Aðstoð við gjaldþrota einstaklinga

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 15:06:27 (4901)

1996-04-17 15:06:27# 120. lþ. 120.9 fundur 432. mál: #A aðstoð við gjaldþrota einstaklinga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:06]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn á þskj. 762 til hæstv. félmrh. um aðstoð við gjaldþrota einstaklinga, það er 432. mál þingsins.

Á síðustu árum hefur fjöldi einstaklinga orðið gjaldþrota hér á landi. Við það verður fólk ekki aðeins eignalaust heldur tekur það langan tíma að ná aftur þeim réttindum sem nútímafólk þarfnast í samfélaginu svo sem varðandi bankaviðskipti. Með gjaldþroti lýkur ekki innheimtuaðgerðum á hendur einstaklingum þannig að fólk neyðist oft út í svarta atvinnu til að brauðfæða sig sem er bæði slæmt fyrir einstaklinga og fyrir samfélagið í heild. Það eru þúsundir sem lenda í þessari aðstöðu því að það eru ekki aðeins gjaldþrota einstaklingar sem verða fyrir þessu heldur einnig fjöldi heimila sem verða gjaldþrota og kom það að hluta til fram í svari við fyrirspurn hv. þm. Gísla Einarssonar áðan mjög sláandi upplýsingar um það vandamál.

Mjög mörg þessara gjaldþrota verða vegna sérstakra aðstæðna. Nýsköpun eða frumkvæði í atvinnulífinu hefur það í för með sér að einstaklingar þurfa að taka áhættu. Bankakerfið tekur ekki þátt í að koma til móts við þá sem vilja fara út í nýsköpun eins og víða erlendis. Til þess að fá fyrirgreiðslu hjá bönkunum þurfa einstaklingar sjálfir og oft foreldrar, afar, ömmur, tengdafólk og ættingjar að gangast í ábyrgðir fyrir þessa atvinnustarfsemi. Fjöldi fólks stendur því upp eignalaust þegar slíkur rekstur fer úrskeiðis. Þokkalega stæðir aldraðir, eftir ævistarfið, standa vegna þessa oft uppi eignalausir. Þetta ástand splundrar fjölskyldum, foreldrar tala ekki við börnin sín, fjölskyldutengsl bresta. Þetta hefur í för með sér mikinn félagslegan vanda, heilbrigðisvanda þegar fólk missir heilsuna og það missir jafnvel lífslöngunina. Margir þeirra sem gangast í ábyrgðir lenda í þessu og það kemur þeim í opna skjöldu. Alls konar fólk lendir í þessu sem kannski hefur alls ekki komið nálægt þessum rekstri. Hér er það stjórnkerfið og bankakerfið sem á stóra sök. Í tengslum við gjaldþrotin er landflótti stórt og alvarlegt vandamál. Fólk sem lendir í þeim á oft ekki annarra kosta völ en fara úr landi til að geta séð sér farborða.

Nú veit ég að hæstv. félmrh. hefur skilning á þessum málum. Hann hefur sýnt það í starfi sínu sem félmrh. og ég veit að hann er mér sammála í því að við verðum að gefa þessu fólki tækifæri til að byrja upp á nýtt þannig að íslenskt samfélag missi ekki af þessu fólki úr landi. Því hef ég lagt fyrir fjórar spurningar, (Forseti hringir.) og ég ætla að fá að lesa þær, herra forseti:

1. Liggur fyrir félagsleg rannsókn á því hversu margar fjölskyldur hafa lent í þrengingum vegna gjaldþrota einstaklinga og fyrirtækja sl. tíu ár?

2. Er vitað hversu margar fjölskyldur hafa flutt úr landi í kjölfar gjaldþrots þar sem þær treysta sér ekki til að búa á Íslandi?

3. Hvaða ráðstafanir gerir ríkisvaldið til að aðstoða einstaklinga við að byrja nýtt líf eftir gjaldþrot?

4. Telur ráðherra koma til greina, með hliðsjón af því hve margir hafa orðið gjaldþrota á síðustu árum, að auðvelda fólki sérstaklega að komast inn á atvinnumarkaðinn?