Lögræðislög

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 22:14:35 (6049)

1996-05-14 22:14:35# 120. lþ. 137.8 fundur 456. mál: #A lögræðislög# (sjálfræðisaldur) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[22:14]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég vil fara örfáum orðum um þetta þingmál sem hér hefur verið mælt fyrir, frv. til laga um breytingu á lögræðislögum. Eins og fram kom í máli 1. flm. áðan eru þrír þingmenn úr jafnmörgum þingflokkum sem standa að málinu, þar á meðal hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþb., sem er 3. flm. málsins. Ég vil að fram komi að mér finnst að hér sé tillaga á ferðinni sem sé bæði eðlileg að efni til og auk þess mjög þörf. En eins og fram kemur í grg. og hv. 1. flm. tók fram í ræðu sinni hefur þetta mál verið mjög lengi til athugunar án þess að niðurstaða sé fengin og í grg. er rökstuðning að finna fyrir tillögunni að hækka sjálfræðisaldur í 18 ár, úr 16 árum í 18 ár. Mér sýnist að þar séu svo mörg atriði sem styðji þessa aðgerð að það sé í alla staði eðlilegt að þessi breyting eigi sér stað. Eins og fram kemur í grg. og flm. gat um hafa orðið verulegar breytingar hér á landi á aðstæðum ungs fólks á þessum aldri, 16 ára til 18 ára. Það var hér lengi vel svo að einstaklingar fóru að glíma við tilveruna sem fullveðja 16 ára gamlir, sem þátttakendur í atvinnulífi og öxluðu ábyrgð sem slíkir. Þessar aðstæður eru mjög verulega breyttar þar sem fólk á þessum aldri er yfirleitt í skólum og hefur auk þess ekki þær aðstæður sem jafnaldrar þeirra áður fyrr, 16 ára fólk, hafði sem var þá orðið þátttakendur í vinnumarkaði, búið að ljúka sinni skólagöngu og farið að lifa lífi fullorðinna í flestum greinum. Það er réttilega á það bent að ekki er verið að taka rétt af fólki til að sjá sér farborða eða ráða sér sjálft en skylda foreldranna er framlengd til 18 ára aldurs. Ég get því ekki séð annað en að hér sé um að ræða jákvæða breytingu fyrir börnin með því sem hér er lagt til. Auk þess blasir við, eins og fram kemur í grg., að hin almenna regla í nágrannalöndum kveður á um 18 ára aldur og var um tíma hærri annars staðar á Norðurlöndum. Einnig virðist miðað við sömu aldursmörk í alþjóðasáttmálum eins og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég sé ekki ástæðu til þess að leiða fleiri vitni til stuðnings þeirri skoðun minni sem fer saman við það sjónarmið sem fram kemur í frv. að það sé eðlilegt að lögfesta þessa breytingu. Mér finnst mjög jákvætt að þessu máli hefur verið hreyft hér með þessum hætti þó að trúlega þurfi að hreyfa við því á næsta þingi til þess að það fái þinglega lokameðferð af hálfu Alþingis.