Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 16:59:28 (3562)

1996-03-05 16:59:28# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[16:59]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson tæpti á ýmsum málum varðandi Reykjavíkurflugvöll og möguleika hans í framtíðinni. Ég get tekið undir ýmislegt af því sem hann segir varðandi Reykjavíkurflugvöll og ætla ekki að meta framtíð hans sérstaklega. Ég tek undir það með hv. þm. að ferjuflug sem hefur verið töluvert til umræðu getur einfaldlega flust til annarra staða og þá fyrst og fremst til Keflavíkurflugvallar. Staðreyndin hefur samt verið sú að Keflavíkurflugvöllur hefur ekki boðið upp á þá þjónustu að geta tekið við ferjuflugi frá Reykjavíkurflugvelli þar sem þar hefur ekki verið boðið upp á t.d. einfalda aðstöðu eins og þá að afgreiða bensín til slíkra véla. Það mun nú vera að breytast þannig að með tilkomu nýrrar byggingar, sem nota á til að afgreiða smærri vélar og bensínafgreiðslu sem verið er að setja upp við hlið þeirrar afgreiðslu, mun reynast kleift að þjóna öllu ferjuflugi á Keflavíkurflugvelli. Ég hef þá trú að ferjuflug muni flytjast allt frá Reykjavíkurflugvelli vegna þess að þjónustan eftir þetta verður miklu betri á Keflavíkurflugvelli en Reykjavíkurflugvelli. Það eru margar ástæður en meginástæðan er kannski sú að það er mun meira öryggi í kringum flugvöllinn í Keflavík og einnig er þar sólarhringsþjónusta. Reykjavíkurflugvöllur býður bara upp á tólf tíma þjónustu fyrir slíkt flug. Ég held því að þetta muni koma af sjálfu sér og ég vona að það gerist fyrr en síðar.