ÖSE-þingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 14:31:50 (3437)

1996-02-29 14:31:50# 120. lþ. 99.5 fundur 312. mál: #A ÖSE-þingið 1995# skýrsl, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[14:31]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég gat þess fyrr í morgun hvort það væri ekki ástæða fyrir okkur á hinu háa Alþingi að skoða það rækilega í hvaða alþjóðasamstarfi við tökum þátt. Ég get ekki neitað því að skýrsla hv. þm. Péturs Blöndals um starfsemi ÖSE vakti hjá mér þær spurningar hvort þátttaka okkar í ÖSE sé nauðsynleg og hvað eigi eiginlega að gera með það fyrirbæri. Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu varð til á þeim tíma þegar ástand mála var allt annað en það er nú. Ég spyr hvort það séu forsendur fyrir starfi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu vegna þess að nánast öll mál, ég held öll þau mál sem hv. þm. kom inn á í sinni skýrslu eru til meðferðar annars staðar.

Hann nefndi minnihlutahópa í ríkjum Austur-Evrópu. Það mál hefur verið mjög mikið til umfjöllunar innan Evrópuráðsins. Kosningaeftirlit. Það eru ótal aðilar sem senda fulltrúa sína til kosningaeftirlits, þar á meðal Evrópuráðið, Sameinuðu þjóðirnar og hinir og þessir aðilar. Það var komið inn á Kúrda og ástandið í Tyrklandi sem einnig hefur verið stöðugt til umfjöllunar í Evrópuráðinu. Rússar eru nú orðnir aðilar að Evrópuráðinu þannig að ekki þarf vettvang til að ræða sérstaklega við þá. Þeir eru að vísu ekki komnir í NATO, hvort sem þeir fara þangað fyrr eða síðar þannig að það má segja að sá þáttur sem snýr sérstaklega að öryggismálunum kann að þurfa einhvern vettvang. En öll eru þessi ríki nú aðilar að Sameinuðu þjóðunum. Og þegar hv. þm. nefndi mál Sophiu Hansen, þá hygg ég að íslenskir þingmenn hafi reynt að beita sér í því máli hvar sem þeir hafa getað komið því við, m.a. í Evrópuráðinu, hugsanlega innan NATO og alls staðar þar sem þeir hafa átt samskipti við tyrkneska þingmenn. (Gripið fram í: Í VES.) Já, Vestur-Evrópusambandinu og hvar sem menn hafa getað.

Í þessu samhengi vil ég nefna það síðasta sem fram kom í máli þingmannsins um verkefni í Bosníu. Það er einmitt athyglisvert. Við horfðum upp á hörmungarnar í um það bil fimm ár og allan þann tíma voru málefni fyrrverandi ríkja Júgóslavíu til meðferðar í ótal stofnunum, hjá Sameinuðu þjóðunum, NATO, Evrópuráðinu, Evrópusambandinu, ÖSE og eflaust víðar. Ég vil því bara ítreka það sjónarmið mitt að við höfum takmarkað fjármagn til þessarar starfsemi. Við stöndum frammi fyrir því í ákveðnum nefndum og ég vil þar aftur tiltaka Evrópuráðið og EFTA-nefndina. Það er þar sem ég þekki til. Ég veit að fulltrúar annarra alþjóðadeilda hafa líka sitt að segja um það hve fjármagnið takmarkar starfsemina. Við þurfum að velta því fyrir okkur í mikilli alvöru, í hverju viljum við taka þátt og í hverjum eigum við að taka þátt. Er ekki rétt að við reynum að takmarka okkur við þá þætti sem snerta okkur mest og sem varða framtíðina mestu og að við séum ekki að vinna í sömu málunum í mörgum stofnunum?