Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 342, 118. löggjafarþing 174. mál: sameining Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda.
Lög nr. 130 20. desember 1994.

Lög um sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í ein heildarsamtök bænda.


1. gr.

     Við sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í ein heildarsamtök bænda 1. janúar 1995 taka hin nýju samtök við réttindum og skyldum Búnaðarfélagsins og Stéttarsambandsins, lögum samkvæmt.
     Stjórnir Búnaðarfélagsins og Stéttarsambandsins fara frá og með 1. janúar 1995 í sameiningu með það hlutverk, sem annarri hvorri þeirra er falið í einstökum lögum, uns fyrsta stjórn hinna nýju samtaka hefur verið kjörin. Eftir það fer sú stjórn með það hlutverk sem að framan greinir.

2. gr.

     Þeir starfsmenn Búnaðarfélags Íslands, sem fastráðnir eru hjá félaginu 31. desember 1994 og verða starfsmenn hinna nýju samtaka, halda áunnum lífeyrisréttindum sínum og geta áfram átt aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins með þeim réttindum og skyldum sem fyrir er mælt í lögum um lífeyrissjóðinn.

3. gr.

     Ríkissjóður ábyrgist gagnvart hinum nýju samtökum skuldbindingar þeirra við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins vegna lífeyrisréttinda skv. 2. gr., svo og vegna lífeyrisréttinda fastráðinna starfsmanna Búnaðarfélags Íslands sem látið hafa af störfum fyrir 1. janúar 1995.

4. gr.

     Jafnskjótt og fyrsta þing hinna nýju samtaka hefur sett þeim formlegar samþykktir skulu lög þessi tekin til endurskoðunar, svo og öll þau lagaákvæði önnur þar sem vísað er til Búnaðarfélags Íslands eða Stéttarsambands bænda.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Jafnframt falla úr gildi lög nr. 15/1928, um lífeyri fastra starfsmanna Búnaðarfélags Íslands.

Samþykkt á Alþingi 9. desember 1994.