Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 16:47:43 (6006)

1996-05-14 16:47:43# 120. lþ. 137.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[16:47]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þó að hæstv. ráðherra sé nú staddur í salnum er lukkan ekki með mér í dag því nú er ég búinn að missa alla framsóknarmennina. Staðreyndin er sú, herra forseti, að í andsvari áðan gerði ég það að umtalsefni að það væri ekki nokkur einasti framsóknarmaður sem hefði haft rænu eða uppburði í sér til þess að taka til máls og lýsa afstöðu sinni til þessa frv. Hæstv. ráðherra, með því jákvæða hugarfari sem honum fárra ráðherra er gefið, benti mér þó á að e.t.v. væri réttara að ég kæmi hér upp til þess að viðra þetta í ræðu. Ég leit á þetta sem áskorun af hálfu hæstv. fjmrh. til að taka enn einu sinni til máls og er ég þakklátur fyrir þá áskorun vegna þess að hún sýnir að honum hefur líkað vel fyrri ræða mín undir þessum málslið.

Herra forseti. Fyrst ég er kominn hingað ætla ég eigi að að lýsa eftir viðhorfum framsóknarmanna til þessa frv. Hér er um að ræða frv. sem brýtur í blað og m.a. vegna þess að þar er vegið að því sem við margir stjórnarandstæðingar teljum undirstöðu frjálsrar verkalýðshreyfingar á Íslandi. Við viljum mjög gjarnan fá að vita viðhorf Framsfl. til þeirra mála, ekki síst vegna þess að sá flokkur hefur í gegnum áratugi siglt undir því flaggi að hann vilji efla samstarf vinnandi fólks til sjávar og sveita. En það má vel vera að það flagg hafi verið falskt, herra forseti, svo ég hefði viljað inna hv. þm. Framsfl. eftir því hver er afstaða Framsfl. til þessa máls. Nú þegar dregur að lokum umræðunnar er ekki einn einasti þingmaður Framsfl. í þessum sölum. Enginn hv. þm. Framsfl. treystir sér til þess að ræða þetta frv. og það er bersýnilegt að Framsfl. skammast sín fyrir aðildina að málinu. Ég skil það vel, herra forseti. Ég hef rakið áður að skömm Framsfl. stafar af því að hann lofaði því í skjali sem hann samþykkti á miðstjórnarfundi 24.--27. nóvember á síðasta ári að ekki yrði ráðist í þessar breytingar sem liggja hér fyrir í frumvarpsformi öðruvísi en svo að haft yrði fullt samráð við verkalýðshreyfinguna, ekki bara um breytingar á lögum heldur líka um breytingar á öllum reglugerðum sem tengjast samskiptum á vinnumarkaði. Þessu lofaði Framsfl. og hvar er hann núna? Hér er ekkert sem minnir á Framsfl. nema ef vera skyldi hinn ágæti hv. þingmaður Steingrímur J. Sigfússon og þá er ég náttúrlega að vísa til bernskubreka hans norðan úr landi. (SJS: Ég hef aldrei komið nálægt Framsfl.) Herra forseti. Það undrar mig ekki að hinn vammlausi hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sver af sér öll tengsl við Framsfl. og ég virði það honum til fremdar að hann skuli taka af skarið í þessum efnum og hefði kannski mátt gera það nokkru fyrr.

Herra forseti. Ég tel að hæstv. fjmrh. hafi farið skuggalega nærri því að brjóta gildandi lög þegar hann fór í endurskoðun á þeim lagabálk sem gildir nú um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Af því að hæstv. fjmrh. kann bæði vel að lesa og er minnugur vel þá veit hann að í 36. gr. gildandi laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, sem eru orðin fertug að aldri, segir skýrt og skorinort að við endurskoðun þessara laga og reglugerða beri að hafa samráð við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Hins vegar er alveg ljóst eins og hér hefur verið rakið í umræðunum að samráðsskyldan var að engu höfð. Það var að vísu þannig að hæstv. ráðherra fékk virtan lögfræðing úti í bæ til þess að spjalla við forustumenn launþegasamtakanna fyrir síðustu áramót en það var ekki fyrr en dró fram um miðjan febrúar sem launþegasamtökunum varð ljóst að ekki var verið að velta fyrir sér smávægilegum breytingum heldur allsherjaruppstokkun á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ég held að hérna hafi verið farið með mikilli slægð ef ekki lævísi af hálfu hæstv. fjmrh. og finnst mér nú að hann bregðist uppruna sínum sem má rekja allt til skátahreyfingarinnar í gamla daga. Þar unnu menn ekki með þessum hætti, herra forseti.

Ég vil segja að það kemur mér á óvart þegar hæstv. fjmrh. telur eftir sér að sitja sem svarar tæpri vinnuviku og taka þátt í málefnalegum umræðum um sennilegasta afdrifaríkasta lagafrv. sem liggur fyrir þessu þingi. Ég segi fyrir mig, herra forseti, að miklu betra er að hafa hæstv. ráðherra hér í þessum sölum yfir okkur þingmönnum fremur en uppi í ráðuneyti. Hann gerir þá að minnsta kosti ekkert af sér á meðan. Mér finnst hins vegar merkilegt að hæstv. ráðherra kvartar undan því að menn ræði út í hörgul þær grundvallarbreytingar sem lagðar eru fyrir í þessu frv. og hann segir að þetta sé ekkert annað en málþóf og hélt fram í sumum andsvörum sínum að búið væri að flytja sömu ræðurnar sex og sjö sinnum. Mér sýnist að það þyrfti að fara nokkrum sinnum yfir þessar sömu ræður aftur til þess að hæstv. ráðherra skildi það sem stendur í þeim. En hæstv. ráðherra hefur sjálfur ekki lagt nægilega mikið af mörkum til að skýra umræðurnar. Hv. þm. Svavar Gestsson benti á áðan að hæstv. ráðherra hefur viðurkennt að frv. eins og það kom frá hv. efh.- og viðskn. til þingsins var ekki betur unnið en svo að það er nauðsynlegt að kalla málið þangað aftur milli 2. og 3. umr. til þess að reyna að skjóta byttu undir þann leka sem er á frv. Hæstv. ráðherra hefur m.a. fallist á það að það sé mjög óljóst hvernig fer um tengsl framgangskerfisins svokallaða uppi í háskóla við þær breytingar sem gerðar eru með 22. gr. frv. Það hefur verið bent á það mjög skelegglega að framgangskerfið uppi í háskóla er sett í uppnám með þessum breytingum. Við vitum það báðir, hæstv. ráðherra og ég, að uppi í háskóla er að finna óvígan her vaskra kvenna sem hafa sent frá sér mótmæli og má vera að við hæstv. ráðherra þekkjum ýmsar góðar konur í þeim hópi, a.m.k. tvær. Ég hjó hins vegar eftir því þegar hæstv. ráðherra var að svara í andsvari í gær --- hann var spurður út í þetta af hv. þingkonu Guðnýju Guðbjörnsdóttur í þaula, ekki einu sinni heldur þremur sinnum --- þá sagði hæstv. ráðherra að ynnist ekki tími til þess að ljúka þeim bandormi sem fylgir þessu frv. þá yrði háskólinn að leysa það innan sinna vébanda í sumar. Ég gat ekki fengið annan skilning úr þessu svari hæstv. ráðherra. En hvað lá þá í þessu svari? Efnislega var hann að segja og taka undir það að ekki væri nægilega vel frá þessu máli gengið. Staða prófessora væri þannig skv. 22. gr. að allt framgangskerfið sem launakerfi háskólastarfsmanna byggist að verulegu leyti á væri þess vegna í uppnámi. Mér þótti hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir færa mjög sannfærandi rök fyrir því að með þessu væri verið að svipta stoðum undan jafnréttisbaráttu innan háskólans sem hefði skilað nokkrum árangri á síðustu árum og væri í þann veginn að leiða til þess að fjöldi kvenna væri í krafti framgangskerfisins að þokast upp í fremdarstiganum, þokast úr því að vera lektorar í dósenta og dósentar í prófessora. Það skiptir máli. Ekki síst vegna þess að eitt af því sem hæstv. ráðherra hefur sagt að náist með þessu frv. er aukið jafnrétti, þ.e. minni munur á launum milli kynjanna. Hæstv. ráðherra hefur tíðkað að hafa uppi stór orð um góðan vilja sinn til þess að auka jafnrétti í launamálum. Ég efast ekkert um góðan ásetning hæstv. ráðherra í þeim efnum en hann verður að sannfæra þingheim betur um að efndir fylgi þessum orðum. Ég hef lýst því hvernig hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir sýndi fram á að því er varðar háskólann þá er ekki hægt að segja á þessari stundu að hæstv. ráðherra geti staðið við þau orð sem hann hafði hér í framsögu sinni við 1. umr. málsins að hér væri verið að treysta jafnrétti milli kynjanna. Ýmislegt fleira má taka í þessum efnum þar sem ráðherrann hefur verið spurður sérstaklega út í og hann hefur ekki svarað.

Það hafa risið úfar með mönnum í þingsalnum, jafnvel innan stjórnarandstöðunnar, um það hvort kerfið, sem gert er ráð fyrir í frv. þar sem mælt er fyrir um það að forstöðumenn stofnana eigi að hafa aukið svigrúm til þess að umbuna starfsmönnum sínum, minnki eða auki launabilið milli kynjanna. Það kemur fram í ræðum ýmissa hv. þm. að þeir telja að þetta muni ótvírætt auka launabilið á milli kynjanna. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur haldið ekki eina heldur tvær mjög ítarlegar ræður þar sem hann færir rök að þessu. Ég er einn af þeim þingmönnum sem hallast að því að það eigi að auka svigrúm forstöðumanna stofnana til þess að umbuna starfsmönnum sínum og þeir eiga að hafa ákveðið frelsi til þess að greiða hærri laun en samið er um í kjarasamningum. En ég vil ekki gera það ef það verður til þess að launabilið milli kynjanna aukist. Ég hef fyrir framan mig ítarlegar ræður hv. þm. Ögmundar Jónassonar og hins vegar hef ég fyrir framan mig það sem hæstv. ráðherra hefur sagt í ræðum sínum og andsvörum. Ef ég veg þau rök þá get ég því miður ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi rétt fyrir sér. Hver er þá kjarni máls míns að því er þetta varðar? Hann er sá að hæstv. ráðherra hefur setið hérna og hann hefur staðið hér í stólnum og hann hefur flutt andsvör sín en hann hefur ekki svarað því sem máli skiptir. Hann hefur ekki einu sinni hirt um það að veita rökföst andsvör við þeim spurningum sem eru lagðar málefnalega fyrir hann. Ég hef ekki bara í umræðum um þetta mál heldur við önnur tækifæri lýst því yfir að ég er að mörgu leyti hallur undir ýmsar nýjungar sem hæstv. ráðherra þykist hafa bryddað upp á í sinni nýju starfsmannastefnu. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að auka sjálfstæði stofnana frá ráðuneytum, það eigi að setja stjórnir yfir þær en það eigi líka að auka vald forstöðumannanna en ég vil ekki, herra forseti, að það verði til þess, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson segir, að auka launabilið á milli kynjanna. Verðum við ekki að taka mark á þeim rökum sem fyrir okkur eru lögð? Það getur vel verið að hæstv. ráðherra svipti burt öllum rökum hv. þm. Ögmundar Jónassonar hreinlega af því að hæstv. ráðherra er alinn upp í stjórnmálum og hann er alinn upp við það viðhorf að menn eigi ekki að virða viðhorf andstæðinga sinna. Að því leyti til hefur hann gleymt því veganesti sem hann lærði í skátahreyfingunni forðum tíð.

[17:00]

En það eru fleiri rök sem varða einmitt þennan punkt en bara það sem formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefur flutt fram. Það er til opinber stofnun sem er að vísu ekki á forræði hæstv. fjmrh. heldur félaga hans og vinar, hæstv. félmrh., Páls Péturssonar. Það er Jafnréttisráð. Ég held að óhætt sé að segja að Jafnréttisráð sé hlutlaus stofnun. Ég man ekki betur en að í stjórn þeirrar stofnunar sé að finna lögfræðing Vinnuveitendasambands Íslands og ég spyr: Tekur hæstv. fjmrh. mark á umsögnum Jafnréttisráðs? Ég verð að segja með fullri virðingu fyrir Jafnréttisráði að miðað við það sem ég ólst upp við á sokkabandsárum rauðra sokka hefði umsögn Jafnréttisráðs að því er þetta frv. varðar sennilega ekki þótt giska róttæk. En þar kemur eigi að síður fram að Jafnréttisráð tekur að vissu marki undir röksemdir hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Þar er ekki farin sú leið að leggjast gegn því að forsvarsmenn stofnananna fái aukið svigrúm. En það er bent á að það sé ákveðin hætta á því að þetta svigrúm verði nýtt til þess að búa til vildarvinakerfi í kringum forstöðumennina. Reynslan sýnir að það kemur niður á konum, þ.e. þær eiga ekki jafninnangengt í vildarvinahópinn og við karlarnir. Jafnréttisráð lagði þess vegna til ákveðna breytingu á frv., að það yrðu settar einhvers konar reglur og það yrðu settar einhvers konar matsnefndir til þess að fylgjast með þessu. Ég sjálfur mælti fyrir því í ræðu minni í gær að það yrðu settar stjórnir yfir öll fyrirtæki ríkisins og starfsfólkið hefði fulltrúa í þeim stjórnum og starfsfólkið hefði allt saman málskotsrétt til þeirrar stjórnar gagnvart launamálum sínum. Hæstv. ráðherra hefur ekki virt þessar röksemdir viðlits. Það er allt í lagi. Ég geri ekki kröfu til þess að hæstv. ráðherra komi og svari með rökrænum hætti rökum andstæðinga sinna vegna þess að ég á því ekki að venjast af hálfu ríkisstjórnarliðsins. En mér finnst að hæstv. ráðherra skuldi ríkisstofnuninni Jafnréttisráði svör við þeim ábendingum, athugasemdum og áhyggjum sem túlkaðar eru í umsögn Jafnréttisráðs. Svo kemur hæstv. ráðherra hér og segir: Málþóf. Hvers vegna kem ég, herra forseti, og tek dýrmætan tíma þingsins og virðulegs forseta til þess að fara aftur með svipaða ræðu um þetta efni og ég fór með í gær? Það er vegna þess að ég er þolinmóður maður, herra forseti, og ég veit að þolinmæði vinnur allar þrautir. Hún sigrast jafnvel á þeim þröskuldum sem er að sjá í gervi hæstv. ráðherra. Ég kem hingað og flyt þetta mál vegna þess að það komu engin svör við ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Það komu engin svör við þeim lítilmótlegu rökum sem sá flutti sem hér stendur. En það sem mér þykir verra og það sem mér þykir dónaskapur af hálfu hæstv. ráðherra er að það komu engar rökfræðilegar mótbárur við þeirri hógværu athugasemd sem kom fram í umsögn Jafnréttisráðs. Og ég spyr, herra forseti: Í Jafnréttisráði koma saman fulltrúar ólíkra viðhorfa og ólíkra hreyfinga. Eiga þeir ágætu fulltrúar það ekki skilið að fagráðherrann gefi skýringar eða a.m.k. svari þeim röksemdum sem þar koma fram? Ég mundi sofna miklu rórri í kvöld ef hæstv. fjmrh. gæti sýnt mér fram á að hv. þm. Ögmundur Jónasson hefði haft rangt fyrir sér. Þá gæti ég sofnað í kvöld og sigið undir væng þess sem hvíldina veitir, Óla lokbrá sem áður hefur komið til tals í þessari umræðu, fullviss um að ég gæti stutt hæstv. ráðherra að því er varðar þessa nýjung hans. En hæstv. ráðherra kýs frekar að vera á skrafi í hliðarherbergjum, horfa út um gluggann, jafnvel geispa eða drekka kaffi heldur en að leggja við hlustir og hlusta á röksemdir mínar, hv. þm. Ögmundar Jónassonar, hv. þingkonu Guðnýjar Guðbjörnsdóttur og ígrundað hógvært mat Jafnréttisráðs.

Svo kemur stjórnarliðið og sýnir af sér þá vitsmunalegu frekju og yfirgang að halda því fram að menn séu í málþófi þegar það eina sem þeir gera er, eins ég er að gera núna, að koma í þriðja skiptið með sömu spurninguna.

Herra forseti. Nú ber svo við að hæstv. ráðherra er búinn að taka sér sæti. Ég get þá komið að því sem ég þarf endilega að ræða áður en þessari umræðu lýkur og það er auðvitað staða kirkjunnar á Íslandi í dag. Þó ætla ég ekki að fara að ræða þær deilur sem hafa komið upp innan kirkjunnar og ég ætla ekki einu sinni að hlaupa á Ágsborgarjátningunni sem er uppistaðan í mjög gáfulegri og vitrænni athugasemd sem Geir H. Waage hefur skrifað í Reykholti á kyndilmessu 1996. En mig langar eigi að síður, herra forseti, að reifa lítillega stöðu prestanna og prófastanna. Það vill nefnilega svo til að ég er alinn upp á kristilegu heimili og tel mig kristinn mann og mér er annt um kirkjuna. Það vill líka svo til að mér hefur á þessum vetri lærst að bera virðingu fyrir rökum Geirs Waage, formanns Prestafélagsins. Ég veit að stjórnmálaskoðanir hans standa miklu nær stjórnmálaskoðunum hæstv. ráðherra en mínum. Ég sé það hér þegar ég les umsögn Geirs Waage, formanns Prestafélagsins, að hann telur að hér hafi meiri hlutanum orðið á gríðarleg mistök þegar búið er að gera tillögu um það að prestar og prófastar verði embættismenn án þess að það sé nokkuð sérstaklega tekið á þeirra högum að öðru leyti. Samkvæmt því hlýtur veiting þess starfs sem þeir gegna að vera endurtekin á fimm ára fresti. Og ég spyr, herra forseti: Er ætlast til þess samkvæmt þessu að það eigi að endurskipa presta á fimm ára fresti? Gerir hæstv. fjmrh. sér grein fyrir því hvað hann er að leiða yfir prestastéttina? Og það sem enn alvarlegra er: Gerir hæstv. ráðherra sér grein fyrir því hvað hann er að leiða yfir íslensku þjóðina ef það á að hafa prestskosningar á fimm ára fresti? Ég held að hér sé efnt til svo stórkostlegs óvinafagnaðar að hæstv. ráðherra geti ekki annað en látið endurskoða þetta. Og mig langar, herra forseti, að lesa upp þá ályktun sem Geir Waage, formaður Prestafélagsins, dregur af þessu. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Það hlýtur að hamla frelsi prests til boðunarinnar og gegn því stendur öll guðfræði kirkju vorrar.``

Með öðrum orðum má draga þá ályktun að formaður Prestafélagsins telji að gegn þessu frv. eða afmörkuðum þætti þess standi öll guðfræði kirkju vorrar. Var það ekki Sjálfstfl. sem gekk til kosninga 1991 með tvennt að leiðarljósi? Að selja Rás 2 og efla guðskristni í landinu? Telur hæstv. ráðherra að það sé stefnt að því að treysta kirkjuna í landinu þegar lagt er fram frv. sem formaður Prestafélagsins segir að gegn því standi öll guðfræði kirkju vorrar? Herra forseti. Ég ætla að lesa upp, með leyfi forseta, hvað formaður Prestafélagsins segir um fimm ára ráðningu sóknarprests:

,,Í fyrsta lagi gengur þetta fyrirkomulag gegn guðfræði kirkjunnar og þar með gegn allri grundvallarskipan sem verið hefur. Það brýtur um leið alla hefð í samskiptum ríkis og kirkju, en kirkjan hefur kennt að allir menn skulu hlýða ríkisvaldinu á meðan það setur sig ekki á móti frelsi fagnaðarerindisins.

Í öðru lagi er hið kirkjulega embætti sett í uppnám. Tímanlegu öryggi prestakallanna og prestsembættisins er stefnt í hættu, ekki síst úti um landið.``

Herra forseti. Ég held að það þurfi ekki að hafa frekari orð um þetta. Það er alveg ljóst að þetta staðfestir það sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði áðan. Frv. eins og það kemur frá hv. efh.- og viðskn. er með þeim hætti unnið að það er ekki annað hægt en að kalla það á köflum hrákasmíð. Það er ekki hægt að kalla ákvæði sem leiðir af sér þessar ályktanir mektarstoða innan kirkjunnar annað en því orði.

Að lokum hefur, herra forseti, hefur verið rætt talsvert um yfirlýsingar hæstv. forsrh. á fyrri stigum umræðu um þetta og skyld frumvörp. Mig langar að rifja upp hvað það var sem hæstv. forsrh. sagði orðrétt, með leyfi forseta:

,,Þá verður jafnframt að gæta að hinu sem ég hafði áður lýst yfir að ekki væri verið að svipta menn bótalaust rétti sem þeir hefðu áunnið sér.``

Þetta er lykilsetning í allri þessari umræðu. Það liggur fyrir að hæstv. forsrh. hefur sagt, að vísu í umræðu um annað frv., að það ætti ekki að svipta menn bótalaust rétti sem þeir hefðu áunnið sér. Þá hljóta menn að vega það og meta og deila um það hvaða réttindi það eru sem menn hafa áunnið sér. Þá vil ég vísa til þess, herra forseti, að á fyrri stigum umræðu um þetta frv. deildum við hæstv. fjmrh. einmitt um þetta efni. Ég skaut því að hæstv. ráðherra að með því að taka samningsrétt og verkfallsrétt af embættismönnum væri verið að svipta þá bótalaust áunnum réttindum. Þá sagði hæstv. ráðherra að þeim væri bættur skaðinn með því að þeir fengu biðlaunarétt. Hvaða ályktun er hægt að draga af þessu? Hún er þrenns konar, herra forseti.

1. Að verkfallsrétturinn sé fémæti.

2. Að samningsrétturinn sé fémæti.

3. Það sem á að greiða fyrir þennan rétt hljóta að vera fémæti líka og það er biðlaunarétturinn. Það er e.t.v. mikilvægast.

Þarna tel ég, herra forseti, að hæstv. fjmrh. hafi í rauninni fallist á það með þessum orðum sínum að samningsrétturinn, verkfallsrétturinn og biðlaunarétturinn feli í sér fémæti sem ekki er hægt að svipta menn bótalaust. Það er afskaplega mikilvægt að menn hafi þetta á hreinu við lok þessarar umræðu. Hæstv. forsrh. hefur sagt: Menn verða ekki bótalaust sviptir áunnum réttindum, og ég er að rifja upp orð hæstv. fjmrh. sem er ekki hægt að túlka öðruvísi en svo að samningsrétturinn, verkfallsrétturinn og biðlaunarétturinn séu bótaskyld réttindi. Það er verið að skerða öll þessi þrenn réttindi og samkvæmt því sem hæstv. ráðherrar eru þá sammála um þegar menn skoða þetta með smásjá rökfræðinnar er að það á að greiða bætur fyrir þessa skerðingu.