Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 16:51:48 (3561)

1996-03-05 16:51:48# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[16:51]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs fyrr í dag vegna ákveðinna ummæla sem féllu um flugmálaáætlunina og sérstaklega um stöðu Reykjavíkurflugvallar sem hefur talsvert borið á góma í umræðunni. Það er auðvitað að vonum vegna þess að hér er um að ræða talsvert þýðingarmikið verkefni, eitt stærsta verkefni sem flugmálaáætlunin fjallar um. Það er þróunin á Reykjavíkurflugvelli á komandi árum. Ég kvaddi mér hljóðs vegna þess að ég vildi láta það koma fram sem ég tel að sé kannski einna mikilvægast í málinu eins og sakir standa. Það liggur fyrir ein samþykkt um þetta mál af hálfu borgaryfirvalda í Reykjavík. Það er samþykkt sem var gerð á fundi borgarráðs snemma í janúar á þessu ári en frá henni segir í Morgublaðinu laugardaginn 6. jan. sl. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

,,Borgarráð hefur samþykkt tillögu borgarstjóra um að vísa tillögu borgarráðsfulltrúa sjálfstæðismanna um að gera úttekt á mikilvægi Reykjavíkurflugvallar fyrir atvinnulífið í borginni til borgarskipulags til meðferðar í tengslum við endurskoðun aðalskipulags Reykjavíkur. Tillaga borgarstjóra var samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur.``

Síðan segir áfram í frétt Morgunblaðsins 6. jan. sl.:

,,Inga Jóna Þórðardóttir, borgarráðsfulltrúi Sjálfstfl., lagði fram tillögu í borgarráði um að fram færi úttekt á mikilvægi Reykjavíkurflugvallar, á rekstri tengdum honum, fyrir atvinnulífið í borginni. Í bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstfl. þegar tillaga borgarstjóra var samþykkt var gagnrýnt að fulltrúar Reykjavíkurlistans í borgarráði treystu sér ekki til að taka skýra afstöðu til úttektar á efnahagslegum áhrifum af rekstri vallarins. Slík úttekt væri mikilvæg, ekki síst í ljósi yfirlýsinga borgarfulltrúa Reykjavíkurlistans um að til athugunar sé að leggja flugvöllinn niður.

Í bókun borgarráðsfulltrúa Reykjavíkurlista segir að ljóst sé að mun víðtækari rannsókn þurfi varðandi flugvöllinn. Úttekt þurfi að fara fram á kostnaði við að tryggja öryggi flugs og byggðar umhverfis völlinn og á honum sjálfum. Þá þurfi að fara fram umhverfismat vegna hugsanlegra áhrifa á lífríki og vatnsbúskap Tjarnarinnar ef skipt yrði um jarðveg og flugvallarsvæðið þurrkað upp.

Fram kemur að auk þess þurfi að kanna mikilvægi vallarins í atvinnulífi borgarinnar og þjónustuhlutverk almennt.``

Hér er sem sagt um að ræða þá samþykkt sem síðast hefur verið gerð í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir réttum tveimur mánuðum um þessi mál. Ég tel mjög mikilvægt að halda henni til haga vegna þess að hún er eina samþykktin um vinnubrögð á vegum borgarinnar í þessum efnum sem liggur fyrir.

Það er einnig mikilvægt í þessu máli að mínu mati, hæstv. forseti, að láta það koma fram að ég tek eftir því að ýmsir talsmenn í umræðunum láta að því liggja að ef óvissa er um þróun Reykjavíkurflugvallar sé nóg annað við peningana að gera. Ég skil menn svona þó menn segi það ekki fullum fetum. Það er út af fyrir sig alveg rétt að það er alveg nóg annað við peningana að gera. (Gripið fram í: Viltu tilgreina nöfn í því?) Nei, ég er ekki að því vegna þess að ég tel að þessi sjónarmið hafi komið fram bæði beint og óbeint og ég tel að þau séu í sjálfu sér eðlileg vegna þess að það er eðlilegt að menn segi: Ef það er ekki ljóst hver er framtíð þessa flugvallar, af hverju ættum við þá að vera að taka hana inn á flugmálaáætlunina? Það er nóg annað við peningana að gera á ýmsum stöðum í landinu og ég ætla ekki að tína upp einhverja einstaklinga í þeim efnum vegna þess að ég geri ráð fyrir því að það sjái allir þingmenn í hendi sér að þannig eru málin.

En þá kemur að öðru sem er kannski nauðsynlegt að vekja athygli á í þessum efnum og það er að ef yrði tekin ákvörðun um að flytja völlinn í burtu að öllu leyti þýðir það enn meiri peninga einhvers staðar annars staðar. Það eru hlutir sem menn þurfa að horfast í augu við þannig að það er náttúrlega sýnd veiði en ekki gefin þó menn kæmust að þeirri niðurstöðu að það væri erfitt að halda áfram uppbyggingu hér á Reykjavíkurflugvelli. Það þýðir ósköp einfaldlega að peningarnir fari kannski eitthvað annað því auðvitað yrði að tryggja með nýjum hætti hinn enda flugsamgangnanna við dreifbýlið ef svo mætti að orði komast. Þetta held ég að sé nauðsynlegt að nefna hér, hæstv. forseti, og ég ítreka það sem ég reyndi að draga fram fyrr í dag að mér finnst að það þurfi að skoða þessi mál í jafnvægi og af sanngirni. Ég neita því alveg að horfa algjörlega blint á þetta mál, t.d. eingöngu út frá atvinnuhagsmunum hér á svæðinu. Þetta er líka öryggismál eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson nefndi fyrr í dag og hann þekkir öryggismál sjómanna og atvinnuhagsmunina. Þessir hlutir verða að fara saman og ég skora á menn að fara ekki offari í þessum efnum við að tryggja að hlutirnir verði óbreyttir á Reykjavíkurflugvelli. Ég held að það sé þvert á móti þannig að það sé hagsmunamál landsmanna allra að það sé búið tryggilega um þessa hluti og að t.d. ferjuflugið og kennslu- og æfingaflugið flytjist að einhverju leyti héðan í burtu ef kostur er, a.m.k verði reynt að horfa á þetta í heildarsamhengi.

Ég vil endurtaka það sem ég sagði í umræðunni um vegáætlun að best væri auðvitað að við værum að tala um öll samgöngumálin í einu, þ.e. vegamál, flugmál, nú eru reyndar ferjurnar komnar inn á vegáætlun sem menn gagnrýna að eðlilegum ástæðum, en auðvitað eru þetta allt saman eitt heildarkerfi og þannig tel ég að menn eigi að horfa á það. Og einnig auðvitað stöðu og framtíðarþróun Keflavíkurflugvallar. Í þessum efnum skora ég á alþingismenn að horfa ekki bara til eins flugmálaáætlunartímabils. Ég skora á menn að reyna að horfa aðeins lengra inn í þessa framtíðarþróun því hér er um að ræða mikilvæg mál fyrir Íslendinga og úrslitamál um það hvort okkur tekst að þróa sæmileg lífskjör að samgöngurnar séu öruggar í margföldum skilningi þess orðs.

Ég brá mér aðallega í ræðustólinn, hæstv. forseti, til að undirstrika hver er hin síðasta samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur í þessum málum, hún liggur fyrir og ég las hana upp úr frétt Morgunblaðsins frá 6. jan. sl.

Ég endurtek að lokum að ég teldi að það eðlilegt að samgöngunefnd Alþingis kynnti sér hvernig viðræður standa milli borgaryfirvalda og Flugmálastjórnar um þessi skipulagsmál á Reykjavíkurflugvelli. Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að samgöngunefnd fari yfir það og yfirheyri menn rækilega í þessum efnum. Þó að endanleg niðurstaða sé ekki komin eða verði ekki komin þá verða kannski komnar einhverjar þróunarlínur í málið sem ég tel mikilvægt að Alþingi kynni sér.