Tillögur stjórnar ÁTVR um sölu á áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 13:32:33 (3174)

1997-02-06 13:32:33# 121. lþ. 64.95 fundur 178#B tillögur stjórnar ÁTVR um sölu á áfengi og tóbaki# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[13:32]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Með lögum nr. 95/1995 komu ákvæði inn í lög um verslun með áfengi og tóbak þess efnis að fjmrh. skuli skipa Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins stjórn eða eins og segir í 4. gr.:

,,Fjármálaráðherra skal skipa Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins stjórn og setja með reglugerð nánari ákvæði um skipulag hennar [þ.e. stofnunarinnar].``

Það fer ekki hjá því að ýmsar spurningar vakni svo þegar þær fréttir berast að umrædd stjórn ÁTVR hafi allt í einu tekið að sér að móta tillögur um viðamiklar breytingar á áfengisstefnu þjóðarinnar. Það vekur til að mynda spurningar um hlutverk þessarar stjórnar. Þegar ákvæði um hana voru hér til umræðu þá var fyrst og fremst rætt um málið á þeim forsendum að um væri að ræða rekstrarlega stjórn sem ætti að hafa slík verkefni með höndum í umboði ráðherra. Það var ekki á það minnst, svo ég muni, að hlutverk þessarar stjórnar ætti í framtíðinni að vera það að gera byltingarkenndar tillögur um skipulag áfengisverslunar í landinu. En það er nú komið á daginn. Ég tel reyndar að hæstv. ráðherra hafi þegar með útgáfu reglugerðar á grundvelli laganna frá 1995 gengið mjög langt í því að taka upp í verklýsingu fyrir stjórnina orðið ,,stefnumótun``, en um það er fjallað í 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 607 frá 1995 um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

Nú eru sumar af tillögum þessarar stjórnar að sjálfsögðu allrar athygli verðar, eins og það að bæta þjónustu við landsbyggðina, en annað vekur mikla undrun svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þar vil ég sérstaklega nefna í fyrsta lagi þá tillögu að í framtíðinni verði rekstur útsölustaða boðinn út og að álagning á áfengi í smásölu verði gefin frjáls. Það er að vísu kallað að þar þurfi að vera lágmarksálagning en það er alveg ljóst að það er verið að boða þá framtíð að um frjálsa álagningu verði að ræða, með öðrum orðum rekstur smásöluverslana með áfengi í hagnaðarskyni fyrir þá sem þann rekstur annast.

Þá er í öðru lagi lagt til að Áfengis- og tóbaksverslunin hætti algerlega verslun með tóbak og þetta tvennt, herra forseti, vekur spurningar um stefnu hæstv. ríkisstjórnar í forvarnamálum. Það er líka spurning hvort það sé eðlilegt að þessi stjórn vinni eins og lagasetning á Alþingi og skýlaus ákvæði í lögum séu henni óviðkomandi. Ég vek t.d. athygli á því að í 3. gr. laga um verslun með áfengi og tóbak segir að fjmrh. skuli ákveða útsöluverð áfengis og tóbaks og verð í smásöluverslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á hverri vöru fyrir sig skuli vera það sama hvar sem er á landinu. Einmitt þessi lagabreyting var gerð 1995 og lögð var á það áhersla að þetta skyldi standa og halda þó svo að breytingar væru að verða t.d. hvað varðaði innflutning á áfengi. En ekki verður séð að stjórn Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins taki hið minnsta mark á stefnumótun löggjafans og skýlausum fyrirmælum í lögum hvað þetta snertir því það má auðvitað ljóst vera að tillögur um að gefa álagningu á áfengi í smásölu frjálsa ganga þvert gegn þessum skýlausu ákvæðum í lögum um að útsöluverð skuli vera hið sama um allt land.

Ég spyr, herra forseti, einnig um stefnu hæstv. ríkisstjórnar í forvarnamálum. Hvaða hlutverki gegnir stjórn Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins í því sambandi? Hvaða stöðu telur hæstv. fjmrh. að þessi tillögugerð hafi í samhengi við verksvið hæstv. heilbr.- og trmrh., forvarnamálefnin og þá áætlun sem í gildi er um að draga úr áfengisnotkun?

Að lokum, herra forseti, hljóta menn að setja þetta mál í samhengi við þá viðleitni sem í gangi hefur verið undanfarin ár, að leggja í áföngum niður Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og innleiða þar frjálshyggju og einkarekstur í ágóðaskyni. Það er athyglisvert að með þessu er verið að ríða á vaðið með breytingar sem svardagar gengu ítrekað um á Alþingi fyrir ekki löngu síðan, bæði í tengslum við breytingar á áfengislöggjöf 1995 og í tengslum við umræður um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, að ekki stæði til að gera. En þá var hvoru tveggja fullyrt og svarið að við þyrftum ekki að breyta skipulagi þessara mála (Forseti hringir.) þrátt fyrir gildistöku samningsins um EES. Og í tengslum við breytingarnar 1995 var boðað að smásöludreifingarfyrirkomulagið ætti að verða óbreytt. Hér virðist því vera í gangi, herra forseti, lymskuleg áætlun um að mola þetta fyrirtæki niður skref fyrir skref og breyta þar af leiðandi í grundvallaratriðum stefnu okkar hvað varðar skipulag þessara mála.