Málefni einhverfra

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 14:53:01 (4896)

1996-04-17 14:53:01# 120. lþ. 120.8 fundur 419. mál: #A málefni einhverfra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SvG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:53]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég ætla satt að segja ekki að blanda mér í, og það er ekki hæfilegt að ég blandi mér í þá umræðu sem fór fram áðan, en mér finnst það dálítið lýsandi um stöðuna þegar menn þurfa að fara í orðabók til að leita að skýringa á fátækt. Satt að segja er það nokkuð fróðlegt.

Ég hef leyft mér á þskj. 745 að bera fram fyrirspurn til hæstv. félmrh. um málefni einhverfra og eintsaklinga með asperger-einkenni. Fyrirspurnin er á þessa leið:

1. Hver er niðurstaða nefndar sem falið var að fjalla um greiningu og meðferð einhverfra og einstaklinga með asperger-einkenni?

2. Hvenær hyggst ráðherra taka ákvörðun um næstu skref sem stigin verða á grundvelli tillagna nefndarinnar?

3. Eru einhver þeirra úrræða, sem nefndin gerði tillögur um, á forræði annarra ráðuneyta? Ef svo er, hverra?

4. Mun ráðuneytið birta skýrslu nefndarinnar opinberlega?

Mér er ekki kunnugt um að áður hafi í þessari stofnun verið fjallað um þann hóp einstaklinga sem kallaðir eru einstaklingar með asperger-einkenni en þar er um að ræða vandamál sem kennt er við austurríska geðlækninn Hans Asperger og hefur verið fjallað sérstaklega um. Er yfirleitt litið á þessi einkenni sem hluta af málefnum eða vandamálum og einkennum einhverfra. Samkvæmt skilgreiningu er þetta orðað þannig í þýðingu sem ég hef undir höndum á grein um þetta vandamál að barn með aspergar-heilkenni virðist vanta hæfni til að gera sér i hugarlund hugsanir og tilfinningar fólks. Ástandið líkist einhverfu á margan hátt en fullorðið fólk með þetta heilkenni sem hefur góða greind getur þó náð langt í atvinnulífinu. Þrátt fyrir ytri aðlögun er þó oft til staðar ákveðin vanhæfni til að lifa sig inn í aðstæður annarra, og það er kannski megineinkennið á þessum hópi. Um það bil helmingur af öllum börnum með asperger-heilkenni þjást af geðrænum vandamálum á unglingsárum.

Ég hef undir höndum allmikið magn af textum um þetta vandamál sem ég hafði hugsað mér að senda félmrn. til skoðunar ef svo undarlega vildi til að eitthvað af þessum gögnum hefði ekki þegar borist ráðuneytinu, en málin hafa verið þar til meðferðar á vegum ákveðinnar nefndar. Mér þætti vænt um ef hæstv. félmrh. gæti skýrt okkur frá því hvar málin standa, en það er einn af aðstandendum einstaklinga með þessi einkenni sem bað mig satt að segja um það að kanna hvar þetta mál stæði og mér fannst eðlilegt að koma því á dagskrá þessarar virðulegu stofnunar með þeim hætti sem hér reynt að gera.