Skaðleg íblöndunarefni í bensín

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 14:00:46 (4970)

1996-04-18 14:00:46# 120. lþ. 122.91 fundur 254#B skaðleg íblöndunarefni í bensín# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[14:00]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér er um mál að ræða sem getur virst svolítið flókið en mér finnst kjarni þess vera sá hvort menn hafi verið á því að það hafi verið stigið rétt skref með því að hætta sölu á blýbensíni hérlendis sem var forsenda fyrir því að taka upp hvarfakúta sem draga úr mengandi efnum í útblæstri og þýða auk þess betri nýtingu. Ég get ekki tekið undir með hv. þm. fyrirspyrjanda að því leyti að mér finnst að í máli hans gæti gagnrýni á þessar ákvarðanir. Oft fylgja ýmsar afleiðingar slíkum ákvörðunum, m.a. tæknilegs eðlis, að framleiðendur hafi ekki búið sig undir sem skyldi að taka við slíkum ákvörðunum og það eru í rauninni þær afleiðingar sem menn eru að ræða hér og er tilefni fyrirspurnarinnar, þ.e. hvort þau íblöndunarefni sem þarf að nota á vissar gerðir bifreiða séu það mengandi að ekki sé réttlætanlegt að nota þau efni. Hæstv. umhvrh. hefur í svari sínu vísað því frá mjög eindregið að svo sé og það þarf að sjálfsögðu að standa þar á vaktinni að ekki sé um að ræða aukningu og helst auðvitað engin skaðleg efni, hvað þá krabbameinsvaldandi efni, sem fara út í andrúmsloftið og valdi heilsutjóni en útblástur bifreiða veldur mengun og skaða fyrir umhverfið. Hæstv. ráðherra nefndi reglugerð frá 1987 og ég vil leyfa mér, áður en ég lýk máli mínu, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. ráðherra um 8. gr. þessarar reglugerðar þar sem segir: ,,Óheimilt er að auka efnum í bensín hér á landi eða selja aukaefni í bensín til eldsneytis nema samkvæmt leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins að fenginni umsögn eiturefnanefndar.`` Þetta stendur í 8. gr. reglugerðarinnar og nú er þetta komið undir umhvrn. Það hlýtur að vera ráðuneytisins að fylgja reglugerðinni eftir og ég spyr hæstv. ráðherra: Hafa verið teknar upp leyfisveitingar eins og reglugerðin gerir ráð fyrir í sambandi við þetta? Að öðru leyti finnst mér að málið hafi að nokkru leyti upplýst með svari hæstv. ráðherra.