Norður-Atlantshafsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 16:57:59 (3225)

1997-02-06 16:57:59# 121. lþ. 64.5 fundur 288. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1996# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[16:57]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að margt af því sem hæstv. utanrrh. nefndi og snýr að samstarfi Evrópuríkjanna í heild eins og Partnership for Peace, hvernig sem það er nú þýtt, félagsskapur í þágu friðar, og Norður-Atlantshafssamvinnuráðið og svo að sjálfsögðu ÖSE og starf að öryggismálum þar og innan Evrópuráðsins og víðar, sé allt af hinu góða og jákvætt í sjálfu sér, enda eru þar allir með. Grundvallarmunurinn á öllu þessu annars vegar og stækkun NATO hins vegar, eins og málin standa í dag, er að þar verða ekki allir með. Það er spennuvaldurinn, það er hættan í málinu.

Varðandi afstöðu Bandaríkjanna hef ég verið að vísa til almennrar umræðu, blaðaskrifa og umfjöllunar um þau mál, þar sem ýmsir áhrifamiklir menn eru farnir að vara við því miklu sterkar en áður var. Að vísu var Clinton með sömu formúluna í sinni stefnuræðu á dögunum. En það breytir ekki hinu að allir vita að Bandaríkjamenn vilja fara með mjög varkárri afstöðu í það mál. Það liggur líka fyrir, þó það sé ekki oft sagt, að það eru ekki síst Bandaríkin sem eru ekki tilbúin til að skrifa upp á það að Eystrasaltsríkin verði með í fyrstu umferð. Menn vita að Bandaríkin hafa t.d. verið að ræða þau mál sérstaklega við Svía vegna þess að þar gætu hagsmunir eða stefna Bandaríkjanna annars vegar og þeir stórveldisdraumar frænda okkar við Eystrasaltið farið saman og yrði þá meira skrifað upp á þeirra reikninga að reyna að sjá fyrir samvinnu og öryggissamvinnu við Eystrasaltsríkin. Þar af leiðandi er það alveg á sínum stað að vitna til þess að Bandaríkjamenn hafa talsvert aðra afstöðu í þessu efni en mörg Evrópuríkin.

Ég get ekki leynt því, herra forseti, að mér finnst hafa gætt verulegrar hræsni eða a.m.k. tvískinnungs í umfjöllun um þessi mál og menn hafa yfirleitt ekki verið fáanlegir til að ræða þau opinskátt og hreinskilnislega af einhverjum ástæðum. Þá vísa ég sérstaklega til þess að menn skýla sér á bak við gamlar klisjur af því tagi að Rússar eigi ekki að hafa neitunarvald o.s.frv. í stað þess að horfast í augu við aðstæðurnar eins og þær raunverulega eru þar, stórhættulegar.