VES-þingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 18:38:17 (3488)

1996-02-29 18:38:17# 120. lþ. 99.9 fundur 339. mál: #A VES-þingið 1995# skýrsl, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[18:38]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hér hefur lengi dags staðið málefnaleg og athyglisverð umræða um utanríkismál sem ég held að hafi sýnt fram á að það er nauðsynlegt að taka lotur um utanríkismál oftar en við gerum. Ég vek sérstaka eftirtekt á því að menn hafa eiginlega orðið sammála um að það eru blikur á lofti varðandi NATO, þ.e. hvert ætlar NATO að þróast, hvert á það að þróast og það mál sem ég flyt tengist því að nokkru leyti.

Herra forseti. Ég flyt skýrslu Íslandsdeildar Vestur-Evrópusambandsþingsins fyrir síðasta ár. Þetta er merkileg skýrsla að því leyti til að þetta er fyrsta skýrslan sem er flutt um þátttöku okkar Íslendinga í þessum merku þingmannasamtökum. Ég flyt hana vegna þess að formaður sendinefndarinnar, hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir, er stödd erlendis í opinberum erindagerðum. Hún er að sækja fundi á vegum Evrópuráðsins sem hefur einmitt verið mikið til umræðu.

VES eða Vestur-Evrópusambandið, sem er varnarbandalag Vestur-Evrópuríkja, varð löngum örreytiskot í túnjaðri höfuðbólsins NATO. Það var stofnað 1948 með Brussel-sáttmálanum og þingmannasamkundunni sjálfri var komið á fót árið 1954. Aðildarríki þingsins eru tíu og þau er jafnframt öll aðildarríki ESB og NATO. Eins og hæstv. utanrrh. gat réttilega í dag er sú regla enn í fullu gildi að til þess að fá fulla aðild að Vestur-Evrópusambandinu þurfa ríki í senn að vera fullgildir aðilar að Evrópusambandinu og NATO. Þar að auki eiga þrjú ríki aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu. Það eru ríki sem eru öll aðilar að NATO en standa utan ESB, þ.e. Ísland, Tyrkland og Noregur. Síðan hafa að auki áheyrnaraðild ríkin Austurríki, Danmörk, Finnland, Írland og Svíþjóð sem eru öll aðildar að Evrópusambandinu en hafa ekki óskað eftir fullri aðild og það er afskaplega merkilegur hlutur og raunar mikilvægur í ljósi þróunar sambandsins. Menn verða að hafa þessa staðreynd í huga þegar þeir velta fyrir sér hvert á VES að þróast. Á það að verða hluti af Evrópusambandinu eins og hugmyndir eru uppi um sums staðar og ég mun víkja að síðar í máli mínu. En jafnframt hafa áheyrnaraðild að Vestur-Evrópusambandsins níu ríki í Mið- og Austur-Evrópu, þ.e. Búlgaría, Eistland, Lettland, Litáen, Pólland, Rúmenía, Tékkland, Slóvakía og Ungverjaland.

Herra forseti. Í ljósi þess að þetta er í fyrsta skiptið sem slík skýrsla er flutt og vegna þess að þingheimur hefur e.t.v. ekki mikla og djúpa þekkingu á starfsemi þessa þings ætla ég aðeins að víkja að því hvernig það starfar. Það hefur aðsetur í París og árlega eru haldnir tveir þingfundir, í júní og desember. Þar að auki getur þingið haldið aukafundi ef forsætisnefnd tekur ákvörðun um það og nú er einmitt nýlokið mjög mikilvægu aukaþingi þar sem tekist var á um það hvert VES ætti að stefna í framtíðinni, hvort það ætti að halda áfram að vera sjálfstæð stofnun eða verða hluti af Evrópusambandinu. Skjöl þingsins eru gefin út á ensku og frönsku og innan þess starfa sex fastanefndir: varnarmálanefnd, stjórnmálanefnd, tækni- og geimvísindanefnd, fjármála- og stjórnsýslunefnd, þingskapanefnd og síðan nefnd um almannatengsl.

Í landsdeildunum mega varamenn taka aðalsæti í nefndum og við eigum í krafti aukaaðildar okkar þrjá fulltrúa á þingum Vestur-Evrópusambandsins. Þessir þrír fulltrúar eru hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir og Siv Friðleifsdóttir auk mín og varamenn eru hv. þm. Kristján Pálsson, Guðmundur Hallvarðsson og Ásta R. Jóhannesdóttir. Eins og fyrr hefur komið fram í máli mínu var hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir kjörin formaður og sá sem hér flytur greinargerð var kjörinn varaformaður.

Starfsemi sendinefndarinnar hefur einkum lotið að þremur þáttum á árinu: Í fyrsta lagi átti deildin þátt í því að taka á móti forseta Vestur-Evrópuþingsins, hinum góðkunna Sir Dudley Smith sem kom hingað í boði forseta Alþingis og sat skemmtilegan kvöldverð í boði forseta þingsins úti í Viðey sem er rétt að fara ekki frekar út í hér en með honum var auk þess hin ágæta eiginkona hans lafði Katrín.

Herra forseti. Tveir fundir voru af hálfu nefndarinnar sóttir í París og þar ræddu íslensku fulltrúarnir aðallega tvennt. Í fyrsta lagi fór þar fram umræða um það hvaða réttindi og skyldur aukaaðilar ættu að hafa en í dag höfum við ásamt Norðmönnum og Tyrkjum fullt málfrelsi, tillögurétt og reyndar atkvæðisrétt í nefndum þingsins en það var tekist á um það hvort við ættum líka sem aukaaðilar að hafa fullan atkvæðisrétt á þingunum sem hefði þá í rauninni þýtt að sem aukaaðilar hefðum við réttindi fullgildra aðila. Það var tillaga þingsins að svo yrði og Finsberg lávarður, sem flutti tillöguna fyrir hönd þeirrar nefndar sem um þetta vélaði, lagði þetta til en það reyndist ekki vilji fyrir henni. Auðvitað hörmuðu Íslendingar þetta mjög vegna þess að það var og er vilji sendinefndarinnar í kjölfar ákvörðunar þingsins um þátttöku þarna að vera mjög virk í starfi þingsins. Í öðru lagi var umræða um Eystrasaltsþingið þar sem ég ræddi um tengsl Íslands og Eystrasaltsríkjanna og flutti þar svipað mál og ég hef gert í dag, þ.e. ég lagði þar eindregið til að Eystrasaltslöndunum yrði tekið vel og þeim yrði hleypt bæði inn í Vestur-Evrópusambandið og reyndar NATO líka. Sá þröskuldur yrði ómerkur gerður sem felst nú í þeirri reglu að ríkið þurfi að vera líka fullgildur aðili að Vestur-Evrópusambandinu til þess að koma í NATO.

Það er rétt að geta þess líka, herra forseti, að á þinginu í desember í fyrra flutti hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir ræðu sem tók í stórum dráttum undir þetta viðhorf. Það er því alveg ljóst hver er vilji hinna óbreyttu þingmanna þó hér hafi komið fram í dag að menn séu kannski ekki alveg sáttir við það, a.m.k. ekki ég, að ríkisstjórnin taki ekki fastar á þessu.

[18:45]

Herra forseti. Tildrög þess að Íslendingar urðu aukaaðilar að Vestur-Evrópusambandinu má rekja til nokkuð þverstæðukenndra atburða sem áttu sér stað í tengslum við Maastricht-ferlið. Vestur-Evrópusambandsríkin héldu þá fund þar sem þau í fyrsta lagi tóku ákvörðun um að bjóða þeim þremur ríkjum sem eru aðilar að NATO án þess að vera í ESB, aukaaðild að sambandinu. Þetta var gert, herra forseti, til að treysta hlutverk VES sem Evrópustoðar Atlantshafsbandalagsins. En á sama fundi var líka tekin ákvörðun um að vinna að því að þróa Vestur-Evrópusambandið þannig í framtíðinni að það yrði hluti af Evrópusambandinu. Ég tel að í þessu felist innri mótsögn. Ég tel að það séu ósamrýmanleg markmið annars vegar að hleypa NATO-þjóðum utan ESB inn í Vestur-Evrópusambandið til að auka vægi VES sem Evrópustoðar Atlantshafsbandalagsins en á hinn bóginn að vinna að því að þróa Vestur-Evrópusambandið inn í Evrópusambandið. Ég tel að þetta sé ósamrýmanlegt, herra forseti, og ég er á móti því. Ég held að það sé pólitísk eining um það á þessu þingi að vera á móti þessu.

Það er alveg ljóst að það þjónar ekki hagsmunum Íslendinga á meðan þeir eru utan Evrópusambandsins að þessi þróun haldi áfram. Það er margt sem mælir gegn þessu. Í fyrsta lagi skulum við velta því fyrir okkur hvers vegna Íslendingar þekktust boð Vestur-Evrópusambandsins um að ganga þar inn sem aukaaðilar. Það var til að ná þeim áhrifum sem felast í því að vera nánast í daglegu samneyti við stoðir Atlantshafsbandalagsins, notfæra sér návígið til að koma skoðunum Íslendinga um öryggi og varnir Evrópu á framfæri og hafa sökum návígisins áhrif með hinni tíðu samræðu við fulltrúa Atlantshafsbandalagsins á þróun þessara mála.

Ef það verður ofan á, herra forseti, að Vestur-Evrópusambandið verður hluti af Evrópusambandinu eins og til skamms tíma virtist vera vilji allra sem eiga fulla eða aukalega aðild að Vestur-Evrópusambandinu utan Íslendinga og Breta, hvað hefur það í för með sér? Ef við horfum til þess hvaða áhrif það hefði haft t.d. á Atlantshafsbandalagið, þá er alveg ljóst að menn verða að tengja þetta þeirri þróun sem hefur átt sér stað í Bandaríkjunum. Í Bandaríkjunum er komin upp ný kynslóð stjórnmálamanna, ný kynslóð manna sem taka ákvarðanir og þessi kynslóð horfir með vaxandi efasemdum til þátttöku Bandaríkjamanna í vörnum Evrópu. Sér í lagi og eðlilega vex þeim í augum kostnaðurinn við að hafa bandarískt herlið í Evrópu. Þetta er umræða sem Íslendingar hafa ekki farið varhluta af.

Ég hygg að meðan Ísland er aðili að Atlantshafsbandalaginu og það er að sjálfsögðu rétt fyrir Ísland að vera það áfram, sé óæskilegt að mikilvægi varna Evrópu yrði flutt í auknum mæli yfir á Evrópusambandið með þessum hætti. Það mundi að sjálfsögðu auka líkurnar á því að Bandaríkjamenn létu í framtíðinni Evrópu eftir að sjá um varnir sínar. Sá dagur kann að koma að það sé réttmæt ákvörðun. En því miður, eins og við sjáum af atburðunum í Júgóslavíu, er sá dagur ekki í nánd að minni hyggju.

Herra forseti. Önnur rök mæla gegn þessu líka. Það var talað um það þegar þessum þremur ríkjum var boðin aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu að það yrði gert til þess að treysta mikilvægi þess sem Evrópustoðar Atlantshafsbandalagsins. En ef Vestur-Evrópusambandið verður inngróinn partur af ESB er um leið búið að svipta þessi þrjú ríki, Ísland, Noreg og Tyrkland möguleikunum á því að hafa áhrif á mál sem lúta þeirra eigin framtíð vegna þess að eðlilega mundu þessi ríki sem standa utan Evrópusambandsins ekki geta unnið innan ESB að þessum málum.

Það er vert að geta þess líka að ég tel eins og málum er háttað að t.d. Norðmenn með sína afgerandi atkvæðagreiðslu gegn þátttöku í Evrópusambandinu mundu eiga mjög erfitt með að halda uppi núverandi starfi og virkni innan Vestur-Evrópusambandsins. Það sama kynni e.t.v. að gilda fyrir Ísland a.m.k. miðað við núverandi ríkisstjórn. Þess vegna gæti þetta leitt til þess að a.m.k. virkni þeirra þjóða sem standa utan ESB eða eru aðilar að NATO mundi minnka og e.t.v. formleg staða þeirra líka. Þá má velta því fyrir sér hvort ekki sé beinlínis verið að vinna gegn því markmiði að VES verði að gildari Evrópustoð samstarfsins sem fer fram innan Atlantshafsbandalagsins.

Í þriðja lagi, herra forseti, er þess að geta að nú þegar eru fimm lönd innan Evrópusambandsins sem eru ekki fullgildir aðilar að Vestur-Evrópusambandinu. Hvers vegna eru þau það ekki? Vegna þess að þau treysta sér ekki af pólitískum eða öðrum ástæðum til að axla þær skuldbindingar sem fylgja fullri aðild að þessu varnarbandalagi Vestur-Evrópuríkja. Ef Vestur-Evrópusambandið ætti að verða formleg stoð undir Evrópusambandinu sé ég ekki hvernig þessi ríki gætu samþykkt það nema því aðeins að sú varnarstefna sem nú er uppi yrði útvötnuð einhvern veginn. Það yrði tæpast í þágu öryggishagsmuna Evrópu eins og við höfum séð þá til þessa.

Herra forseti. Þetta eru meginrökin gegn því að það eigi að gera Vestur-Evrópusambandið að formlegum hluta Evrópusambandsins. Meginstarf íslensku sendinefndarinnar hefur falist í því að mæla gegn þessari þróun. Við höfum haldið ræður á þessum tveimur fundum gegn þessu þannig að eftir því hefur verið tekið. M.a. hefur verið leitað til okkar til að setja formlega fram rökin gegn því að þessi þróun nái fram að ganga í fyllingu tímans. Ég tel því, herra forseti, alveg ótvírætt að við höfum náð nokkrum árangri. Það sást á síðasta aukaþingi Vestur-Evrópusambandsins í Lundúnum sem haldið var fyrir þremur vikum, þegar niðurstaðan varð í rauninni sú að fallið var frá þessum hugmyndum í bili. Þar var gerð málamiðlun sem fól það í sér að menn ættu að stefna að einhverri ókunnri framtíð en nú væri réttara að hafa Vestur-Evrópusambandið áfram sem sjálfstæða stofnun. Og vegna þess að ráðstefnan í Lundúnum varð til að móta innlegg Vestur-Evrópusambandsins inn á ríkjaráðstefnu ESB sem hefst síðar á þessu ári, var þetta afskaplega mikilvæg afstaða. Íslendingar og Bretar höfðu að þessu leyti haft nánast sömu afstöðu og við gerðum okkur far um að láta það heyrast hvar sem var. Ég tel, herra forseti, að þetta hafi skipt nokkru máli. Ég tel að talsvert miklir hagsmunir séu fólgnir í því fyrir Ísland að þessi þróun nái ekki fram að ganga.

Svo má velta fyrir sér, herra forseti, hvort það sé réttur okkar að verja tíma og fjármagni til að taka þátt í þessum samtökum. Ég tel að ég hafi svarað þeirri spurningu í seinni hluta ræðu minnar. Ég tel að við höfum haft þarna sérstakan málstað. Við höfum haft sérstöðu. Við höfum náð að koma því afskaplega skilmerkilega á framfæri og ég tel að það hafi skipt nokkru máli varðandi þá niðurstöðu sem í bili hefur náðst um framtíð Vestur-Evrópusambandsins. Það er niðurstaða sem er mjög í samræmi við utanríkisstefnu Íslands, sem er mjög í samræmi við hina sameiginlegu afstöðu, ég held, flestra stjórnmálaflokka varðandi þennan tiltekna þátt.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa frekari orð um þetta. Ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun á sínum tíma af þinginu að ganga til samstarfs við aðrar þjóðir á vettvangi Vestur-Evrópusambandsþingsins. Við munum sjá það á næstu árum hvort ekki sé rétt að auka þátttöku okkar. En til að það verði hægt, m.a. til að gefa nefndarmönnum færi á að taka þátt í hinum mikilvægu sex fastanefndum þingsins, þarf aukið fjármagn. Það hefur ekki verið skilningur á því af hálfu þeirra sem ráða þinginu og það er auðvitað afstaða út af fyrir sig. Ég tel að það hafi verið misráðið. Ég tel að þarna sé um að ræða svo mikilvæg mál sem brenna það heitt nákvæmlega þessi árin á öryggis- og varnarsamstarfi Evrópuþjóðanna að það nauðsynlegt sé fyrir Ísland að fara þarna inn af fullum þunga. Það höfum við ekki náð að gera alveg enn þá.