Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 16:03:26 (3544)

1996-03-05 16:03:26# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[16:03]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara á flug landbúnaðar í umræðum um flugmál. Engu að síður kom síðasta ræðumanni nokkuð á óvart hvar ég gat um borgarstjórann í Reykjavík. En það er að gefnu tilefni vegna þess að ég hef ekki orðið var við það að samherjar R-listans í borgarstjórn séu á einu máli um hvað varði framtíð Reykjavíkurflugvallar. Þess vegna er það af hinu góða þegar borgarstjóri sér að sér og áttar sig á mikilvægi Reykjavíkurflugvallar og mikilvægi atvinnumálanna flugvellinum tengdum.

Í annan stað hvað varðar fyrrv. borgarstjórn sjálfstæðismanna, hvar hv. þm. Össur Skarphéðinsson kemur inn á það að þeir hafi sofið þyrnirósarsvefni gagnvart Reykjavíkurflugvelli er það rangt vegna þess að hér á árum áður voru ríkisstjórnir andsnúnar meiri hluta stjórnar Reykjavíkurborgar sem ekki vildu ljá því máls að þessu máli yrði hreyft, hvað þá ef eitthvað yrði gert. Ástand Reykjavíkurflugvallar sýnir þess líka merki hvernig málum er fyrir komið núna þannig að ég get þess vegna endurtekið að það er gott að það er þó a.m.k. einn innan R-listans, meiri hluta Reykjavíkurborgar, sem áttar sig á því hversu mikilvægur Reykjavíkurflugvöllur er.