Norræna ráðherranefndin 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 12:07:31 (3415)

1996-02-29 12:07:31# 120. lþ. 99.1 fundur 329. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1995# skýrsl, 337. mál: #A norrænt samstarf 1995# skýrsl, HG
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:07]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vil koma að frekar en mér vannst ekki tími til í fyrri ræðu minni. Ég vil tengja það við það sem hefur verið rætt hér mikið. Það er í sambandi við stöðu hins norræna samstarfs almennt séð, stöðu okkar innan þess og samskiptin út á við. Ég tek almennt undir það að við þurfum að horfast í augu við þann veruleika sem ríkir vegna breytinganna. Ég benti á það í fyrri ræðu minni að það hafa gerst mikil tíðindi þar sem eru þáttaskilin í samskiptum meiri hluta hinna fimm norrænu þjóða við Evrópusambandið með inngöngu þriggja. Það verður ekki fram hjá því horft. Ég óttast eins og fram hefur komið að sú niðurstaða sem þar varð eigi eftir að draga meiri dilk á eftir sér í raun en nú blasir við og er farið að gera margvíslega vart við sig eins og hefur verið rætt um í umræðunni. En það breytir ekki því að við Íslendingar getum notað Norðurlandasamstarfið og eigum að gera það bæði innanvert á milli hinna norrænu þjóða en einnig í samskiptum við svæði sem liggja að Norðurlöndum í norðri innan heimskautasamstarfs og í austri þar sem er samstarfið við Eystrasaltsríkin og svæði innan Rússlands sem liggja að Norðurlöndum, Barentssvæðið og önnur slík þar sem um formlega samvinnu er að ræða. Við Íslendingar höfum lagt áherslu á að vera þar þátttakendur. Okkur hefur tekist það, kannski fyrst og fremst vegna hins norræna samstarfs. Við höfum notað það sem búarsporð til að verða þátttakendur í samstarfi sem, miðað við stöðu okkar á landakortinu, er kannski ekki augljóst fyrir ýmsa utanaðkomandi að við eigum heima í. Þetta finnst mér réttmætt og við eigum að halda því áfram um leið og við hlúum að því sem hægt er að halda uppi samnorrænt.

Í þessu samhengi kem ég aðeins að heimskautasamstarfinu sem er væntanlega að taka á sig fastari mynd í samstarfi ríkisstjórna með stofnun sérstaks heimskautsráðs. Ég vil inna hæstv. utanrrh. aðeins nánar eftir því hvert hans mat sé á því sem gerast muni eða geti gerst á fundinum í Kanada í næsta mánuði þar sem stefnt er að því að ná sem lengst í þessum efnum. Ég tók ekki eftir því að það kæmi fram í framsögu hans hér frekara mat á stöðunni að þessu leyti. Ég vona sannarlega að það takist að koma þessu samstarfi á milli ríkisstjórna eins og stefnt hefur verið að og að það geti borið ávöxt. Síðan haldi samstarf þingmanna að sjálfsögðu áfram og verði eðlilega tengt inn í þetta samstarf. Þarna eru miklir möguleikar sem við þurfum að taka þátt í og einbeita okkur að, þ.e. ef litið er til norðurs. Það er ekki ástæða til að ræða það frekar hér. Þarna eru mörg atriði sem þarf að sinna og ekki síst á sviði umhverfismálanna.

Varðandi samstarfið í alþjóðastofnunum og hið norræna samstarf eins og hæstv. utanrrh. vék að hefur komið á daginn að það hefur verið þyngra undir fæti með hið norræna samráð í alþjóðastofnunum og þá ekki síst á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þar var reynt að sporna við og hæstv. ráðherra átti góðan hlut að því máli vorið 1995 til þess að koma í veg fyrir að það gliðnaði meira þarna en þörf væri á. Ég tek undir að það er sjálfsagt að viðhalda hinu samnorræna samstarfi í alþjóðastofnunum eins og mögulegt er. Þar eru vafalaust ákveðin takmörk vegna Evrópusambandsins og þeirra reglna sem þar eru ríkjandi og eiga eftir að þróast, kannski enn frekar í þá átt að það verði erfiðara fyrir Norðurlöndin að koma fram með sameiginlega stefnu. Þá verðum við auðvitað að bregðast við því með raunsæjum hætti. Ein afleiðing þess að við höfum ekki stuðning og styrk af hinu samnorræna samstarfi í alþjóðastofnunum held ég að hljóti að verða sú að við þurfum að leggja meira í utanríkisþjónustu okkar sjálfstætt til þess að geta staðið þar betur á eigin fótum ef við getum ekki leitað eðlilegs stuðnings hjá aðilum sem við höfum átt samleið með og höfum getað átt samstarf við. Út frá því vil ég skoða þróun íslenskrar utanríkisþjónustu að Ísland geti fótað sig þar betur án þess að vera háð um of samráði við aðila sem ráða okkur kannski ekki að öllu leyti heilt eða hafa ekki stöðu til þess að gera það. Það á alveg sérstaklega við um hið pólitíska að við þurfum að gæta þess því að á vettvangi embættismanna er oft tilhneiging til þess kannski að þróa mál lengra en skynsamlegt er eða er í samræmi við þær pólitísku hugmyndir sem eru uppi hverju sinni. Þetta er ekki sagt með neinu vanmati á það mikla starf sem unnið er á embættismannavettvangi og embættismannasamstarfi. En þar þarf auðvitað að vera samræmi á milli og þar þarf hið pólitíska mat að vera ráðandi og til þess þurfa stjórnmálamenn bæði á vegum ríkisstjórna og þingmanna að komast að málum sem burðugir þátttakendur.

[12:15]

Það er eitt atriði sem ég vil nefna frekar, virðulegur forseti. Það varðar hið gamalgróna norræna samstarf sem hér hefur verið rætt. Það berast til okkar ýmis dæmi um að hefðbundin réttindi sem tekist hefur að tryggja milli norrænna borgara innan landanna er ekki til haga haldið. Það koma í ljós hindranir sem ekki hafa verið uppi til skamms tíma. Þetta stafar vafalaust að nokkru leyti af því að staða hinna samnorrænu samninga á félagsmálasviði og ýmsum réttindasviðum er ekki lengur burðarásinn í embættismannakerfinu þegar verið er að fara yfir mál og meta stöðu borgara því að nýjar reglur á grundvelli Evrópuréttarins eru farnar að ryðja sér til rúms. Þarna skortir á að samræmis sé gætt og reynt sé að tryggja það um leið og staðið er við samningsbundnar skuldbindingar um samræmingu við Evrópuréttinn að tillit sé tekið til þess sem á að vera tryggt í samstarfi Norðurlandanna. Um þetta væri hægt að rekja mörg dæmi. Ég get vísað til fyrirspurnar sem ég lagði fram á þingi í marsmánuði 1995 til eins norræns ráðherra um þessi efni þar sem dregin voru fram dæmi um þetta. Okkar embættismenn og stjórnmálamenn líka þekkja fjölmörg dæmi um þetta. Þarna er rík nauðsyn að standa á verði og það hefur vissulega verið viðleitni á pólitískum vettvangi til að fara yfir þetta og leitast við að koma í veg fyrir að það verði gliðnun að því er varðar gagnkvæm réttindi milli Norðurlandanna.

Ég vil að endingu, virðulegur forseti, óska þeim sem vinna á hinum norræna vettvangi, jafnt ríkisstjórnarmegin sem þingmannamegin, alls hins besta í því þýðingarmikla starfi sem þeir rækja við breyttar aðstæður. Það hefur komið fram að sá sem hér talar og sá flokkahópur sem ég hef starfað í, þ.e. sem Alþb. starfar með á norrænum vettvangi, hefði viljað sjá annað form í sambandi við norræna þingmannasamstarfið en varð niðurstaðan. Það ræddum við hér þegar breytingar voru gerðar á Helsinki-sáttmálanum. Það er of snemmt að kveða upp dóma um það hvernig til tekst með niðurstöðuna en ég vona það og óska að það geti þrátt fyrir allt gefið sem besta raun miðað við okkar hagsmuni og áhuga. Áreiðanlega auðveldar þetta ekki að mörgu leyti starfið og því gerir það í raun meiri kröfur til þeirra þingmanna sem eru þátttakendur á þessum vettvangi. Og til þess að gefa dæmi um hvað ég á við nefni ég hið gamalgróna norræna samstarf sem nú er undir einni 30 manna þingmannanefnd sem á að fjalla um allt hið gamalgróna. Og það er ekki mjög skýrt enn þá hvernig á að koma við brúnum yfir í grannsvæði og Evrópumál. Það verður verkefni eins þingmanns ef ég man rétt að fylgjast með í þessari norrænu nefnd því að við þurfum að skipta okkur á hinar nefndirnar og þannig hagar til að nú er aðeins einn íslenskur þingmaður í þessum 30 manna hópi norrænu nefndarinnar.

Ég vænti þess að við getum staðið saman um það og hlúð að því á vettvangi Alþingis almennt séð að búa þessu samstarfi sem eðlilegastar aðstæður og þá með því að tryggja nauðsynlegar fjárveitingar til þess og starfsaðstöðu.