Norður-Atlantshafsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 16:52:14 (3222)

1997-02-06 16:52:14# 121. lþ. 64.5 fundur 288. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1996# skýrsl, GHH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[16:52]

Geir H. Haarde (andsvar):

Herra forseti. Mér hefur aldrei dottið annað í hug en að virða skoðanir hv. þm. sem hann á að sjálfsögðu fullan rétt á, jafnvel þótt þær kunni að vera rangar og hann kunni að hafa haft rangt fyrir sér alla tíð að því er varðar Atlantshafsbandalagið. Auðvitað virði ég skoðanir hans og hann á fullan rétt á þeim. Ég er hins vegar ósammála því er varðar aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Ég tel að það sé mjög athyglisvert að fram skuli koma hér, þann 6. febr. 1997, að í þingflokki Alþb. eru enn þá menn sem eru andvígir aðild Íslands að bandalaginu þrátt fyrir viðleitni á aðalfundi miðstjórnar flokksins fyrir nokkru að breyta stefnu flokksins. En það er kannski ekki aðalmálið í þessari umræðu. Til umfjöllunar er skýrsla Íslandsdeildar Norður-Atlantshafsþingsins en ekki starfsemi bandalagsins í heild. Þó er auðvitað óhjákvæmilegt að ræða hér í einhverjum efnum heildarstefnu bandalagsins gagnvart stækkun. Ég hef margoft látið það koma fram sem mína afstöðu í þessu máli að því fyrr því betra að útvíkka bandalagið til austurs til að koma til móts við óskir þeirra þjóða sem þar búa, og sjálfar sjá fram á að öryggi þeirra verður best tryggt með stækkun bandalagsins.

Hins vegar get ég tekið undir lokaorð hv. ræðumanns að auðvitað er það markmið allra að tryggja öryggi og frið í álfunni þótt menn kunni að greina eitthvað á um leiðir til þess. En það hefur sýnt sig í gegnum söguna að ágreiningur í þeim efnum getur verið býsna alvarlegur þó að hann láti ekki mikið yfir sér.