Niðurskurður á fé til heilsugæslu og forvarnastarfs

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 14:00:14 (4877)

1996-04-17 14:00:14# 120. lþ. 120.3 fundur 383. mál: #A niðurskurður á fé til heilsugæslu og forvarnastarfs# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:00]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það gleður mig að hún upplýsir það hér að sú ákvörðun að hætta krabbameinsleit á Akureyri vegna fjárskorts sé enn þá einangrað tilvik. Ég ýjaði heldur ekki að því í minni fyrirspurn að það væru fleiri slík tilvik. Hins vegar getum við búist við þeim vegna þess að að hlýtur að hátta svipað á fleiri stöðum og á Akureyri, þ.e. það hefur býsna langt verið gengið með niðurskurð. Tölulegar staðreyndir sýna að heilsugæslan hefur farið halloka hvað varðar fjárveitingar gagnvart öðrum þáttum heilbrigðisþjónustunnar og þrátt fyrir síauknar kröfur okkar til heilsugæslu og forvarna og þrátt fyrir að það sé samkomulag um þessa hluti, þá hefur okkur ekki tekist að útvega heilsugæslunni um land allt það fé sem hún raunverulega þarf til sinna nauðsynlegu starfa.

Vegna þeirra orða sem hæstv. heilbrrh. lét falla varðandi einingaverð á stöðinni á Akureyri miðað við Suðurnes vil ég benda á það að samkvæmt þeim útreikningum sem fulltrúar stöðvarinnar á Akureyri hafa gert þá er stöðin á Akureyri að líkindum komin niður fyrir hinar stóru stöðvarnar. Það er alla vega ljóst að hún er í hópi þess fjórðungs heilsugæslustöðva á landinu sem eru hvað ódýrastar og það er mjög merkilegt vegna þess hve starfsemi stöðvarinnar er víðtæk, yfir hve mikið svæði hún nær. Hennar svæði nær m.a. til Grímseyjar og það hlýtur öllum að vera ljóst að ekki hvað síst þess vegna er kostnaður stöðvarinnar mun meiri á hvern íbúa heldur en gerist annars staðar þar sem samgöngur er aðrar og betri.