Umræða um strand farmskipsins Víkartinds

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 15:48:47 (4368)

1997-03-12 15:48:47# 121. lþ. 89.92 fundur 242#B umræða um strand farmskipsins Víkartinds# (aths. um störf þingsins), PHB
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[15:48]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég hef miklar efasemdir um þá umræðu utan dagskrár sem átti sér stað í gær. Athugasemdum mínum má skipta í þrennt.

Í fyrsta lagi var á hinu háa Alþingi rætt um voveiflega atburði sem áttu sér stað aðeins fyrir örfáum dögum. Vil ég votta þeim sem eiga um sárt að binda vegna þessara og annarra slysa til lands og sjávar dýpstu samúð mína. Mér finnst ekki við hæfi að hið háa Alþingi sem löggjafarsamkunda sé að ræða slíka atburði. Nær væri að fulltrúi framkvæmdarvaldsins, hæstv. forsrh., flytti Alþingi slík tíðindi.

Í öðru lagi komu fram þungar ásakanir á hendur einstaklingi við þessa umræðu sem ekki átti kost á að verja hendur sínar. Hv. þingmenn verða að gæta vel að þeim mannréttindum að menn, hvort sem þeir eru erlendir eða innlendir, eru ekki taldir sekir nema sök þeirra sannist og þeir verði dæmdir af dómstólum og að þeir eigi þess kost að verja hendur sínar. Ég var ekki á staðnum og þekki að öðru leyti ekki málavöxtu. Ég hef heldur ekki lent í þeirri stöðu að bera ábyrgð á mannslífum og miklum verðmætum og þurfa að taka skjótar ákvarðanir við mjög þröngar aðstæður. Því get ég ekki og vil ekki taka afstöðu í þessu máli.

Í þriðja lagi er þetta mál fyrir dómstólum og ég tel ekki rétt að löggjafarvaldið sé að ræða mál sem er í meðferð hjá dómsvaldinu.

Herra forseti. Þessi umræða olli mér miklum vonbrigðum og ég verð að lýsa yfir þessum efasemdum. Vona ég að hv. þingmenn hafi skilning á þessum sjónarmiðum mínum.