Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 15:55:17 (3543)

1996-03-05 15:55:17# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[15:55]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Alltaf þykir mér gaman að hlýða á hv. þm. Guðmund Hallvarðsson sem er einn snjallyrtastur flestra þingmanna og alltaf sér hann kjarnann í hverju máli. Ég gladdist þess vegna mjög að hann skyldi ljúka sinni síðustu ræðu á því að lofa og mæra núverandi borgarstjóra í Reykjavík, fyrrv. þingmann og eina af stallsystrum okkar hérna. Ég vænti þess, herra forseti, að það verði fleiri en hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson úr liði Sjálfstfl. sem munu sjá þá framsýni og þá skyggni sem er að finna hjá borgarstjóranum í Reykjavík þegar kemur að svona miklum hagsmunamálum Reykvíkinga.

Hv. þm. gat þess sérstaklega að hann fagnaði því að borgarstjórinn í Reykjavík hefði markað stefnu til framtíðar. Ég ætlaði eiginlega að koma upp til þess að benda á þann mun sem mér þótti vera á afstöðu hv. þm. og míns ágæta félaga, Guðmundar Hallvarðssonar annars vegar og hins vegar borgarstjórans vegna þess að hv. þm. sagði að auðvitað mundi Reykjavíkurflugvöllur vera á sínum stað í nánustu framtíð.

Þessi orð ,,í nánustu framtíð`` lýsa vel því tvílræði sem einkendi einmitt afstöðu fyrrv. meiri hluta í Reykjavíkurborg. Ég ætla ekki að deila á fjarstadda menn, en ég get leyft mér að deila pínulítið á félaga minn, hv. þm. Guðmund Hallvarðsson, því að okkar leiðir lágu einmitt saman á þeim vígvöllum sem borgarstjórn Reykjavíkur var. Hann er eiginlega eins konar fulltrúi þessarar stefnu sem gerði það einmitt að verkum að meðan sjálfstæðismenn sátu þarna við stjórnvöl náðu þeir ekki að marka afdráttarlausa stefnu til framtíðar um þetta mál vegna þess að við í liði sjálfstæðismanna í Reykjavíkurborg var að finna þungavigtarmenn, þunga borgarfulltrúa sem voru annarrar skoðunar, sem voru þeirrar skoðunar að það ætti að flytja flugvöllinn.

Ég tel eins og hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir hefur sagt að það sé í rauninni búið að marka stefnu til framtíðar. Borgarstjórinn í Reykjavík hefur sagt að það sé stefna þess hóps sem hún stendur fyrir að innanlandsflugið verði áfram í Reykjavík. Ég held að það sé mjög farsælt og ég held að það hljóti að vera málefni sem landsbyggðarmenn og Reykjavíkurbúar geta sameinast um. Ég held að það sé farsælt fyrir landbyggðina að hafa innanlandsflugið innan vébanda borgarmarkanna, og ekki bara innan vébanda borgarmarkanna heldur svo að segja í borgarmiðjunni. Það hlýtur að vera þægilegt fyrir þá ágætu landsbyggðarmenn sem hingað þurfa að sækja. (Gripið fram í.) Ég gat þess líka sérstaklega, hv. þm. Stefán Guðmundsson, að þetta væri sameiginlegt hagsmunamál okkar. Hins vegar hef ég orðið var við það í afskiptum mínum af borgarmálum að það er fullt af fólki sem ber einlægan kvíðboga fyrir því að þarna kunni að verða flugslys. Ég minni á að gefin var út skýrsla fyrir sjö eða átta árum sem undirstrikaði möguleikana á því að það gæti orðið stórslys af völdum flugslysa. Það var bent á það t.d. að ein aðalfluglínan inn að vellinum, fluglína stórra farþegaflugvéla, liggur einmitt yfir gríðarlegum birgðum af bensíni úti í Örfirisey. Hvað gerist ef það mundi fara þar niður flugvél?

Herra forseti. Ég hef einu sinni orðið ásjáandi að flugslysi við enda flugvallarins þar sem þrír menn fórust í kanadískri ferjuflugvél. Það var alveg skelfilegt að sjá það gerast og það er engum blöðum um það að fletta að þarna er ákveðin hætta. Það hafa komið upp hugmyndir um það hvort það eigi t.d. að flytja ferjuflugið af flugvellinum, hvort það ætti e.t.v. að setja æfinga- og kennsluflug einhvers staðar annars staðar. Ég er þeirrar skoðunar að þetta beri að kanna vel og rækilega. Án þess að ég hafi nokkra sérfræðikunnáttu á þessu sviði finnst mér það koma vel til álita að flytja ferjuflugið en ég ítreka að ég hef ekki skoðað það mál til hlítar.

Ég held að það sé farsælt fyrir alla aðila að innanlandsflugið verði áfram í Reykjavík en það verður auðvitað að gæta fyllsta öryggis. Ég verð að hrósa hæstv. samgrh. fyrir það að hann hefur með borgaryfirvöldum í Reykjavík hlutast til um samræður sem væntanlega munu leiða til farsællar niðurstöðu í þessum málum. Eftir því sem ég hef skilið þessar umræður verður á næsta ári hafist handa við endurbyggingu vallarins og undirbúningur verður hafinn að nýrri flugstöð. Hæstv. samgrh. á hlut að því máli og það ber að þakka honum fyrir það.

[16:00]

Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson kom upp fyrr í dag og var heldur heitt í hamsi yfir þeim orðum sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lét falla. Ræddi hann m.a. niðurskurð og hann sagði að honum þætti engin goðgá þó að það væru skornar niður 100 millj. kr. af flugmálaáætlun þegar horft væri til þess að ríkissjóður væri í gríðarlegri fjárþörf og það þyrfti að skera niður i heilbrigðismálunum. Ég var honum algerlega sammála um það. Það er engin goðgá þó að það sé skorið niður 100 millj. kr. í flugmálaáætlun, jafnvel þó að það hefði verið eitthvað meira. Hins vegar verð ég að vekja eftirtekt hv. þm. á því að það eru kannski einhverjir aðrir þættir í ríkisrekstrinum þar sem hefði mátt skera niður ef menn ætla að fara að forgangsraða með þessum hætti eins og hv. þm. gerði með því að segja: Allt í lagi, ef það þarf að skera niður í heilbrigðismálum þá skulum við frekar skera niður í flugmálunum. Það er forgangsröðin sem hann er að leggja fyrir. Gott og vel. Hún er ekkert vitlaus en það eru kannski aðrir þættir sem hann og flokkur hans mættu íhuga miklu betur. Það eru t.d. landbúnaðarmálin. Er það ekki Framsfl. og fulltrúar hans sem hafa einmitt rekið þá landbúnaðarstefnu á síðustu árum sem hefur orðið þess valdandi að menn eru að eyða í hana 11--12 milljörðum. Ef menn segja a, þá verða þeir að segja b. Ef menn segja að það eigi að skera frekar niður í flugmálum en heilbrigðismálum, þá vil ég segja c, herra forseti, og segja: Er þá ekki rétt að menn reyni að spara þar sem hægt er að spara, sem er t.d. í landbúnaðarmálunum.

Herra forseti. Menn hafa rekið upp mikinn og gjallandi hlátur yfir því að ég hef látið mér um munn fara bókstafinn b. Hversu oft þarf ég að koma í þennan stól og lýsa yfir virðingu minni á Framsfl. til þess að mönnum finnist það ekki skrýtið? Og ef ég mætti, herra forseti, ljúka þessari ræðu minni á þeim 59 sekúndum sem ég á eftir til að minna á það að það var sama höndin sem skrifaði stefnuskrá A og B, Alþfl. og Framsfl. og það ber að virða þó að því miður hafi sú hönd ekki stýrt Framsfl. nógu langt inn í framtíðina.