Atvinnuleysistryggingar

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 15:45:21 (4106)

1997-03-03 15:45:21# 121. lþ. 82.2 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., SvanJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[15:45]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það hafa orðið miklar umræður um þau tvö mál sem nú á að fara að greiða atkvæði um, sem er annars vegar atvinnuleysistryggingar og hins vegar vinnumarkaðsaðgerðir, ekki síst um það með hvaða hætti þau bar hér inn í þingið og hvaða meðferð þau hafa fengið. Það er ljóst að þessi frv. eru bæði í hrópandi andstöðu að sumu leyti við það sem að öðru leyti er að gerast. Þar á ég við það að verið er að færa vinnumarkaðsaðgerðir frá sveitarstjórnum og til ríkisins og hins vegar það að frv. um atvinnuleysisbætur hefur tekið það miklum breytingum að það hlýtur að vera orðið eins konar bastarður og spurning til hvers var af stað farið þegar niðurstaðan er þessi. Við hljótum því að skilja alla ábyrgð á afgreiðslu þessara mála eftir hjá ríkisstjórninni og sitja hjá við afgreiðslu þessara frv.