Framboð og kjör forseta Íslands

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 16:29:07 (6136)

1996-05-15 16:29:07# 120. lþ. 138.8 fundur 518. mál: #A framboð og kjör forseta Íslands# (meðmælendur) frv. 43/1996, forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[16:29]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um framboð og kjör forseta Íslands sem æskilegt er að samþykkt verði hið allra fyrsta.

Við undirbúning komandi forsetakjörs hefur komið í ljós að meinbugir eru á að framfylgja ákvæði 4. gr. laga þessara að óbreyttu að því er varðar vottun yfirkjörstjórnar á meðmælendalistum væntanlegra frambjóðenda. Þar er gert ráð fyrir að yfirkjörstjórnir votti að meðmælendur séu á kjörskrá, en um það fer samkvæmt 1. gr. sömu laga á sama hátt og við kosningar til Alþingis. Vegna nýorðinna breytinga á lögum um slíkar kosningar verða kjörskrár ekki lagðar fram fyrr en 10 dögum fyrir kjördag. Framboði til forsetakjörs á hins vegar að skila ásamt nefndum vottorðum yfirkjörstjórna eigi síðar en fimm vikum fyrir kjördag eða fyrir lok næstu viku. Yfirkjörstjórn verður þess vegna ómögulegt að votta að meðmælendur væntanlegra frambjóðenda séu á kjörskrá. Af þessum sökum verður í frv. þessu lagt til að ákvæði 4. gr. laga verði breytt þannig að yfirkjörstjórnin votti að meðmælendur séu kosningabærir svo sem segir í 5. gr. stjórnarskrárinnar eða tækir á kjörskrá. Skilyrði kosningarréttar eru nú orðin mjög einföld, fyrst og fremst íslenskt ríkisfang og 18 ára aldur auk ákvæðis sem varðar lögheimili sem tengist þannig áskilnaði um að væntanlegir frambjóðendur njóti ákveðins stuðnings í öllum landsfjórðungum. Allar þessar upplýsingar eru auðsóttar í þjóðskrá Hagstofunnar og verður hún yfirkjörstjórnum innan handar um öflun þeirra.

Þá er einnig lagt til að úrelt tilvísun í greinarnúmer kosningalaga um frestun kosninga verði uppfærð.

Herra forseti. Ég legg áherslu á að breyting sú sem hér er lögð til er eingöngu tæknilegs eðlis. Engin eðlisbreyting verður á hæfisskilyrðum meðmælenda eða atriðum sem væntanlegir frambjóðendur eða stuðningsmenn þeirra hafa þurft að gæta við söfnun meðmælanna að undanförnu. Breytingin snýr einvörðungu að störfum yfirkjörstjórna og felur þeim að staðreyna hvort meðmælendur séu tækir á kjörskrá í stað þess að fletta þeim upp í kjörskránum sjálfum. Er það og í samræmi við þá niðurstöðu sem túlkun laga til samræmis fyrir nýju lagaviðhorfi í kosningalögum um samantekt kjörskrár mundi leiða til kæmi breyting þessi ekki fram.

Ég vænti þess að málið fái greiðan framgang á hinu háa Alþingi og geri ekki sérstaka tillögu um að málinu verði vísað til nefndar á milli umræðna.