Vestnorræna þingmannaráðið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 14:12:30 (3430)

1996-02-29 14:12:30# 120. lþ. 99.3 fundur 324. mál: #A Vestnorræna þingmannaráðið 1995# skýrsl, 325. mál: #A samþykktir Vestnorræna þingmannaráðsins 1995# þál., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[14:12]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hæstv. ráðherra. Ég held að málið sé kannski það að reyna að rjúfa einangrun vestnorræna samstarfsins án þess að stofna því í hættu. Það hefur verið þannig að vinir okkar frá Færeyjum og Grænlandi hafa gjarnan viljað hafa samstarfið ekki alveg ólíkt því sem það er vegna þess að með þeim hætti geta þeir gengið fram með fullgildum hætti gagnvart Íslendingum á þingmannagrundvelli. En það hefur orðið til þess að það er að sumu leyti of mikið los á þessu og ég heyri að við erum sammála um að það er skynsamlegt að reyna að breyta því.

Ég tek líka undir það með hæstv. ráðherra að það liggur ekkert á því. Þetta er ekkert sem þarf að gerast á morgun eða hinn. Þetta eru hlutir sem þurfa að fá eðlilega þróun og það þarf að skapa um það samstöðu á öllum þjóðþingunum á þessu svæði. Það er samt sem áður nauðsynlegt að ganga í þetta verk af nokkrum myndugleik, aðallega vegna nýs skipulags hjá Norðurlandaráði. Þar vinna menn að nýjum hlutum og eru býsna uppteknir af því eins og eðlilegt er. Það er hætt við að samstarf í þessari skúffu gleymist ef menn fara ekki í að endurskipuleggja vestnorræna þingmannasamstarfið samhliða eða strax í kjölfarið.

Að lokum vil ég beina því sérstaklega til hæstv. ráðherra að hann taki á þessu máli á vettvangi samstarfsráðherra Norðurlanda þegar þangað berst bréf frá Vestnorræna þingmannaráðinu þar sem óskað verður eftir umsögn eða áliti samstarfsráðherranna á þeim hugsanlegu skipulagsbreytingum sem þarna þarf að gera. Og loks vil ég endurtaka óskir mínar um að það verði sérstaklega litið til með vestnorræna sjóðnum og spurningunni um það hvernig honum verður komið fyrir í framtíðinni. Í þeim efnum þarf að vinna sátta- og samtalastarf á milli ráðuneyta og þingmanna.