Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 14:06:04 (6070)

1996-05-15 14:06:04# 120. lþ. 138.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, JBH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[14:06]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Minni hluti efh.- og viðskn. leggur til að þessu frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Ástæðurnar eru eftirfarandi: Laun opinberra starfsmanna eru sannanlega lægri en ella væri vegna þess að þeim eru talin tryggð margvísleg réttindi umfram það sem gerist og gengur á almenna vinnumarkaðnum, ýmist með lögum eða kjarasamningum og í sumum tilvikum með lögum sem byggð eru á niðurstöðum kjarasamninga. Með þessu frv. leggur hæstv. ríkisstjórn til að ýmist afnema eða skerða einhliða þessi lögbundnu og umsömdu réttindi án þess að verða við einróma tilmælum um að ganga þá til samninga um það annars vegar hverju skuli breyta og hins vegar um að bæta skerðingu réttinda með samningum um hærri laun.

Þetta er grundvallaratriði. Ríkisstjórnin er með þessum hætti einhliða og með lögum án eðlilegra samninga að hlutast til um þessi málefni. Við erum andvígir því. Ég segi þess vegna já við þessari tillögu.