Evrópuráðsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 17:30:53 (3477)

1996-02-29 17:30:53# 120. lþ. 99.8 fundur 338. mál: #A Evrópuráðsþingið 1995# skýrsl, ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[17:30]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þakkir annarra hv. þingmanna fyrir þá framsögu sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson flutti áðan og taka sömuleiðis undir hans orð um ágæta frammistöðu formanns íslensku sendinefndarinnar, hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur.

Ég ætla að gera einn þátt að umræðuefni sem ekki hefur verið nefndur, en það eru umhverfismál sem mjög eru til umfjöllunar í Evrópuráðinu. Áður vildi ég þó undirstrika og leggja áherslu á það hversu mikilvægt Evrópuráðið er okkur Íslendingum. Það er mikilvægur vettvangur fyrir okkur, ekki aðeins til þess að fylgjast með lýðræðisþróun og mannréttindum í Evrópu, heldur er það einnig réttur vettvangur til þess að aga okkur sjálf og bera hingað heim þá framfarastrauma sem þar streyma í þingstörfum.

Þá vil ég einnig gera að umtalsefni þátttöku Austur-Evrópuríkjanna og segja að nokkru frá þeirri reynslu sem ég hef af einu slíku máli. Öllum er kunnugt að við höfum um það að velja að halda þessum ríkjum utan Evrópuráðsins og beita þau þvingunum, þ.e. þeirri þvingun að þau skuli fyrst taka til í sínum heimagarði áður en þau komi til liðs við okkur í Vestur-Evrópu. Hinn kosturinn er sá að hleypa þeim inn og beita þau aðhaldi með Mannréttindadómstólnum og þátttöku í Evrópuráðinu sjálfu. Ég er talsmaður þess síðarnefnda, þ.e. að hleypa þessum ríkjum eftir því sem kostur er inn í Evrópuráðið og beita þau þar aðhaldi, bæði með Mannréttindadómstólnum og umfjöllun í Evrópuráðinu.

Ég átti þess kost að vera í sendinefnd þingmanna Evrópuráðsins sem fór í kosningaeftirlit til Aserbaídsjan. Ég tel að slíkar ferðir séu einn sá vettvangur sem við höfum til þess að láta gott af okkur leiða í starfi Evrópuráðsins. Aserbaídsjan er ríki sem hefur lengi sótt um aðild að Evrópruráðinu og þá sótt um gestaaðild. Því hefur hins vegar verið neitað og að sjálfsögðu eru enn minni líkur á fullri aðild. Ég fann þegar ég átti viðræður við æðstu embættismenn þeirrar þjóðar hversu mikilvæg aðild að Evrópuráðinu er slíku ríki af mörgum ástæðum sem ég ætla ekki að fara að tíunda hér en mönnum er mjög kunnar.

Liður í umsókn Asera var að fá þingmannanefnd Evrópuráðsins til þess að koma og staðfesta að lýðræðislegar kosningar hefðu farið fram með viðeigandi hætti. Því miður, eins og komið hefur fram í máli mínu áður á hv. Alþingi, var undirbúningurinn hvorki nægjanlega góður né lýðræðislegur fyrir kosningarnar í Aserbaídsjan og þá enn síður framkvæmd kosninganna. Umsögn þingmannanefndarinnar frá Evrópuráðinu var þess vegna afar skorinorð, hreinskilin og afdráttarlaus í því efni að Aserbaídsjan uppfyllti ekki grundvallarskilyrði um lýðræðislegar kosningar sem þyrfti til þess að gerast gestaaðilar eða fá aukaaðild að Evrópuráðinu.

Enn fremur gagnrýndi þingmannanefnd Evrópuráðsins sem ég tók þátt í stjórnarskrá Aserbaídsjan. Það er eitt af þeim atriðum sem við að sjálfsögðu ætlumst til að slík ríki uppfylli til að fá aðild að Evrópuráðinu.

Ég vík þá örfáum orðum að umhverfismálunum, ekki til þess að gera þeim skil með neinum viðhlítandi hætti, heldur til þess fyrst og fremst að leggja áherslu á að umhverfismálin eru ríkur þáttur í starfi Evrópuráðsins, þáttur sem við eigum svo sannarlega að gafa gaum, því að þar eigum við mikilla hagsmuna að gæta. Ráðherrafundir eru haldnir og þar eru hinar stærri ákvarðanir teknar, en þær eru að sjálfsögðu byggðar á því starfi sem unnið hefur verið í Evrópuráðinu áður en til ráðherrafundanna kemur.

Það er flestum kunnugt að athygli Evrópuráðsins eins og annarra sem um umhverfismál fjalla snýr mjög til Austur-Evrópu. Það er hvort tveggja að menn sjá þar landvinninga, ég vil segja með pólitískum hætti gegnum umhverfismálin en ekki aðeins það, heldur þó hitt miklu frekar að í Evrópuráðinu gefst mönnum nú í fyrsta skipti tækifæri til að nálgast Austur-Evrópuríkin og beita þau þrýstingi, aðhaldi og um leið að hjálpa þeim í átt til betri umhverfisverndar. Þar er ekki aðeins um mannúð okkar að ræða heldur eigin hagsmuni. Það eru hagsmunir okkar að því mengunarfári ljúki sem fyrst sem ríkir í Austur-Evrópu.

Þessi áhersla og eðlileg athygli Evrópuráðsins á Austur-Evrópu er nokkuð sem við verðum að sjálfsögðu að taka þátt í, en það hlýtur þó að vera áhugaefni okkar að draga athygli og umfjöllun Evrópuráðsins hingað í átt til okkar, Norður-Evrópu, og þá er ég fyrst og fremst að hugsa um hafsvæðin í kringum Ísland og öll þau mörgu hagsmunamál sem að okkur snúa á því sviði. Þá stendur okkur eins og öðrum ógn af þeirri mengun sem er frá Norður-Rússlandi og mætti fara mörgum þungum orðum um.

Ég tek undir orð sem hér hafa fallið í dag um þann mikilvæga þátt sem persónuleg kynni af þingmönnum annarra ríkja hafa. Ég sit í umhvn. í Evrópuráðinu og reyndar í annarri nefnd. Þar hefur mér gefist tækifæri til þess að tala við ráðandi menn og áhrifamenn í umhverfismálum í Evrópu. Ég hef sömuleiðis komið að máli við starfsmenn og stjórnendur þinghaldsins og boðað þeim að ég muni beita mér fyrir því að verkefni varðandi umhverfismál í norðurhöfum og á norðurslóðum og þau sem tengjast því mikla verkefni sem við höfum í norðurheimskautsráðinu komi til umfjöllunar í Evrópuráðinu.

Ég vil að lokum enn einu sinni taka undir orð frummælanda um Evrópuráðið, vægi þess fer vaxandi fyrir okkur. Við eigum að taka þar aukinn þátt, láta til okkar taka. Það er fagnaðarefni að þátttaka okkar að undanförnu hefur verið með þeim hætti að á rödd okkar er hlustað.