Norður-Atlantshafsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 16:08:58 (3465)

1996-02-29 16:08:58# 120. lþ. 99.6 fundur 335. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1995# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[16:08]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er erfitt að hrekja þennan málflutning hv. þm. Geirs H. Haardes. Ég er einfaldlega annarrar skoðunar um ýmsa hluti sem þarna koma fram. En ég er sammála því að menn eiga að fara að þessu með gát. Ég held samt sem áður að það þurfi einhvern til að tala máli þessara ríkja. Það gerir það enginn nú. Það eru allir með hálfkveðnar vísur um að auðvitað vilji menn allt fyrir þau gera. En þegar á hólminn er komið er erfitt að standa við þau orð. Hv. þm. Geir H. Haarde flutti skýringarnar á því af hverju svo er.

Mig langar aðeins að drepa á það síðasta sem hann nefndi hérna. Hann sagði að það væri ekki skynsamlegt af mér að blanda saman aðild að Evrópusambandinu og NATO. Það kann vel að vera að það sé ekkert skynsamlegt. Ég er honum mjög sammála um að það er óskynsamlegt að blanda þessu tvennu saman. En í mínum reynsluheimi, sem er þing Vestur-Evrópusambandsins, standa upp afskaplega góðir kristilegir íhaldsmenn og segja hreinlega: Svona er veruleikinn því að þessu er blandað saman af þeim sem fara með völdin og hafa dýrðina í þessum efnum. Það er staðreynd. Ég lít svo á að það sé staðreynd. Mér er sagt það af viturri mönnum. Það skýrir líka fyrir mér tregðuna sem virðist vera í gangi í þessum efnum.

Hv. þm. Geir H. Haarde hefur vafalaust góð svör við þessu og þau eru vafalaust ekkert ómerkari en þær staðhæfingar sem íhaldssamari og jafnvel gildari þingmenn en hann hafa úti í Evrópu.