Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 12:49:05 (4966)

1996-04-18 12:49:05# 120. lþ. 122.3 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., Flm. JBH
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[12:49]

Flm. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Í desember 1994 skuldbundu þáverandi stjórnarflokkar, Alþfl. og Sjálfstfl., sig til þess að beita sér fyrir því að koma á fjármagnstekjuskatti. Það var gert með sérstökum ríkisstjórnaryfirlýsingum. Því var lýst yfir að ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir því að koma á laggirnar nefnd með fulltrúum allra flokka og fulltrúum Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins. Er það rétt sem hæstv. fjmrh. hélt fram að ríkisstjórnin hefði tekið bindandi afstöðu til útfærslu skattsins? Svarið við því er nei. Nefndinni var ætlað að útfæra skattinn og þá vissu allir að um tvær leiðir var að velja. Hugmyndir sem ASÍ hafði reifað árið 1993 um 10% flatan nafnvaxtarskatt og leið sem lengi hefur verið könnuð lá fyrir í mörgum skýrslum um það að þessi skattlagning skyldi vera innan tekjuskattskerfisins.

Fyrri ríkisstjórn hafði ekki bundið sig af niðurstöðum. Fjmrh. hafði 1993 skipað nefnd til þess að vinna í málinu en þar var ósamkomulag í nefndinni. T.d. hafði formaður þingflokks Alþfl., Rannveig Guðmundsdóttir lýst yfir eindreginni andstöðu við þá leið að fara í 10% flatan nafnvaxtarskatt.

Hver er þá afstaða Sjálfstfl.? Hún var þessi: Við skuldbundum okkur til þess að vinna að því að fjármagnstekjuskattur skyldi lögfestur um áramótin 1995/1996 og óskuðum eftir atbeina annarra stjórnmálaflokka til þess. Eftir stóð valið milli leiða. Það eina sem Sjálfstfl. hefur ævinlega hamrað á í þessu efni er það að tekjur, sem kæmu inn fyrir fjármagnstekjuskatt, ætti að nota til þess að lækka eignarskatta vegna þess að það væri óeðlilegt að þeim væri haldið jafnháum eftir að farið væri að skattleggja tekjur af peningalegum eignum. Hefur Alþýðusambandið og verkalýðshreyfingin skuldbundið sig til þess að fylgja annarri hvorri leiðinni? Svarið við því er já að því er varðar Alþýðusambandið. Það hafði lýst því yfir að það féllist á og styddi 10% flatan nafnvaxtarskatt. En spurningin er þessi eins og fram kom í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar: Hefur Alþýðusambandið jafnframt uppáskrifað þá stefnu að tilefni þess að setja á fjármagnstekjuskatt skyldi notað til þess að lækka í stórum stíl skattálagningarprósentur á sumar fjármagnstekjur eins og arð, söluhagnað, gengishagnað, leigutekjur o.s.frv.? Það er spurning sem forusta ASÍ verður að svara og væri þörf á því að fá það upplýst. Eru menn að halda því fram að Alþýðusambandið hafi gert samkomulag við Vinnuveitendasambandið um einhvers konar kaup kaups, þ.e. að Alþýðusambandið féllist á þessar stórfelldu skattlagningar á fjármagnstekjum gegn einhverju sem þeir fengju í staðinn? Enginn hefur treyst sér til þess að upplýsa það.

Það eina sem hefur breyst frá því að málið var sett í farveg er þess vegna sú tillaga sem komin er að frumkvæði sjálfstæðismanna um það að ekki skuli bara leggja á þennan flata skatt heldur það sem ég kalla smyglgóssið sem skiptir sköpum um skattaleg áhrif frv. Ef menn eru að spyrja um samkomulag er samt spurningin um þetta: Hefur einhver bundið sig af því að fylgja því? Hefur Alþfl. gert það? Hafa stjórnarflokkarnir gert það? Hefur verkalýðshreyfingin gert það? Þeirri spurningu þarf að svara af hálfu verkalýðshreyfingarinnar.

Í öllum samanburðarfræðum á þessum tveimur leiðum segja menn: Flati skatturinn hefur þann kost að vera einfaldur í framkvæmd. Það má út af fyrir sig taka undir það um þá tillögu eina og sér. Hitt er svo annað mál að það að búa til sérstaka skattlagningu á arð, söluhagnað, leigutekjur o.s.frv. er ekki til þess að einfalda þetta kerfi og skattaleg áhrif þess sem engir úr röðum stjórnarliða vilja ræða eru stærstu skattalegu áhrif frv. Það er af þessu nýmæli. Að því er varðar þessi samanburðarfræði um einfaldleikann er svarið þetta: Með því að halda sig innan tekjuskattskerfisins sem allt skattkerfi okkar varðandi tekjur og reyndar bótakerfi snýst um erum við að viðhalda bæði skattkerfi og framkvæmd sem fyrir er með einföldum og fyrirhafnarlausum hætti þannig að hann verður ekki gagnrýndur út frá því að hann sé flókinn eða neitt þess háttar. Þeir sem mæla með 10% flötum skatti eru þá jafnframt að mæla með afleiðingunum sem eru þær að allur þorri launafólks á Íslandi er með sitt litla sparifé á reikningum í bankakerfinu sem bera neikvæða vexti. Allur þorri þess fólks mun þess vegna fá skatt á neikvæða vexti og verðbótaþátt jafnvel þótt þeir borgi vaxtagjöld á skuldum sínum sem eru miklu hærri. Ég verð að segja það eins og er að mig undrar stórlega að pólitísk samtök eins og Kvennalistinn skuli segja: Já, við skulum fallast á þessa leið. Ég hefði haldið að þau samtök teldu að megintilgangurinn með þessari skattlagningu ætti að vera tekjujöfnun í þjóðfélaginu en ekki aukinn ójöfnuður.

Þegar menn eru að bera saman þessi kerfi verða menn að athuga að aðalatriðið í tillögum okkar eru í fyrsta lagi að við erum innan hins þekkta og kunna tekjuskattskerfis. Í annan stað: Við förum sömu leið og ríkisstjórnin hefur gert gagnvart lífeyrisþegum. Við skilgreinum að það komi ekki allar fjármagnstekjur til skatts heldur einungis 60%. Í þriðja lagi höfum við frítekjumark og þetta þýðir einfaldlega að allur þorri venjulegra sparifjáreigenda verður undanþeginn þessum skatti. Sá hópur sem raunverulega ber skattinn er tiltölulega mjög fámennur.

Það er verið að afnema bankaleynd, segja menn. Það er rangt. Það verður valkvætt og það þýðir einfaldlega að sá launþegi sem veit að vaxtatekjur hans eru innan frítekjumarka getur einfaldlega fallist á að bankakerfið gefi þær upplýsingar til skattkerfisins þá verður hann ekki í staðgreiðslu heldur bætast hans litlu vaxtatekjur við tekjur hans í eftiráuppgjöri til tekjuskatts. Þetta þýðir einfaldlega að hinir tekjulágu bæði gagnvart launum og litlum vaxtatekjum verða áfram skattlausir ef þeir eru innan skattfrelsismarka eða mjög lágt skattaðir. Síðan er verið að reyna að halda því fram að frítekjumörk innan tekjuskattskerfisins séu svo flókin að þau megi misnota t.d. með því að sá sem á umtalsverðar upphæðir í peningalegum eignum, kannski milljónir eða tugi milljóna, verði hvattur til að fallist í þá freistni að deila þessum eignum sínum á börn eða fjölskyldumeðlimi. Það er athyglisvert að helsti talsmaður þessa skatts, þ.e. stjfrv., hv. þm. Pétur Blöndal, lýsti því yfir að bankaleyndin væri alveg sérstaklega nauðsynleg til þess að verja raunverulega fjáreigendur fyrir börnum þeirra og er tekið undir af hv. þm. Kvennalistans sem töluðu um terrorisma gagnvart gömlu fólki.

Lykilspurningin um áhrif skattlagningar á þætti eins og sparnað, vaxtahækkun eða fjárflótta úr landi. Fyrsta atriðið sem maður ætti að staldra við er þetta: Á Íslandi er núll-skattur á vaxtatekjur. Vextir í bankakerfinu eru hærri en í flestum öðrum löndum. Samt er sparnaður minni. Hvað ætla menn að álykta út frá þessu?

Í annan stað: Ætla menn að halda því fram ef allur þorri venjulegra sparifjáreigenda ber ekki skattinn að það hafi þau áhrif að vextir hækki eða bankarnir fari að auka sinn vaxtamun? Það er afar ósennilegt að þeir sem verða ekki varir við skatt bregðist við honum á einhvern þann veg. Allt þetta tal um alþjóðlegan samanburð er í hæsta lagi undarlegt. Hér hefur verið farið með tómt fleipur um það efni vegna þess að staðreyndirnar eru þessar: Af 24 ríkjum í OECD eru öll nema sex sem fara þá leið sem við formenn stjórnarandstöðuflokkanna leggjum til, þ.e. skattlagning á vexti og fjármagnstekjur er innan tekjuskattskerfisins og útfærslan að öðru leyti að því er varðar frítekjumörk mismunandi. En allir fara þá leið að búa ekki til sérstakt skattkerfi um sumar fjármagnstekjur þannig að við erum að fara nákvæmlega sömu leið og allur þorri ríkja í OECD.

Í annan stað: Að því er varðar upphæð skattsins er staðreynd að það er leitun að þeim löndum sem eru með lægri skattlagningu en við leggjum til vegna þess að það er staðreynd og þýðir ekki að vera með neitt meðaltalstal um það að eins og við leggjum upp skattstofninn, skilgreinum hann sem 60% af framtöldum tekjum og höfum frítekjumörk, þá er hin raunverulega skattprósenta 11% í upphafi. Ekkert land er reyndar með svo lágan skatt í þessum töflum og af þessum 24 ríkjum, meira segja ef við tölum um 25% í staðgreiðslukerfi á nafnvexti, sem mundi lenda á tiltölulega fáum fjármagnseigendum, erum við samt meðal sex neðstu ríkja. Með öðrum orðum, skattlagning á vexti og fjármagnstekjur í þessum löndum er í sama kerfi og við leggjum til en hún er víðast hvar til mikilla muna hærri en við leggjum til. Síðan tala menn um fjárflótta. Hvert ætla menn að flýja ef þeir ætla að flýja til þessara landa? Það er þá helst spurning um Grikkland og Tyrkland og eru það trúverðug rök í almennri umræðu að íslenskir fjármagnseigendur mundu helst leita þangað? Mundu þeir taka þá gengisáhættu? (Gripið fram í: Af hverju leggurðu þá ekki til ...?) Ég er margbúinn að færa rökin fyrir því hvers vegna það er gert. Það eru veigamikil rök fyrir því að skattlagning á fjármagnstekjur verði ekki í þessari sömu prósentu eins og sum önnur lönd hafa valið. Það er bara ekki hægt af hálfu þeirra sem segjast styðja eða geta sætt sig við tillögu ríkisstjórnarflokkanna að segja: Já, við getum sætt okkur við hana en við getum ekki fallist á tillögur formannanna af því að álagningarprósentan er of há. Þau rök standast ekki. Síðan eru ein rök sem þeir nota og þau eru þessi: Þrátt fyrir alla galla hins flata 10% skatts og þrátt fyrir að greiðslubyrðin er óréttlát er þetta samt til vinnandi vegna þess að það mun stuðla að eflingu atvinnulífs, hvetja almenning til að fjárfesta í fyrirtækjum.

[13:00]

Þegar verið er að ræða um útflutningsleið Alþb. og efnahagsvillidýrin í Asíu, voru menn stundum að líta á hlutverk ríkisins og skattkerfið í þróun þessara landa, hvað stjórnvöld gerðu til þess að örva atvinnulífið. Og hvað er það sem þau hafa gert? Í Japan? Í borgríki eins og Singapore? Og reyndar í þýska efnahagsundrinu á sínum tíma? Þeir fóru þveröfuga leið á við það sem hér er verið að boða. Þeir skattlögðu útgreiddan arð til eigenda fyrirtækja upp í topp innan síns tekjuskattskerfis, m.a. í Þýskalandi, en þeir lækkuðu mjög skattlagningu á hagnað fyrirtækja til þess að hvetja fjármagnseigendur til að halda fjármagninu virku innan fyrirtækjanna sem auðvitað styrkir stórlega eiginfjárstöðu fyrirtækjanna. Eitt meginatriðið í tillögum stjórnarflokkanna er nýjar heimildir til uppfærslu á nafnverði hlutabréfa sem mun þýða stórauknar arðgreiðslur út úr fyrirtækjum til eigenda. Það hefur enginn maður fært sönnur á það í þessum umræðum að þessi leið, sem er gamalkunn úr hagfræði og mjög umdeild, sé líklega leiðin til að örva fjárfestingu eða skapa atvinnu á Íslandi. Lítum á okkar hagkerfi. Hverjir eru stóru fjárfestarnir í íslensku atvinnulífi? Það eru lífeyrissjóðirnir. Staða þeirra er alveg óbreytt, þeir eru utan skattkerfisins í báðum tillögum. Og hverjir aðrir? Það eru tiltölulega fáir stórir fjárfestar sem eru eigendur í fyrirtækjum. Hvað um almenning og fjárfestingu hans í hlutabréfum? Það eru í gildi ákveðin skattfrádráttarákvæði sem eiga að hvetja einstaklinga til þess að leggja fé í fyrirtæki. Það er takmarkað við ákveðnar upphæðir og ákveðin tímabil en það er engu að síður ákveðin hvatning. Að því er varðar samanburð á skattlagningu fyrirtækja á Íslandi og í öðrum löndum höfum við stigið hvert skrefið á fætur öðru til þess að samræma þá skattlagningu þannig að skattlagning á fyrirtæki er ekki óhagstæðari hér þegar hér er komið sögu en víðast hvar annars staðar.

Í ljósi alls þessa verð ég að segja eins og er að mig undrar það einna mest í þessari umræðu að einn stjórnarandstöðuflokkanna, þ.e. Kvennalistinn, skuli annars vegar lýsa því yfir að þær tillögur sem liggja fyrir af hálfu formanna stjórnarandstöðuflokkanna séu miklu nær grundvallarsjónarmiðum Kvennalistans. Það þarf út af fyrir sig ekki að færa mörg rök fyrir því. Ég trúi því að þær vilji að þessi skattur hafi tekjujöfnunaráhrif í þjóðfélaginu eins og okkar tillögur gera en stuðli ekki að auknum ójöfnuði eins og tillögur ríkisstjórnarinnar gera. Hver eru þá rökin fyrir því að þær segja hins vegar að með því að flytja skynsamlegar tillögur sé verið að stofna fjármagnstekjuskattinum í hættu? Hver er að því? Hver er að stofna honum í hættu? Er þetta ný kenning um þingræði? Ef stjórnarandstaðan flytur brtt. við stjfrv. þá er verið að stofna samkomulagi í hættu. Þá mun meiri hlutinn draga sínar tillögur til baka en þá ætlar stjórnarandstaðan að bregðast við með því að kalla eftir þeim aftur og fallast á þær þótt hún sé sannfærð um galla þeirra. Þetta minnir á fræga sögu af ungum Heimdellingum sem á sínum tíma gengu á fund Gunnars Thoroddsens eftir kosningar 1978. Sjálfstfl. hafði þá beðið allverulegan kosningaósigur. Í hópi þessara Heimdellinga var m.a. núverandi hæstv. forsrh. og hefur sagt frá því að þeir hafi farið á fund varaformannsins og lagt eindregið að honum að hann ætti að segja af sér. Þáverandi varaformaður Sjálfstfl., Gunnar Thoroddsen, svaraði: Já, einmitt, viljið þið ekki bara leggja það til að í flokkslögum Sjálfstfl. standi: Nú bíður flokkurinn afhroð í kosningum og ber þá varaformanni að segja af sér. Þetta er merkileg kenning og hún minnir mig á nýju þingræðiskenninguna. Nú flytur stjórnarandstaðan brtt. við stjfrv. og ber þá meiri hlutanum að draga frv. til baka. Og kenna síðan minni hlutanum um að hafa eyðilagt málið. Ef við ættum að álykta rökrétt af þessu þýðir það að við höfum þinghaldið og ríkisstjórnina algjörlega í hendi okkar. Við munum halda áfram að flytja brtt. við stjfrv. og þá væntum við þess samkvæmt þessari kenningu að ríkisstjórnin dragi sín mál til baka.

Að lokum, herra forseti. Þessi kenning um það að verið sé að rifta einhverju samkomulagi um útfærsluna er bara falskenning. Það er verið að takast á um tvær útfærslur, ólíkar að eðli. Þær hafa ólík skattaleg áhrif og spurningin er þessi: Geta þeir sem vilja framgang fjármagnstekjuskatts komist að samkomulagi? Og þá er spurningin þessi: Það er hægt að rökræða endalaust um kosti og galla hins flata skatts, sérstaka skatts og hins að hafa þetta innan tekjuskattskerfisins. Hitt er svo annað mál að það er búið að koma á framfæri nýjum tillögum um allt annað mál, skattalækkanir sem hafa stórkostleg tilfærsluáhrif og munu valda því að ríki og sveitarfélög verði fyrir tekjutapi. Þá spyr ég: Eru stjórnarliðar reiðubúnir til þess að draga þessar tillögur sínar til baka en ræða hins vegar fyrst og fremst um það hvort menn geti komist að málamiðlun eða niðurstöðu um útfærslu á eiginlegum fjármagnstekjuskatti? Um það snýst málið. Þeir sem hafa raunverulega hent tímasprengju inn í þetta mál eru þeir sem koma með algjörlega nýjar og óskyldar tillögur. Þetta gæti hugsanlega verið útlátalítið fyrir hæstv. fjmrh. vegna þess að það vill svo til að hann hefur að störfum sérstaka nefnd sem hefur það verkefni að endurskoða meginþætti íslenska skattkerfisins, ef ég er rétt upplýstur. Og hvers vegna þá ekki að vísa til slíkrar heildarendurskoðunar spurningunni um það hvað við getum frekar gert til að hvetja almenning í landinu til fjárfestingar í fyrirtækjum? Ég er sannfærður um að rétta leiðin í því efni er ekki sérsköttunarleið því hún leiðir ævinlega til sérréttinda. Það á að gera það með heildstæðum lausnum innan núverandi skattkerfis.

Virðulegi forseti. Það er augljóst af þessum umræðum að stjórnarliðar hafa meira en lítið slæman málstað að verja vegna þess að þeir verja mestum parti ræðutíma síns í að ræða aukaatriði málsins eins og t.d. nefndarálit þar sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar þó áskildu sér rétt til þess að flytja og fylgja brtt. Eða þeir segja ósatt til um forsögu málsins og tala um stefnubreytingu þegar það styðst við engin rök. En eitt forðast þeir eins og heitan eldinn og það er að ræða kjarna þess frv. sem þeir eru komnir með. Þeir vilja ekki með nokkru móti ræða að þeir eru komnir með nýjar tillögur sem gerbreyta skattalegum áhrifum þessa frv. Þeir fást ekki til þess að ræða það, þeir vitna í álit nefndarinnar og segja að í álitinu standi að þetta eigi að stuðla að tekjujöfnun. Forsenda fyrir því er sú að það verði engin viðbrögð við þessu frv. En það fólk, efnafólk í landinu, sem nú sér fram á að það er t.d. verið að skattleggja í fyrsta sinn vexti af spariskírteinum ríkissjóðs mun bregðast við. Meðal annars með því að skipta um atvinnurekstrarform til þess að komast í skattaskjól hinna snarlækkuðu skatta á arðgreiðslur, söluhagnað og leigutekjur. Afleiðingarnar af því, eins og mun koma í ljós í starfi nefndarinnar þegar sérfræðingar eru kallaðir til, munu verða þær að allar áætlanir á óbreyttum forsendum um einhverjar 600 millj. kr. tekjuöflun á þessu frv. eru staðlausir stafir og munu aldrei skila sér. Og þá verður mönnum hvorki að þeirri von sinni að unnt sé að lækka eignarskatta né heldur þeirri, sem við höfum látið í ljósi, að þetta fé megi nota til að sinna forgangsverkefni í íslenskum skattamálum, þ.e. að draga úr óhóflegri tekjutengingu bóta bæði fyrir launþega og lífeyrisþega og lækka jaðarskattana sem eru að sliga alþýðuheimilin í landinu.