Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 14:08:22 (6071)

1996-05-15 14:08:22# 120. lþ. 138.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[14:08]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Við í þingflokki Alþb. og óháðra stöndum að þessari frávísunartillögu ásamt með öðrum stjórnarandstöðuflokkum. Við teljum vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar í öllu þessu máli vera óverjandi. Með þessu máli, bæði vinnubrögðunum og innihaldi þess, er hæstv. ríkisstjórn að segja í sundur friðinn og efna til ófriðar á vinnumarkaði sem engin leið er að sjá fyrir endann á hvaða afleiðingar hefur.

Síðast en ekki síst er einhliða verið að raska lögbundnum réttindum launamanna á gildistíma kjarasamnings. Slíkt er óverjandi framkoma og getur ekki leitt til annars en ófarnaðar. Það er því öllum fyrir bestu og sérstaklega hæstv. ríkisstjórn og meiri hluta hennar á Alþingi að þetta mál verði tekið af dagskrá þingsins. Við segjum því já við tillögu um að vísa því aftur til föðurhúsanna, þ.e. ríkisstjórnarinnar.