Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 781, 118. löggjafarþing 197. mál: vernd barna og ungmenna (barnaverndarstofa).
Lög nr. 22 2. mars 1995.

Lög um breyting á lögum um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992.


1. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
Stjórn barnaverndarmála.
     Starf til verndar börnum og ungmennum rækja samkvæmt lögum þessum félagsmálaráðuneytið, barnaverndarstofa, barnaverndarnefndir og barnaverndarráð og eru í lögum þessum nefnd barnaverndaryfirvöld.

2. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
Hlutverk félagsmálaráðuneytis og barnaverndarstofu.
     Félagsmálaráðuneytið fer með yfirstjórn barnaverndarmála og annast stefnumótun í málaflokknum. Sérstök stofnun, barnaverndarstofa, skal vinna að samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs. Hún annast daglega stjórn barnaverndarmála. Meginhlutverk hennar er:
 1. að veita barnaverndarnefndum leiðbeiningar og ráðgjöf varðandi fjölskylduvernd og úrlausn barnaverndarmála,
 2. að hafa eftirlit með störfum barnaverndarnefnda, þar á meðal heimta frá þeim ársskýrslur,
 3. að hafa yfirumsjón og eftirlit með stofnunum og heimilum sem ríkið rekur eða styrkir fyrir börn og ungmenni sem vistuð eru á grundvelli laga þessara,
 4. að hafa umsjón með vistun barna og ungmenna á stofnunum og heimilum sem ríkið rekur eða styrkir á grundvelli laga þessara,
 5. að hlutast til um að settar verði á fót stofnanir og heimili skv. 2. og 4. mgr. 51. gr. laga þessara,
 6. að veita barnaverndarnefndum fulltingi við öflun hæfra fósturforeldra,
 7. að hlutast til um að fram fari þróunar- og rannsóknarstarf á sviði barnaverndar,
 8. að annast fræðslu um barnavernd, einkum fyrir barnarverndarnefndir og starfsmenn þeirra.

     Ræki barnaverndarnefnd ekki störf þau sem henni eru falin í lögum þessum skal barnaverndarstofa krefja hana skýrslna og halda henni til að rækja skyldu sína. Ef stofunni þykir ástæða til getur hún lagt fyrir barnaverndarnefnd að gera sérstakar ráðstafanir í máli hvort sem hún hefur fjallað um það áður eða ekki. Nú verður barnaverndarstofa þess áskynja að barnaverndarnefnd hefur kveðið upp úrskurð sem er andstæður lögum og getur stofan þá skotið málinu til endanlegs úrskurðar barnaverndarráðs.
     Ákvörðunum barnaverndarstofu er heimilt að skjóta til félagsmálaráðuneytisins.
     Barnaverndarstofa skal árlega gefa út skýrslu um starfsemi sína.
     Ráðherra skal kveða nánar á um starfsemi barnaverndarstofu í reglugerð.

3. gr.

     Við upphaf 5. gr. laganna bætist: Starfsmenn barnaverndarstofu.

4. gr.

     Í stað orðsins „Félagsmálaráðuneytið“ í 3. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna kemur: Barnaverndarstofa.

5. gr.

     14. gr. laganna orðast svo:
Tilkynningarskylda lögreglu o.fl.
     Þegar grunur leikur á að refsiverður verknaður hafi verið framinn annaðhvort af barni eða ungmenni eða gegn því skal lögregla, þegar hún fær slíkt mál til meðferðar, tilkynna það barnaverndarnefnd og gefa henni kost á að fylgjast með rannsókn máls. Barnaverndarnefnd skal tilkynna foreldri barns um slíkt mál mæli hagsmunir barnsins ekki gegn því.
     Nú tekur lögregla skýrslu af barni og skal lögregla þá gefa barnaverndarnefnd kost á að láta fulltrúa sinn eða starfsmann vera viðstaddan skýrslutökuna. Lögregla getur krafist þess telji hún þörf á því. Óski foreldri eftir að vera viðstatt skýrslutöku af barni sínu skal það heimilt, nema lögregla ákveði annað vegna hagsmuna barnsins eða vegna þess að nærvera foreldra er talin geta torveldað rannsókn málsins.
     Nú er tekin skýrsla af barni fyrir dómi og skal ákærandi þá tilkynna það barnaverndarnefnd. Barnaverndarnefnd er heimilt að láta fulltrúa sinn eða starfsmann vera viðstaddan þegar skýrsla er tekin af barninu. Óski foreldri eftir að vera viðstatt skýrslutöku af barni sínu skal það að jafnaði heimilt. Dómari úrskurðar um þetta atriði ef ágreiningur verður og sætir úrskurður hans ekki kæru.

6. gr.

     Orðið „dómstólum“ í 5. mgr. 16. laganna fellur brott.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „unglingaheimili“ í 1. mgr. kemur: stofnun eða heimili.
 2. Orðin „eða deild Unglingaheimilis ríkisins fyrir vímuefnaneytendur“ í 3. mgr. falla brott.


8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
 1. Við greinina bætist ný málsgrein er verður 1. mgr. og orðast svo:
 2.      Barnaverndarstofa veitir barnaverndarnefndum fulltingi við öflun hæfra fósturforeldra. Stofan metur hæfni væntanlegra fósturforeldra og veitir þeim fræðslu með námskeiðahaldi.
 3. Við 1. mgr., sem verður 2. mgr., bætist: Barnaverndarnefnd skal hafa samráð við barnaverndarstofu við val á fósturforeldrum.


9. gr.

     Í stað orðsins „Félagsmálaráðuneytið“ í upphafi 2. mgr. 31. gr. laganna kemur: Barnaverndarstofa.

10. gr.

     Í stað orðsins „barnaverndarnefndar“ í niðurlagi 36. gr. laganna kemur: barnaverndarstofu.

11. gr.

     1. mgr. 39. gr. laganna orðast svo:
     Barnaverndarstofa heldur skrá um börn í fóstri.

12. gr.

     Í stað orðsins „sýslumanns“ í fyrri málslið 48. gr. laganna kemur: lögreglu.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 51. gr. laganna:
 1. 2. og 3. mgr. falla brott.
 2. Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ í 5. mgr., er verður 3. mgr., kemur: barnaverndarstofu.
 3. Við greinina bætist ný málsgrein, er verður 4. mgr., er orðast svo:
 4.      Þeir aðilar, sem taka börn til dvalar á einkaheimili í atvinnuskyni, gegn gjaldi, sem ætlað er að vara í allt að sex mánuði, skulu sækja um leyfi til þess til barnaverndarnefndar í heimilisumdæmi sínu.
 5. 4. mgr. orðast svo:
 6.      Félagsmálaráðuneytið skal sjá um að sérhæfð heimili og stofnanir séu tiltækar fyrir börn og ungmenni þegar úrræði barnaverndarnefndar skv. 21. gr. og 1. mgr. 22. gr. hafa ekki komið að gagni. Hér er átt við heimili og stofnanir þar sem fram fer sérhæfð meðferð, svo sem vímuefnameðferð og vistun í bráðatilvikum vegna meintra afbrota og alvarlegra hegðunarerfiðleika. Slík heimili og stofnanir eru rekin af ríkinu eða af einkaaðilum undir yfirumsjón og eftirliti barnaverndarstofu. Um starfsemi heimila og stofnana, sem rekin eru af ríkinu, skal nánar kveðið á í reglugerð er félagsmálaráðherra setur.


14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 52. gr. laganna:
 1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Óheimilt er að setja á stofn eða reka heimili eða stofnun skv. 2. og 3. mgr. 51. gr. nema leyfi barnaverndarstofu komi til.
 2. 2. mgr. orðast svo:
 3.      Barnaverndarstofa skal semja og gefa út nánari reglur og leiðbeiningar um stjórn, starfsfólk, m.a. hæfisskilyrði og menntun, og alla aðbúð á heimilum og stofnunum sem reknar eru af einkaaðilum og sveitarfélögum á grundvelli 51. gr.
 4. Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
 5.      Félagsmálaráðherra skal setja reglugerð um starfsemi heimila sem taka börn til dvalar, sbr. 4. mgr. 51. gr., og skilyrði fyrir leyfisveitingu.


15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 53. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Barnaverndarnefnd hefur í umdæmi sínu eftirlit með heimilum og stofnunum sem reknar eru samkvæmt ákvæðum þessa kafla nema eftirlit sé falið öðrum samkvæmt lögum. Barnaverndarnefnd skal fylgjast með högum og aðbúnaði barna á slíkum heimilum og stofnunum og gæta þess vandlega að ekki séu rekin í umdæmi hennar önnur heimili og stofnanir fyrir börn en þau sem hlotið hafa leyfi samkvæmt lögum þessum.
 3. Í stað 3. mgr. kemur:
 4.      Barnaverndarnefndir og barnaverndarstofa skulu hafa óheftan aðgang að upplýsingum um rekstur þeirra heimila og stofnana sem þær samkvæmt lögum þessum skulu hafa eftirlit með og sömuleiðis að upplýsingum um aðbúnað og hagi barna sem þar dvelja.
       Ef meðferð barns á heimili eða stofnun, sem barnaverndarnefnd ber skv. 1. mgr. að hafa eftirlit með, er að mati nefndarinnar óhæfileg, eða rekstri slíks heimilis eða stofnunar á annan hátt ábótavant, skal nefndin leitast við með leiðbeiningum og áminningum að bæta úr því sem áfátt er og veita ákveðinn frest til þess. Komi það ekki að haldi skal hún leggja málið fyrir barnaverndarstofu.
       Barnaverndarstofa getur samkvæmt ábendingum barnaverndarnefndar, eða að eigin frumkvæði, svipt heimili eða stofnun rétti til áframhaldandi rekstrar ef meðferð barns er óhæfileg, eða rekstri heimilis eða stofnunar er ábótavant, og sá frestur sem stofan hefur veitt til úrbóta er liðinn án þess að bætt hafi verið úr því sem áfátt er.


16. gr.

     1. málsl. 56. gr. laganna orðast svo: Barnaverndarnefnd skal eftir því sem hún telur ástæðu til hafa eftirlit með leiksýningum hvers konar og opinberum sýningum eða skemmtunum ætluðum ungmennum.

17. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 23. febrúar 1995.