Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 16:36:54 (6002)

1996-05-14 16:36:54# 120. lþ. 137.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[16:36]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með fleiri ræðumönnum og láta í ljós vonbrigði mín yfir síðustu ræðu hæstv. fjmrh. um þetta mál. Vonbrigðin eru ekki aðallega vegna þess hvað hann sagði heldur hvað hann sagði fátt og svaraði fáum af þeim spurningum sem fyrir hann hafa verið lagðar í þessari umræðu.

Ég vil þó fagna sérstaklega að hæstv. fjmrh. ætlar að taka 22. gr. laganna til endurskoðunar í haust. Það er algerlega óhjákvæmilegt að gera það og hefði verið nær að bíða með afgreiðslu frv. þangað til það væri tilbúið. Þó að háskólinn verði að þola að vera í hálfgerðu tómarúmi lagalega séð að þessu leyti í sumar vona ég að aðilar háskólans noti tímann til að útkljá þau gífurlegu deilumál sem þetta frv. hefur skapað í þeirri stofnun.

Ég tel t.d. í því sambandi þó að það sé ekki endilega nauðsynlegt vegna þessa frv. að umræðan sem hefur orðið í tengslum við þetta frv. um Háskóla Íslands sýni mjög glöggt nauðsyn þess að skipan háskólaráðs verði tekin til endurskoðunar. Ég ályktaði sem svo að ekki verði þolað að það híerarkíska kerfi sem þar tíðkast verði lengur við lýði þannig að konur, sem þó eru orðnar meiri hluti háskólanema og þeim fer fjölgandi sem háskólakennurum, eru svo til útilokaðar frá stjórnkerfi háskólans og núna er eingöngu annar nemendafulltrúinn kona. Ég vona að þetta verði til þess að vekja athygli á því að stjórnkerfi háskólans er ólýðræðislegt og það er löngu tímabært að breyta því.

Til þess að háskólinn geti tekið almennilega á sínum málum í sumar er samt sem áður ýmislegt í frv. óskýrt og ég hef ekki fengið svör við né aðrir sem hér hafa spurt um. Ég spurði hæstv. fjmrh. um vinnumatssjóðinn í gær og ég fékk ekki skýr svör. Einnig vantar alfarið að útskýra og ég og fleiri höfum spurt um það í umræðunni hvað er átt við með því að embættismenn verði ráðnir til fimm ára. Í frv. segir að ætlunin sé að þeir séu ráðnir til fimm ára nema annað sé tekið fram í lögum. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjmrh.: Er þetta alfarið sýndarmennska? Á að auglýsa störf biskups, hæstaréttardómara, starfsmanna Alþingis, háskólaprófessora, ef þeir verða embættismenn, á fimm ára fresti eða hvaða störf verða það í raun sem verða auglýst á fimm ára fresti? Þetta er mjög óskýrt og ég tel að það mundi vera innlegg í umræðuna, t.d. í háskólanum í sumar ef fólk vissi hvað þarna ætti að standa, hvað þetta þýðir. Þess vil ég spyrja hæstv. fjmrh. enn og einu sinni: Á að auglýsa þessi störf á fimm ára fresti eða eru ákvæði í sérlögum eða verða þau sett þannig að þetta verður markleysa?

Einnig vil ég freista þess að spyrja hæstv. fjmrh. enn og einu sinni, hvernig hann hyggst tryggja það að 9. gr. um yfirborganir til starfsmanna nái jafnt til beggja kynja og einnig hvernig og hvað hann telur að vinnist við það að setja inn í þetta frv. ákvæði um sveigjanlegan vinnutíma, hvað vinnst við það umfram það sem nú er í kjarasamningum opinberra starfsmanna.

Ég verð að segja að lokum, hæstv. forseti, að þetta er búin að vera ákaflega fróðleg umræða. Þrátt fyrir að hún hafi tekið langan tíma vek ég athygli á því að ekki hafa nærri því allir stjórnarandstöðuþingmenn talað og fæstir þeirra hafa talað nema einu sinni en samkvæmt þingsköpum mega þeir tala tvisvar. Ég vísa því algerlega á bug að hér hafi verið um óþarflega langa umræðu að ræða. Hún gæti hreinlega tekið hálfan mánuð í viðbót ef vilji væri fyrir því.

Að lokum vil ég geta þess að á aðalfundi Vinnuveitendasambandsins í hádeginu hlustaði ég á ræðu formanns um hvernig þessi frumvörp eru séð og túlkuð í þeim herbúðum. Það er alveg augljóst mál að þar er hinn eini og sanni bandamaður Sjálfstfl. Það er ekki Framsfl., það er Vinnuveitendasambandið.