Alþjóðaþingmannasambandið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 15:36:09 (3203)

1997-02-06 15:36:09# 121. lþ. 64.9 fundur 292. mál: #A Alþjóðaþingmannasambandið 1996# skýrsl, GHH
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[15:36]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Ég vil í örstuttu máli fylgja úr hlaði skýrslu á þskj. 547 um starfsemi Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins á síðasta ári. Venju samkvæmt sóttu Íslandsdeildarmenn tvö þing sambandsins. Hið fyrra í Istanbúl í Tyrklandi í aprílmánuði en hið síðara í Peking í Kína í september. Mun ég á eftir koma í örstuttu máli nánar að þessum þingum báðum, en ég vil láta þess getið að Íslandsdeildarmenn þáðu einnig boð um að koma í heimsókn til breska þingsins í janúarmánuði 1996 og áttu þar mjög eftirminnilega för, gagnlegar viðræður við kollega og fróðleg kynni af starfsemi breska þingsins. Ég vil geta þess að til endurgjalds þessari heimsókn er von bráðar von á sex breskum þingmönnum í heimsókn hingað til Alþingis. Þeir munu koma hingað í næsta mánuði og munum við reyna að endurgjalda þá gestrisni sem okkur var sýnd í Lundúnum á síðasta ári þegar þeir koma hingað.

Að því er varðar störf þeirra tveggja þinga sem haldin voru á síðasta ári á vettvangi þingmannasambandsins vildi ég víkja sérstaklega að þinginu í Istanbúl þar sem samþykktar voru að venju ítarlegar ályktanir um þrjú málefni að loknum umræðum og nefndarstarfi. Ég vil vekja sérstaka athygli á ályktun um vernd og nýtingu fiskstofna sem samþykkt var samhljóða þegar upp var staðið í þinglok að loknu ítarlegu nefndarstarfi og umræðum þar sem margvísleg sjónarmið komu fram. En það sem er athyglisvert við þessa tillögu er það að á endanum var það uppkast, sem íslenska sendinefndin lagði fram, notað sem grundvallarskjal í þessari ályktun þó svo að fjölmörg önnur lönd, 19 ríki, hefðu lagt fram drög að ályktunum og gert sér vonir um að þær yrðu notaðar sem grundvallarskjal í þessu efni.

Einnig var lögð fram af Íslands hálfu sérstök greinargerð um þetta mál til fyllingar þeim drögum að ályktun sem fyrir lágu. Þetta er í fyrsta skipti sem íslenska sendinefndin leggur fram svo ítarleg gögn um dagskrármál, en eins og fram hefur komið áður hér á Alþingi er eingöngu ályktað um þrjú málefni á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins hverju sinni enda er það svo stór vettvangur og þungur í vöfum að ekki er rúm fyrir meira en þrjár meiri háttar eða ítarlegar ályktanir hverju sinni þótt álykta megi jafnframt um sérstök brýn og aðkallandi málefni ef aðstæður skapast fyrir því.

Við lögðum sem sagt fram drög að ályktun um málið sem og greinargerð og mál skipuðust svo að Íslendingar fengu fulltrúa í þeirri vinnunefnd sem vann málið eftir umfjöllum í vísinda- og umhverfisnefnd þingsins. Í þessari vinnunefnd sátu 13 manns af fulltrúum alls 120 ríkja. Valdir voru fulltrúar 13 ríkja í þessa vinnunefnd, þar á meðal einn af okkar hálfu, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sem einnig flutti ræðu um málið í vísinda- og umhverfisnefndinni áður en undirnefndin var valin. Skemmst er frá því að segja að í þessari undirnefnd fór fram mikil og merkileg vinna og ég vil nota tækifærið og þakka kollega mínum, Einari K. Guðfinnssyni, fyrir hans miklu og góðu störf að þessu máli, jafnt á þinginu sjálfu sem við undirbúning ályktunarinnar. Í ályktuninni, sem var mjög ítarleg, voru nokkur atriði sem voru sérstaklega mikilvæg fyrir Íslendinga og ætla ég ekki að rekja þau hér en þeirra er sérstaklega getið á bls. 3 í skýrslunni. Þar eru mörg hagsmunamál sem við höfum lagt áherslu á á alþjóðavettvangi sem eru tekin fyrir og lýst stuðningi við. Ég held að mjög mikilvægt sé fyrir okkur í framtíðinni að geta vitnað til þess að á þessum vettvangi þingmanna frá nánast öllum þjóðþingum heims hafi verið stuðningur við þau sjónarmið.

Þetta vildi ég nefna í örstuttu máli, virðulegi forseti, auk þess sem ég læt þess getið, þó það hafi áður komið fram hér í þingsal, að í tilefni af þessu þingi í Istanbúl áttu þingmenn kost á því að hitta Sophiu Hansen, lögfræðing hennar og aðstoðarmenn, og kynna sér það mál eins og það var þá á vegi statt, en auðvitað hefur orðið heilmikil þróun í því máli síðan þó að hún sé nú því miður ekki öll eins og við hefðum kosið.

Að því er varðar þingið í Peking þá voru samþykktar þar þrjár ályktanir eins og venjulega, þar á meðal ein um bann við notkun jarðsprengna en tillaga um það mál hefur nú verið lögð fyrir Alþingi af einum hv. þm. og vek ég þess vegna sérstaka athygli á því að fyrir liggur af hálfu Alþjóðaþingmannsambandsins mjög ítarleg samþykkt um það mál. Þingið var að öðru leyti með hefðbundnum hætti og geta menn kynnt sér það í skýrslunni. Ég vil láta þess getið að af minni hálfu, í ræðu minni á þinginu, vakti ég sérstaklega máls á ýmsum atriðum sem lúta að stöðu mála innan Kína, þar á meðal mannréttindamálum og hinu pólitíska skipulagi í landinu og lét í ljós þá von að áður en langt um liði yrði þar einhver þróun í átt til fjölflokka lýðræðis þó margir dragi það nú í efa. Ég fjallaði einnig lítils háttar um stöðu Tíbets.

Ég vil ekki lengja þessar umræður, herra forseti. Ég vil þó láta þess getið að fram undan er, um aðra helgi, aukaráðstefna á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins, um jafna þátttöku karla og kvenna á hinum pólitíska vettvangi. Sú ráðstefna verður í Nýju-Delhí á Indlandi og meðal ræðumanna þar verður fyrrverandi forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir. Var sérstaklega óskað eftir að hún kæmi og flytti eina af meginræðum ráðstefnunnar. Ég tel að það sé heiður og sómi fyrir hana og fyrir okkur, sem störfum í Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins, að til hennar skyldi hafa verið leitað og hún skyldi hafa þekkst þetta góða boð. Þar verður einnig sendinefnd frá þinginu, auk þess sem sá sem hér stendur verður væntanlega þar einnig vegna starfa sinna í stjórn sambandsins.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja þessar umræður, herra forseti. Ég vil þakka meðdeildarmönnum mínum í Íslandsdeildinni fyrir ágætt samstarf og samfélag í þessu starfi. Ég vil jafnframt þakka Þorsteini Magnússyni, ritara nefndarinnar, fyrir alveg sérstaklega vel unnin störf nú sem endranær. En um leið og ég læt þessu lokið vildi ég nefna hverjir hafa verið fulltrúar okkar í þessu starfi á síðasta ári en það eru, auk formanns, hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og síðan Bryndís Hlöðversdóttir, Magnús Stefánsson, Einar K. Guðfinnsson og Jóhanna Sigurðardóttir. Auk þess sem þingmennirnir Gísli Einarsson og Kristín Halldórsdóttir hafa haft hönd í bagga með þessu starfi fyrir hönd þingflokka sinna.