Evrópuráðsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 14:38:58 (3197)

1997-02-06 14:38:58# 121. lþ. 64.6 fundur 289. mál: #A Evrópuráðsþingið 1996# skýrsl, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:38]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka það ágæta starf sem Íslandsdeild Evrópuþingsins hefur unnið og skilað skýrslu um á þskj. 544. Evrópuráðið er afar mikilvægt og þýðing þess hefur ekki síst komið í ljós núna þegar hin nýfrjálsu ríki í Austur- og Mið-Evrópu eru að stíga skref í lýðræðisátt.

En út af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram held ég að sé rétt að geta þess að unnið er að samræmingu þessara mála. Ég vil nefna það að t.d. í gær, þegar utanríkisráðherrar Norðurlandanna hittust, þá hittust utanríkisráðherrar Danmerkur og Finnlands, en Danir eru í formennsku í ÖSE og Finnar eru í formennsku í Evrópuráðinu. Og núna, þegar Norðurlandaþjóðirnar eru þarna tvær í formennsku í þessum stofnunum, þá er unnið að slíkri samræmingu. Jafnframt er rétt að geta þess að í þeirri stefnuyfirlýsingu sem er nú í undirbúningi af hálfu Norðurlandanna fyrir leiðtogafund Evrópuráðsins í haust þá er gert ráð fyrir þessu.

En ég kom fyrst og fremst upp til þess að leggja á það áherslu að Ísland tekur við formennsku í Evrópuráðinu 1999 og varaformennsku 1998 sem verður til þess að auka mjög starf Íslands í Evrópuráðinu. Það verður þess valdandi að við þurfum að styrkja aðstöðu okkar þar nú strax og þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til þess.