Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 17:37:00 (3573)

1996-03-05 17:37:00# 120. lþ. 100.6 fundur 301. mál: #A meðferð opinberra mála# (dómtúlkar, handteknir menn og gæsluvarðhaldsfangar) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[17:37]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Við höfum fengið inn á Alþingi ýmis frv. Kannski fengum við það merkilegasta nú um daginn en þá fengum við frv. um hin svokölluðu reykingalög, frv. til tóbaksvarna, þar sem Alþingi er falið að setja nánast hátternisreglur um það hvernig menn haga sér við reykingar. Það er reglur um það hvort það megi reykja á vídeómyndum, hvort það megi selja sígarettur úr sjálfsölum o.s.frv. Þess vegna finnst mér nú dálítið sorglegt að þegar kemur að umfjöllun um mannréttindi er nánast kveðið svo á um að dómsmrh. setji reglur. Alþingi er ætlað að fjalla um löggjöf um alls konar hátternisreglur en þegar kemur að mannréttindum þá er dómsmrh. ætlað að setja reglur. Ég er reyndar á því að þetta frv. sé til bóta, en efni frv. lýtur fyrst og fremst að mannréttindum og það er ekki mikil krafa til löggjafarstofnunarinnar að löggjafinn fjalli um mannréttindi þegar það á við.

Lög um meðferð opinberra mála hafa það að markmiði að setja almennar reglur um rannsókn opinberra mála. Í þeim reglum er að finna lágmarksreglur sem kveða á um mannréttindi þeirra sem eru grunaðir um að hafa framið refsivert brot. Í því tilliti finnst mér að það sé lágmark að kveðið sé á um í lögum hvernig fara skuli með þetta fólk. Það er grundvallarregla í íslenskum rétti að fólk er álitið saklaust þar til sekt þess er sönnuð. Hér er því verið að fjalla um saklaust fólk og mannréttindi þess. Mér finnst ljóður á því frv. sem hér liggur fyrir að ekki séu settar lágmarksreglur um hvernig skuli til að mynda fjallað um tilhögun yfirheyrslna. Hér er einungis kveðið á um að dómsmrh. setji reglugerð. Það er ekki mikil krafa. Eins er það hvenær synja má handteknum manni um að hafa samband við sína nánustu vandamenn. Það er lágmarkskrafa til löggjafans að hann setji lágmarksreglur á þessu sviði.

Það hefur verið þannig í löggjöf okkar að við höfum fengið allar athugasemdir og réttarbætur erlendis frá. Það er svo að við höfum fengið slæma niðurstöðu þegar Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fengið réttarkerfi okkar til skoðunar. Ég minni sérstaklega á í þessu sambandi að dómsmrh. er yfirmaður lögreglu og sem slíkur er hann ekki hlutlaus í þessum efnum. Því hefði ég talið réttaröryggisins vegna að æskilegra væri að löggjafinn setti lágmarksreglur á þessu sviði. Ég hvet hv. allshn., en málið mun fara þangað, til að leggja a.m.k. fram einhverjar breytingar í þessum efnum og setja þá lágmarksreglur um það hvernig fara skuli með grunaða menn.