Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 20:46:40 (5198)

1996-04-23 20:46:40# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HG
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[20:46]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það sem af er þessari umræðu hefur margt mjög athyglisvert komið fram að mörgu leyti og hér hefur skapast umræða um samskiptin við Evrópusambandið sérstaklega. Það er vissulega góðra gjalda vert að hér skiptist menn á skoðunum um það stóra mál á Alþingi. Ég tel að ummæli eins og í þá átt að einhverjir séu að reyna að stöðva umræðu um þetta mál og það sé verið að komast hjá slíkri umræðu séu algjörlega óréttmæt lýsing á stöðu mála, því hver er það sem hefur haft hug á því og tilburði til þess að stöðva umræðu um þessi efni? Ég hef satt að segja ekkert orðið var við það, að a.m.k. ekki af hálfu þeirra sem eru andsnúnir því að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu. Ekki hafa þeir lagt stein í götu þess að umræða fari fram, síður en svo. Við sem erum í þeim hópi höfum þvert á móti rætt þessi mál efnislega í þinginu og mér finnst það mjög sérkennilegt þegar talsmenn þess að láta reyna á aðild að Evrópusambandinu eru að tala um að það sé verið að koma í veg fyrir umræðu. Mér finnst það hin mestu öfugmæli og að það sitji alls ekki á mönnum að setja málin þannig fram þó svo að ríkisstjórn landsins hafi ekki tekið þetta mál upp af sinni hálfu eða sett málið á dagskrá eins og sagt er. Það kemur ekki í veg fyrir að málin séu rædd. Ég held að það sé einmitt mjög mikil þörf á því að ræða þessi mál efnislega, reyna að átta sig á því hvert hugur manna stefnir í þessum málum, stjórnmálamanna og hvernig þetta horfir við okkur Íslendingum.

Það er sitthvað sem hefur skýrst í þessari umræðu. Mér var það ekki ljóst áður en þessi umræða í rauninni hófst að það væri svo komið að það ríkti almennt jákvætt hugarfar gagnvart Evrópusambandinu hjá talsmönnum annars stjórnarflokksins, þ.e. Framsfl. Ég las það að vísu í ræðu hæstv. utanrrh. sem ég vitnaði til og síðan hefur þetta komið fram hjá talsmönnum flokksins í umræðunni eins og hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur sem sér sérstaka ástæðu til þess að brýna hæstv. utanrrh. í þessu efni og hefur lagt hér ákveðnar spurningar fyrir ráðherrann. Að vísu vil ég ekki vera að túlka þetta meira en efni standa til. Menn eru að tala um þetta í því samhengi að það sé skiljanlegt og jákvætt að sem flestar þjóðir í austanverðri álfunni séu að hugsa sér til hreyfings og knýja fast á dyr Evrópusambandsins um inngöngu. Og á því hafa menn afskaplega mikinn skilning og sjá ekkert nema jákvætt við það. Þetta þýðir um leið að menn eru að leggja blessun yfir innihald Evrópusambandsins, starfshætti þess og grundvallarsáttmála og reglur sem þar er unnið eftir. Það er auðvitað nauðsynlegt að ræða það. Hvernig líta þau mál út? Hér er ekki tími til þess að fara út í þau í einstökum atriðum en mér finnst t.d. að umræða eins og hér kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, Tómasi Olrich, að sé einmitt á þeim nótum sem eðlilegt er að fjalla um þessi mál, spyrja sig spurninga og reyna að gera grein fyrir sínum sjónarmiðum eins og þau eru á hverjum tíma.

Ég tel það vera mjög góðra gjalda vert þegar forustumenn eins og hæstv. forsrh. ganga fram fyrir skjöldu til þess að lýsa viðhorfum sínum, formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins. Ég tel það mjög góðra gjalda vert. Ég er að vísu ekki sammála þar í allri grein, það er langt frá því, eins og t.d. um matið á samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði sem hæstv. forsrh. og Sjálfstfl. hjálpaði til að koma í höfn á sínum tíma. Ég var andvígur þeim samningi og ég tel að það hafi ekkert það komið fram með hlutlægum upplýsingum sem staðfesti þær stóru yfirlýsingar sem heyra má frá ræðumönnum eins og hv. þm. Jóni Hannibalssyni um árangurinn af þessum samningi fyrir okkur Íslendinga fram að þessu. Hér vitnaði hv. formaður Alþfl. til forustumanns í röðum iðnrekenda um hinn stórkostlega árangur. Hefur það þá legið fyrir að fyrir iðnrekendur og hinn almenna iðnað í landinu var nú ekkert sérstaklega mikið að sækja í þennan samning. Ef nokkur atvinnugrein bjó við nokkurn veginn fríverslunarskilyrði þá var það iðnaðurinn í landinu. Það kom fram þegar þessi mál voru rædd á sínum tíma. Hins vegar voru iðnrekendur og forustumenn þeirra í fremstir í flokki að reka trippin í þessu efni og voru þar á allt annarri skoðun en talsmenn hagsmunasamtaka í sjávarútvegútvegi.

Ég held að það væri þörf á því, virðulegur forseti, að taka einhvern tímann umræðu um það og þá helst á grunni einhverra hlutlægra gagna og athugana, hvar þessi mikli ávinningur er sem samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði hefur fært Íslendingum og bera það saman við þá forsögn sem hv. þm. og fyrrv. hæstv. ráðherra, Jón Hannibalsson, hafði uppi á Alþingi þegar hann var að gylla þetta mál fyrir þingi og þjóð á sínum tíma. Það liggja fyrir tillögur um það hvers konar stórávinning væri að sækja í þennan samning og tölulegir spádómar framreiddir í því sambandi. Nú er þessi samningur um hið Evrópska efnahagssvæði reiddur fram af þeim sem vilja ganga lengra alveg eins og við sögðum sem vorum gagnrýnd hér á þinginu, að auðvitað yrði það reynt þegar menn væru komnir inn í snöru eins og þá sem samningurinn við hið Evrópska efnahagssvæði býr aðilum sínum, eins og Íslendingum, að vera þar ómyndugir hengdir aftan í lest sem dregin er af allt öðrum og koma þar litlum sem engum vörnum við. En það er staðan og hv. þm. Jón Hannibalsson líkir því við fullveldisafsal ef ég skilið hann rétt í ræðu sinni en það fullveldisafsal gerðist nú við tilverknað Alþfl. og annarra sem báru þetta mál hér fram og komu því í höfn í þinginu.

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan formannaskipti urðu í Framsfl. Það má segja að sá sem við tók af fyrrv. formanni, Steingrími Hermannssyni, hafi náð miklum árangri fyrir sín sjónarmið, alveg ótrúlega miklum árangri í þeim flokki. Við sem lásum og heyrðum boðskapinn eftir formannaskiptin skildum alveg hvað klukkan sló og vissum hvaða þróun var í gangi þegar harðast var deilt um samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði innan Framsfl. En að nýr formaður flokksins hefði stungið svo rækilega upp í aðra talsmenn flokksins eins og mér finnst hafa gerst og það jafnvel vaska menn eins og núv. hæstv. félmrh., kannski með því að króa hann af inni í ríkisstjórn þar sem hann getur sig hvergi hrært, það eru mikil þáttaskil. Það verður bráðum svo að maður fer að lýsa eftir því hvar andstaðan við inngöngu í Evrópusambandið er, þ.e. raunveruleg andstaða innan Framsfl, önnur en einhver tilvísun í sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Hvar er þessi andstaða? (Gripið fram í.) Það er satt að segja hin mesta raun upp á að horfa, virðulegi forseti, hvernig þetta hefur gerst og ég er ekki viss um að það fólk sem hefur stutt Framsfl. til þeirrar stöðu sem hann hefur í dag hafi gert sér ljóst hvert stefnt var í þessum efnum, hvað þá að menn hafi órað fyrir því svona yrði komið á árinu 1996. Það er orðið langt á milli svardaganna í aðdraganda kosninga 1991 og þeirrar stöðu sem nú er uppi, það verður að segjast, virðulegi forseti.

Ég ætla að bæta aðeins við það sem kom fram í fyrri ræðu minni um þann þýðingarmikla þátt sem umhverfismálin eru. Ég tek það hér inn vegna þess að þar þarf hlutur Íslands að verða annar og meiri en nú er og þar er mjög mikið verk að vinna fyrir hvert og eitt ríki á alþjóðavettvangi, að reyna að bæta þá stöðu sem uppi er. Ég sagði fyrr í dag að það væri ráðandi hagstjórn og efnahagsferli í heiminum sem ætti drýgstan átt í að stefna umhverfi manna og framtíð í hættu, hinn stöðugi efnahagsvöxtur sem leiðarstjarna og mælikvarði á árangur. Margir þeirra, virðulegi forseti, sem tala um sjálfbæra þróun hafa í raun í huga svokallaðan sjálfbæran ótakmarkaðan hagvöxt og reyna að bregðast við afleiðingunum svo að vöxturinn geti haldið áfram. Það er hins vegar svo að þótt dregið hafi úr fólksfjölgun og hún jafnvel stöðvast í sumum þróuðum ríkjum þá heldur vaxandi efnisleg neysla og sóun náttúruauðlinda jarðar áfram á fullri ferð. Framkvæmdaáætlun Ríó-ráðstefnunnar byggir að miklu leyti á þeirri blekkingu að vísindi og tækni leiði okkur undan umhverfislegum afleiðingum síaukinnar vöruframleiðslu og orkunotkunar eða orkusóunar eins og réttmætt væri að kalla það. Viðfangsefnið í þessu máli er afar stórt, ekkert minna en að breyta um hagstjórn, breyta um lífsmáta og gildismat. Hverfa frá draumnum um sífellt meiri efnisleg gæði og rækta með fólki allt önnur siðræn gildi en nú eru ráðandi víðast hvar nema hjá þjóðum sem kallaðar eru frumstæðar og varðveitt hafa hæfileikann til að lifa í sátt við umhverfi sitt af litlum efnum. Verkefnið er ekki að hverfa til baka í spor þeirra en ná hins vegar viðlíka sátt við náttúruna og draga til mikilla muna úr orkusóun og hvers konar áraun á náttúrulegt umhverfi. Ýmsir á Vesturlöndum hafa undanfarið leitað sér huggunar í því að vísa á óhæfuverk og sóun og hrikalegar afleiðingar miðstýrðs hagkerfis í Austur-Evrópu á sviði umhverfismála. Það er hins vegar skammvinn huggun því í raun eru hliðstæð öfl að verki í öllum iðnvæddum hluta heimsins þótt reynt sé að draga úr afleiðingum framleiðsluferla með ýmsum tæknilegum ráðum og fyrirmælum. Ósamkvæmnin --- Virðulegur forseti. Mér sýnist vera komnir fleiri fundir hér í salinn.

(Forseti (GÁ): Forseti vill biðja um hljóð fyrir hv. ræðumann.)

Ósamkvæmnin í umræðunni birtist m.a. í lotningarfullri aðdáun fjármagnseigenda, kapítalista, nú um stundir á ,,efnahagsundrinu`` innan gæsalappa, í Kína með þeirri hrikalegu mengun m.a. og ágangi á náttúruauðlindir sem þar á sér stað. Ég minni m.a. á þáltill. sem var lögð fram af þingmönnum Sjálfstfl. þar sem sá ekki út yfir dýrðina og gleymdist aðeins að setja á hana réttan merkimiða, hið alsjáandi auga Flokksins með stórum staf.

[21:00]

Ég ætla að koma undir lokin, virðulegur forseti, að GATT-reglunum eða reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar því að þar er sannarlega dreginn vagn sem þarf að gefa gaum að og þar er verkefni fyrir hæstv. utanrrh. í aðdraganda ráðherrafundar á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í desember, ef ég man rétt, til þess að taka upp hinar stóru spurningar sem snerta viðfangsefnið: Eiga viðskiptaleg sjónarmið að ganga óhindrað fram á grundvelli regluverks Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og keyra yfir umhverfisleg viðhorf, spurningarinnar um að lágmarkstillit sé tekið til umhverfismála? Menn verða að gera sér ljóst að það er tómt mál að tala um sjálfbæra þróun í heiminum ef menn ætla að keyra áfram eftir þessu spori sem lagt er með reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Það leiðir ekki nema í eina átt, fram af bjargbrúninni. Ég vek athygli á því, virðulegur forseti, að hugmyndirnar um svokallaða græna lotu á vegum GATT og umræður þar að lútandi er þögnuð og ég hef það m.a. eftir forustumönnum sem sinna umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna og reyndar frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að afar litlar líkur séu á því að slík umræða verði tekin upp í alvöru. Hér er afar örlagaríkt mál á ferðinni sem felur í rauninni í sér spurninguna um það hvort menn hafa meint eitthvað með því að taka þessum málum tak á alþjóðavettvangi, reyna að gera sjálfbæra þróun að einhverju viðfangsefni með innihaldi eða hvort menn ætla að láta reka á reiðanum og láta náttúruna vera þann húsbónda sem mun auðvitað taka til sinna ráða og refsa mönnum fyrir skammsýni þegar þar að kemur en það eru ekki þeir kostir sem við óskum heldur allt aðrir.