Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 894, 120. löggjafarþing 218. mál: háskólinn á Akureyri (skrásetningargjald).
Lög nr. 30 3. maí 1996.

Lög um breyting á lögum um Háskólann á Akureyri, nr. 51/1992, með síðari breytingu.


1. gr.

     15. gr. laganna orðast svo:
     Hver sá sem staðist hefur stúdentspróf frá íslenskum skóla sem heimild hefur til að brautskrá stúdenta getur sótt um að skrá sig til náms við háskólann gegn því að greiða skrásetningargjald, 24.000 kr. Upphæð gjaldsins kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Háskólanefnd er heimilt með samningi að ráðstafa allt að 13% af gjaldinu til Félagsstofnunar stúdenta á Akureyri og allt að 10% til sérstakra verkefna samkvæmt samningi milli Háskólans á Akureyri og Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri sem háskólanefnd staðfestir. Heimilt er að taka 15% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til skrásetningar utan auglýstra skrásetningartímabila.
     Háskólanefnd er heimilt að leyfa skrásetningu einstaklinga er lokið hafa öðrum prófum en tilgreint er í 1. mgr. ef hlutaðeigandi deild eða námsbraut telur að um sé að ræða fullnægjandi undirbúning til náms við háskólann. Heimilt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um inntökuskilyrði.
     Inntaka nemenda er í höndum háskólanefndar og getur hún að fengnu samþykki menntamálaráðuneytis takmarkað fjölda þeirra sem hefja nám við deildir háskólans. Setja skal í reglugerð ákvæði er mæla fyrir um árlega skráningu nemenda.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 2. maí 1996.