Staðfest samvist

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 19:26:51 (3592)

1996-03-05 19:26:51# 120. lþ. 100.8 fundur 320. mál: #A staðfest samvist# frv. 87/1996, KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[19:26]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er svolítið erfitt að veita andsvar við ræðu hv. 3. þm. Suðurl. En ég vildi nú svona gegnsýrð af kristilegum kærleika minna hv. þingheim á frelsi allra manna til að hafa skoðanir og láta þær í ljósi. Ég vona að menn minnist þess. Það eru auðvitað sjálfsögð mannréttindi. En hv. þm. beindi nokkrum orðum til mín og virtist ósáttur við orð mín um mannréttindi. Hann hefur líklega ekki talið þau til marks um gott og gilt brjóstvitið eitt og bert. Hann dró í efa að staðhæfing mín um fordóma og ofsóknir á hendur samkynhneigðum væri rétt. Ég hlýt að mótmæla þeirri skoðun hv. þm. og gæti auðvitað stutt það með fjölmörgum dæmum úr fjölmiðlum ef ég hefði þau við höndina eða gæti leitað aftur í tímann. T.d. væri áreiðanlega hægt að finna frásagnir af því í sjálfu Morgunblaðinu.