Dómur í máli forstöðumanns Ökuprófa gegn dómsmálaráðherra

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 15:21:29 (1557)

1995-12-04 15:21:29# 120. lþ. 50.1 fundur 116#B dómur í máli forstöðumanns Ökuprófa gegn dómsmálaráðherra# (óundirbúin fsp.), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur


[15:21]

Mörður Árnason:

Herra forseti. Hinn 31. okt. sl. féll dómur í héraðsdómi Reykjavíkur í máli Guðjóns Andréssonar gegn dómsmrh. og fjmrh. Dómsmrh. sagði Guðjóni upp störfum sem forstöðumanni Ökuprófa um stundarsakir í maí 1995 án undangenginnar áminningar. Guðjón höfðaði mál vegna þessa rúmum tveimur árum síðar og niðurstaða héraðsdóms varð sú að í þeim tveimur atvikum, sem ollu uppsögninni, tveimur ökuprófum af um 10 þúsund sem Guðjón stjórnaði á þessum ferli sínum, þætti stefnandi verða að njóta þess vafa að um gáleysi hafi verið að ræða. Atvikin þóttu ekki það stórvægileg að þau mundu ein og sér hafa réttarverkanir samkvæmt 68. gr. hegningarlaga og 3. mgr. 7. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, sem er um uppsögn án áminningar, ætti heldur ekki við hér. Möguleiki hefði hins vegar verið á að segja Guðjóni upp samkvæmt 2. mgr. þar sem segir að veita skuli áminningu og gefa manni kost á að bæta ráð sinn áður en honum er veitt lausn um stundasakir.

Í dóminum segir líka að brotið hafi verið á Guðjóni með því að neita honum um rétt til að tala máli sínu og með því að afgreiðsla málsins hafi tekið allt of langan tíma. Guðjóni voru í héraðsdómi dæmdar 300 þús. kr. bætur fyrir vikið og liggur því fyrir að dómsmrh. hefur verið dæmdur vegna sinnar embættisfærslu. Það mál er þeim mun alvarlegra vegna þess að í umræðu í samfélaginu á sínum tíma þótti þessi uppsögn hafa skýra, pólitíska undirtóna. Guðjón var á sínum tíma settur af Óla Þ. Guðbjartssyni, fyrrv. ráðherra Borgaraflokks, og ráðherrar Sjálfstfl. sem við tóku þóttu fara nokkuð mikinn gegn þeim fyrrv. flokksbræðrum sínum.

Spurningarnar til hæstv. forsrh. eru því þessar: Hvaða skoðun hefur hæstv. forsrh. á þessari embættisfærslu dómsmrh. síns? Hver er staða hæstv. dómsmrh. í ríkisstjórninni eftir slíkan dóm? Og hyggst forsrh. beita sér fyrir því að þessu máli verði áfrýjað til Hæstaréttar?