn gerir árlega tillögur til ríkisstjórnarinnar um fjárveitingar til málaflokksins og leggur drög að fjárveitingum til þriggja ára. Þannig er tekið mið af því að vísinda- og tæknirannsóknir taka lengri tíma en fjárlagaárið. Samstarfi þessu er ætlað að tryggja að samhengi verði milli stefnumótunar um vísinda- og tæknimál og fjárveitingar frá hinu opinbera sem þýðir að hópurinn þarf að hafa náið samstarf við hið nýja Vísinda- og tækniráð, sbr. 1. tölul. 2. gr. þessa frumvarps.
    Á undanförnum árum hafa Vísindaráð og Rannsóknaráð ríkisins unnið að því að auka samvinnu um verkefni sem báðum eru ætluð samkvæmt lögum. Þannig annast Rannsóknaráð að mestum hluta upplýsingaöflun um mannafla og fjármagn sem varið er til vísinda- og tæknistarfsemi. Saman gefa ráðin út fréttabréf og sameiginlegir starfsmenn hafa verið ráðnir til þess að sinna vísindasamskiptum, einkum vegna tækifæra sem skapast á grundvelli milliríkjasamninga, svo sem EES-samningsins. Þá er í undirbúningi flutningur ráðanna í sameiginlegt húsnæði.
    

Breyttir starfshættir.


    Á vettvangi vísinda og tækni sem annars staðar fara kröfur um hlutlæg vinnubrögð vaxandi. Þess er krafist að faglega sé staðið að undirbúningi ákvarðana og ekki komi til hagsmunaárekstra í ákvarðanatöku. Til að styðja faglega umfjöllun Vísinda- og tækniráðs verða skipuð sérstök fagráð á sviðum vísinda og tækni. Fagráðum er ætlað að gera tillögur til ráðsins um málefni þar sem Vísinda- og tækniráð óskar sérstakrar umfjöllunar og til að meta vísindalegt gildi umsókna í sjóði ráðsins. Vísinda- og tækniráð skipar einnig úthlutunarnefndir fyrir sjóði í vörslu ráðsins. Þeim er ætlað að velja milli faglega hæfra umsókna og gera tillögu um afgreiðslu umsókna með hliðsjón af stefnu ráðsins og þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru. Mikilvægt er að þeir sem sitja í Vísinda- og tækniráði taki ekki beinan þátt bæði í undirbúningi og afgreiðslu einstakra umsókna.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skilið verði á milli umfjöllunar um verkefni og ákvarðana. Þannig eru hæfisreglur nýrra stjórnsýslulaga virtar í hvívetna, en einnig eru festar í sessi þær aðferðir sem þróast hafa í alþjóðlegu samfélagi vísindanna til að tryggja óvilhalla og réttmæta umfjöllun um umsóknir.
    

Mat og úttektir.


    Úttektir og mat á frammistöðu og árangri er ört vaxandi þáttur í vísindastarfsemi erlendis. Algengar eru úttektir á stöðu, árangri og skipulagi vísindastofnana, rannsóknasviða og mat á hæfni vísindamanna. Þá er einnig reynt að meta hvernig tekist hefur að framfylgja stefnu sem mörkuð hefur verið, hvernig styrkveitingar skila sér í starfi vísindamanna og rannsóknastofnana eða hvernig önnur aðföng nýtast. Algengast er að stuðst sé við mat á greinum sem birtast í viðurkenndum vísindatímaritum en einnig er stuðst við mat vísindamanna og þeirra sem nýta sér þjónustu opinberra rannsóknastofnana og sjóða. Reglubundið mat á vísinda- og tæknistarfsemi má m.a. nota til þess að:
—    stýra og forgangsraða fjárveitingum til stofnana og verkefna,
—    lagfæra skipulag stofnana og breyta verklagi og viðfangsefnum,
—    meta tillögur um stór rannsóknaverkefni,
—    meta árangur af rannsókna- og þróunarverkefnum eftir að þeim er lokið.
    Hér á landi hefur mat á vísindastarfsemi ekki verið mikið notað til að stýra fjármagni og mannafla að frátöldu mati sem tengist úthlutun styrkja úr rannsóknasjóðum. Í vísindastefnu ríkisstjórnarinnar kemur fram að samhliða því að marka ramma að fjárveitingum til rannsókna til lengri tíma sé stefnt að því að kröfur til verkefna sem kostuð eru að hluta eða öllu leyti af opinberu fé verði auknar og sjóðum verði gert að meta vísindaleg gæði og framvindu rannsókna- og þróunarverkefna. Einnig er lagt til að gerð verði ítarleg úttekt á stöðu og starfsháttum í grunnrannsóknum hér á landi.
    Tilgangur með úttektum er ekki einvörðungu að nýta aðföng á sem bestan hátt heldur einnig að gera samanburð á vísinda- og tæknistarfsemi hér á landi við sambærilega starfsemi í öðrum löndum. Slíkt stöðumat er ein af forsendum þess að hægt verði að efla vísinda- og tæknistarfsemi hér á landi. Hinu nýja Vísinda- og tækniráði verður falið veigamikið hlutverk í að skipuleggja slíkar úttektir. Ráðinu er ætlað að gera áætlanir um úttektir á einstökum vísinda- og tæknisviðum auk þess að semja við innlenda og erlenda aðila um framkvæmd þeirra.

Önnur nýmæli.


    Meðal annarra nýmæla sem er að finna í frumvarpinu um Vísinda- og tækniráð Íslands er ákvæði um að efla rannsóknatengt framhaldsnám og heimild til að stofna stöður rannsóknaprófessora. Hvort tveggja er lagt til í vísindastefnu ríkisstjórnarinnar frá því í september á sl. ári.
    Á sl. ári beitti menntamálaráðherra sér fyrir stofnun sjóðs til að efla rannsóknatengt framhaldsnám og styrkja nemendur til meistara- eða doktorsgráðu. Hlaut sjóðurinn heitið Rannsóknanámssjóður. Í hann var veitt 8 m.kr. á síðasta ári en í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir 25 m.kr. framlagi í sjóðinn. Sjóðurinn starfar samkvæmt reglum sem menntamálaráðherra samþykkti í október á sl. ári. Samkvæmt reglum sjóðsins hafa nemendur sem skráðir eru í framhaldsnám við Háskóla Íslands forgang næstu árin. Stjórn sjóðsins skipa formaður vísindanefndar Háskóla Íslands, fulltrúar Vísindaráðs og menntamálaráðherra og er sá síðastnefndi formaður stjórnar. Vísindanefnd veitir faglega umsögn um verkefni og eru meðmæli vísindanefndar forsenda fyrir styrkveitingu. Í mati vísindanefndar er m.a. tekið mið af frammistöðu nemenda í námi, vísindalegum árangri aðalleiðbeinanda, vísindagildi fyrirhugaðs rannsóknaverkefnis og reynslu kennara við leiðbeiningu í lokaverkefnum eða rannsóknanámi.
    Í þessu frumvarpi er Rannsóknanámssjóður lögfestur og gert er ráð fyrir að hið nýja Vísinda- og tækniráð fari með málefni sjóðsins í umboði stjórnar hans. Gert er ráð fyrir að reglur sjóðsins verði endurskoðaðar þegar nokkur reynsla er fengin af starfrækslu hans.
    Samkvæmt frumvarpinu fær menntamálaráðherra heimild til að stofna sérstakar stöður prófessora sem einungis sinni rannsóknum. Rætt hefur verið um að stöðurnar yrðu t.d. veittar til 5–7 ára og þeim sem stöðunum gegna verði ætlað að byggja upp rannsóknir á sviðum sem talin eru sérstaklega mikilvæg. Í stöðu rannsóknaprófessors yrði aðeins ráðinn einstaklingur sem metinn hefur verið hæfur til að gegna stöðu prófessors og aflað hefur sér viðurkenningar á alþjóðlegum vettvangi fyrir rannsóknastörf sín. Að ráðningartíma liðnum þyrfti að fara fram úttekt á starfseminni og ákvörðun tekin um framhaldið. Tillögur um fræðasvið sem til álita kæmu fyrir stöðu rannsóknaprófessora ættu að berast menntamálaráðherra en hæfni umsækjenda yrði metin af sérstakri dómnefnd. Um þessi atriði og fleira þarf að fjalla í sérstakri reglugerð menntamálaráðherra um stöður rannsóknaprófessora.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði um stofnun Vísinda- og tækniráðs Íslands, hlutverk þess og markmið. Áhersla er lögð á að tengja umfjöllun ráðsins við þau svið þjóðlífs sem veigamest eru, þ.e. menningu þjóðarinnar og atvinnuvegi.
    

Um 2. gr.


    Hér eru helstu verkefni Vísinda- og tækniráðs Íslands skilgreind. Gert er ráð fyrir að ráðið verði virkt í stefnumörkun á sviði rannsókna og tækni og standi fyrir mati og úttektum á þessum vettvangi. Kveðið er á um ráðgjafarhlutverk ráðsins og um náið samstarf við þau ráðuneyti er vinna að stefnumótun og tillögum um fjárveitingar til málaflokksins. Ráðgert er að koma á samstarfi ráðuneyta til þess að auðvelda þetta samráð og til þess að undirbúa umfjöllun um vísinda- og tæknimál á vettvangi ríkisstjórnar í tengslum við gerð fjárlaga. Miðað verður við að Vísinda- og tækniráð geri þriggja ára áætlun í senn um fjárframlög til rannsókna- og tæknistarfsemi. Þessi skipan mála er nýjung sem sett var fram í vísindastefnu ríkisstjórnarinnar.
    Ráðið skal árlega skila skýrslu til ráðherra um vísinda- og tæknimál. Hún skal lögð fyrir Alþingi og liggja til grundvallar samstarfi ráðuneyta um gerð tillagna um fjárveitingar til málaflokksins í heild.
    Ráðið skal móta úthlutunarstefnu og veita styrki úr sjóðum í vörslu þess. Ráðið skal annast kynningu á rannsóknastarfsemi í landinu, fylgjast með rannsókna-, þróunar- og nýsköpunarstarfi og beita sér fyrir áætlanagerð rannsóknastofnana og atvinnulífs í þeim efnum. Það skal með reglubundnum hætti gangast fyrir mati á framkvæmd rannsókna og árangri þeirra og nota niðurstöður mats í ákvörðunum sínum.
    Ráðið tekur þátt í og fylgist með alþjóðlegu samstarfi á sviði rannsókna. Það greiðir einnig fyrir rannsóknum erlendra vísindamanna hér á landi og stuðlar að samvinnu þeirra við íslenska vísindamenn. Í eldri lögum og reglugerð er gert ráð fyrir að erlendir náttúruvísindamenn þurfi leyfi til rannsókna hér á landi. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að þessum leyfisveitingum verði hætt en að almenna reglan verði sú að erlendum vísindamönnum verði heimilt að stunda rannsóknir hér á landi svo fremi þeir fari að almennum lögum og reglum m.a. um náttúrufræðirannsóknir (lög nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun og náttúrustofur), um náttúruvernd, innflutning vöru, um dvalarleyfi erlendra ríkisborgara hér á landi, um fornleifar o.s.frv. Menntamálaráðuneytið hyggst því fella úr gildi reglugerð nr. 107 frá 1968 um náttúrurannsóknir erlendra vísindamanna á Íslandi. Þó er eðlilegt að í reglugerð verði ákvæði um upplýsinga- og eftirlitshlutverk Vísinda- og tækniráðs.
    Auk þess skal ráðið vinna að öðrum verkefnum sem menntamálaráðherra felur því.
    

Um 3. gr.


    Í þessari grein er fjallað um skipan Vísinda- og tækniráðs Íslands. Í ráðinu sitja níu einstaklingar skipaðir af menntamálaráðherra til þriggja ára. Við tilnefningu til setu í Vísinda- og tækniráði Íslands skal velja einstaklinga sem hafa þekkingu á vísindalegum rannsóknum, yfirsýn yfir rannsóknir í landinu, skilning á hagnýtingu þeirra og eru sérlega hæfir til þess að taka virkan þátt í mótun og framkvæmd vísinda- og tæknistefnu.
    Við undirbúning frumvarpsins hefur verið rætt um eftirfarandi aðferð við skipan ráðsins:
    Þrír yrðu skipaðir samkvæmt tilnefningu skóla á háskólastigi þar sem rannsóknir eru stundaðar, svo og aðila sem nefndir eru í upptalningu í fjórða og fimmta lið þessarar málsgreinar. Eftirtaldir aðilar mundu tilnefna einstaklinga til setu í ráðinu:
         
    
    Sex tilnefndir af Háskóla Íslands.
         
    
    Einn tilnefndur af Kennaraháskóla Íslands.
         
    
    Einn tilnefndur af Háskólanum á Akureyri.
         
    
    Einn tilnefndur í sameiningu af Þjóðarbókhlöðu, Þjóðskjalasafni, Stofnun Árna Magnússonar, Þjóðminjasafni og Listasafni Íslands.
         
    
    Einn tilnefndur af Vísindafélagi Íslendinga.
                  Menntamálaráðherra leiti eftir tilnefningum samkvæmt liðum 1–5, hér að ofan. Tilnefning fulltrúa samkvæmt 4. lið yrði ákveðin á fundi menntamálaráðherra og þangað yrði kvaddur einn fulltrúi frá hverjum ofangreindra aðila.
    Þrír yrðu skipaðir samkvæmt tilnefningu rannsóknastofnana atvinnuveganna og annarra rannsóknastofnana utan verksviðs menntamálaráðherra. Eftirtaldir aðilar mundu tilnefna samtals níu fulltrúa:
         
    
    Sjö tilnefndir af rannsóknastofnunum sem nefndar eru hér að neðan. Tilnefning þeirra yrði ákveðin á fundi sem menntamálaráðuneytið boðar og þangað yrði kvaddur einn fulltrúi frá hverri eftirtalinna stofnana:
                   Hafrannsóknastofnuninni,
                   Iðntæknistofnun Íslands,
                   Náttúrufræðistofnun Íslands,
                   Orkustofnun,
                   Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins,
                   Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins,
                   Rannsóknastofnun landbúnaðarins,
                   Skógrækt ríkisins,
                   Veðurstofu Íslands,
                   Veiðimálastofnun.
                  Til þess að sjónarmið atvinnulífs komi skýrt fram í starfi ráðsins er æskilegt að tillit verði tekið til þeirra við tilnefningar rannsóknastofnana á einstaklingum til setu í ráðinu.
         
    
    Einn einstaklingur tilnefndur af hvorum eftirtalinna aðila:
                   læknaráði Landspítalans,
                   læknaráði Borgarspítalans.
                            Menntamálaráðuneytið leiti eftir tilnefningum þessum.
    Þrír tilnefndir af ríkisstjórn samkvæmt tillögu menntamálaráðherra.
    Með þeim hætti sem rakið er í liðum a og b yrðu nítján einstaklingar tilnefndir til setu í Vísinda- og tækniráði Íslands. Úr þessum hópi veldi menntamálaráðherra sex til setu í ráðinu. Þrír meðlimir ráðsins yrðu skipaðir af menntamálaráðherra skv. c-lið. Menntamálaráðherra skipi jafnmarga varamenn til setu í ráðinu með sama hætti.
    Tilnefning fleiri einstaklinga en geta átt sæti í ráðinu gefur menntamálaráðherra svigrúm til þess að skipa í ráðið þannig að sem flest sjónarmið eigi þar málsvara. Skýrt er tekið fram að þeir sem taka sæti í Vísinda- og tækniráði Íslands eru ekki sérstakir fulltrúar þeirra sem hafa tilnefnt þá. Jafnframt er sú skylda lögð á menntamálaráðherra að gæta þess við val á meðlimum að jafnvægi sé á milli vísinda og tækni. Einnig skal þess gætt að sjónarmið atvinnulífs komi fram í ráðinu. Um þessa tilhögun við tilnefningar og skipan í Vísinda- og tækniráð verður fjallað í reglugerð.
    

Um 4. gr.


    Vísinda- og tækniráði Íslands er ætlað að skipa 3–5 manna fagráð til tveggja ára á helstu sviðum vísinda og tækni og á öðrum athafnasviðum þjóðlífs til þess að veita faglega ráðgjöf og meta umsóknir um styrki. Skipan í fagráð til tveggja ára veitir möguleika til að endurnýja þau reglulega. Menntamálaráðherra setur reglugerð um störf fagráða, en Vísinda- og tækniráð Íslands setur fagráðum erindisbréf þar sem kveðið er á um starfshætti. Í reglugerð er eðlilegt að fjallað sé m.a. um þær kröfur um vísindalega hæfni og skilning á hagnýtingu vísindalegrar þekkingar við nýsköpun sem gera verður til þeirra sem sitja í fagráði. Þau fagráð, sem vænta má að hið nýja Vísinda- og tækniráð skipi, fjalla um hug- og félagsvísindi, líf- og læknisfræði, náttúruvísindi, tækniþróun, þar með talin verkfræði, svo og önnur mikilvæg athafnasvið sem að mati ráðsins gætu orðið heilladrjúg í starfi að verkefnum fyrir ráðið.
    

Um 5. gr.


    Hér er fjallað um framkvæmdastjóra Vísinda- og tækniráðs Íslands og skrifstofu ráðsins. Skrifstofan veitir fagráðum og úthlutunarnefndum nauðsynlega skrifstofuþjónustu. Núverandi starfsfólk Vísindaráðs og Rannsóknaráðs ríkisins svarar til átta stöðugilda. Auk þess starfar einn alþjóðafulltrúi hjá ráðunum fyrir sérstaka fjárveitingu frá menntamálaráðuneyti. Nokkur rekstrarhagræðing verður af því að sameina skrifstofur Vísindaráðs og Rannsóknaráðs ríkisins á einum stað. Heimild til að útvega fjármagn til þess að koma ráðunum í sameiginlegt húsnæði er fyrir hendi í fjárlögum ársins 1994. Jafnframt er gert ráð fyrir að hluta stofndeildar Vísindasjóðs, sbr. lög nr. 48/1987, verði varið til kaupa á húsnæði, sbr. 21. gr., en einnig til þess að kosta rekstur fasteignar Vísindasjóðs. Vísindasjóði var ánöfnuð fasteign þessi með skilyrðum í gjafabréfi.
    

Um 6. gr.


    Með sama hætti og nú er viðhafður um Vísindaráð og Rannsóknaráð ríkisins verður almennur rekstrarkostnaður Vísinda- og tækniráðs greiddur með sérstakri fjárveitingu í fjárlögum.
    

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.
    

Um 8. gr.


    Hér er fjallað um hlutverk Vísindasjóðs. Sjóðurinn tekur við hlutverki og skuldbindingum Vísindasjóðs sem starfað hefur samkvæmt lögum nr. 48/1987 og áður samkvæmt lögum nr. 51/1957, um Vísindasjóð. Styrkir eru veittir samkvæmt umsóknum sem berast eftir auglýsingu. Vísinda- og tækniráð Íslands getur einnig kostað úttektir og árangursmat af fé sjóðsins. Ekki er gert ráð fyrir að veita fé til hefðbundins náms, svo sem meistara- og doktorsnáms en stefnt er að því að Rannsóknanámssjóður gegni því hlutverki í framtíðinni, sjá 23. gr. frumvarpsins. Menntamálaráðherra setur ákvæði um starfsemi sjóðsins í reglugerð, sbr. 20. gr. Hann setur sjóðnum einnig úthlutunarreglur að fengnum tillögum Vísinda- og tækniráðs Íslands.
    

Um 9. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að Vísindasjóður njóti áfram árlegrar fjárveitingar í fjárlögum og framlags frá Seðlabanka Íslands. Framlag Seðlabankans er nú aðaltekjustofn sjóðsins og af heildarráðstöfunarfé hans á þessu ári, alls 147 milljónum króna, koma 120 milljónir frá Seðlabankanum. Í undirbúningi er að styrkja þennan tekjustofn og auka þannig ráðstöfunarfé sjóðsins án þess að útgjöld ríkissjóðs aukist að sama skapi.
    

Um 10. gr.


    Gert er ráð fyrir að Vísinda- og tækniráð skipi sérstakar úthlutunarnefndir sem fá til umfjöllunar þær umsóknir sem að mati fagráða uppfylla kröfur sem gerðar eru um styrkhæf verkefni. Skilið er á milli mats á vísindalegu gildi umsókna í sjóði í vörslu Vísinda- og tækniráðs og ákvarðana um styrkveitingar. Enn fremur er skilið á milli umfjöllunar fagráða og þess sem skrifstofa ráðsins annast í umfjöllun um umsóknir í þessa sjóði. Í þriðja lagi er val milli styrkhæfra umsókna í höndum sérstakra úthlutunarnefnda sem ráðið kemur á laggirnar.
    Hjá Rannsóknasjóði Rannsóknaráðs ríkisins hefur sérstök matsnefnd metið umsóknir með utanaðkomandi aðstoð og lagt tillögu um styrkveitingar fyrir Rannsóknaráð. Skrifstofa ráðsins hefur starfað náið með matsnefnd. Hjá Vísindaráði hefur stjórn þess skipt fé milli deilda, en deildir ráðsins hafa metið umsóknir og tekið ákvarðanir um styrkveitingar. Báðar þessar aðferðir hafa þann ágalla að spurningar geta vaknað um vanhæfi til ákvarðana.
    Reynt er að sameina það sem vel hefur reynst hjá sjóðunum báðum með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til. Með því er einnig leitast við að tryggja að hæfisreglur stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, séu virtar í hvívetna. Einnig er hér fest í sessi sú aðferð sem víða erlendis er beitt við val milli umsókna um styrki til rannsókna- og þróunarverkefna. Það verður lagt í vald fagráða og úthlutunarnefnda að skilgreina þá þjónustu sem óskað er eftir við umfjöllun um umsóknir.
    Með þessu móti verður tryggt að enginn sem fjallað hefur um umsóknir á fyrri stigum taki þátt í lokaafgreiðslu þeirra. Við úthlutanir á styrkjum af almannafé til vísinda- og tæknistarfsemi er grundvallaratriði að engar ásakanir um mismunun af óviðkomandi ástæðum geti vaknað. Leitast skal við að tryggja sanngirni og jafnræði í umfjöllun umsókna sem koma til kasta Vísinda- og tækniráðs.
    Verkaskiptingu í umfjöllun um umsóknir má skýra með eftirfarandi mynd:

MYND REPRÓ



















    Viðfangsefni úthlutunarnefnda er einkum að velja milli hæfra umsókna með hliðsjón af stefnu sem Vísinda- og tækniráð hefur markað og þeim fjármunum sem eru til ráðstöfunar hverju sinni. Í reglugerð er eðlilegt að gert verði ráð fyrir því að umsóknir sem fagráð mæla ekki með komi ekki til umfjöllunar hjá úthlutunarnefndum.
    

Um 11. gr.


    Hér er fjallað um hlutverk Tæknisjóðs að efla hagnýtar rannsóknir og tækniþróun. Tæknisjóður tekur við hlutverki Rannsóknasjóðs Rannsóknaráðs ríkisins sem starfað hefur samkvæmt lögum nr. 48/1987.
    Menntamálaráðherra setur reglugerð um starfsemi sjóðsins, sbr. 20. gr. Hann setur sjóðnum einnig úthlutunarreglur að fengnum tillögum Vísinda- og tækniráðs Íslands.
    

Um 12. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að tekjustofnar Tæknisjóðs verði þeir sömu og Rannsóknasjóðs Rannsóknaráðs ríkisins í núgildandi lögum, að frátöldum 2. tölul. 18. gr. laga nr. 48/1987 þar sem fjallað er um framlag af tekjum Framkvæmdasjóðs. Í lið ii er rætt um tekjur Tæknisjóðs af einkaleyfum. Hér er átt við tilvik sem svo háttar um að styrkþegi Tæknisjóðs telur ástæðu til þess að vernda niðurstöður verkefnis með einkaleyfi. Þegar svo ber undir þarf að gæta hagsmuna Tæknisjóðs vegna þátttöku í fjármögnun verkefnis sem gefur af sér tekjur í framhaldi af því að einkaleyfi er veitt. Þetta ákvæði er í samræmi við úthlutunarreglur Rannsóknaráðs ríkisins og ákvæði í samningum sem gerðir eru milli ráðsins og styrkþega Rannsóknasjóðs. Liðnum „iv: Önnur framlög“ er hér bætt við til samræmis við ákvæði 9. gr. um tekjustofna Vísindasjóðs.
    

Um 13. gr.


    Sjá athugasemdir við 10. gr.
    

Um 14. gr.


    Hér er fjallað um Bygginga- og tækjasjóð sem tekur við hlutverki Byggingasjóðs rannsóknastarfsemi í þágu atvinnuveganna. Hlutverk sjóðsins verður einkum að veita styrki til kaupa á dýrum tækjum. Gert er ráð fyrir að allar rannsóknastofnanir hins opinbera geti sótt um styrk í sjóðinn, en hann var upphaflega einkum ætlaður rannsóknastofnunum atvinnuveganna. Verulegum hluta fjármuna sjóðsins hefur þó verið ráðstafað þannig á undanförnum árum að Háskóli Íslands og stofnanir hans hafa notið góðs af með þátttöku í samfjármögnun bygginga og tækja. Í raun er því aðeins staðfest með lögum fyrirkomulag sem verið hefur viðhaft.
    

Um 15. gr.


    Tekjustofnar Bygginga- og tækjasjóðs verða einkaleyfisgjald af rekstri peningahappdrætta í landinu eða sambærilegar tekjur, svo og fjárveiting úr ríkissjóði. Frá stofnun hefur Byggingasjóður fengið fjárveitingu sem hefur svarað til 20% einkaleyfisgjalds sem Happdrætti Háskóla Íslands hefur greitt til ríkissjóðs. Liðnum „iii: Önnur framlög“ er hér bætt við til samræmis við ákvæði um 9. gr og 12. gr. um tekjustofna Vísindasjóðs og Tæknisjóðs.
    Happdrætti Háskóla Íslands þarf eitt happdrætta í landinu að greiða einkaleyfisgjald af rekstri peningahappdrættis. Einkaleyfisgjald er ekki innheimt hjá öðrum happdrættum þar sem peningar koma í hlut þeirra sem hljóta vinning.

Um 16. gr.


    Hér er kveðið á um að Vísinda- og tækniráð annist málefni Rannsóknanámssjóðs er starfar nú samkvæmt sérstökum reglum sem menntamálaráðherra hefur sett. Samkvæmt 23. gr. þessa frumvarps er þó gert ráð fyrir að sjóðurinn starfi áfram undir sérstakri stjórn og samkvæmt reglum sjóðsins uns annað verður ákveðið. Í reglum menntamálaráðherra um sjóðinn er gert ráð fyrir endurskoðun á reglunum þegar nokkur reynsla hefur fengist af starfrækslu hans. Sjóðurinn styrkir nú einungis rannsóknatengt framhaldsnám til meistara- eða doktorsgráðu við Háskóla Íslands. Fyrirhugað er að sjóðurinn geti í framtíðinni einnig styrkt framhaldsnám við aðra æðri skóla og íslenska stúdenta til framhaldsnáms við erlenda skóla.
    Með þessari grein er Rannsóknanámssjóður lögfestur en honum er ætlað að sinna mikilsverðum þætti í menntun og þjálfun íslenskra vísindamanna.
    

Um 17. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að kostnaður við mat umsókna og úthlutun styrkja skuli greiðast af árlegu ráðstöfunarfé sjóða í vörslu ráðsins. Þessu ákvæði er ætlað að skapa aðhald í rekstri sjóðanna. Fyrir starfsemi Vísindasjóðs kemur þessi heimild í stað ákvæða í núgildandi lögum um að rekstrarkostnaður Vísindasjóðs megi greiðast af vöxtum stofndeildar sjóðsins. Í þessu frumvarpi er hins vegar gert ráð fyrir að stofndeildin verði lögð niður (21. gr.).

Um 18. gr.


    Verði niðurstöðum rannsókna sem styrktar hafa verið haldið leyndum má krefjast endurgreiðslu styrks samkvæmt skilyrðum sem Vísinda- og tækniráð ákveður. Endurgreiðslum skal þó háttað þannig að ekki valdi erfiðleikum fyrir hlutaðeigandi fyrirtæki. Dæmi eru um að skuld fyrirtækja vegna styrkveitinga úr Rannsóknasjóði Rannsóknaráðs ríkisins hefur valdið erfiðleikum við að afla fjármagnsfyrirgreiðslu og aukins hlutafjár.
    

Um 19. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.
    

Um 20. gr.


    Nauðsynlegt er að úthlutunarreglur sjóða séu skýrar og umsækjendum séu ljósar kröfur sem gerðar eru til styrkhæfra umsókna. Í reglugerð þarf að skilgreina starfshætti sjóðanna nánar. Menntamálaráðherra setur hverjum sjóði í vörslu ráðsins sérstakar úthlutunarreglur að fengnum tillögum Vísinda- og tækniráðs Íslands. Þar væri eðlilegt að fjallað yrði m.a. um sameiginlegan umsóknarfrest til sjóða, samráð um afgreiðslu umsókna eftir því sem verkefni gefa tilefni til, um veitingu styrkja til lengri tíma og önnur atriði.
    

Um 21. gr.


    Hér er kveðið á um að eignir og skuldbindingar Vísindasjóðs og Rannsóknasjóðs, sem starfa samkvæmt núgildandi lögum (nr. 48/1987), falli til Vísindasjóðs og Tæknisjóðs sem mælt er fyrir í þessu frumvarpi.
    Stofndeild Vísindasjóðs verður lögð niður. Eignir stofndeildar skal setja í sjóð sem verður varið til kaupa á húsnæði fyrir Vísinda- og tækniráð Íslands og til reksturs húseigna Vísindasjóðs. Í 6. gr. fjárlaga yfirstandandi árs er fjármálaráðherra heimilt að festa kaup á húsnæði fyrir Vísindaráð og Rannsóknaráð ríkisins og taka til þess nauðsynleg lán, sjá einnig athugasemd við 5. gr.
    

Um 22. gr.


    Menntamálaráðherra er heimilt að setja á stofn sérstakar stöður prófessora sem einungis sinni rannsóknum. Í umræðum um þessar stöður, sem hér er mælt fyrir, hefur verið varpað fram hugmyndum um að stöðurnar verði tímabundnar í 5–7 ár og verði þeim sem stöðunum gegna ætlað að byggja upp rannsóknir á sviðum sem talin eru sérstaklega mikilvæg og áhugaverð. Í stöðu rannsóknaprófessors yrðu aðeins ráðnir einstaklingar sem metnir hafa verið hæfir til þess að gegna stöðu prófessors og aflað hafa sér viðurkenningar á alþjóðlegum vettvangi fyrir rannsóknastörf sín. Að ráðningartímanum liðnum þyrfti að fara fram úttekt á starfseminni og taka þyrfti afstöðu til framhaldsins. Vísinda- og tækniráð væri einn þeirra aðila sem fjallað gæti um eða gert tillögur um stofnun á stöðum rannsóknaprófessora. Tillögur um fræðasvið sem til álita koma fyrir stöðu rannsóknaprófessors yrðu gerðar til menntamálaráðherra en hæfni umsækjenda metin af sérstaklega skipaðri dómnefnd.
    

Um 23. gr.


    Sjá skýringar við 16. gr.
    

Um 24. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 25. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.
    

Um 26. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.
    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um Vísinda- og tækniráð Íslands.


    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að sameina Vísindaráð og Rannsóknaráð í eitt ráð, Vísinda- og tækniráð Íslands. Sjóðirnir verða þó áfram tveir, Vísindasjóður sem leggur fé til grunnvísinda og Tæknisjóður sem leggur fé til hagnýtra rannsókna en hann kemur í stað Rannsóknaráðs. Einnig verður í vörslu ráðsins Bygginga- og tækjasjóður en hann kemur í stað Byggingasjóðs rannsókna í þágu atvinnuveganna. Að auki mun Vísinda- og tækniráð annast verkefni fyrir stjórn Rannsóknanámssjóð en í ákvæði til bráðabirgða segir að reglur menntamálaráðuneytis um starfsemi og starfshætti sjóðsins gildi áfram þar til starfsemi sjóðsins verði endurskoðuð.
    Í 22. gr. er veitt heimild til að setja á stofn tímabundnar stöður rannsóknaprófessora sem sinni rannsóknum á sviðum sem talin eru sérstaklega mikilvæg. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að gert sé ráð fyrir að stöðurnar séu til 5–7 ára. Það er mat fjármálaráðuneytis að launakostnaður og annar rekstrarkostnaður vegna hverrar prófessorsstöðu geti numið 4–5 m.kr. á ári en heildarkostnaðarauki fer eftir því hvort og í hvaða mæli þessi heimild er nýtt.
    Að öðru leyti er það mat fjármálaráðuneytis að bein áhrif frumvarpsins á útgjöld ríkissjóðs verði óveruleg. Þó skal bent á nokkur atriði er snerta kostnað án þess að þau hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs:
    Nefndarmenn í Vísindaráði og Rannsóknaráði eru 12 samkvæmt núgildandi lögum. Að auki skipa stjórnir deilda 21 nefndarmaður. Störf er lúta beint að úthlutun úr sjóðunum eru greidd af ráðstöfunarfé sjóðanna en önnur störf eru greidd af rekstrarfé ráðanna. Í nýju Vísinda- og tækniráði munu verða 9 nefndarmenn. Gert verður ráð fyrir fagráðum í stað deilda og verður greiðslufyrirkomulag með hliðstæðum hætti og nú er til deilda Vísindaráðs. Ekki er kveðið á um hve mörg fagráðin eigi að vera en gert er ráð fyrir 3–5 nefndarmönnum í hverju ráði. Ætla má að útgjöld vegna þóknanagreiðslna verði svipuð og nú er.
    Rekstrarkostnaður vegna Vísindaráðs og Rannsóknaráðs er um 30,4 m.kr. í fjárlögum 1994. Með sameiningu þessara ráða dregur óverulega úr rekstrarkostnaði þar sem ráðin eru nú þegar að einhverju leyti í samrekstri. Í greinargerð frumvarpsins er ekki gert ráð fyrir að starfsmönnum fækki heldur að þeim fjölgi og er þar tekið mið af hlutverki ráðsins samkvæmt þessu frumvarpi. Ef það gengur eftir verður sparnaður af sameiningu þessara ráða óverulegur.
    Í fjárlögum 1994 er svohljóðandi heimild í 6. gr.: „Að kaupa húsnæði fyrir Vísindaráð og Rannsóknaráð ríkisins í tengslum við samrekstur stofnananna og taka til þess nauðsynleg lán.“ Húsnæði Vísindaráðs að Bárugötu 3 var gjöf til ráðsins og samkvæmt erfðaskrá gefanda er ekki heimilt að selja húsið til annarra nota. Ætlunin er að nota húsnæðið sem íbúð fyrir erlenda vísindamenn sem koma og dveljast hér á landi á vegum eða í tengslum við Vísinda- og tækniráð. Á móti kaupverði nýs húsnæðis kemur að stofndeild Vísindasjóðs verður lögð niður og eignir hennar settar í sjóð sem verður varið til kaupa á húsnæði fyrir Vísinda- og tækniráð Íslands og til reksturs húseigna Vísindasjóðs. Eignir stofndeildarinnar nema nú um 20–30 m.kr.
    Framlag ríkisins til Vísindasjóðs, Tæknisjóðs og Bygginga- og tækjasjóðs er skilgreint á hliðstæðan hátt og í núgildandi lögum og hefur því ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs nema með ákvörðun um hækkun framlags í fjárlögum. Ákvæði um tekjur Byggingasjóðs rannsóknastarfsemi í þágu atvinnuveganna sem fjallar um einkaleyfisgjald af Happdrætti Háskóla Íslands er breytt á þá lund að það tekur til einkaleyfisgjalds af rekstri peningahappdrætta eða annarra samsvarandi tekna.
Neðanmálsgrein: 1
OECD (1993): Science, Technology and Innovation Policies: ICELAND. Paris, 1993.
Neðanmálsgrein: 2
Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um stefnu í vísindamálum, samþykkt í ríkisstjórn 21. september 1993, bls. 1.