Grunnskóli

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 23:24:11 (6700)

1996-05-28 23:24:11# 120. lþ. 150.12 fundur 501. mál: #A grunnskóli# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 77/1996, ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[23:24]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég vil gjarnan koma inn í þá umræðu sem hér hefur verið hafin varðandi flutning grunnskólans til sveitarfélaganna og það frv. sem hér liggur fyrir.

Jafnrétti til menntunar og skólagöngu eru grundvallarmannréttindi og eins og við höfum rætt hér í kvöld er samkvæmt gildandi lögum um öll skólastig það talið til hlutverka skólanna að stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun allra nemenda auk þess að búa þá undir líf og starf í samfélaginu. Réttur fatlaðra barna og ungmenna til kennslu og þjálfunar við hæfi í heimaskóla á að vera samkvæmt lögunum ótvíræður. Þetta vil ég undirstrika.

Með þessi réttindi í huga hlýtur það frv., sem hér er lagt fram um breyting á lögum um grunnskóla, að vekja upp nokkrar spurningar. Frv. er flutt vegna flutnings grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga og byggt á samkomulagi þessara aðila frá því í vor samkvæmt því sem fram kemur í nál. með frv. Það kemur fram í áliti menntmn. Alþingis að ýmsar þær breytingar sem eru boðaðar á frv. séu gerðar að ósk Sambands íslenskra sveitarfélaga. Á það e.t.v. sértaklega við um 1. gr. frv. Vekur það sérstaka athygli að þessar hugmyndir um breytingar hafa ekki verið bornar undir aðra hagsmunaaðila en sveitarfélögin og forsvarsmenn sérskólanna. Ekkert hefur t.d. verið rætt við foreldrafélag fatlaðra barna sem þessar breytingar snerta þó hvað mest. Enda virðist það vera meginmarkmið þessara breytingartillagna að fá sveitarfélögin til að samþykkja yfirtöku á rekstri grunnskólans hvað sem það kostar og jafnvel með því að færa fórnir hvað varðar þarfir, réttindi og hagsmuni nemenda sem eiga undir högg að sækja í grunnskólum landsins í dag.

Staða grunnskólans og möguleikar hans á að veita öllum börnum menntun í samræmi við markmið laganna innan þess fjárhagsramma, sem rekstrinum hefur verið settur, hefur oft verið dreginn í efa. Fjöldi barna sem eiga við ýmsa námsörðugleika að stríða virðist fara sívaxandi. Að mati sérfræðinga á fræðsluskrifstofu Reykjavíkurborgar má líkja þeim fjölda barna í grunnskólum Reykjavíkur í dag, sem hafa fengið skilgreininguna ofvirk, við holskeflu. Það er talað um að 200 börn séu með þessa skilgreiningu eða aðra sem telst þó ekki vera fötlun en sem án verulegs stuðnings og sérkennslu gerir þessum börnum ókleift að tileinka sér námstilboð grunnskólans.

Orsakir þessa vanda eru ekki með öllu ljósar en í því sambandi er talað um aðstæður fjölskyldnanna, langa vistun í heilsdagsskóla, of stóra hópa barna í hverri bekkjareiningu og ofbeldi í fjölmiðlum svo fátt eitt sé talið hér. Það er ekkert um það fjallað í frv. hvernig það hefur verið hugsað að stuðningur við þennan hóp verði fjármagnaður sem hlýtur þó að teljast mikilvægt fyrir sveitarfélögin ekki síður en þessi börn. Það hljóta þó að teljast eðlileg vinnubrögð og málsmeðferð að frá þessu verði gengið áður en Alþingi fer í sumarleyfi. Það hlýtur að vekja áhuga meðal þingmanna að vita með hvaða hætti á að leysa þessi mál.

Ýmsar upplýsingar, sem hér hafa verið settar fram í umræðum um þetta mál, varpa kannski einhverju ljósi á það en í frv. er ekkert um þetta fjallað.

Það er ástæða til að staldra við þær breytingar sem hér eru boðaðar og ekki síst að ígrunda afleiðingar þeirra og kannski ekki síst lögmæti þeirra. Lagt er til í 1. gr. frv. að við 10. gr. laganna um grunnskólann bætist ný málsgrein, svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Samband íslenskra sveitarfélaga fer með þau málefni grunnskólans sem varða fleiri en eitt sveitarfélag, ef þeim er ekki skipað með öðrum hætti í lögum, reglugerðum eða með samkomulagi aðila.``

Í athugasemdum við þessa grein segir:

,,Þessi viðbót á að tryggja frumkvæði og ábyrgð á málum sem falla undir mörg sveitarfélög, svo sem rekstur sérskóla og skólabúða. Ekki er líklegt að á þetta ákvæði reyni nema rétt á meðan flutningur grunnskólans gengur yfir.``

Þegar álit menntmn. um frv. á þskj. 992 er lesið segir þar orðrétt, með leyfi forseta:

,,Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Miða breytingarnar annars vegar að því að gera gera ákvæði 1. gr. skýrara, en samkvæmt því er Sambandi íslenskra sveitarfélaga falið frumkvæði að lausn á málefnum grunnskólans sem varða fleiri en eitt sveitarfélag og ekki er kveðið á um hvernig fara skuli með í lögum, reglugerðum eða samkomulag hefur náðst um. Líklegt er að á ákvæðið reyni fyrst og fremst varðandi sérskóla, en mjög mikilvægt er að tryggja grundvöll þeirrar viðkvæmu starfsemi sem þar fer fram. Hins vegar miða tillögurnar að því að endurskoða skuli ákvæði 1. gr. fyrir 1. jan. 1999 eða á tímabilinu í kjölfar flutnings grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga.``

Herra forseti. Samkvæmt þessum breytingartillögum virðist sem verið sé að lögfesta möguleika Sambands íslenskra sveitarfélaga á því að sameinast um rekstur sérskóla. Þetta getur haft þau áhrif að einstök sveitarfélög sjái sér hag í því að senda börn, sem þurfa mikinn stuðning, í sérskóla á höfuðborgarsvæðinu sem með því yrðu eins konar safnskólar fyrir allt landið. Slíkar hugmyndir hafa áður komið fram og birtust m.a. í áliti nefndar sem vann í tíð síðustu ríkisstjórnar að mótun menntastefnu en þar var sérstaklega fjallað um safnskóla sveitarfélaganna fyrir börn með sértækar þarfir eða fatlanir.

Samtök foreldra fatlaðra barna hafa ávallt lagst gegn slíkum hugmyndum og hafa bent á að slíkt væri andstætt markmiðum laga um grunnskóla en þar segir að stefnt skuli að því að á Íslandi skuli starfræktur einn skóli fyrir öll börn. Álíka hugmyndir um styrktan skóla eða safnskóla skutu upp kollinum hjá sveitarfélögum í Noregi fyrir fáeinum árum en þeim var harðlega mótmælt af foreldrum sem fengu góðan stuðning menntamálaráðherra landsins við málflutning sinn.

[23:30]

Herra forseti. Vegna athugasemda menntmn. Alþingis með frv. sem og nál. sem birtist á þskj. 992 og brtt. á þskj. 993 tel ég rétt að vekja athygli á eftirfarandi staðreyndum. Rekstur sérskóla hefur að öllu leyti heyrt undir ríkið. Rekstur sérskóla þarf ekki að heyra undir mörg sveitarfélög eins og látið er að liggja í frv. þessu. Þessi breyting á lögum um grunnskóla er algjörlega óþörf og jafnvel brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar en að því mun ég víkja síðar.

Sérskólar, sem ætlaðir eru börnum með fötlun, eru allir starfræktir í Reykjavík. 95% nemenda þeirra koma ur tveimur fræðsluumdæmum, þ.e. Reykjavík og Reykjanesi. Þessi staðreynd leiðir hugann að því hvort það sé ekki einmitt tilvist sérskólanna sem komi í veg fyrir að fleiri nemendum með fatlanir á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki enn verið búin skólavist við hlið ófatlaðra í jafnmiklum mæli og gerst hefur svo víða á landsbyggðinni. Reynslan þaðan sýnir einmitt að hægt er að búa öllum börnum viðunandi skólaúrræði í heimabyggð þrátt fyrir miklar fatlanir ef til þess er vilji fjárveitingavaldsins og fræðsluyfirvalda á hverjum stað. Þetta hefur verið viðurkennt af Kennarasambandi Íslands, Samtökum foreldra fatlaðra barna svo og hafa stjórnvöld oftsinnis lýst því yfir að stefnt skuli að því að almenni grunnskólinn taki við öllum börnum. Þetta er líka í samræmi við alþjóðlegar yfirlýsingar svo sem vikið hefur verið að fyrr í kvöld, t.d. Salamanca og grundvallarreglur Sameinuðu þjóðanna sem hvetja til samskipunar og sama skóla fyrir öll börn og sem íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að framfylgja sem og þau markmið sem grunnskólinn hefur sett þar að lútandi.

Herra forseti. Ástæða er til að staldra við þær tillögur sem menntmn. gerir og spyrja hvort sú ráðstöfun að heimila samtökum sveitarfélaga að reka saman sérskóla fyrir ákveðinn hóp barna fari saman við þessi markmið og hvort þau standist ákvæði stjórnarskrár Íslands um jafnræði. Samræmist það að einum hópi barna skuli skipað í sérstakan bekk sem vafi leikur á um að eigi sér nokkra lagastoð? Hvernig geta sveitarfélög framselt réttindi og skyldur, sem á þeim hvíla, vegna grunnskólans til samtaka sem ekki eru hluti af stjórnsýslu landsins? Hver er réttarstaða þeirra sem undir þetta verða að gangast?

Samtök íslenskra sveitarfélaga eru ekki lögskipað stjórnsýslustig. Þau eru miklu fremur hagsmunasamtök, borgararnir hafa engin áhrif á samsetningu stjórnar þessa sambands þar sem það er ekki lýðræðislega kjörið eða hluti af stjórnsýslunni. Því hefur verið varpað fram í kvöld og ég spyr líka: Er hugsanlegt að með þessum tillögum sé verið að koma á þriðja stjórnsýslustiginu án þess að tilskilin lagaheimild sé fyrir því?

Herra forseti. Í tillögum menntmn. birtast nokkrar alvarlegar mótsagnir sem er ekki hægt að láta sem vind um eyru þjóta. Í einn stað er talað um að þessi heimild sé hugsuð sem tímabundið úrræði meðan á flutningi grunnskólans stendur. Vegna ábendinga um vafasemi þess að veita þessa heimild án nokkurra tímatakmarkana hefur nefndin sett inn í frv. ákvæði um að það skuli endurskoðast eigi síðar en árið 1999. Jafnframt er talað fyrir mikilvægi á rekstri sérskóla og því að tryggja beri grundvöll þeirrar viðkvæmu starfsemi sem þar fari fram. Annars vegar segir að á þetta ákvæði reyni aðeins rétt á meðan á flutningi grunnskólans stendur og hins vegar er rætt um mikilvægi þess að tryggja grundvöll að starfsemi sérskólanna. Hverju eiga menn nú að trúa?

Herra forseti. Í ljósi þess sem hér að framan hefur verið greint frá um þá nemendur sem hljóta kennslu í sérskólum landsins sem og markmiði laga um grunnskóla eru þetta merkilegar mótsagnir. Það er löngu viðurkennt eins og áður hefur verið vikið að af öllum þeim sem hafa sérþekkingu á málefnum fatlaðra að nær öll börn hafa verulegan ávinning af því að deila kjörum og ganga í skóla með ófötluðum jafnöldrum sínum. Eina undantekningin þar á er sú að heyrnarlaus börn og ungmenni þurfa sértæka kennslu í táknmálsumhverfi sem þó getur allt eins farið fram í litlum einingum innan almenna grunnskólans. Eins og t.d. reyndin er í Menntaskólanum við Hamrahlíð þar sem starfrækt hefur verið sérstök námsbraut yfir heyrnarlausa og hefur þessi nýjung vakið verðskuldaða athygli bæði innan lands sem utan.

Það eru vissulega vonbrigði að menntmn. Alþingis telur ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins að taka á því af meiri festu að gera sveitarfélögin ábyrgari fyrir kennslu allra fatlaðra barna þar sem á annað borð er verið að taka grunnskólalögin til endurskoðunar. Það hefði verið nauðsynlegt að búa svo um hnútana að í lögum um grunnskóla verði innbyggður hvati fyrir sveitarfélögin sem leiddi til þess að þau axli í ríkari mæli en áður ábyrgð sína gagnvart öllum börnum. Margsinnis hefur verið bent á það af foreldrum nemenda með sértækar þarfir að það verði að jafna aðstöðu sveitarfélaganna til að mæta þörfum þessara barna í heimaskóla. Sérkennslukvótafyrirkomulag, sem gilt hefur, er afar óheppilegt og ekki til þess fallið að hvetja sveitarfélögin í þessa átt. Eitt alvarlega fatlað barn, sem krefst mikillar umönnunar og sérkennslu í skóla, getur tekið til sín stóran hluta þess fjármagns sem fræðsluumdæmið hefur yfir að ráða og tekur þá frá öðrum börnum í því umdæmi á meðan önnur fræðsluumdæmi hafa rýmri möguleika vegna þess að þar búa ekki börn með alvarlegar fatlanir.

Herra forseti. Í frv. sem hér er til umfjöllunar Alþingis er fjallað um ýmislegt sem varðar fjármögnun á rekstri grunnskólans við tilfærsluna til sveitarfélaganna. Þar er nákvæmlega tíundað, t.d. kennslustundafjöldi og námsframboð, hvernig skuli standa að kostnaði vegna byggingarframkvæmda, en ekki einu orði vikið að því hvernig á að fjármagna sérkennslu og stuðning við fötluð börn eða önnur þau börn sem þurfa sérstaka aðstoð í grunnskólum landsins. Þetta er skilið eftir óleyst, já og vísað nánast til næstu aldar. (Menntmrh.: Þetta er alrangt.) Afsakaðu, hæstv. forseti, ég ætla að ljúka máli mínu en síðan mun ég ræða þetta frekar við hæstv. menntmrh.

Það sem ég vildi sagt hafa, herra forseti, er að þó réttur barna og ungmenna með fötlun til náms í almennum skóla sé nú tryggður í lögum vantar þó enn mikið á að skólar hafi lagað sig að þörfum þeirra og staðið undir lagaskyldunni um að búa þessum nemendum skólaúrræði í almennum skóla í heimabyggð. Þróunin er þó nokkuð mismunandi eftir landshlutum og mest reynsla hefur fengist þar sem sérskólar eru ekki fyrir hendi. Löggjafinn gerir ráð fyrir skólaþróun sem gerir sérskólann óþarfan. Því veldur vonbrigðum að menntmn. Alþingis á þessum tímamótum þegar verið er að flytja grunnskólann til sveitarfélaganna leggi fram frv. þar sem ekki er gert ráð fyrir nokkurri þróun í málefnum þessa hóps nemenda fram til aldamóta.

Herra forseti. Þátttaka allra fatlaðra í almennum skólum er til þess fallin að vinna gegn vanþekkingu á fötlun og þar með fordómum gegn þessum þjóðfélagshópi. Nú er að vaxa úr grasi fyrsta kynslóðin á Íslandi sem hefur kynnst fötluðum af eigin raun og eru vonir bundnar við að afstaða hennar til fötlunar verði önnur en hinna eldri. Hér hefði því gefist einstakt tækifæri fyrir menntamálayfirvöld til að hafa áhrif á hraða þróunar í menntamálum þessara nemenda en því miður virðist það vera tækifæri sem menn hafa látið fara fram hjá sér á þessu stigi málsins.

Það er rétt að hafa það í huga á Alþingi að möguleikar fatlaðs fólks til menntunar og starfa eru aðeins að hluta til háðir fötluninni sjálfri. Lífsgæði þeirra eru ekki síður undir viðhorfum samfélagsins komin og þeim vaxtarskilyrðum sem það býr þeim. Því er mikilvægt að Alþingi stuðli með ákvörðunum sínum að þeirri þróun sem þarf að eiga sér stað og hefur verið lýst hér að framan og láti ekki skammtímasjónarmið ráða för. Enn mikilvægara er þó að hið háa Alþingi samþykki ekki lög sem brjóta hugsanlega í bága við stjórnarskrá landsins. Því beini ég þeirri áskorun minni til hæstv. menntmrh. og hæstv. forseta Alþingis að kannað verði af kostgæfni hvort umrætt frv. um breytingar á lögum um grunnskóla standist ákvæði stjórnarskrár Íslands um jafnræði þegnanna.