Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 15:27:23 (4987)

1996-04-18 15:27:23# 120. lþ. 122.9 fundur 464. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (flutningur grunnskólans) frv. 79/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[15:27]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og tek að sjálfsögðu fullt mark á hans góðu orðum um það að hann hafi ekki áhuga á að þjösnast neitt á sveitarfélögunum eða svíkja gagnvart þeim samkomulag. Þess þá heldur hlýtur hæstv. ráðherra að vera nokkurt áhyggjuefni að hafa fyrir framan sig nýlega dagsett bréf frá Sambandi ísl. sveitarfélaga þar sem ekki er sagt minna en það að þær forsendur séu brostnar sem gengið var út frá við gerð samkomulagsins, þ.e. samkomulagsins um tekjumálin í tengslum við færslu grunnskólans, með frv. ríkisstjórnarinnar um fjármagnstekjuskatt. Það þarf líklega að lesa þetta aftur fyrir hæstv. ráðherra, herra forseti, svo þetta komist alveg á hreint. Eftir að hafa rakið aðdraganda málsins og farið yfir það hvaða tekjur eru í húfi, yfir 200 millj. kr. á ári í beint tekjutap fyrir sveitarfélögin, er sagt, með leyfi forseta:

,,Sambandið stóð í þeirri trú að báðir aðilar ynnu af fullum heilindum að samningagerðinni. Á sama tíma var af hálfu fjmrn. unnið að frv. um fjármagnstekjuskattinn og fulltrúar sveitarfélaganna voru ekki upplýstir um að það leiddi til stórfellds fjárhagstjóns fyrir sveitarfélögin. Sambandið átelur slík vinnubrögð mjög harðlega.``

Þann 4. mars sl. var undirritað samkomulag ríkis og sveitarfélaga um kostnaðar- og tekjutilfærslu frá ríki til sveitarfélaga vegna flutnings grunnskólans. Ef frv. um fjármagnstekjuskattinn verður lögfest án breytinga bresta þær forsendur sem gengið var út frá við gerð samkomulagsins sem byggjast á áætluðum álagningarstofni útsvars án þeirrar skerðingar sem gert er ráð fyrir í frv. Síðan er það krafa Sambands sveitarfélaga að hið allra fyrsta verði hafnar viðræður fulltrúa ríkisstjórnarinnar og sambandsins um margnefnt frv. um fjármagnstekjuskatt með það að markmiði að sveitarfélögin verði ekki fyrir neinum fjárhagslegum áföllum í tengslum við setningu laga um skattlagningu fjármagnstekna.

Mér sýnist, herra forseti, í ljósi þess að þetta samkomulag er í uppnámi hefði verið eðlilegast að fresta umræðu um þetta mál. Hæstv. félmrh. hefði þá átt að beita sér tafarlaust fyrir því að umræður færu fram, þríhliða viðræður milli félmrn., fjmrn. og sveitarfélaganna, um að reikna dæmið upp á nýtt, annaðhvort breyta þessum áformum um fjármagnstekjuskattinn eða breyta álagningartölunum þannig að tekjuútreikningurinn stæðist eftir sem áður. Enda mótmæla fulltrúar Sambands sveitarfélaga því einmitt að standa í langvinnum viðræðum og leggja í tæknilega vinnu og nákvæmnisútreikninga á máli af þessu tagi þegar forsendunum er svo breytt einhliða og það áður en samkomulagið kemst til framkvæmda. Um þessi samskipti almennt reyndi hæstv. félmrh. fyrst og fremst að segja að þetta mundi verða í lagi hjá sér, að hann, hæstv. ráðherrann, hefði ekki í hyggju að standa illa að þessum málum á nokkurn hátt. En það er nú því miður þannig að hæstv. ráðherra er ráðherra í þessari ríkisstjórn sem leggur fram frv. um fjármagnstekjuskattinn og ber á því ábyrgð ásamt flokki sínum og samstarfsaðilum í ríkisstjórn að þetta er gert svona.

[15:30]

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að vitna aðeins aftur í þennan Evrópusáttmála um sjálfstjórn sveitarfélaga sem fullgiltur var af Íslendingum á árinu 1990. Það virðist svo að það sé nauðsynlegt að rifja aðeins upp það plagg og þar á meðal fyrir hæstv. félmrh. Í inngangi segir hvorki meira né minna en að samningsaðilar, aðildarríki Evrópuráðsins, telji að sveitarstjórnir séu einn af helstu hornsteinum hvers lýðræðislegs stjórnarfars. Og í sama inngangi er talað um að tryggja að víðtækt sjálfsforræði að því er varðar verkefni þeirra, þ.e. sveitarfélaganna.

2. gr. sáttmálans er um stjórnskipulegan og lagalegan grundvöll sjálfstjórnar sveitarfélaga. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Meginreglan um sjálfstjórn sveitarfélaga skal viðurkennd í landslögum og í stjórnarskránni ef unnt er.`` Með öðrum orðum, það á að ganga mjög rækilega frá því að lagalegur og stjórnskipulegur grundvöllur sjálfstjórnar sveitarfélaganna sé tryggður. Og það má a.m.k. líta á staðfestingu þessa sáttmála af okkar hálfu sem skref í þá átt. Síðan er í kaflanum fjallað um sjálfstjórnarsvið sveitarfélaganna og segir m.a. í 4. tölulið að það vald sem sveitarstjórn er veitt skuli að öllu jöfnu vera fullt og óskorað. Það má annað stjórnvald ekki skerða eða takmarka, hvort sem um er að ræða ríkis- eða héraðsstjórnvald nema samkvæmt heimild í lögum.

Í 6. tölulið sama kafla er sagt: ,,Leita skal álits sveitarstjórna í tæka tíð og á viðeigandi hátt ef unnt er varðandi skipulagningu og ákvarðanir í öllum málum sem þær varða.`` Þetta ákvæði er nú komið inn í sveitarstjórnarlög og hefur verið tekið upp þar. Það er ótvíræð samráðsskylda á ríkisvaldinu gagnvart sveitarstjórnum um öll sameiginleg mál, öll mál sem varða sveitarfélögin. Hvar var hún, samráðsskyldan, þegar tekjugrundvelli sveitarfélaganna á fyrirvaralaust að raska, samanber frv. um fjármagnstekjuskatt? Gildir þá svar hæstv. félmrh. hér áðan um samráð eftir á? Sama svar hefur komið frá hæstv. fjmrh., þ.e. að það megi athuga þetta ef eða þegar frv. verður að lögum. Dettur hæstv. ráðherra í hug að halda því fram að það sé þá fullnægjandi efnd á þessu ákvæði?

Um tekjuleg samskipti þessara aðila og um tekjustofna sveitarfélaganna er fjallað ítarlega í sáttmálanum og þar segir m.a.: ,,Sveitarstjórnum skulu tryggðir fullnægjandi tekjustofnar innan ramma hinnar opinberu fjármálastefnu og skal þeim frjálst að ráðstafa þeim að eigin vild innan valdsviðs síns.`` Og í 4. tölulið: ,,Fjármálakerfið sem tiltækar tekjur sveitarstjórna grundvallast á skal vera nægjanlega fjölþætt og sveigjanlegt í eðli sínu til þess að geta haldið í við raunverulega hækkun kostnaðar við framkvæmd verkefnanna svo sem framast er unnt.`` Þarna er að sjálfsögðu boðuð í verulegum mæli önnur stefna en sú sem hér er áfram byggt á, þ.e. að ríkisvaldið eða löggjafinn skammti sveitarfélögunum mjög þröngan ramma um tekjur en endurskoði svo kannski málin ef allt fer í óefni eins og hér er boðað, samanber endurskoðunarákvæðið um útgjöld vegna færslu grunnskólans sem á að líta á að einhverjum tíma liðnum ef forsendur hafa brugðist.

Herra forseti. Það væri ástæða til að fara betur yfir þetta, ekki síst vegna þess að satt best að segja fundust mér svör hæstv. ráðherra frekar rýr í roði. Það kostar lítið að standa hér og lýsa yfir fögrum ásetningi þegar verkin og efndirnar tala svo allt öðru máli. Það er ástæða til þess að mínu mati að fara í grundvallaratriðum yfir stöðu sveitarstjórnastigsins í þessum efnum gagnvart ríkisvaldinu.

Ég ætla ekki að fara í frekari orðræðu við hæstv. ráðherra um orðalag í grg. á bls. fimm nema hvað mér finnst heldur snautlegt þegar texti af þessu tagi er á annað borð settur á blað og í grg. með frv. að koma svo og segja að þetta sé í lagi vegna þess að viðkomandi frv. fjalli ekki um skólapólitík eða gæði skólastarfs. Auðvitað gerir það það, hæstv. ráðherra, í þeim mæli sem tilfærsla málaflokksins yfir til sveitarfélaganna hlýtur að hafa áhrif. Að minnsta kosti getur hún haft það ef ekki tekst lýtalaust að ganga frá öllum endum og köntum þess máls. Það þarf enginn að segja mér að það sé búið að róa fyrir hverja vík í því máli.

Hér kom upp athyglisvert sjónarmið áðan varðandi þá mismunun sem vissulega getur orðið á útkomu sveitarfélaga vegna samskipta þeirra við ríkisvaldið og kostnaðarþátttöku ríkisins miðað við það sem gilti fram til 1990 og síðan það sem gildir á aðlögunartímabilinu eftir þessa yfirfærslu þegar sveitarfélög geta þá aftur fengið allt að 20% kostnaðar vegna fjárfestinga til að komast hjá tvísetningu í skólunum greiddan. En sveitarfélög sem byggt hafa upp á þessu sex ára tímabili eða svo hafa hins vegar ein borið þann kostnað. Það getur verið tilviljanakennt og mjög mismunandi hvaða sveitarfélög hafa einmitt á þessu árabili staðið í framkvæmdum og hver ekki. Sveitarfélög sem voru búin að því áður nutu ákveðinnar þátttöku ríkisins og þetta er hlutur sem ástæða gæti verið til að athuga vel og ég tek undir það sjónarmið sem hér var sett fram.

Herra forseti. Það mætti margt um þetta mál segja og það er síður en svo að hér sé á ferð eitthvert smámál sem eðlilegt sé að hraða í gegnum þingið. Ég ítreka að það er að mínu mati langeðlilegast í ljósi þeirrar stöðu sem komin er upp í málinu að þetta frv. verði lagt til hliðar, sett á ís, á meðan málin komast aftur á hreint í samskiptum ríkis og Sambands sveitarfélaga vegna þeirrar uppákomu sem þar er orðin.