Fjárreiður ríkisins

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 17:38:46 (6147)

1996-05-15 17:38:46# 120. lþ. 138.11 fundur 297. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[17:38]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil gjarna fá hv. þm. sem var að ljúka máli sínu inn í sal ef mögulegt er.

(Forseti (ÓE): Við gerum ráðstafanir til þess.)

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal þarf ekki að doka lengi við. Aðeins á meðan ég segi að allir þeir sem tóku þátt í umræðu um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna ræddu málið af fullri alvöru og lögðu mikla vinnu í þær ræður sem hér voru fluttar. Það var hins vegar ekki lögð mikil vinna í það af hálfu stjórnarliða, kannski af ótta við að missa geðheilsu sína. Hún er kannski tæp, kannski er það ástæðan. Það var a.m.k. ekki lögð mikil vinna í það af hálfu stjórnarliða að hlusta á þau rök sem hér voru fram færð. Og að sitja undir svona yfirlýsingum er alveg fráleitt. Við skulum ætla að þeir þingmenn sem hér tala skoði þau mál sem þeir eru að ræða hverju sinni og ræði um þau af fullri alvöru. Í það minnsta gerði ég það og lagði mikla vinnu í að skoða það mál sem við vorum að ræða um, réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

En það var ekki ástæðan til þess að ég bað um orðið í upphafi. Ástæðan var einfaldlega sú að ég er komin til þess að fagna því að þetta frv. um fjárreiður ríkisins er nú komast í lokaafgreiðslu vegna þess að það vill svo til að það er töluvert langt síðan undirbúningur var hafinn. Þá hét þetta mál reyndar frv. til laga um greiðslur úr ríkissjóði og var flutt af þáv. fjárveitinganefnd, síðar fjárln. Ég sé að það frv. sem hér er til umræðu er að hluta til byggt á þeirri vinnu sem þar var unnin. Enda kannski eðlilegt því að það frv. var unnið í samráði við starfsmenn Ríkisendurskoðunar og fjmrn. og búið að hljóta þó nokkuð mikla umfjöllun í fjárln.

Ég er alveg sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal. Það var virkilega ástæða til að taka á og breyta uppsetningu fjárlaga og ríkisreiknings og samræma hana þannig að við værum ekki ár eftir ár að afgreiða kerfisbundið vitlaust fjarlög, eins og ég held að hv. þm. hafi orðað það. Það er töluvert mikið til í því.

Ég er einnig sammála hv. þm. Pétri Blöndal um að það ætti og væri æskilegast að hægt væri að meta eignaskrá ríkisins til fjár. Það er nauðsynlegt til þess að við vitum hver staðan er hjá ríkinu alveg á sama hátt og þeir sem reka sinn eigin reikning vilja gjarna sjá hvert mat eignanna er. Það ætti auðvitað að fara í þá vinnu af hálfu ríkisins og þó fyrr hefði verið. En það sem við erum með hér, frv. um fjárreiður ríkisins, og sú tilraun sem uppi hefur verið um samningsstjórnun og verkefnavísa plús það að gera þessa eignaskrá ríkisins þó ófullkomin sé því hún er ekki nógu vel unnin og reyndar heldur ekki verkefnavísarnir. Það má vanda betur til þeirra verka. En þegar við höfum þennan grunn, þá fyrst getum við farið að setja fram fjárlög af einhverju viti. Þess vegna fagna ég sérstaklega þessari vinnu og ef hv. þm. Pétur Blöndal hefði hlustað á ræðu mína um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna hefði hann heyrt að hluti af ræðunni fjallaði einmitt um þessa vinnu vegna þess að þetta er allt saman samtengt. Þetta er nefnilega allt saman nátengt og það veit hv. þm. alveg jafn vel og ég. En ég neita því, þegar stjórnarliðar mæta loksins í salinn, þó ekki séu þeir margir því að ekki hafa þeir meira en svo almennan áhuga á fjárreiðum ríkisins frekar en hv. stjórnarandstæðingar, að sitja þá undir því að 35 klukkutímar hafi farið nánast í bull og orðið til þess að hv. þm. óttast um geðheilsu sína. Það er auðvitað slæmt. En það er örugglega ekki stjórnarandstæðingum að kenna að geðheilsa hv. stjórnarliða er í tæpu ástandi þessa dagana. Orsakirnar má örugglega rekja eitthvað annað en til okkar.

En ég fagna þessu frv. og vona að þetta sé komið á lokasprettinn svo hægt sé að koma skikki á fjárreiður ríkisins með þeim hætti að hv. þingmenn geti á hverju hausti fjallað um þær af viti og tekið stöðuna eins og hún raunverulega er. Ég fagna líka tilurð verkefnavísa sem og eignaskrá ríkisins og hvet til áframhaldandi vinnu í þessum efnum.