Grunnskóli

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 23:55:08 (6707)

1996-05-28 23:55:08# 120. lþ. 150.12 fundur 501. mál: #A grunnskóli# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 77/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[23:55]

Svavar Gestsson (andsvar):

Ég tel út af fyrir sig að svör ráðherrans í þessu efni séu nokkuð skýr. En ég tek þó fram að hér fyrr á þessum sólarhring, sem er senn liðinn, svaraði hæstv. menntmrh. fyrirspurn um hlut kvenna í fréttum og viðræðuþáttum. Hæstv. ráðherra sagði: Það er ekki mitt að stjórna þessum þáttum. Ég hafði því miður ekki aðstöðu til að hlaupa í ræðustól til að taka undir þetta sjónarmið. Ég er alveg sammála því. En á sama hátt vil ég ekki að það gerist eftir tvö ár að þessi ráðherra eða einhverjir aðrir komi og segi um sérskólana: Þetta kemur mér ekki við. Þetta er málefni sveitarfélaganna. Ég vil ekki hafa það þannig. Ég var að reyna að kreista það út úr ráðherranum áðan í þessari stuttu ræðu minni að hann segði: Menntmrn. mun fylgjast með málinu samkvæmt eftirlitsskyldu sinni samkvæmt grunnskólalögum og hann segði það mjög skýrt.

Það er kannski rétt líka af mér að taka það fram af því að mér láðist það í þessari stuttu ræðu minni áðan að ég skil að mörgu leyti vel áhyggjur hv. þm. Ástu B. Þorsteinsdóttur. Ég held að við séum í dálitlum vanda stödd í sambandi við Samband sveitarfélaganna. Það er verið að fela því gríðarleg verkefni. Samband sveitarfélaganna er satt að segja að verða býsna mikið bákn og við sjáum ekki mjög vel í gegnum það bákn. Það eru milljarðar króna sem fljóta þarna í gegn. Við veltum vöngum yfir tíu millj. og 100 millj. og 20 millj. en þar er um að ræða milljarða króna sem við höfum ekki allt of góða tilsjón með þó að við tökum ákvörðun um það á grundvelli laga og fjárlaga.

En erindi mitt var aðallega það að leggja á það áherslu að menntmrn. haldi áfram skýrri eftirlitsskyldu sinni varðandi sérskólana sem slíka.