Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 17:57:59 (6022)

1996-05-14 17:57:59# 120. lþ. 137.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[17:57]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil láta það koma fram að á fundi iðnn. í morgun óskaði ég eftir því að formaður nefndarinnar gerði nefndinni grein fyrir þessu máli sem hér hefur borið á góma. Hv. þm. sem stýrir nefndinni og jafnframt þeirri nefnd sem er að undirbúa þessi frv. treysti sér ekki til að taka af skarið um stöðu málanna á fundinum í morgun. Þeim mun mikilvægara er þá yfirlýsing hæstv. iðnrh. og ég geng þá út frá því að það verði hægt að taka þessi mál fyrir í iðnn. næstkomandi þriðjudag á reglulegum fundi nefndarinnar sem ákveðið hefur verið að halda til þess að hún geti þá afgreitt frumvörp um iðnþróunarsjóð og iðnaðarmálagjald. Ég vil því þakka hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að hafa ýtt á þessi mál því það er bersýnilegt að það á að vera hægt að ná lendingu í málinu fyrir þinglokin því eins og staðan er núna þá eru augljóslega tvær eða þrjár vikur eftir af þinghaldinu ef menn ætla að afgreiða öll þau ósköp sem virðast liggja hér fyrir.