Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 18:58:24 (4153)

1997-03-03 18:58:24# 121. lþ. 82.13 fundur 219. mál: #A stjórn fiskveiða# (kvótaleiga) frv., 263. mál: #A stjórn fiskveiða# (undirmálsfiskur) frv., 341. mál: #A Stjórn fiskveiða# (veiðiskylda) frv., Flm. EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[18:58]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um þetta. Ég vil fyrst og fremst og eingöngu þakka hæstv. sjútvrh. fyrir jákvæðar undirtektir við þetta frv. Ég er mjög sammála honum eins og nærri getur að það eru auðvitað mjög gild sjónarmið á bak við þetta frv. Nú er málum svo komið að það er búið að semja um veiðirétt og stjórnun veiða á fjarlægum miðum eins og Flæmska hattinum og Reykjaneshryggnum og þess vegna eru aðstæður allt aðrar en þær voru þegar menn voru á frumbýlingsárunum að reyna að búa sér til veiðirétt fyrir sjálfa sig og fyrir þjóðarbúið í heild. Þess vegna var ástæða til þess á sínum tíma að hafa innbyggðan hvata inn í kerfið sem gerði það að verkum að menn sæju sér hag í því að sækja á fjarlægar slóðir, því að auðvitað vita það allir að þegar menn eru að fara á fjarlægar slóðir, oft og tíðum við erfiðar aðstæður þar sem þeir þekkja takmarkað til, þá kostar það mikið fé og er auðvitað mjög áhættusamt og margar útgerðir hafa hreinlega farið flatt á því. Þó að sem betur fer hafi tekist í meginatriðum vel til varðandi Flæmska hattinn og Reykjaneshrygginn þá eru samt sem áður þekkt dæmi úr sögunni að menn hafa farið á fjarlæg mið og ekki haft erindi sem erfiði.

Þess vegna voru það á sínum tíma fullgild rök að hafa þetta kerfi þannig að það byggði inn einhvern hvata fyrir menn til þess að stunda þessar veiðar. Nú er auðvitað búið að breyta þessu landslagi öllu með því að búið er að gera samninga og skapa ramma utan um veiðifyrirkomulagið þannig að á sama hátt og við teljum eðlilegt að reisa einhverjar skorður við framsalinu innan landhelginnar, þá eru auðvitað sömu rök fyrir því að gera það á sambærilegan máta á þeim hafsvæðum þar sem búið er að ná samkomulagi um veiðarnar og skipuleggja veiðistjórnina með nýjum hætti.