Evrópuráðsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 12:28:56 (3168)

1997-02-06 12:28:56# 121. lþ. 64.6 fundur 289. mál: #A Evrópuráðsþingið 1996# skýrsl, LMR
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[12:28]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Sem formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins geri ég hér með grein fyrir ársskýrslu deildarinnar fyrir árið 1996, sbr. þskj. 544.

Fulltrúar Íslands í Evrópuráðinu á sl. ári voru Lára Margrét Ragnarsdóttir, undirrituð, formaður, frá Sjálfstfl., Ólafur Ragnar Grímsson, varaformaður, frá Alþb., og síðar Margrét Frímannsdóttir sem varaformaður, frá Alþb., Hjálmar Árnason, frá Framsfl., og sem varamenn Tómas Ingi Olrich, frá Sjálfstfl., Ólafur Örn Haraldsson, frá Framsfl., og Hjálmar Jónsson, frá Sjálfstfl. Ritari nefndarinnar var Gústaf Adolf Skúlason alþjóðaritari.

Ég vil geta þess að þegar rætt er um varamenn í þessum hópi, þá eru það ekki varamenn í þeim skilningi sem Íslendingar leggja í orðið varamaður, heldur hafa þeir fulla ábyrgð á gerðum sínum í einstökum nefndum sem þeir eru skipaðir til. Þeir hafa þar ekki bara umræðurétt heldur hafa þeir atkvæðisrétt í þeim nefndum og geta jafnvel verið skipaðir formenn þeirra nefnda sem þeir eiga sæti í þannig að mikilvægi varamanna er mun meira en við Íslendingar leggjum í það orð.

Þá hefur Sveinn Á. Björnsson verið með fast aðsetur í Strassborg síðan í september 1995 og annast daglegan rekstur skrifstofu utanrrn. hjá Evrópuráðinu. Er þessi tilhögun geysilega mikill styrkur fyrir Íslandsdeild Evrópuráðsins hvað varðar upplýsingaflæði og ýmiss konar aðstoð og til að fá samhengi í þá hluti sem eru að gerast, því eins og mörgum er kunnugt, hefur Íslandsdeildin ekki tök á að sækja nema örfáa af þeim aukafundum eða nefndarfundum og ýmsum aukafundum sem haldnir eru í tengslum við starfsemi Evrópuráðsins og er því gífurlega mikilvægt að hafa þarna fastafulltrúa sem gætu a.m.k. veitt okkur upplýsingar um framgang mála þó fulltrúar Íslands geti ekki tekið beinan þátt í fundum í þeirri starfsemi.

Mér skilst að í bígerð sé að fastur sendiherra með skrifstofu í Strassborg verði skipaður á næstunni og er það einkum með tilliti til formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins árið 1999 og þar með varaformennsku á fyrra ári, þ.e. seinni hluta 1998 í sex mánuði.

Á liðnu ári gerðust þau merku tíðindi að Rússland fékk aðild að Evrópuráðinu og síðar Króatía. Þar með eru aðildarríkin orðin 40 talsins. En þess ber að minnast að árið 1991 voru þau aðeins rúmlega 20. Þessi fjöldi nýrra ríkja í Mið- og Austur-Evrópu hefur haft þau áhrif að ráðið er í vaxandi mæli vettvangur álfunnar allrar. Ný lýðræðisríki og fyrrum aðildarríki Varsjárbandalagsins hafa þannig undirritað mannréttindasáttmála Evrópu og gagngert til þess að geta hlotið aðild að Evrópuráðinu. Þessi ríki hafa samþykkt að veita þegnum sínum þann rétt að vísa málum sínum til mannréttindanefndar og Mannréttindadómstóls Evrópu telji viðkomandi á sér brotið af valdhöfum í ríki sínu. Þau hafa jafnframt gengist undir virkt eftirlit Evrópuráðsins með þróun lýðræðis og stöðu mannréttindamála heima fyrir.

Greinilegt er að samþykktir og formleg afstaða Evrópuráðsins til þeirrar þróunar getur haft úrslitaáhrif í að knýja á um breytingar að auknu lýðræði og traustari mannréttindum, enda heimilt að vísa ríki úr ráðinu gerist það brotlegt gegn mannréttindum og lýðræði eins og gerst hefur. Í Evrópuráðinu endurspeglast þannig gerbreytt staða í stjórnmálum og mannréttindamálum í Evrópu allri og ekki síst í austanverðri Evrópu. Mikilvægi Evrópuráðsins hefur því stóraukist á undanförnum árum og er því nauðsynlegt að meta þátttökuhluta og samskipti Alþingis í samræmi við breytt hlutverk og þá gífurlegu breytingu á hlutverki ráðsins sem orðið hefur á sl. árum. Aukin þátttaka mundi þar með auka vægi Íslands í mikilvægum málum sem Ísland á beint eða óbeint hagsmuni af. Vil ég í því sambandi segja frá því hversu virkt Evrópuráðið hefur verið í að heimsækja ný lönd innan ráðsins, ræða framkvæmd lýðræðis og ýmis mál og agnúa sem menn hafa steytt á skeri í framkvæmd lýðræðis og þannig komið á mjög virkum samskiptum milli þjóðþinga og framkvæmdarvaldsins og annarra. Þetta tel ég mjög mikilvægt hlutverk Evrópuráðsins og ég tel að lýðræðisleg hugsun og framkvæmd muni þróast mun hraðar í þessum nýfrjálsu löndum með þeirri samvinnu sem Evrópuráðið hefur átt við þessi lönd.

Lýðræði og mannréttindamál eru þó e.t.v. þeir málaflokkar sem Evrópuráðið er oftast tengt við en á vettvangi ráðsins er fjallað um fjölda annarra málaflokka, til að mynda efnahagsmál, félagslega þróun, öryggismál, umhverfismál og fleira þótt vissulega tengist þessir málaflokkar allir á einn eða annan hátt innbyrðis, þ.e. að auka mannréttindi þegna þessara ríkja og í heiminum almennt.

Á liðnu ári beittu þingmenn Íslandsdeildarinnar sér m.a. í menntamálum, uppeldismálum, Bosníumálum, umhverfismálum, byggðamálum, samstarfi í meðferð kynferðisafbrotamála, verndun mannréttinda í tengslum við líflæknisfræðina og þannig mætti lengi telja, enda er mjög mikill fjöldi málaflokka til umfjöllunar á vettvangi Evrópuráðsþingsins.

Aldrei er of oft ítrekað að Mannréttindadómstóll Evrópu tilheyrir starfsemi Evrópuráðsins eða er tengdur starfsemi Evrópuráðsins en ekki Evrópusambandsins eins og oft vill brenna við að fólk hugsi þegar minnst er á mannréttindadómstólinn í Strassborg. Evrópuráðið mótar að hluta þá stefnu sem þátttakendalönd setja í löggjafarmálum og því einnig tekið mið af því í dómstólum þessara landa með samþykki ráðherraráðs Evrópuráðsins og því er ekki síst ítrekað mikilvægi þátttöku okkar í beinum og óbeinum áhrifum.

Fastanefndir Evrópuráðsins eru 15. Ég vil gjarnan lesa upp hverjar þær eru því oft hefur það ekki komið fram í skýrslum eða í flutningi:

Sameiginleg nefnd með ráðherranefndinni sem er mjög mikilvæg eða Joint Committee. Í henni situr undirrituð.

Í fastanefnd og stjórnmálanefnd situr einnig undirrituð Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Laganefnd: Margrét Frímannsdóttir.

Efnahagsnefnd: Margrét Frímannsdóttir.

Umhverfis-, skipulags- og sveitarstjórnarmálanefnd: Ól\-af\-ur Örn Haraldsson.

Þingskapanefnd: Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Fjárlaganefnd: Hjálmar Jónsson.

Landbúnaðarnefnd: Ólafur Örn Haraldsson.

Vísinda- og tækninefnd: Tómas Ingi Olrich.

Mennta- og menningarmálanefnd: Hjálmar Árnason.

Heilbrigðis- og félagsmálanefnd: Hjálmar Jónsson, en nú stendur til að breyta þeirri skipan vegna varaformennsku undirritaðrar í þeirri nefnd.

Flóttamannanefnd: Hjálmar Árnason.

Nefnd um samskipti við lönd utan Evrópuráðsins: Tómas Ingi Olrich.

Nefnd um almanntengsl þingsins: Undirrituð sem formaður sl. tvö og hálft ár en ég sagði mig úr þeirri nefnd á sl. þingi í janúar 1997.

Þetta gefur kannski aðeins hugmynd um umfang starfsemi Evrópuráðsins en jafnframt vil ég nefna undirnefndir þessara fastanefnda og ýmsa aðra þátttöku eins og t.d. ráðstefnur um ýmis sérstök mál sem eru opin ekki bara þingmönnum Evrópuráðsins heldur almennt þingmönnum þeirra landa sem aðild eða aukaaðild eiga að Evrópuráðinu, og einnig jafnvel almenningi. Ekki síst vil ég nefna þá aðila sem starfa í áhugafélögum, svo sem Rauða krossinum, hreyfingum eins og Lions-hreyfingunni, Rotary-hreyfingunni og fleiri hreyfingum sem beint og óbeint eiga þátt að starfsemi Evrópuráðsins.

Þá vil ég einnig nefna að starfsemi Evrópuráðsins fer ekki eingöngu fram á vegum þingsins sjálfs heldur er mikill undirbúningur og sérfræðivinna unnin bæði í heimalöndunum og á vegum framkvæmdardeildar Evrópuráðsins sem er mjög virk og þar hafa Íslendingar einnig átt aðild að með því að senda embættismenn og sérfræðinga. Þar höfum við enn fremur getað komið skoðunum okkar og undirbúningi á framfæri og þar er einnig unnt að fá sérfræðilega ráðgjöf og upplýsingar, bæði fyrir Alþingi, framkvæmdarvaldið og einstaka þingmenn.

Þess er einnig vert að geta að Evrópuráðið hefur á vegum sínum unglingamiðstöð sem ungir Íslendingar hafa átt möguleika á að taka þátt í þar sem rætt er um mannréttindamál og ýmis þau mál sem tengjast stjórnmálum og þróun í Evrópu almennt. Enn fremur má geta þróunarsjóðs Evrópuráðsins, sem ég hef áður minnst á í ræðum mínum hér, sem Íslendingar hafa átt aðild að og má minnast framlags sjóðsins í tengslum við Vestmannaeyjagosið sem dæmi.

Ýmsar samþykktir hafa einnig verið gerðar á vegum mannréttindamála sem ríki skuldbinda sig til að hlíta eins og samþykkt um pyndingar og refsingar og samþykktir um orkumál, sem að sjálfsögðu kemur mjög við okkur Íslendinga.

Ég ætla að minnast aðeins á örfá atriði sem við höfum átt aðild að og hafa verið rædd í Evrópuráðinu á sl. ári. Eins og ég minntist á vorum við virk í umræðum um aðild Rússlands. Það var rætt um málefni dreifbýlis í Evrópu og aðild Króatíu að Evrópuráðinu. Það var rætt um svokallað IFOR-lið, eða lið NATO í Bosníu-Hersegóvínu, og afnám dauðarefsingar í Evrópu og framtíð félagsmálastefnu og atvinnuleysi í Evrópu og svo mætti lengi telja. Kannski síðast mundi ég vilja nefna um fólksflutninga og málefni flóttamanna sem tilheyrir mjög þeirri starfsemi og þeirri umræðu sem fram fer innan Evrópuráðsins. Í þessu hafa Íslendingar verið mjög virkir og ég vil nefna það að Íslendingar hafa lagt hart að sér við að kynna sér þessi mál og reynt að koma á framfæri þeim skoðunum sem þeir hafa fram að færa. Það verður að segjast eins og er, þó að við séum kannski að berja okkur á brjóst, að íslenska sendinefndin hefur vakið athygli fyrir mikla vinnu og virkni jafnt á þingum ráðsins sem þeim fáu nefndarfundum sem þeim er heimilt að sækja á þingum ráðsins, því hver nefnd situr um sex til sjö fundi að meðaltali utan þinga, ýmist í París, Strassborg eða annars staðar í Evrópu, sem samtals jafnast upp í um það bil 20 fundi, en Íslendingum er aðeins heimilt að sækja um tvo fundi alls á ári, þ.e. 10% af þeim fundum sem haldnir eru, eða jafnvel innan við 10%. Það kemur okkur að sjálfsögðu ekki til góða þar sem við eigum erfitt með að fylgja eftir þeim skoðunum sem við viljum gjarnan koma á framfæri og getum því oft orðið úr leik eða komið of seint inn í leikinn vegna þessara aðstæðna okkar.

Ég efast ekki um að sendinefndin öll hefur haft mjög jákvæð áhrif á starfsemi ráðsins vegna virkni sinnar þegar menn hafa haft tök á að mæta og ímynd Íslands kemur okkur örugglega til góða á næstu árum. Ég vil kannski nefna t.d. afskipti eins okkar þátttakenda, Tómasar Inga Olrich, af umræðum í byggðamálum þar sem með þátttöku hans var komið í veg fyrir samþykkt um almenna sérstaka styrki til fiskveiða á dreifbýlissvæðum. Þrátt fyrir að þetta dæmi sé tekið get ég fullyrt að aðrir þátttakendur Íslands í Evrópuráðinu hafa átt hlut að máli og haft áhrif í nánast sérhverri umræðu sem þeir hafa komið að, t.d. með því að færa til tímasetningu um umræðu um kynferðislega misnotkun á börnum. Ég vil einnig nefna tillögu Hjálmars Árnasonar á sl. þingi um að skoða hvernig samræma mætti störf hinna ýmsu alþjóðastofnana eins og t.d. ÖSE, VES og Evrópuráðsins. Allar slíkar umræður koma okkur til góða, eins og ég hef margítrekað.

Ég vil enn fremur segja að samstarf okkar Íslendinga í Evrópuráðinu hefur verið með miklum ágætum. Við höfum sýnt samheldni og styrkt hvert annað í okkar vinnu. Ég vil þess vegna fá að þakka samstarfsmönnum mínum í Evrópuráðinu sérstaklega fyrir einstakt samstarf og samheldni á liðnu ári. Einnig vil ég þakka Sveini Á. Björnssyni sendifulltrúa fyrir hans framlag í þessu starfi sem verður aldrei of metið og ég veit að við munum vinna áfram á næstunni í þeim anda sem ég hef þegar lýst.