Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 18:02:57 (4146)

1997-03-03 18:02:57# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[18:02]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég efa ekki að góður hugur er að baki þessa tillöguflutnings af hálfu flutningsmanna. Við vitum um ákveðinn vanda sem hefur verið uppi vegna þátttöku sjómanna í kvótakaupum. En það væri mjög varasamt að stíga það skref af minni hálfu, sem ég er hér að vara við, að ætla að leysa þann vanda með því að takmarka markaðsmöguleikana í sjávarútveginum og skerða þá möguleika sem markaðskerfið býður upp á vegna þess að uppboð á vöru er bara ein leið til að láta markaðinn vinna. Aðrir sjá að þeir geta náð meiri árangri með annars konar viðskiptum og hv. flutningsmenn hafa viðurkennt hér að samningar frystiskipanna, beinir samningar frystiskipa við kaupendur á þeirra afurðum eru hluti af markaðskerfi. Þess vegna get ég ekki skilið hvers vegna þeir segja að beinir samningar aðila hér innan lands séu ekki hluti af markaðskerfi. Það er mjög mikilvægt að menn hafi það í huga þegar um er að ræða að skip og vinnsla er á höndum sama aðila, þá er skylt að gera formlegan samning við sjómennina um fiskverðið þannig að þar fer markaðskerfið fram með venjulegum hætti og síðan er hægt að fá úrskurð þar um ef samkomulag næst ekki.

En aðalatriðið er þetta að við megum ekki þrengja þessa fjölbreyttu flóru sem markaðskerfið býður upp á, ekki í sjávarútveginum fremur en í öðrum atvinnugreinum og sérstök vandamál sem við stöndum frammi fyrir verðum við að leysa með öðrum hætti. En ég virði mjög góðan hug flutningsmanna til þess að taka á þeim málum því ég tel það mjög mikilvægt og þau eigi ekki að viðgangast.